Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ólafur Arnalds er prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands. Hann fæst við rannsóknir á íslenskum jarðvegi og á ferlum sem móta yfirborð og ástand vistkerfa.
Jarðvegur er mikilvæg grunneining vistkerfa. Vegna mikillar eldvirkni og áfoks myndast afar sérstakur jarðvegur hérlendis. Grunnrannsóknir á eðli, myndun og flokkun íslensks jarðvegs hafa verið á meðal meginverkefna Ólafs. Þar má nefna sérstaklega myndun og gerð leirs í jarðveginum og kolefnisbúskap, sem hafa mikla þýðingu fyrir frjósemi jarðvegs og loftslagsbreytingar, jarðvegskort og fleira.
Grunnrannsóknir á eðli, myndun og flokkun íslensks jarðvegs hafa verið á meðal meginverkefna Ólafs.
Stór hluti landsins er illa gróinn en auðnirnar hafa afar sérstæða náttúru á alþjóðavísu og þær hafa verið rannsóknarefni Ólafs um langa hríð. Sandfok er meira en víðast annars staðar og frá auðnunum berst mikið ryk sem hefur mótandi áhrif á náttúru vistkerfa á landinu auk áhrifa á lífkerfi sjávar og lýðheilsu fólks. Rannsóknirnar hafa meðal annars beinst að eðli sandfoksins og hvaðan og hve mikið ryk berst frá landinu.
Ólafur Arnalds stóð að kortlagningu jarðvegsrofs í landinu öllu, meðal annars til að minnka deilur um eðli vandans og auðvelda aðgerðir til að bæta ástand íslenskra vistkerfa. Afraksturinn er notaður í margvíslegum tilgangi, allt frá ákvörðun landnýtingar til rannsókna á ryki og í veðurfræði. Einnig leiddi Ólafur verkefnið Nytjaland, sem er risavaxinn gagnagrunnur um eðli yfirborðs landsins.
Ólafur fæst við rannsóknir á íslenskum jarðvegi og á ferlum sem móta yfirborð og ástand vistkerfa. Hér sést hann skrifborðið sitt.
Ástand íslenskra vistkerfa er víða bágborinn. Ólafur hefur stundað rannsóknir á landgræðslu, vistheimt og ástandi lands, sem nýtast meðal annars fyrir ákvörðun á stöðu beitilanda og endurheimt landgæða. Hann er í fagráði Landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna og kennir þar og á alþjóðlegum vettvangi. Auk þess er hann virkur í gerð fræðslu- og kennsluefnis á sviði jarðvegsfræða og landverndar.
Ólafur fæddist í Reykjavík 1954, lauk BS-prófi frá Háskóla Íslands, meistaragráðu í jarðvegsfræði frá Montana State-háskóla og doktorsgráðu í jarðvegsfræði frá Texas A&M-háskólanum árið 1990. Ólafur vann hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins með hléum frá árinu 1976, en fastráðinn frá 1990, lengi sem sviðsstjóri umhverfissviðs en frá 2005 sem prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands. Hann hlaut umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs árið 1998.
Frekara lesefni um jarðvegsfræði er að finna hér: www.moldin.netMyndir:
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvað hefur vísindamaðurinn Ólafur Arnalds rannsakað?“ Vísindavefurinn, 10. mars 2018, sótt 9. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=75439.
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. (2018, 10. mars). Hvað hefur vísindamaðurinn Ólafur Arnalds rannsakað? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=75439
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvað hefur vísindamaðurinn Ólafur Arnalds rannsakað?“ Vísindavefurinn. 10. mar. 2018. Vefsíða. 9. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=75439>.