Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Vísindafélag Íslendinga - 100 ára

Hvað hefur vísindamaðurinn Sigríður Sigurjónsdóttir rannsakað?

Sigríður Sigurjónsdóttir er prófessor í íslenskri málfræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar hafa einkum beinst að máltöku íslenskra barna og hún hefur skrifað fjölda ritrýndra greina í alþjóðleg fræðirit um ýmis atriði í þróun íslensks barnamáls, auk þess sem hún hefur rannsakað ákveðin setningafræðileg atriði í máltöku færeyskra og hollenskra barna.

Síðustu tvo áratugina hefur Sigríður einnig tekið þátt í nokkrum innlendum og alþjóðlegum rannsóknarverkefnum á setningafræðilegum málbreytingum í íslensku nútímamáli og stýrði sjálf rannsókn á setningafræðilegum einkennum, útbreiðslu og félagslegri dreifingu nýju ópersónulegu setningagerðarinnar eða nýju þolmyndarinnar svokölluðu. Um er að ræða setningafræðilega nýjung í íslensku, það er setningar eins og til dæmis: Svo var bara valið mig og Það var strítt stelpunni sem eru algengar í máli yngra fólks í dag. Sigríður og samstarfsmaður hennar, Joan Maling, voru fyrstar til að rannsaka þessa nýjung í málinu kerfisbundið veturinn 1999-2000 og hafa unnið að rannsóknum á þessari nýju setningagerð í málinu síðan.

Rannsóknir hennar hafa einkum beinst að máltöku íslenskra barna og hún hefur skrifað fjölda ritrýndra greina í alþjóðleg fræðirit um ýmis atriði í þróun íslensks barnamáls.

Um þessar mundir rannsakar Sigríður aðallega áhrif ensku á íslensku í gegnum stafræna miðla og snjalltæki en hún stýrir ásamt Eiríki Rögnvaldssyni prófessor alþjóðlega rannsóknarverkefninu: Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis, sem hlaut þriggja ára öndvegisstyrk Rannsóknasjóðs árið 2016. Um er að ræða viðamikla rannsókn á áhrifum stafrænna miðla og snjalltækja á málumhverfi, málnotkun, málkunnáttu og viðhorf Íslendinga til íslensku og ensku.

Sigríður hefur sinnt ýmsum störfum innan háskólasamfélagsins. Hún hefur til dæmis tekið þátt í námskrárvinnu í íslensku fyrir grunnskóla, verið formaður Íslenska málfræðifélagsins, forstöðumaður Málvísindastofnunar Háskóla Íslands, formaður fagráðs hug- og félagsvísinda Nýsköpunarsjóðs námsmanna og setið í stjórn Íslenskrar málnefndar og Málnefndar um íslenskt táknmál.

Sigríður er fædd árið 1960 og varð stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð vorið 1979. Hún lauk BA-prófi í almennum málvísindum og íslensku frá Háskóla Íslands árið 1984 og cand.mag.-prófi í íslenskri málfræði árið 1987 frá sama skóla. Hún stundaði síðan doktorsnám við University of California, Los Angeles (UCLA) þaðan sem hún lauk doktorsprófi árið 1992. Árið eftir gegndi hún starfi nýdoktors við Málvísindastofnun Háskólans í Utrecht í Hollandi en var ráðin til Háskóla Íslands í ársbyrjun 1994 þar sem hún hefur starfað síðan.

Mynd

  • Úr safni SS.

Útgáfudagur

2.4.2018

Spyrjandi

Ritstjórn

Höfundar

Ritstjórn Vísindavefsins

Tilvísun

Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslendinga. „Hvað hefur vísindamaðurinn Sigríður Sigurjónsdóttir rannsakað?“ Vísindavefurinn, 2. apríl 2018. Sótt 23. júlí 2019. http://visindavefur.is/svar.php?id=75588.

Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslendinga. (2018, 2. apríl). Hvað hefur vísindamaðurinn Sigríður Sigurjónsdóttir rannsakað? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=75588

Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslendinga. „Hvað hefur vísindamaðurinn Sigríður Sigurjónsdóttir rannsakað?“ Vísindavefurinn. 2. apr. 2018. Vefsíða. 23. júl. 2019. <http://visindavefur.is/svar.php?id=75588>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Páll Björnsson

1961

Páll Björnsson er prófessor í nútímafræði og sagnfræði við Félagsvísinda- og lagadeild HA. Páll hefur komið víða við í rannsóknum sínum en þær hafa verið á sviði nútímasögu.