Sólin Sólin Rís 08:16 • sest 18:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:07 • Sest 02:31 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:58 • Síðdegis: 22:28 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:16 • sest 18:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:07 • Sest 02:31 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:58 • Síðdegis: 22:28 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er það mögulegt að Ísland verði einn daginn allt gróðri vaxið?

Ólafur Arnalds

Margir þættir hafa áhrif á gróðurfarsskilyrði og þar með gróðurhulu á landinu. Þættir sem hafa neikvæð áhrif á gróðurfarsskilyrði eru meðal annars i) áföll af völdum eldgosa og jökulhlaupa; ii) slæm loftslagsskilyrði til fjalla auk þess sem úrkoma er sums staðar nokkuð takmarkandi; iii) sandur og sandfok á auðnum sem takmarkar möguleika á landnámi plantna; iv) gróf gjóska veldur slæmum jarðvegskilyrðum og takmarkaðri miðlun vatns; v) beit, sem er langvíðtækasta landnýtingin á Íslandi og sá þáttur sem hefur haft mestu áhrifin á vistkerfi landsins. Jafnframt er landnýting eini þátturinn sem maðurinn fær stjórnað.

Hæð yfir sjávarmáli hefur afgerandi áhrif á hver gróðurhulan er nú til dags, hún er um 70% neðan 200 m hæðar, en útbreiðsla gróðurs minnkar ört með hæð. Gróðurhulan er um 40% í 400-600 metrum og aðeins um 20% í 600-800 m hæðarbilinu (gögn úr gagnagrunni Landbúnaðarháskóla Íslands; Nytjaland). Framleiðni gróðursins minnkar með hæð sem gerir hann jafnframt viðkvæmari fyrir raski á borð við beit eða gjóskufalli. Því er lítil gróðurhula, til dæmis í 400-800 m hæð að hluta til afleiðing sampils beitar og viðkvæmni vistkerfanna vegna þeirra þátta sem áður voru taldir. Jafnframt er framleiðni vistkerfa sem eftir standa víða mjög skert vegna langvarandi nýtingar.

Auðn. Frá Krepputungu, norðan Vatnajökuls, séð til Herðubreiðar.

Flest hálendissvæðin eru nýtt til beitar, óháð gróðurhulu þeirra, sem hamlar náttúrulegri framvindu og uppgræðslu. Það eru þó víða skilyrði á hálendinu til að mynda frjósaman jarðveg ef gróður nær að nema land. En landnám gróðurs á hálendissvæðunum er afskaplega hægfara og tekur marga áratugi og jafnvel lengur, jafnvel þótt skilyrði séu sæmileg. Mikilvægt er að yfirborðið sé ekki mjög óstöðugt af völdum sandfoks eða ísnála. Þar sem yfirborðið er stöðugt myndast gjarnan svokölluð lífræn jarðvegsskán, sem gerð er af fléttum, blágrænuþörungum, mosum og fleiru. Skánin er oft forsenda þess að aðrar plöntur nái að skjóta rótum. Hún kemur á yfirborðstöðugleika, safnar smám saman næringarefnum, og býr til set, eða hagstæðar aðstæður, þar sem háplöntur geta numið land. Skánin er lengi að myndast og er afar viðkvæm fyrri traðki beitardýra. Byggja þarf upp næringarforða til þess að næringarhringrás verði nægilega öflug til þess að vistkerfi nái grósku. Þar má nefna næringarefni á borð við nitur, en söfnun þess er mjög hægfara ferli sem tekur marga áratugi.

Það er ósennilegt að öll hálendissvæði landsins geti gróið upp. Það á til dæmis við um i) land sem stendur hæst (til dæmis ofan 800 m hæðar, svo sem hálendið upp af Eyjafjarðardölum); ii) virkustu flæðisléttur jökulvatna á hálendinu og nágrenni þeirra (til dæmis Dyngjusandur og Mælifellssandur); iii) hálend gjóskusvæði með grófri gjósku í yfirborðinu sem heldur litlum jarðvegsraka (til dæmis Veiðivatnasvæði, Öskjusvæði); iv) virkustu sandfokssvæðin á hálendinu.

En hálendið getur sannarlega orðið mun betur gróið en það er nú, einkum þau hálendissvæði sem standa ekki mjög hátt, til dæmis neðan 600 m hæðar. Á flestum hálendissvæðanna finnast gróðureyjar þar sem til dæmis rakaskilyrði eru hagstæð og sandfok takmarkað (til dæmis Hvannalindir og Herðubreiðarlindir) og jafnvel upp í 900 m hæð á Suðurhálendinu. Ef gróður á að aukast á landinu skiptir mestu að friða auðnir og rofsvæði, sem og þau vistkerfi sem verða af og til fyrir áföllum af völdum gjóskugosa og flóða í jökulám. Við beitarfriðun eru þessi svæði ennfremur betur í stakk búin til þess að hagnýta sér hagstæðari skilyrði sem fylgja hlýnandi loftslagi á jörðinni.

Mynd: Ólafur Arnalds.


Í heild hljóðaði spurningin svona:
Er það mögulegt að Ísland verði einn daginn allt gróðri vaxið? Þá sérstaklega á hálendinu þar sem jarðvegur er lélegur og veður slæmt.

Höfundur

prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands

Útgáfudagur

10.12.2013

Spyrjandi

Hilmar Bjarni Hilmarsson

Tilvísun

Ólafur Arnalds. „Er það mögulegt að Ísland verði einn daginn allt gróðri vaxið?“ Vísindavefurinn, 10. desember 2013, sótt 14. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=64093.

