Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík
Aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands

Gerðist eitthvað markvert í listalífinu á Íslandi árið 1918?

Ólafur Kvaran

Á fundi í Listvinafélagi Íslands þann 13. desember árið 1918 flutti Magnús Jónsson dósent tillögu um að félagið hefði frumkvæði að því að efna til yfirlitssýningar á íslenskri myndlist og að kosin yrði þriggja manna nefnd til að undirbúa málið.[1] Tillaga Magnúsar, sem var samþykkt á fundinum, ber vott um að félagsmenn hafi verið meðvitaðir um þá miklu grósku og fjölbreytni sem vaxið hafði fram í myndlistinni.

Þegar Ísland fékk heimastjórn árið 1904 höfðu nýlega gerst mikil tíðindi í íslenskri myndlist. Þórarinn B. Þorláksson efndi til fyrstu einkasýningar íslensk málara í Reykjavík árið 1900, þar sem landslagið var helsta viðfangsefnið, Einar Jónsson myndhöggvari sýndi höggmyndina Útlaginn á Vorsýningunni í Kaupmannahöfn árið 1901 og Ásgrímur Jónsson hélt sína fyrstu einkasýningu í Reykjavík árið 1903. Brautryðjendurnir í upphafi aldarinnar sýndu verk sín reglulega í Reykjavík og tóku jafnframt virkan þátt í dönsku listalífi með þátttöku í opinberum listsýningum. Þórarinn og Ásgrímur tóku þátt í sýningum á Charlottenborg og Einar sýndi árlega á samsýningum Den Frie til ársins 1909. Minnisvarðar Einars sem reistir voru í Reykjavík höfðu sterka þjóðernislega merkingu og voru mikilvægar táknmyndir um áfanga í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

Listvinafélag Íslands samþykkti í árslok 1918 að halda yfirlitssýningu á íslenskri myndlist og auglýsing þess efnis birtist snemma árs 1919. Ákvörðun Listvinafélagsins árið 1918 markar ákveðin tímamót í íslensku listalífi. Þá var í fyrsta sinn gerð tilraun til að gefa heildstætt yfirlit yfir íslenska myndlist sem hafði vaxið fram á 20. öldinni.

Höggmynd Einars af Jónasi Hallgrímssyni var afhjúpuð á túninu á horni Lækjargötu og Amtmannsstígs á hundrað ára afmæli skáldsins árið 1907 og höggmyndin af Jóni Sigurðasyni var afhjúpuð á Stjórnarráðsblettinum sunnanverðum haustið 1911. Árið 1915 var höggmyndin af Kristjáni IX. reist á Stjórnarráðsblettinum norðanverðum og sýnir þann mikilvæga áfanga í þjóðfrelsisbaráttu Íslendinga þegar konungurinn færði Íslendingum stjórnarskrá árið 1874.

Árið 1916, sama ár og hornsteinninn var lagður að byggingu Safns Einars á Skólavörðuholti, var Listvinafélag Íslands stofnað og voru stofnfélagar 27 talsins. Tilgangur félagsins var meðal annars að „efla þekkingu og áhuga Íslendinga á fögrum listum í þrengri merkingu þ.e. dráttlist, prentlist, höggmyndalist og húsagerðalist.“[2] Félagið bauð upp á fyrirlestra um listasögu meðal annars fjallaði Alexander Jóhannesson um expressjónismann í samtímamyndlist og Guðmundur Finnbogason hélt fyrirlestur um myndskynjun. Þannig voru fyrirlestrar Listvinafélagsins upphafið að markvissri listfræðslu hér á land.[3]

Samþykkt Listvinafélagsins árið 1918 um að efna til yfirlitssýningar á íslenskri myndlist verður að skoða í samhengi við hina miklu og vaxandi grósku í myndlist á fyrsta og öðrum áratug aldarinnar. Í ársbyrjun 1919 birtist í Morgunblaðinu auglýsing Listvinafélagsins „Ávarp til íslenskra listamanna“ þar sem sagði að á sýningunni yrði reynt „að veita yfirlit yfir þróun hinnar ungu íslensku listar“ og væri þess óskað að íslenskir listamenn sendu „sín bestu verk“ á sýninguna og að sérstök dómnefnd myndi velja verkin.[4]

Jóhannes Kjarval sýndi meðal annars Skógarhöllina á sýningu Listvinafélagsins sem opnuð var 1. ágúst 1919.

