Sólin Sólin Rís 05:08 • sest 21:44 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:47 • Síðdegis: 21:08 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:49 • Síðdegis: 14:50 í Reykjavík

Hvaða orð önnur en „norðurljós“ hafa verið notuð um þetta fyrirbæri á íslensku?

Aðalheiður Guðmundsdóttir

Orðið norðurljós kemur fyrst fyrir í hinni norsku Konungs skuggsjá sem var skrifuð á bilinu 1250–60, en að auki er þar talað um „svipandi loga“, „eld“ og „geisla“:

En sá hlutur er þú hefir oft eftir spurt, hvað vera mun það er Grænlendingar kalla norðurljós ... En þessi verður natúra og skipan á norðurljósi, að það er æ þess ljósara er sjölf er nótt myrkvari, og sýnist það jafnan um nætur, en aldrigin um daga, og oftast í niðmyrkrum, en sjaldan í tunglskini. En það er svo tilsýnum sem maður sé mikinn loga langa leið af miklum eldi. Þar skýtur af í loft upp að sjá hvössum oddum misjöfnum að hæð og mjög ókyrrum og verða ýmisir hærri, og bragðar þetta ljós allt tilsýndum svo sem svipandi logi. En meðan þessir geislar eru hæstir og bjartastir, þá stendur þar svo mikið ljós af, að þeir menn er úti verða staddir, þá megu þeir vel fara leiðar sinnar, svo og að veiðiskap, ef þeir þurfu. ... Og það kann að verða stundum að mönnum sýnist svo sem þar skjóti af stórum gneistum svo sem af sindranda járni ...[1]

Í Hemings þætti Áslákssonar, sem talinn er vera frá síðari hluta 13. aldar, er talað um „eld“ yfir hafi sem var „blár sem logi“.[2] Aðrar miðaldaheimildir eru óljósari, þótt vera megi að sögur sem segja frá vafurlogum, haugaeldum og annars konar himinljósum feli í sér hugmyndir sem tengjast norðurljósum.

Orðið norðurljós kemur fyrst fyrir í Konungs skuggsjá sem var skrifuð á bilinu 1250-60, þar er einnig talað um „svipandi loga“, „eld“ og „geisla“. Myndin er ein af mörgum sem danski málarinn Harald Moltke (1871-1960) málaði af norðurljósum snemma á 20. öld.

Í Íslandslýsingu Odds Einarssonar (lat. Qualiscunque descriptio Islandiae) frá 1588–89 segir að Íslendingar tali almennt séð um „norðurljós“ á þessum tíma, þótt Oddur sjálfur kjósi að tala um himinloga (lat. „cælestes flammas“).[3] Í riti sínu um undur Íslands (lat. De mirabilibus Islandiæ) talar sonur hans Gísli Oddsson einnig um norðurljós, og að auki „næturljóma“ (lat. „nocturnus insignis“), „himinljós“ (lat. „lumen cœleste“) og „loga“ (lat. „flammarum“);[4] eftir þetta kemur orðið „norðurljós“ samfellt fyrir í heimildum allar götur fram til okkar daga.

Á 18. öld fáum við ennfremur hugtak á borð við „himinljós“, og Magnús Stephensen dómstjóri sagði að sumir álitu norðurljósin vera „raf-kraptadann elld“.[5]

Í skáldskap frá 19. og 20. öld koma svo fyrir ýmis skáldleg hugtök á borð við „rafurloga“, „rafurljós“, „gullhvelfdan boga“, „segulljós“, „öldur ljóshafs“, „hringspil með glitrandi sprotum og baugum“, „himintjöld“, „himinboga“, „björt blys“ og „leifturhraðar litasveiflur“. Erfitt er að segja til um það hvort tungutak skáldanna endurspegli í einhverjum tilvikum algeng hugtök, en þó er víst að hugtakið „segulljós“ er notað um fyrirbærið enn þann dag í dag.

Í þjóðsögum er getið um norðurljós, auk þess sem til eru sögur af yfirnáttúrlegum eldum/logum af ólíkum toga, sem óvíst er hvort feli í sér skírskotanir til norðurljósa eða ekki. Erlendir ferðamenn sem gátu um norðurljós yfir Íslandi í ferðabókum sínum notuðu bæði erlend orð sem samsvara íslenska orðinu „norðurljós“, eða þá latneska heitið aurora borealis sem fræðimenn hafa notað í ritheimildum allt frá upphafi 17. aldar.[6] Aurora merkir á latínu dögun, á meðan borealis vísar til norðursins. Í rómverskri goðafræði var Aurora gyðja dögunarinnar.

