Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Freistandi væri að svara einfaldlega að fremur lítið hafi gerst í íslenskum bókmenntum árið 1918. Íslendingar höfðu um ýmislegt annað að hugsa þetta ár sem bar í skauti sér margskonar hörmungar. Þetta ár lauk fyrri heimstyrjöldinni sem hafði haft í för með sér kreppt kjör almennings svo staðan var ekki beysin þegar 1918 gekk í garð. Í upphafi ársins skullu á gríðarlegar frosthörkur með miklu fannfergi og hafís sem lokað fyrir siglingaleiðir að flestum landshlutum („frostaveturinn mikli“). Skæður inflúensufaraldur brast á í október, spánska veikin, sem geisaði með hrikalegum afleiðingum og dauða tæplega 500 manna. Í sama mánuði hófst eldgos í Kötlu, eitt það stærsta síðan land byggðist með miklu gjóskufalli og gríðarlegu jökulhlaupi. Gosið varð engum manni að fjörtjóni en hafði eigi að síður mikil áhrif á land og þjóð. Það var ekki að ástæðulausu að 1918 var kallað „versta ár þessarar aldar“[1] enda var fullveldinu fagnað hófsamlega þann 1. desember, í skugga undangenginna hörmunga.
Torfhildur Hólm var fyrsti atvinnurithöfundurinn á Íslandi og fyrst kvenna til að fást við skáldsagnagerð. Hún lést úr spönsku veikinni 14. nóvember 1918.
Spánska veikin hjó í raðir íslenskra rithöfunda en úr henni létust til að mynda Torfhildur Hólm (2. febrúar 1845 – 14. nóvember 1918) og Jón Trausti (Guðmundur Magnússon, 12. febrúar 1873 – 18. nóvember 1918). Torfhildur var fyrsti atvinnurithöfundurinn á Íslandi og fyrst kvenna til að fást við skáldsagnagerð en Jón Trausti var án efa ástsælasti rithöfundur landsins á fyrstu árum tuttugustu aldarinnar en síðustu árin voru vinsældir hans þó farnar að dala. „Hann virðist hafa dagað uppi í umbreytingarflaumi tímans“, skrifar Matthías Viðar Sæmundsson.[2]
Einnig mætti snúa aðeins upp á spurninguna og spyrja: Hvernig birtist árið 1918 í íslenskum bókmenntum? Þetta ár er tími tveggja merkra íslenskra skáldsagna sem komu út með áratuga millibili: Sælir eru einfaldir eftir Gunnar Gunnarsson sem kom fyrst út á dönsku 1920 (á íslensku 1955) og Mánasteinn eftir Sjón frá árinu 2013. Í báðum þessum skáldsögum er tekist á við siðferðilegar og samfélagslegar spurningar á válegum tímum; farsóttin og eldgosið mynda öflugt baksvið mannlífs á umbyltingartímum.
Vissulega voru fyrstu tveir áratugir tuttugustu aldarinnar umbrotatímar í bókmenntunum ekki síður en þjóðlífinu og Kristinn E. Andrésson miðar upphaf íslenskra nútímabókmennta við fullveldisárið.[3] Kristinn telur þessi kaflaskipti í íslenskri bókmenntasögu vera „eðlileg“ því „1918 lýkur ákveðnu þróunarskeiði í íslenzkri stjórnmálasögu. Eftir samfellda hundrað ára sjálfstæðisbaráttu fær þjóðin loks viðurkennt fullveldi.“[4] Þær bókmenntir sem nutu mestrar alþýðuhylli á síðari hluta nítjándu aldar voru nátengdar sjálfstæðisbaráttunni; Íslendingasögur sem lesnar voru á svo til hverju heimili í sveitum landsins og kvæði „þjóðskáldanna“ allt frá Jónasi Hallgrímssyni (1807-1845) og Grími Thomssen (1820-1896) til Steingríms Thorsteinssonar (1831-1913) og Matthíasar Jochumssonar (1835-1920). Fornsagnaarfurinn og íslensk náttúra eru þeir brunnar sem skáldin ausa sem óðast úr; í hetjum Íslendingasagnanna sáu þau eftirsóknarverðar fyrirmyndir sem nota mátti ásamt hyllingu náttúrunnar til að brýna þjóðina til sóknar í baráttunni fyrir sjálfstæði.
Á fyrstu áratugum tuttugustu aldarinnar báru hæst kvæði skálda á borð við Þorstein Erlingsson (1858-1914), Hannes Hafstein (1861-1922), Einar Benediktsson (1864-1940) og Stephan G. Stephansson (1853-1927) og enn leitast skáldin við að blása þjóðinni kraft í brjóst. Einar Ben notar ljóðlistina til að hvetja til uppbyggingar og eflingar á ýmsum sviðum, allt frá skógrækt til verndunar tungunnar, svo ekki sé minnst á háleit virkjunaráform hans.[5] En á þessum tíma er skáldsagan líka að hasla sér völl „sem umfangsmikil bókmenntagrein hérlendis“[6] og á árunum 1906-1911 er hægt að tala um skáldsagnabylgju. Hluti þeirrar bylgju er í formi þýðinga á erlendum skáldsögum, bæði á sviði fagurbókmennta sem og „reyfarabókmennta“.[7] 1918 koma út skáldsögurnar Bessi gamli eftir Jón Trausta og Sambýli Einars H. Kvarans. Persónan Bessi gamli í samnefndri sögu hefur allt á hornum sér varðandi nútímann, „er andsnúinn öllu tali um frelsi, jafnrétti, lýðræði og kvenréttindi“.[8] Það má líta á það sem táknrænt að Jón Trausti kveðji með íhaldsrausi Bessa gamla enda hefur verkið verið kallað „hugmyndafræðileg erfðaskrá“ höfundar.[9] Í Reykjavíkursögunni Sambýli deilir Einar H. Kvaran hart á gróðabrall stríðsáranna og boðar kærleika og fórnfýsi enda fjallar sagan öðrum þræði um „sambýli þessa heims og annars“ en Einar var ákafur spíritisti þegar þarna var komið sögu.
