Sólin Sólin Rís 09:31 • sest 16:50 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:41 • Sest 19:10 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:36 • Síðdegis: 22:09 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:11 • Síðdegis: 16:08 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:31 • sest 16:50 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:41 • Sest 19:10 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:36 • Síðdegis: 22:09 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:11 • Síðdegis: 16:08 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaða rannsóknir hefur Aðalheiður Guðmundsdóttir stundað?

Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands

Vísindafélag Íslendinga - 100 ára
Aðalheiður Guðmundsdóttir er prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar spanna vítt svið innan íslenskra fræða og hefur hún meðal annars fengist við rannsóknir á handritum, frásagnarfræði, fornaldarsögum, riddarasögum og rímum. Doktorsrannsókn Aðalheiður fjallaði um Úlfhams sögu sem var þá óútgefin og einungis aðgengileg í handritum. Ritgerðinni fylgdi útgáfa á mismunandi gerðum sögunnar í formi prósa og rímna. Rannsóknin var unnin með aðferð nýrrar textafræði og varpaði ljósi á varðveisluferil sagnaefnis í gegnum aldirnar og hvernig það breytist frá einu textavitni til annars. Meginrannsóknarefni Aðalheiðar snýr að fornaldarsögum og vinnur hún nú að þriggja binda riti um upphaf, varðveislu og einkenni sagnanna.

Með doktorsrannsókn Aðalheiðar öðlaðist Úlfhams saga „nýtt líf“, ekki síst eftir að leikfélagið Annað svið færði söguna á leiksvið í samvinnu við Hafnarfjarðarleikhúsið. Auk þess að starfa með leikhópnum gaf Aðalheiður Úlfhams rímur út í aðgengilegu formi, í bæklingi sem fylgdi tveimur geisladiskum, þar sem rímurnar voru kveðnar í heild sinni.

Rannsóknir Aðalheiðar snúa að miðaldabókmenntum í víðu samhengi, með áherslu á fornaldarsögur og samevrópskan sagnaarf.

Í rannsóknum sínum á miðaldabókmenntum hefur Aðalheiður einkum leitast við að skoða samevrópskan sagnaarf, samhengi íslenskra bókmennta, tengingu þeirra við samfélagið á hverjum tíma fyrir sig jafnt sem heimsmynd þeirra og einstök þemu. Hér má nefna viðfangsefni á borð við sagnamennsku, ímynd hetjunnar, ást og ofbeldi, galdur og hamskipti. Að auki hefur hún athugað birtingarmynd fornra sagna í handverki og myndlist miðalda bæði hérlendis og erlendis. Þá hefur hún fengist við greiningu myndminna á steinaristum og útskurði frá 9. öld og fram til síðmiðalda, en með þeirri aðferð hefur hún meðal annars sett sagnir í samhengi við tiltekin svæði og þar með kortlagt útbreiðslu þeirra. Að lokum hefur hún fjallað um þjóðsögur og meðal annars ritstýrt Ævintýragrunninum - sem hún vann ásamt nemendum sínum við Háskóla Íslands og felur í sér upplýsingar um rúmlega 550 tilbrigði íslenskra ævintýra.

Aðalheiður hefur gefið út tvær bækur, Úlfhams sögu (2001) og Strengleika (2006) og birt fjölda greina í innlendum og erlendum greinasöfnum og tímaritum, nú síðast „Reflexes of the fornaldarsögur in Icelandic poetry“ í The legendary legacy: Transmission and Reception of the Fornaldarsögur Norðurlanda (2018), „Some Heroic Motifs in Icelandic Art“ í Scripta Islandica (2017), „Under the cloak, between the lines: Trolls and the symbolism of their clothing in Old Norse tradition“ í European journal of Scandinavian studies (2017) og „How do you know if it's love or lust?“ í Interfaces (2016). Hún hefur að auki ritstýrt ritum á borð við Arv (2014), birt greinar í tímaritum á borð við JEGP, Mediaeval Studies og Speculum, auk þess sem hún á sæti í ritnefnd New Norse Studies: A Journal on the literature and culture of Medieval Scandinavia og ítölsku ritraðarinnar Testi germanici del Medioevo.

