Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ólafur H. Wallevik er forstöðumaður Rannsóknastofu byggingariðnaðarins (Rb) við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og prófessor við Háskólann í Reykjavík. Hann hefur meðal annars lagt stund á rannsóknir og þróun á steinsteypu um langt skeið (í félagi við nemendur sína og innlenda og erlenda vísindamenn), einkum þó seigjufræði ferskrar steinsteypu og steinsteypu með lágt kolefnisspor. Hann er brauðryðjandi á heimsvísu í seigjufræði steinsteypu (e. concrete rheology).
Steinsteypa er eitt mikilvægasta byggingarefni heims og notkun hennar vex ár frá ári. Hún er gerð úr möl, sandi og vatni, sem oft má finna í nágrenni byggingarstaðar, ásamt sementi sem er um 10% af rúmmáli hennar. Steinsteypa er í sjálfu sér vistvænt efni, en þar sem hún er það efni sem mannkyn framleiðir mest af er kolefnisspor hennar verulegt. Ólafur hefur með rannsóknum sínum kappkostað að minnka umhverfisáhrif steinsteypu og auka gæði hennar um leið. Ólafi og samstarfsmönnum hans hefur þannig tekist að búa til steinsteypu sem hefur fjórðungi til helmingi minna kolefnisspor en venjuleg steypa. Þessi gerð steinsteypu hefur vakið mikla athygli og hefur hún meðal annars verið notuð í Norður-Ameríku, ríkjunum við Persaflóann, Kína og víðar.
Sýning á sjálfútleggjandi vistvænni steypu í tilefni af heimsókn félaga úr Verkfræðingafélagi Íslands til Abu Dhabi.
Ólafur hefur einnig innleitt nýjar og byltingarkenndar aðferðir við hönnun steinsteypu þar sem hann hefur lagt mikla áherslu á notkun seigjufræðilegra aðferða og þróað ýmiskonar mælitæki sem eru í notkun um allan heim. Hann hefur tekið virkan þátt á alþjóðlegum vettvangi í þróun steinsteypu í átt að sterkara, fjölhæfara og vistvænna byggingarefni.
Ólafur H. Wallevik fæddist 1958 í Reykjavik. Hann lauk meistaraprófi í byggingarverkfræði frá Norges Tekniske Høgskole (NTH) 1984 og doktorsprófi frá sama skóla 1990. Doktorsritgerð hans fjallaði um áhrif kísilryks á seigjufræðilega eiginleika ferskrar steinsteypu. Hann hóf störf á Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins 1991, sem síðar varð hluti af Nýsköpunarmiðstöð Íslands, og er nú forstöðumaður Rb við Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Auk þess gegnir hann prófessorsstöðu við Háskólann í Reykjavík. Hann var um tíma (2010-2014) gistiprófessor við Sherbrooke University og er nú gistiprófessor við China Building Material Academy í Beijing.
Ólafur H. Wallevik ásamt prófessor Yan Yao, forseta China Building Materials Academy, við minnisvarða stofnunarinnar í Beijing.
Ólafur er eftirsóttur fyrirlesari á ráðstefnum og hefur haldið tugi námskeiða víða um heim um seigjufræði steinsteypu. Hann er félagi í fjölmörgum erlendum samtökum um rannsóknir og þróun á steinsteypu og er höfundur fjölda ritrýndra greina í erlendum vísindatímaritum, fyrir utan aragrúa greina og erinda á alþjóðlegum ráðstefnum og í erlendum háskólum. Hann hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir vísindastörf sín heima og erlendis. Meðal þeirra eru gullmerki Verkfræðingafélags Íslands, verðlaunin Grand Prix Québécois du Béton í Kanada 2004, The Nordic Concrete Federation Medal í Finnlandi 2011 og The Carl Klason Rheology Award 2014. Ráðstefnan Our World in Concrete and Structure í Singapore 2011 var tileinkuð honum, og 2012 hlaut hann riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til vistvænna byggingarefna.
Myndir:
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvað hefur vísindamaðurinn Ólafur H. Wallevik rannsakað?“ Vísindavefurinn, 16. mars 2018, sótt 9. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=75443.
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. (2018, 16. mars). Hvað hefur vísindamaðurinn Ólafur H. Wallevik rannsakað? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=75443
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvað hefur vísindamaðurinn Ólafur H. Wallevik rannsakað?“ Vísindavefurinn. 16. mar. 2018. Vefsíða. 9. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=75443>.