Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í ársbyrjun 2019 eru 180 ár liðin frá því að ný aðferð við að taka ljósmyndir var kynnt fyrir meðlimum frönsku vísindaakademíunnar. Sú aðferð var kennd við Louis-Jacques-Mandé Daguerre (1787-1851) og byggði á því að málmplata var gerð ljósnæm með því að bera á hana joðblöndu. Mynd var síðan tekin á plötuna og hún framkölluð og „fixeruð“. Hver mynd var einstök og var spegilmynd af myndefninu, því hún sameinaði filmu og mynd. Þessi tækni barst um heimsbyggðina alla og líka til Íslands bæði með erlendum ljósmyndurum og innlendum. Upphaf ljósmyndunar miðast við þessa kynningu á aðferð Daguerre þótt nokkrir aðrir hafi verið að gera tilraunir með að festa mynd á pappír og önnur efni í ýmsum löndum.
Daguerreótýpa af Þóru Melsteð. Ljósmyndasafn Íslands í Þjóðminjasafni.
Þegar hugað er að því hver muni vera elsta ljósmynd sem til er af Íslendingi beinist athyglin því að varðveittum daguerreótýpum af íslensku fólki hérlendis og erlendis. Vitað er um 25 varðveittar daguerreótýpur í íslenskum söfnum og fáeinar í einkaeigu. Í Ljósmyndasafni Íslands í Þjóðminjasafni eru þær 21, tvær í Landsbókasafni-Háskólabókasafni og tvær í Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Skrásetning og varðveisla á þeim er misgóð og ekki eru kunnug nöfn allra þeirra sem á myndunum eru. Elst þessara mynda er talin vera ljósmynd af Þóru Melsteð skólastjóra Kvennaskólans í Reykjavík. Tímasetning myndarinnar byggir á ártali sem skrifað er á bakhlið hennar: 1846. Myndin, sem hlýtur að vera tekin í Danmörku, er innrömmuð með kartoni í kring. Daguerreótýpur voru ýmist innrammaðar eða í leðuröskjum með fóðruðu loki. Mynd Þóru ber einkenni þessarar fyrstu ljósmyndaaðferðar. Fyrirsætan varð að sitja kyrr því tökutíminn var langur framan af og fólk varð því að vera uppstillt. Þóra situr á stól og snýr til hliðar, með aðra hendina í greip hinnar til að hreyfa þær ekki. Hálsmen og hringur sem hún ber á fingri hafa verið gyllt en algengt var að reyna að glæða myndirnar lit ýmist með gyllingu eða með því að bera roða í andlit fólks. Mynd Þóru er sú elsta af daguerreótýpunum hér heima sem mögulegt er að tímasetja.[1]
Eftirmynd af daguerreótýpunni af Bertel Thorvaldsen. Ljósmyndasafn Íslands í Þjóðminjasafni.
Tvær aðrar daguerreótýpur af Íslendingum sem taldar eru eldri hafa varðveist í erlendum söfnum. Önnur er af Bertel Thorvaldsen myndhöggvara. Áhöld eru um hvort við teljum hann íslenskan. Daguerreótýpan af honum er elsta varðveitta portrettljósmyndin á Norðurlöndum, tekin af frönskum manni í Kaupmannahöfn sumarið 1840. Hún er jafnframt eina ljósmyndin sem til er af Bertel Thorvaldsen. Bertel stendur við trönur með lágmynd sína af Díönu og Júpíter og gerir sértakt merki með fingrum sínum til varnar hinu illa auga sem menn óttuðust að væri fylgifiskur þessarar nýju tækni.[2]
Daguerreótýpa af Bjarna Jónssyni. Photothéque du musée de l‘Homme, París.