Aðalheiður á ráðstefnu um Artúrsbókmenntir í Sorbonne-háskóla í París.

Aðalheiður á og hefur átt í samstarfi við evrópsk og alþjóðleg rannsóknarteymi, auk þess að taka virkan þátt í kennaraskiptum innan Evrópu. Hún hefur komið að kennslu erlendra háskóla í Dublin, Tartu, Rzezów, Kaupmannahöfn og Þórshöfn. Árið 2016 hlaut hún verðlaun úr sjóði Dags Strömbäcks, sem eru veitt af Kungl. Gustav Adolfs akademien í Uppsölum.

Aðalheiður fæddist í Reykjavík árið 1965 og lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands 1986. Hún tók BA-próf í íslensku við Háskóla Íslands árið 1989 og Cand. mag. próf í íslenskum bókmenntum frá sama skóla árið 1993. Að lokum útskrifaðist hún með Dr. phil.-gráðu í íslenskum fræðum frá heimspekideild Háskóla Íslands árið 2002. Aðalheiður var eftir það nýdoktor og síðar í tímabundinni rannsóknarstöðu Sigurðar Nordals hjá Sofnun Árna Magnússonar. Að því loknu var Aðalheiður aðjunkt og síðar dósent í þjóðfræði við Háskóla Ísland, en tók við núverandi starfi við Hugvísindasvið árið 2016. Hún hefur tekið virkan þátt í félagsstarfi, setið í stjórn Samtaka móðurmálskennara og Miðaldastofu Háskóla Íslands, og verið formaður Félags þjóðfræðinga á Íslandi. Hún hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Háskóla Íslands og setið í undirbúningsnefnd fyrir 17. alþjóðlega fornsagnaþingið, sem var haldið í Reykjavík árið 2018.

Myndir:
  • Úr safni AG.

Útgáfudagur

30.8.2018

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvaða rannsóknir hefur Aðalheiður Guðmundsdóttir stundað?“ Vísindavefurinn, 30. ágúst 2018, sótt 7. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=76244.

Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. (2018, 30. ágúst). Hvaða rannsóknir hefur Aðalheiður Guðmundsdóttir stundað? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=76244

Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvaða rannsóknir hefur Aðalheiður Guðmundsdóttir stundað?“ Vísindavefurinn. 30. ágú. 2018. Vefsíða. 7. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=76244>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaða rannsóknir hefur Aðalheiður Guðmundsdóttir stundað?
Aðalheiður Guðmundsdóttir er prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar spanna vítt svið innan íslenskra fræða og hefur hún meðal annars fengist við rannsóknir á handritum, frásagnarfræði, fornaldarsögum, riddarasögum og rímum. Doktorsrannsókn Aðalheiður fjallaði um Úlfhams sögu sem var þá óútgefin og einungis aðgengileg í handritum. Ritgerðinni fylgdi útgáfa á mismunandi gerðum sögunnar í formi prósa og rímna. Rannsóknin var unnin með aðferð nýrrar textafræði og varpaði ljósi á varðveisluferil sagnaefnis í gegnum aldirnar og hvernig það breytist frá einu textavitni til annars. Meginrannsóknarefni Aðalheiðar snýr að fornaldarsögum og vinnur hún nú að þriggja binda riti um upphaf, varðveislu og einkenni sagnanna.

Með doktorsrannsókn Aðalheiðar öðlaðist Úlfhams saga „nýtt líf“, ekki síst eftir að leikfélagið Annað svið færði söguna á leiksvið í samvinnu við Hafnarfjarðarleikhúsið. Auk þess að starfa með leikhópnum gaf Aðalheiður Úlfhams rímur út í aðgengilegu formi, í bæklingi sem fylgdi tveimur geisladiskum, þar sem rímurnar voru kveðnar í heild sinni.

Rannsóknir Aðalheiðar snúa að miðaldabókmenntum í víðu samhengi, með áherslu á fornaldarsögur og samevrópskan sagnaarf.