Skáldsagan tók að hasla sér völl sem umfangsmikil bókmenntagrein um þetta leyti. Árið 1918 komu út skáldsögurnar Bessi gamli og Sambýli. Þær voru auglýstar með þessum hætti í tímaritinu Óðni 1918.
Raunsæi litað beittri samfélagsgagnrýni einkenndi íslenska sagnagerð á síðustu áratugum nítjándu aldar. Sögusviðið var oftast í sveitum landsins og borgin var séð sem spillingarbæli sem sveitafólk á erfitt með að fóta sig í. Halldór Guðmundsson hefur bent á að „lífsreynsla borgarmenningar“ fái ekki notið sín í þessum verkum og „skortur [sé] á sálrænu innsæi; því höfundarnir ganga að sjálfsvitund mannsins vísri, þeir draga hana hvergi í efa og geta þar af leiðandi ekki gert þeirri „samþjöppun taugkerfisins“ sem einkennir borgarlífið skil.“[10] Það er ekki fyrr en með skrifum Þórbergs Þórðarsonar og Halldórs Kiljan Laxness á þriðja áratugnum sem afgerandi breyting verður hvað þessi atriði snertir, þótt sjá hafi mátt vísi að svipaðri nálgum hjá Gunnari Gunnarssyni og Jóni Trausta.[11] Matthías Viðar Sæmundsson vill þó meina „að ákveðið afturhvarf [hafi átt] sér stað eftir aldamótin, bæði hvað varðar formsköpun og hugmyndahemi“ sem kemur meðal annars fram í því að helstu höfundarnir „hneigðust frá raunsæislegri samfélagsgagnrýni til trúarlegrar eða rómantískrar lífsskoðunar með aldrinum.“[12]
Meðal orsakavalda nýrra strauma í bókmenntum á fyrstu áratugum tuttugustu aldarinnar má nefna gríðarlega fólksfjölgun í Reykjavík og breytt menntunarástand. Með stofnun Háskóla Íslands 1911 var til ný stétt menntamanna sem „tókust á um menningarleg og pólitísk áhrif á síðum blaða og tímarita jafnt sem í sölum alþingis, enda var valdskipting samfélagsins í uppnámi.“[13] Ýmsar framfarir höfðu orðið: „Þjóðfélag götuljósa, vatnsæða og peningavíxla gat ekki sótt draumsýn sína og sjálfmynd í forneskjulegt bændasamfélag liðins tíma, öreigabollokinu og bjálfaskapnum varð að ljúka.“[14]
Merkasta bókmenntaverkið sem kom út 1918 er án efa fyrsta ljóðabók Stefáns frá Hvítadal, Söngvar förumannsins.
Kannski er það í ljóðagerðinni sem breytingarnar eru hvað augljósastar. Skáldin hverfa frá pólitískri kvæðagerð og snúa meira inn á við, kjörorð dagsins er ný rómantík og um leið fer að losna um hið rígbundna kvæðaform þótt bylting í þeim málum yrði ekki fyrr en um miðja öldina. Merkasta bókmenntaverkið sem kom út 1918 er án efa fyrsta ljóðabók Stefáns frá Hvítadal, Söngvar förumannsins. Í ljóðum þeirrar bókar, sem og í Svörtum fjöðrum Davíðs Stefánssonar sem komið hafði út árið áður, er slegið á nýja og léttari strengi en áður höfðu hljómað.
Kynslóðin sem er fædd um og upp úr aldamótunum átti svo eftir að fylgja eftir nýjungum í íslenskum bókmenntum og má í því sambandi minna á að 1919 kemur út fyrsta skáldsaga Halldórs Laxness, Barn náttúrunnar. Nóbelskáldið lýsti því síðar á þá leið að þessi kynslóð hefði verið „þess fullviss að sundra þyrfti skáldsöguforminu til að það gæti túlkað lífsreynslu manna sem höfðu hundrað og fimmtíu lífsskoðanir en enga sína eigin“.[15]Tilvísanir:
^ Árni Óla. 1966. „Versta ár þessarar aldar.“ Sagt frá Reykjavík. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja, bls. 202-210.
^ Matthías Viðar Sæmundsson. 1996. „Sagnagerð frá þjóðhátíð til fullveldis.“ Íslensk bókmenntasaga III. Ritstjóri Halldór Guðmundsson. Reykjavík: Mál og menning, bls. 852.
^ Kristinn E. Andrésson. 1949. Íslenskar nútímabókmenntir 1918-1948. Reykjavík: Mál og menning.
^ Silja Aðalsteinsdóttir. 1996. „Ný öld – önnur rómantík: Ljóðagerð 1900-1918.“ Íslensk bókmenntasaga III. Ritstj. Halldór Guðmundsson. Reykjavík: Mál og menning, bls. 886.
Soffía Auður Birgisdóttir. „Hvað gerðist í bókmenntum á Íslandi árið 1918?“ Vísindavefurinn, 20. febrúar 2018, sótt 5. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=75075.
Soffía Auður Birgisdóttir. (2018, 20. febrúar). Hvað gerðist í bókmenntum á Íslandi árið 1918? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=75075
Soffía Auður Birgisdóttir. „Hvað gerðist í bókmenntum á Íslandi árið 1918?“ Vísindavefurinn. 20. feb. 2018. Vefsíða. 5. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=75075>.