Hin er af Bjarna Jónssyni rektor Lærða skólans í Reykjavík. Bjarni ferðaðist þrívegis til Frakklands. Vorið 1845 dvaldi hann rúmlega þrjá mánuði í París og sótti fyrirlestra í Sorbonne-háskóla. Talið er að myndin hafi verið tekin þá í húsakynnum Náttúrusögusafnsins í tengslum við mannfræðirannsóknir. Þegar Bjarni kemur næst til Parísar í ársbyrjun 1855 fer hann öðru sinni á Náttúrusögusafnið og sat þá fyrir hjá mótunarmeistara og gerð var afsteypa af höfði hans í réttri líkamsstærð og hún síðan máluð. Það er til umhugsunar að aftan á daguerreótýpuna hefur verið skrifað heiti þess sem á henni er ásamt starfsheiti, fæðingardegi og -stað. Undir það er skrifað „Paris 21 Avril 1855“ og síðan undirskrift Bjarna.[3] Segir það okkur að myndin hafi verið tekin það ár? Eða var Bjarni að sjá mynd sína áratug eftir að hún var tekin og hún þá nafnsett? Hafi myndin verið tekin vorið 1845 er hún elsta tímasetta mynd sem varðveist hefur af Íslendingi sem hafði Ísland sem dvalarstað.
Eftirmynd af daguerreótýpu af Jóni Sigurðssyni og Ingibjörgu Einarsdóttur. Ljósmyndasafn Íslands í Þjóðminjasafni.
Daguerreótýpur voru viðkvæmar fyrir raka og hafa vafalítið margar farið illa í íslenskum húsakynnum. Í bréfi til Sigurðar Guðmundssonar málara segir til dæmis af daguerreótýpu af Þorvarði Árnasyni sem hann hafði látið taka af sér í Kaupmannahöfn, en þegar heim var komið skemmdist hún nokkuð og sendi Þorvarður hana 1855 til Kaupmannahafnar í von um að laga mætti myndina.[4] Engin mynd hefur varðveist af Þorvarði þannig að óvíst er um hvort myndinni hefur verið viðbjargandi. Það þarf því ekki að koma á óvart að nokkrar daguerreótýpur af fólki þekkjum við bara í eftirmyndum eins og til dæmis mynd af Bjarna Thorsteinssyni amtmanni frá 1848. Til er ein ljósmynd af hjónunum Jóni Sigurðssyni forseta og Ingibjörgu Einarsdóttur saman á mynd. Hún er af þeim nýgiftum og sést greinilega að myndin er eftirtaka eftir daguerreótýpu því að margar rispur sjást á myndfletinum eins og af málmplötu. Þau Jón og Ingibjörg giftust árið 1845 og hún flutti þá til hans til Kaupmannahafnar. Má ekki ætla að þau hafi viljað eignast af sér mynd þegar þau komu þangað og höfðu sameinast eftir margra ára fjarveru?[5] Ef svo er væri þessi mynd ámóta gömul og myndirnar af þeim Bjarna Jónssyni og Þóru Melsteð. Eldri ljósmyndir þekkjum við ekki af bornum og barnfæddum Íslendingum.
Tilvísanir:
^ Drög að skrá yfir sólmyndir í Þjóðminjasafni. Tölvupóstur frá Gunnari Marel Hinrikssyni dags. 5. september 2018 og Kristínu Hauksdóttur dags. 4. september 2018.
^ Robert Meyer. The Thorvaldsen Daguerreotype. History of Photography, Volume 1, Number 1, January 1977. Myndin er varðveitt í Thorvaldsensafninu í Kaupmannahöfn.
^ Æsa Sigurjónsdóttir. Ísland í sjónmáli. Reykjavík 2001, s. 24-31.
^ Þjóðminjasafn Íslands. Bréfasafn Sigurðar málara. SG-02-203.
^ Um myndina hefur Erla Hulda Halldórsdóttir skrifað áhugaverðar hugrenningar. Sjá Erla Hulda Halldórsdóttir. Er fortíðin öll þar sem hún er séð? Saga. Tímarit Sögufélags. XLIX:1. 2011, s. 7-11.
Inga Lára Baldvinsdóttir. „Hver er elsta ljósmynd af Íslendingi sem varðveist hefur?“ Vísindavefurinn, 7. nóvember 2018, sótt 5. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=76647.
Inga Lára Baldvinsdóttir. (2018, 7. nóvember). Hver er elsta ljósmynd af Íslendingi sem varðveist hefur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=76647
Inga Lára Baldvinsdóttir. „Hver er elsta ljósmynd af Íslendingi sem varðveist hefur?“ Vísindavefurinn. 7. nóv. 2018. Vefsíða. 5. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=76647>.