Í rannsóknum sínum á miðaldabókmenntum hefur Aðalheiður einkum leitast við að skoða samevrópskan sagnaarf, samhengi íslenskra bókmennta, tengingu þeirra við samfélagið á hverjum tíma fyrir sig jafnt sem heimsmynd þeirra og einstök þemu. Hér má nefna viðfangsefni á borð við sagnamennsku, ímynd hetjunnar, ást og ofbeldi, galdur og hamskipti. Að auki hefur hún athugað birtingarmynd fornra sagna í handverki og myndlist miðalda bæði hérlendis og erlendis. Þá hefur hún fengist við greiningu myndminna á steinaristum og útskurði frá 9. öld og fram til síðmiðalda, en með þeirri aðferð hefur hún meðal annars sett sagnir í samhengi við tiltekin svæði og þar með kortlagt útbreiðslu þeirra. Að lokum hefur hún fjallað um þjóðsögur og meðal annars ritstýrt Ævintýragrunninum - sem hún vann ásamt nemendum sínum við Háskóla Íslands og felur í sér upplýsingar um rúmlega 550 tilbrigði íslenskra ævintýra.

Aðalheiður hefur gefið út tvær bækur, Úlfhams sögu (2001) og Strengleika (2006) og birt fjölda greina í innlendum og erlendum greinasöfnum og tímaritum, nú síðast „Reflexes of the fornaldarsögur in Icelandic poetry“ í The legendary legacy: Transmission and Reception of the Fornaldarsögur Norðurlanda (2018), „Some Heroic Motifs in Icelandic Art“ í Scripta Islandica (2017), „Under the cloak, between the lines: Trolls and the symbolism of their clothing in Old Norse tradition“ í European journal of Scandinavian studies (2017) og „How do you know if it's love or lust?“ í Interfaces (2016). Hún hefur að auki ritstýrt ritum á borð við Arv (2014), birt greinar í tímaritum á borð við JEGP, Mediaeval Studies og Speculum, auk þess sem hún á sæti í ritnefnd New Norse Studies: A Journal on the literature and culture of Medieval Scandinavia og ítölsku ritraðarinnar Testi germanici del Medioevo.

Aðalheiður á ráðstefnu um Artúrsbókmenntir í Sorbonne-háskóla í París.

Aðalheiður á og hefur átt í samstarfi við evrópsk og alþjóðleg rannsóknarteymi, auk þess að taka virkan þátt í kennaraskiptum innan Evrópu. Hún hefur komið að kennslu erlendra háskóla í Dublin, Tartu, Rzezów, Kaupmannahöfn og Þórshöfn. Árið 2016 hlaut hún verðlaun úr sjóði Dags Strömbäcks, sem eru veitt af Kungl. Gustav Adolfs akademien í Uppsölum.

Aðalheiður fæddist í Reykjavík árið 1965 og lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands 1986. Hún tók BA-próf í íslensku við Háskóla Íslands árið 1989 og Cand. mag. próf í íslenskum bókmenntum frá sama skóla árið 1993. Að lokum útskrifaðist hún með Dr. phil.-gráðu í íslenskum fræðum frá heimspekideild Háskóla Íslands árið 2002. Aðalheiður var eftir það nýdoktor og síðar í tímabundinni rannsóknarstöðu Sigurðar Nordals hjá Sofnun Árna Magnússonar. Að því loknu var Aðalheiður aðjunkt og síðar dósent í þjóðfræði við Háskóla Ísland, en tók við núverandi starfi við Hugvísindasvið árið 2016. Hún hefur tekið virkan þátt í félagsstarfi, setið í stjórn Samtaka móðurmálskennara og Miðaldastofu Háskóla Íslands, og verið formaður Félags þjóðfræðinga á Íslandi. Hún hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Háskóla Íslands og setið í undirbúningsnefnd fyrir 17. alþjóðlega fornsagnaþingið, sem var haldið í Reykjavík árið 2018.

Myndir:
  • Úr safni AG.

...