Tilvísanir:
  1. ^ Ólafur Halldórsson 1978: 127–128.
  2. ^ Hauksbók 1892–96: 335.
  3. ^ Oddur Einarsson 1971: 63; Wahl 1928: 22. Íslenski textinn er þýðing á latneskum frumtexta Odds, sem notar þar engu að síður íslenska orðið „Nordurljos“.
  4. ^ Gísli Oddsson 1942: 59–60; Halldór Hermannsson 1916: 34.
  5. ^ Magnús Stephensen 1783: 163–64. Árið 1896 kom Norðmaðurinn Kristian Birkland með þá kenningu að norðurljósin gætu verið mynduð af rafagnastraumum frá sól (Þorsteinn Sæmundsson 2012b: 2).
  6. ^ Talið er að hugtakið hafi fyrst verið notað á prenti af Ítalanum Galíleó Galílei og stuttu síðar af Frakkanum Pierre Gasendi (Brekke og Egeland 1983: 37).

Heimildir:
  • Brekke, Asgeir og Alv Egeland. 1983. The Northern Lights: From Mythology to Space Research. Berlin, Heidelberg, New York, Tokyo: Springer-Verlag.
  • Gísli Oddsson. 1942. Íslenzk annálabrot [Annalium in Islandia farrago] og Undur Íslands [De mirabilibus Islandiæ]. Þýð. Jónas Rafnar. Akureyri: Þorsteinn M. Jónsson.
  • Hauksbók udgiven efter de Arnamagnæanske håndskrifter no. 371, 544 og 675, 4°. 1892–94. København: Thieles bogtrykkeri.
  • Halldór Hermannsson. 1916. Icelandic books of the sixteenth century (1534–1600). Islandica IX. Ithaca, N.Y.: Cornell Unicersity Library.
  • Magnús Stephensen. 1783. Um Meteora, edr Vedráttufar, Loptsiónir, og adra náttúrliga tilburdi á sió og landi. Rit þess íslenzka Lærdóms-lista felags III. Kaupmannahöfn: Jóhann Rúdólph Thiele. Bls. 122–92.
  • Oddur Einarsson. 1971. Íslandslýsing: Qualiscunque descriptio Islandiae. Útg. Jakob Benediktsson. Þýð. Sveinn Pálsson. Reykjavík: Menningarsjóður.
  • Ólafur Halldórsson. 1978. Grænland í miðaldaritum. Reykjavík: Sögufélag.

Mynd:

Höfundur

Aðalheiður Guðmundsdóttir

prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda

Útgáfudagur

8.5.2018

Spyrjandi

Linda Laufey Bragadóttir

Tilvísun

Aðalheiður Guðmundsdóttir. „Hvaða orð önnur en „norðurljós“ hafa verið notuð um þetta fyrirbæri á íslensku?“ Vísindavefurinn, 8. maí 2018. Sótt 28. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=75106.

Aðalheiður Guðmundsdóttir. (2018, 8. maí). Hvaða orð önnur en „norðurljós“ hafa verið notuð um þetta fyrirbæri á íslensku? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=75106

Aðalheiður Guðmundsdóttir. „Hvaða orð önnur en „norðurljós“ hafa verið notuð um þetta fyrirbæri á íslensku?“ Vísindavefurinn. 8. maí. 2018. Vefsíða. 28. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=75106>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaða orð önnur en „norðurljós“ hafa verið notuð um þetta fyrirbæri á íslensku?
Orðið norðurljós kemur fyrst fyrir í hinni norsku Konungs skuggsjá sem var skrifuð á bilinu 1250–60, en að auki er þar talað um „svipandi loga“, „eld“ og „geisla“:

En sá hlutur er þú hefir oft eftir spurt, hvað vera mun það er Grænlendingar kalla norðurljós ... En þessi verður natúra og skipan á norðurljósi, að það er æ þess ljósara er sjölf er nótt myrkvari, og sýnist það jafnan um nætur, en aldrigin um daga, og oftast í niðmyrkrum, en sjaldan í tunglskini. En það er svo tilsýnum sem maður sé mikinn loga langa leið af miklum eldi. Þar skýtur af í loft upp að sjá hvössum oddum misjöfnum að hæð og mjög ókyrrum og verða ýmisir hærri, og bragðar þetta ljós allt tilsýndum svo sem svipandi logi. En meðan þessir geislar eru hæstir og bjartastir, þá stendur þar svo mikið ljós af, að þeir menn er úti verða staddir, þá megu þeir vel fara leiðar sinnar, svo og að veiðiskap, ef þeir þurfu. ... Og það kann að verða stundum að mönnum sýnist svo sem þar skjóti af stórum gneistum svo sem af sindranda járni ...[1]

Í Hemings þætti Áslákssonar, sem talinn er vera frá síðari hluta 13. aldar, er talað um „eld“ yfir hafi sem var „blár sem logi“.[2] Aðrar miðaldaheimildir eru óljósari, þótt vera megi að sögur sem segja frá vafurlogum, haugaeldum og annars konar himinljósum feli í sér hugmyndir sem tengjast norðurljósum.