Á sýningu Listvinafélagsins sem var síðan opnuð 1. ágúst 1919 í nokkrum stofum í Barnaskóla Reykjavíkur voru sýnd 90 verk eftir 15 listamenn; teikningar, málverk og höggmyndir. Guðmundur Finnbogason flutti ræðu við opnun sýningarinnar og sagði markmiðið vera að „fá hér á einn stað saman sem best sýnishorn þess, á hvaða stigi íslensk myndlist og húsagerðalist nú stendur til lærdóms og vakningar, jafnt fyrir listamennina sjálfa sem þá aðra er sýninguna sækja.“[5] Auk brautryðjandanna í byrjun aldarinnar, Ásgríms, Þórarins og Einars, sýndu einnig listamenn sem komu fram á öðrum áratugnum eins og Júlíana Sveinsdóttir, Kristín Jónsdóttir, Jón Þorleifsson, Ólafur Túbals, Guðmundur Thorsteinsson og Nína Sæmundsson. Jóhannes Kjarval, sem átti ásamt Ásgrími flest verk á sýningunni, lauk námi sínu við Listaakademíuna í Kaupmannahöfn árið áður og sýndi meðal annars Skógarhöllina og málverk frá Snæfellsnesi. Sýningin fékk góðar viðtökur, alls komu 2300 gestir og í frétt Morgunblaðsins 6. september er frá því sagt, að „menn komi í hópum á sýninguna“ og talin eru upp 11 verk sem þegar hafa selst.[6]

Ákvörðun Listvinafélagsins árið 1918 að efna til sýningar á vegum félagsins markar ákveðin tímamót í íslensku listalífi. Þá var í fyrsta sinn gerð tilraun til að gefa heildstætt yfirlit yfir íslenska myndlist sem hafði vaxið fram á 20. öldinni. Almenn þátttaka listamanna í sýningunni bendir til þess að þeir hafi talið það mikilvægt að kynna list sína með þessum hætti og sýningin styrkti jafnframt stöðu myndlistarinnar í íslenskri menningu. Öll umgjörð og skipulag sýningarinnar bar þess vott að myndlistin hefði mikilvægt hlutverk í samfélaginu og Guðmundur Finnbogason lýsti sambandinu milli listarinnar og fólksins svo í opnunarræðu sinni að það fæli í sér „nýtt og æðra samlíf lands og þjóðar.“[7]

Tilvísanir:
  1. ^ Guðmundur Finnbogason: „Ræða við setningu fyrstu almennrar íslensku listasýningarinnar í Reykjavík, 31. ágúst 1919.“ Morgunblaðið 2.9. 1919.
  2. ^ Sama heimild.
  3. ^ Júlíana Gottskálksdóttir:„Að efla þekkingu og áhuga Íslendinga á fögrum listum…“: um starf Listvinafélags Íslands“, Árbók Listasafns Íslands 2/1989, bls. 17-18.
  4. ^ Morgunblaðið 23.2. 1919.
  5. ^ Morgunblaðið 2.9. 1919.
  6. ^ Morgunblaðið 6.9. 1919. Sjá einnig, Júlíana Gottskálksdóttir:„Að efla þekkingu og áhuga Íslendinga á fögrum listum…“: um starf Listvinafélags Íslands“, Árbók Listasafns Íslands 2/1989, bls. 22.
  7. ^ Morgunblaðið 2.9.1919. Sjá einnig Ólafur Rastrick 2013. Háborgin: Menning, fagurfræði og pólitík í upphafi 20. aldar, s. 162-165.

Myndir:

Upprunaleg spurning Júlíu var Hvað getur þú sagt mér um árið 1918?. Henni er hér svarað að hluta.

Höfundur

Ólafur Kvaran

prófessor í listasögu við HÍ

Útgáfudagur

24.1.2018

Spyrjandi

Júlía Ásgeirsdóttir

Tilvísun

Ólafur Kvaran. „Gerðist eitthvað markvert í listalífinu á Íslandi árið 1918?“ Vísindavefurinn, 24. janúar 2018. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=75155.