Ólafur Arnalds. (2013, 10. desember). Er það mögulegt að Ísland verði einn daginn allt gróðri vaxið? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=64093

Ólafur Arnalds. „Er það mögulegt að Ísland verði einn daginn allt gróðri vaxið?“ Vísindavefurinn. 10. des. 2013. Vefsíða. 14. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=64093>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er það mögulegt að Ísland verði einn daginn allt gróðri vaxið?
Margir þættir hafa áhrif á gróðurfarsskilyrði og þar með gróðurhulu á landinu. Þættir sem hafa neikvæð áhrif á gróðurfarsskilyrði eru meðal annars i) áföll af völdum eldgosa og jökulhlaupa; ii) slæm loftslagsskilyrði til fjalla auk þess sem úrkoma er sums staðar nokkuð takmarkandi; iii) sandur og sandfok á auðnum sem takmarkar möguleika á landnámi plantna; iv) gróf gjóska veldur slæmum jarðvegskilyrðum og takmarkaðri miðlun vatns; v) beit, sem er langvíðtækasta landnýtingin á Íslandi og sá þáttur sem hefur haft mestu áhrifin á vistkerfi landsins. Jafnframt er landnýting eini þátturinn sem maðurinn fær stjórnað.

Hæð yfir sjávarmáli hefur afgerandi áhrif á hver gróðurhulan er nú til dags, hún er um 70% neðan 200 m hæðar, en útbreiðsla gróðurs minnkar ört með hæð. Gróðurhulan er um 40% í 400-600 metrum og aðeins um 20% í 600-800 m hæðarbilinu (gögn úr gagnagrunni Landbúnaðarháskóla Íslands; Nytjaland). Framleiðni gróðursins minnkar með hæð sem gerir hann jafnframt viðkvæmari fyrir raski á borð við beit eða gjóskufalli. Því er lítil gróðurhula, til dæmis í 400-800 m hæð að hluta til afleiðing sampils beitar og viðkvæmni vistkerfanna vegna þeirra þátta sem áður voru taldir. Jafnframt er framleiðni vistkerfa sem eftir standa víða mjög skert vegna langvarandi nýtingar.

Auðn. Frá Krepputungu, norðan Vatnajökuls, séð til Herðubreiðar.

Flest hálendissvæðin eru nýtt til beitar, óháð gróðurhulu þeirra, sem hamlar náttúrulegri framvindu og uppgræðslu. Það eru þó víða skilyrði á hálendinu til að mynda frjósaman jarðveg ef gróður nær að nema land. En landnám gróðurs á hálendissvæðunum er afskaplega hægfara og tekur marga áratugi og jafnvel lengur, jafnvel þótt skilyrði séu sæmileg. Mikilvægt er að yfirborðið sé ekki mjög óstöðugt af völdum sandfoks eða ísnála. Þar sem yfirborðið er stöðugt myndast gjarnan svokölluð lífræn jarðvegsskán, sem gerð er af fléttum, blágrænuþörungum, mosum og fleiru. Skánin er oft forsenda þess að aðrar plöntur nái að skjóta rótum. Hún kemur á yfirborðstöðugleika, safnar smám saman næringarefnum, og býr til set, eða hagstæðar aðstæður, þar sem háplöntur geta numið land. Skánin er lengi að myndast og er afar viðkvæm fyrri traðki beitardýra. Byggja þarf upp næringarforða til þess að næringarhringrás verði nægilega öflug til þess að vistkerfi nái grósku. Þar má nefna næringarefni á borð við nitur, en söfnun þess er mjög hægfara ferli sem tekur marga áratugi.

Það er ósennilegt að öll hálendissvæði landsins geti gróið upp. Það á til dæmis við um i) land sem stendur hæst (til dæmis ofan 800 m hæðar, svo sem hálendið upp af Eyjafjarðardölum); ii) virkustu flæðisléttur jökulvatna á hálendinu og nágrenni þeirra (til dæmis Dyngjusandur og Mælifellssandur); iii) hálend gjóskusvæði með grófri gjósku í yfirborðinu sem heldur litlum jarðvegsraka (til dæmis Veiðivatnasvæði, Öskjusvæði); iv) virkustu sandfokssvæðin á hálendinu.

En hálendið getur sannarlega orðið mun betur gróið en það er nú, einkum þau hálendissvæði sem standa ekki mjög hátt, til dæmis neðan 600 m hæðar. Á flestum hálendissvæðanna finnast gróðureyjar þar sem til dæmis rakaskilyrði eru hagstæð og sandfok takmarkað (til dæmis Hvannalindir og Herðubreiðarlindir) og jafnvel upp í 900 m hæð á Suðurhálendinu. Ef gróður á að aukast á landinu skiptir mestu að friða auðnir og rofsvæði, sem og þau vistkerfi sem verða af og til fyrir áföllum af völdum gjóskugosa og flóða í jökulám. Við beitarfriðun eru þessi svæði ennfremur betur í stakk búin til þess að hagnýta sér hagstæðari skilyrði sem fylgja hlýnandi loftslagi á jörðinni.

Mynd: Ólafur Arnalds.


Í heild hljóðaði spurningin svona:
Er það mögulegt að Ísland verði einn daginn allt gróðri vaxið? Þá sérstaklega á hálendinu þar sem jarðvegur er lélegur og veður slæmt.

...