Sólin Sólin Rís 03:58 • sest 22:53 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:24 • Sest 03:47 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:47 • Síðdegis: 16:21 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:07 • Síðdegis: 22:30 í Reykjavík

Hvað einkennir fornaldarsögur?

Aðalheiður Guðmundsdóttir

Eitt helsta einkenni fornaldarsagna er tenging þeirra við fortíðina, hina óræðu „fornöld“, sem markast af baklægum efnivið þeirra um leið og hún mótar grundvöll – ásamt öðrum einkennum – að því sem kalla mætti sjálfstæða grein bókmennta eða tegund. Fortíðin er að vísu misfjarlæg og nær allt frá átakatímum evrópskra þjóðflutninga til tíma sem einkennast af útrás norrænna höfðingjasona. Fyrir nútímalesendur er þó mikilvægt að hafa í huga að sú fortíð sem dregin er upp hverju sinni hlýtur fyrst og fremst að endurspegla þær hugmyndir sem Íslendingar fyrr á öldum gerðu sér um menn og málefni enn fjarlægari tíma; fornöldin er því umfram allt óræð. Hið sama er að segja um hugmyndir miðaldamanna til þeirra hetja sem sögurnar fjalla um og hetjudáða þeirra; einnig þær mótast af breytilegum tíðaranda. Þá má ekki heldur gleyma því að hin fjarlæga fortíð getur gefið sagnaþulum og höfundum sagna meira frelsi en ef um nálægari atburði væri að ræða. Í fortíðinni gat allt gerst, og í raun er það eðlilegt að fjarlægir atburðir hafi með tímanum tekið sér form góðra sagna.

Efnislega hefur fornaldarsögum verið skipt í þrennt; hetjusögur, víkinga- eða kappasögur (einnig kempusögur) og ævintýrasögur. Að vísu eru fræðimenn ekki á eitt sáttir um réttmæti slíkrar greiningar – og telja hana jafnvel úrelta – en á móti kemur að skapast hefur ákveðin hefð fyrir því að fjalla um sögurnar út frá þessum gefna breytileika. Þrískiptingin hefur þar að auki hlutverki að gegna í stærra samhengi, eða umræðunni um fornaldarsögur sem bókmenntagrein, en um það má deila hvort sögunum beri að skipa svo afdráttarlaust niður í flokka eða hvort einfalda megi flokkunina, til dæmis með því að steypa víkinga- og ævintýrasögunum saman í eitt, líkt og dæmi eru um.

Málverk af persónum í Örvar-Odds sögu. Málverkið er eftir sænska málarann August Malmström (1829-1901).

Eitt af því sem einkennir fornaldarsögur er hið norðlæga sögusvið og að sama skapi norrænn sagnaheimur. Í mörgum tilfellum koma söguhetjur fram í fleiri en einni sögu (innra samhengi) og að auki ber þeim víða saman við eldri heimildir á borð við ættartölur og önnur forn sagnarit. Annað sem einkennir fornaldarsögur eru sameiginleg minni (mótíf), innlendur sagnastíll og breiður áheyrendahópur. Að jafnaði eiga þær sér stað fyrir landnám Íslands, sem er þó ekki ófrávíkjanleg regla. Fornaldarsögum var flestum hverjum snúið í rímur og með þeim hætti lifðu þær „tvöföldu“ lífi um margra alda skeið og voru vinsælt viðfangsefni skapandi skrifara og skálda. Mikilvægt er að muna að tegundamörk fornaldarsagna geta verið ógreinileg.

Að vissu leyti voru fornaldarsögurnar alþýðlegri en aðrar samtímabókmenntir, enda ber útbreiðsla þeirra í gegnum tíðina vott um almennar vinsældir meðal lærðra og leikra, auk þess sem efnið talar sínu máli og ber að jafnaði með sér að hafa höfðað til ólíkra samfélagshópa, þvert á stéttir og kynslóðir. Þótt kóngar, klerkar og veraldlegir höfðingjar hafi vissulega verið meðal þeirra sem nutu fornaldarsagna, skera þær sig mjög frá þeim lærðu bókmenntum sem samdar voru á sama tíma, bæði kirkjulegum og veraldlegum, og að mörgu leyti liggja þær nálægt munnlegri sagnahefð, þótt lærð hefð, öflug ritmenning og erlendir menningarstraumar séu engu að síður grundvöllur þess að þær urðu til í núverandi mynd.

Þótt ef til vill mætti segja að fornaldarsögur séu „sögur fólksins“ í þeirri merkingu að áheyrendahópurinn hafi verið bæði hlutfallslega stór og blandaður, kynni einhver að benda á, og með réttu, að sögurnar séu ekki alþýðubókmenntir að því leyti að þær endurspegla ekki með augljósum hætti siði og viðhorf almennings. Sögurnar snúast fyrst og fremst um líf höfðingja og stálpaðra höfðingjabarna, og þó einkum og sér í lagi hreystimanna; hetja og víkinga. Þær endurspegla því í raun hernaðarsamfélag sem ólíklegt er að hafi tilheyrt reynsluheimi fólks, almennt séð, og lítill gaumur er gefinn að bændafólki, vinnuhjúum og almúgabörnum. Sé litið á persónur sagnanna og hlutverk þeirra með þetta í huga, eru fornaldarsögurnar líklega eins langt frá því að vera heimild um líf alþýðufólks á miðöldum og hugsast getur. Það sem skiptir þó líklega meira máli er vitnisburður þeirra um hugarheim fólks. Alþýðan skemmti sér með samskonar hætti og þeir hærra settu, við sögur af hetjum og hábornum höfðingjum, líkt og hún gerir enn – og fjöldi rannsókna á munnlegri hefð og alþýðlegu sagnaefni bendir til að svo hafi verið um langan aldur. Alltaf skal það vera hið óvenjulega sem heillar fólk, sagnaefnið á jaðrinum; þær sögur sem fjalla um hetjur, ævintýri þeirra, villta bardaga og baráttu þeirra við ómennska fjendur. Slíkur er heimur fornaldarsagnanna og um leið er hann um margt opnari fyrir möguleikum þess óvænta og óútskýrða en í öðrum norrænum bókmenntum.