Ólafur Kvaran. (2018, 24. janúar). Gerðist eitthvað markvert í listalífinu á Íslandi árið 1918? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=75155

Ólafur Kvaran. „Gerðist eitthvað markvert í listalífinu á Íslandi árið 1918?“ Vísindavefurinn. 24. jan. 2018. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=75155>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Gerðist eitthvað markvert í listalífinu á Íslandi árið 1918?
Á fundi í Listvinafélagi Íslands þann 13. desember árið 1918 flutti Magnús Jónsson dósent tillögu um að félagið hefði frumkvæði að því að efna til yfirlitssýningar á íslenskri myndlist og að kosin yrði þriggja manna nefnd til að undirbúa málið.[1] Tillaga Magnúsar, sem var samþykkt á fundinum, ber vott um að félagsmenn hafi verið meðvitaðir um þá miklu grósku og fjölbreytni sem vaxið hafði fram í myndlistinni.

Þegar Ísland fékk heimastjórn árið 1904 höfðu nýlega gerst mikil tíðindi í íslenskri myndlist. Þórarinn B. Þorláksson efndi til fyrstu einkasýningar íslensk málara í Reykjavík árið 1900, þar sem landslagið var helsta viðfangsefnið, Einar Jónsson myndhöggvari sýndi höggmyndina Útlaginn á Vorsýningunni í Kaupmannahöfn árið 1901 og Ásgrímur Jónsson hélt sína fyrstu einkasýningu í Reykjavík árið 1903. Brautryðjendurnir í upphafi aldarinnar sýndu verk sín reglulega í Reykjavík og tóku jafnframt virkan þátt í dönsku listalífi með þátttöku í opinberum listsýningum. Þórarinn og Ásgrímur tóku þátt í sýningum á Charlottenborg og Einar sýndi árlega á samsýningum Den Frie til ársins 1909. Minnisvarðar Einars sem reistir voru í Reykjavík höfðu sterka þjóðernislega merkingu og voru mikilvægar táknmyndir um áfanga í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

Listvinafélag Íslands samþykkti í árslok 1918 að halda yfirlitssýningu á íslenskri myndlist og auglýsing þess efnis birtist snemma árs 1919. Ákvörðun Listvinafélagsins árið 1918 markar ákveðin tímamót í íslensku listalífi. Þá var í fyrsta sinn gerð tilraun til að gefa heildstætt yfirlit yfir íslenska myndlist sem hafði vaxið fram á 20. öldinni.

Höggmynd Einars af Jónasi Hallgrímssyni var afhjúpuð á túninu á horni Lækjargötu og Amtmannsstígs á hundrað ára afmæli skáldsins árið 1907 og höggmyndin af Jóni Sigurðasyni var afhjúpuð á Stjórnarráðsblettinum sunnanverðum haustið 1911. Árið 1915 var höggmyndin af Kristjáni IX. reist á Stjórnarráðsblettinum norðanverðum og sýnir þann mikilvæga áfanga í þjóðfrelsisbaráttu Íslendinga þegar konungurinn færði Íslendingum stjórnarskrá árið 1874.

Árið 1916, sama ár og hornsteinninn var lagður að byggingu Safns Einars á Skólavörðuholti, var Listvinafélag Íslands stofnað og voru stofnfélagar 27 talsins. Tilgangur félagsins var meðal annars að „efla þekkingu og áhuga Íslendinga á fögrum listum í þrengri merkingu þ.e. dráttlist, prentlist, höggmyndalist og húsagerðalist.“[2] Félagið bauð upp á fyrirlestra um listasögu meðal annars fjallaði Alexander Jóhannesson um expressjónismann í samtímamyndlist og Guðmundur Finnbogason hélt fyrirlestur um myndskynjun. Þannig voru fyrirlestrar Listvinafélagsins upphafið að markvissri listfræðslu hér á land.[3]

Samþykkt Listvinafélagsins árið 1918 um að efna til yfirlitssýningar á íslenskri myndlist verður að skoða í samhengi við hina miklu og vaxandi grósku í myndlist á fyrsta og öðrum áratug aldarinnar. Í ársbyrjun 1919 birtist í Morgunblaðinu auglýsing Listvinafélagsins „Ávarp til íslenskra listamanna“ þar sem sagði að á sýningunni yrði reynt „að veita yfirlit yfir þróun hinnar ungu íslensku listar“ og væri þess óskað að íslenskir listamenn sendu „sín bestu verk“ á sýninguna og að sérstök dómnefnd myndi velja verkin.[4]

Jóhannes Kjarval sýndi meðal annars Skógarhöllina á sýningu Listvinafélagsins sem opnuð var 1. ágúst 1919.