Orðið norðurljós kemur fyrst fyrir í Konungs skuggsjá sem var skrifuð á bilinu 1250-60, þar er einnig talað um „svipandi loga“, „eld“ og „geisla“. Myndin er ein af mörgum sem danski málarinn Harald Moltke (1871-1960) málaði af norðurljósum snemma á 20. öld.

Í Íslandslýsingu Odds Einarssonar (lat. Qualiscunque descriptio Islandiae) frá 1588–89 segir að Íslendingar tali almennt séð um „norðurljós“ á þessum tíma, þótt Oddur sjálfur kjósi að tala um himinloga (lat. „cælestes flammas“).[3] Í riti sínu um undur Íslands (lat. De mirabilibus Islandiæ) talar sonur hans Gísli Oddsson einnig um norðurljós, og að auki „næturljóma“ (lat. „nocturnus insignis“), „himinljós“ (lat. „lumen cœleste“) og „loga“ (lat. „flammarum“);[4] eftir þetta kemur orðið „norðurljós“ samfellt fyrir í heimildum allar götur fram til okkar daga.

Á 18. öld fáum við ennfremur hugtak á borð við „himinljós“, og Magnús Stephensen dómstjóri sagði að sumir álitu norðurljósin vera „raf-kraptadann elld“.[5]

Í skáldskap frá 19. og 20. öld koma svo fyrir ýmis skáldleg hugtök á borð við „rafurloga“, „rafurljós“, „gullhvelfdan boga“, „segulljós“, „öldur ljóshafs“, „hringspil með glitrandi sprotum og baugum“, „himintjöld“, „himinboga“, „björt blys“ og „leifturhraðar litasveiflur“. Erfitt er að segja til um það hvort tungutak skáldanna endurspegli í einhverjum tilvikum algeng hugtök, en þó er víst að hugtakið „segulljós“ er notað um fyrirbærið enn þann dag í dag.

Í þjóðsögum er getið um norðurljós, auk þess sem til eru sögur af yfirnáttúrlegum eldum/logum af ólíkum toga, sem óvíst er hvort feli í sér skírskotanir til norðurljósa eða ekki. Erlendir ferðamenn sem gátu um norðurljós yfir Íslandi í ferðabókum sínum notuðu bæði erlend orð sem samsvara íslenska orðinu „norðurljós“, eða þá latneska heitið aurora borealis sem fræðimenn hafa notað í ritheimildum allt frá upphafi 17. aldar.[6] Aurora merkir á latínu dögun, á meðan borealis vísar til norðursins. Í rómverskri goðafræði var Aurora gyðja dögunarinnar.

Tilvísanir:
  1. ^ Ólafur Halldórsson 1978: 127–128.
  2. ^ Hauksbók 1892–96: 335.
  3. ^ Oddur Einarsson 1971: 63; Wahl 1928: 22. Íslenski textinn er þýðing á latneskum frumtexta Odds, sem notar þar engu að síður íslenska orðið „Nordurljos“.
  4. ^ Gísli Oddsson 1942: 59–60; Halldór Hermannsson 1916: 34.
  5. ^ Magnús Stephensen 1783: 163–64. Árið 1896 kom Norðmaðurinn Kristian Birkland með þá kenningu að norðurljósin gætu verið mynduð af rafagnastraumum frá sól (Þorsteinn Sæmundsson 2012b: 2).
  6. ^ Talið er að hugtakið hafi fyrst verið notað á prenti af Ítalanum Galíleó Galílei og stuttu síðar af Frakkanum Pierre Gasendi (Brekke og Egeland 1983: 37).

Heimildir:
  • Brekke, Asgeir og Alv Egeland. 1983. The Northern Lights: From Mythology to Space Research. Berlin, Heidelberg, New York, Tokyo: Springer-Verlag.
  • Gísli Oddsson. 1942. Íslenzk annálabrot [Annalium in Islandia farrago] og Undur Íslands [De mirabilibus Islandiæ]. Þýð. Jónas Rafnar. Akureyri: Þorsteinn M. Jónsson.
  • Hauksbók udgiven efter de Arnamagnæanske håndskrifter no. 371, 544 og 675, 4°. 1892–94. København: Thieles bogtrykkeri.
  • Halldór Hermannsson. 1916. Icelandic books of the sixteenth century (1534–1600). Islandica IX. Ithaca, N.Y.: Cornell Unicersity Library.
  • Magnús Stephensen. 1783. Um Meteora, edr Vedráttufar, Loptsiónir, og adra náttúrliga tilburdi á sió og landi. Rit þess íslenzka Lærdóms-lista felags III. Kaupmannahöfn: Jóhann Rúdólph Thiele. Bls. 122–92.
  • Oddur Einarsson. 1971. Íslandslýsing: Qualiscunque descriptio Islandiae. Útg. Jakob Benediktsson. Þýð. Sveinn Pálsson. Reykjavík: Menningarsjóður.
  • Ólafur Halldórsson. 1978. Grænland í miðaldaritum. Reykjavík: Sögufélag.

Mynd:

...