Á sýningu Listvinafélagsins sem var síðan opnuð 1. ágúst 1919 í nokkrum stofum í Barnaskóla Reykjavíkur voru sýnd 90 verk eftir 15 listamenn; teikningar, málverk og höggmyndir. Guðmundur Finnbogason flutti ræðu við opnun sýningarinnar og sagði markmiðið vera að „fá hér á einn stað saman sem best sýnishorn þess, á hvaða stigi íslensk myndlist og húsagerðalist nú stendur til lærdóms og vakningar, jafnt fyrir listamennina sjálfa sem þá aðra er sýninguna sækja.“[5] Auk brautryðjandanna í byrjun aldarinnar, Ásgríms, Þórarins og Einars, sýndu einnig listamenn sem komu fram á öðrum áratugnum eins og Júlíana Sveinsdóttir, Kristín Jónsdóttir, Jón Þorleifsson, Ólafur Túbals, Guðmundur Thorsteinsson og Nína Sæmundsson. Jóhannes Kjarval, sem átti ásamt Ásgrími flest verk á sýningunni, lauk námi sínu við Listaakademíuna í Kaupmannahöfn árið áður og sýndi meðal annars Skógarhöllina og málverk frá Snæfellsnesi. Sýningin fékk góðar viðtökur, alls komu 2300 gestir og í frétt Morgunblaðsins 6. september er frá því sagt, að „menn komi í hópum á sýninguna“ og talin eru upp 11 verk sem þegar hafa selst.[6]

Ákvörðun Listvinafélagsins árið 1918 að efna til sýningar á vegum félagsins markar ákveðin tímamót í íslensku listalífi. Þá var í fyrsta sinn gerð tilraun til að gefa heildstætt yfirlit yfir íslenska myndlist sem hafði vaxið fram á 20. öldinni. Almenn þátttaka listamanna í sýningunni bendir til þess að þeir hafi talið það mikilvægt að kynna list sína með þessum hætti og sýningin styrkti jafnframt stöðu myndlistarinnar í íslenskri menningu. Öll umgjörð og skipulag sýningarinnar bar þess vott að myndlistin hefði mikilvægt hlutverk í samfélaginu og Guðmundur Finnbogason lýsti sambandinu milli listarinnar og fólksins svo í opnunarræðu sinni að það fæli í sér „nýtt og æðra samlíf lands og þjóðar.“[7]

Tilvísanir:
  1. ^ Guðmundur Finnbogason: „Ræða við setningu fyrstu almennrar íslensku listasýningarinnar í Reykjavík, 31. ágúst 1919.“ Morgunblaðið 2.9. 1919.
  2. ^ Sama heimild.
  3. ^ Júlíana Gottskálksdóttir:„Að efla þekkingu og áhuga Íslendinga á fögrum listum…“: um starf Listvinafélags Íslands“, Árbók Listasafns Íslands 2/1989, bls. 17-18.
  4. ^ Morgunblaðið 23.2. 1919.
  5. ^ Morgunblaðið 2.9. 1919.
  6. ^ Morgunblaðið 6.9. 1919. Sjá einnig, Júlíana Gottskálksdóttir:„Að efla þekkingu og áhuga Íslendinga á fögrum listum…“: um starf Listvinafélags Íslands“, Árbók Listasafns Íslands 2/1989, bls. 22.
  7. ^ Morgunblaðið 2.9.1919. Sjá einnig Ólafur Rastrick 2013. Háborgin: Menning, fagurfræði og pólitík í upphafi 20. aldar, s. 162-165.

Myndir:

Upprunaleg spurning Júlíu var Hvað getur þú sagt mér um árið 1918?. Henni er hér svarað að hluta.

...