Af fornaldarsögum má ýmislegt læra um mannlegt eðli í víðu samhengi, sem og um samfélagsleg gildi á ritunartíma þeirra, miðöldum. Það breytir því þó ekki að afþreyingargildi þeirra er mikið og hefur átt stóran þátt í vinsældum þeirra í gegnum aldirnar. Þar að auki má fastlega gera ráð fyrir að alþýða manna hafi ekki einungis þekkt til bókmenntanna, heldur einnig efniviðarins í stærra samhengi; þeirra munnmæla sem lágu hinum rituðu sögum að baki – og svo áfram við hlið þeirra eftir að ritun hófst. Þetta er í sjálfu sér augljóst af því einu saman að sögurnar tilheyra ákveðinni sagnahefð og að hver einstök saga hefur orðið til eða mótast í staðbundnu íslensku sagnaumhverfi, þar sem hún féll inn í tiltekið menningar- og bókmenntalegt samhengi.

Myndir:

Höfundur

Aðalheiður Guðmundsdóttir

prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda

Útgáfudagur

14.2.2019

Spyrjandi

Alexandra

Tilvísun

Aðalheiður Guðmundsdóttir. „Hvað einkennir fornaldarsögur?“ Vísindavefurinn, 14. febrúar 2019. Sótt 19. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=77074.

Aðalheiður Guðmundsdóttir. (2019, 14. febrúar). Hvað einkennir fornaldarsögur? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=77074

Aðalheiður Guðmundsdóttir. „Hvað einkennir fornaldarsögur?“ Vísindavefurinn. 14. feb. 2019. Vefsíða. 19. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=77074>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað einkennir fornaldarsögur?
Eitt helsta einkenni fornaldarsagna er tenging þeirra við fortíðina, hina óræðu „fornöld“, sem markast af baklægum efnivið þeirra um leið og hún mótar grundvöll – ásamt öðrum einkennum – að því sem kalla mætti sjálfstæða grein bókmennta eða tegund. Fortíðin er að vísu misfjarlæg og nær allt frá átakatímum evrópskra þjóðflutninga til tíma sem einkennast af útrás norrænna höfðingjasona. Fyrir nútímalesendur er þó mikilvægt að hafa í huga að sú fortíð sem dregin er upp hverju sinni hlýtur fyrst og fremst að endurspegla þær hugmyndir sem Íslendingar fyrr á öldum gerðu sér um menn og málefni enn fjarlægari tíma; fornöldin er því umfram allt óræð. Hið sama er að segja um hugmyndir miðaldamanna til þeirra hetja sem sögurnar fjalla um og hetjudáða þeirra; einnig þær mótast af breytilegum tíðaranda. Þá má ekki heldur gleyma því að hin fjarlæga fortíð getur gefið sagnaþulum og höfundum sagna meira frelsi en ef um nálægari atburði væri að ræða. Í fortíðinni gat allt gerst, og í raun er það eðlilegt að fjarlægir atburðir hafi með tímanum tekið sér form góðra sagna.

Efnislega hefur fornaldarsögum verið skipt í þrennt; hetjusögur, víkinga- eða kappasögur (einnig kempusögur) og ævintýrasögur. Að vísu eru fræðimenn ekki á eitt sáttir um réttmæti slíkrar greiningar – og telja hana jafnvel úrelta – en á móti kemur að skapast hefur ákveðin hefð fyrir því að fjalla um sögurnar út frá þessum gefna breytileika. Þrískiptingin hefur þar að auki hlutverki að gegna í stærra samhengi, eða umræðunni um fornaldarsögur sem bókmenntagrein, en um það má deila hvort sögunum beri að skipa svo afdráttarlaust niður í flokka eða hvort einfalda megi flokkunina, til dæmis með því að steypa víkinga- og ævintýrasögunum saman í eitt, líkt og dæmi eru um.

Málverk af persónum í Örvar-Odds sögu. Málverkið er eftir sænska málarann August Malmström (1829-1901).

Eitt af því sem einkennir fornaldarsögur er hið norðlæga sögusvið og að sama skapi norrænn sagnaheimur. Í mörgum tilfellum koma söguhetjur fram í fleiri en einni sögu (innra samhengi) og að auki ber þeim víða saman við eldri heimildir á borð við ættartölur og önnur forn sagnarit. Annað sem einkennir fornaldarsögur eru sameiginleg minni (mótíf), innlendur sagnastíll og breiður áheyrendahópur. Að jafnaði eiga þær sér stað fyrir landnám Íslands, sem er þó ekki ófrávíkjanleg regla. Fornaldarsögum var flestum hverjum snúið í rímur og með þeim hætti lifðu þær „tvöföldu“ lífi um margra alda skeið og voru vinsælt viðfangsefni skapandi skrifara og skálda. Mikilvægt er að muna að tegundamörk fornaldarsagna geta verið ógreinileg.

Að vissu leyti voru fornaldarsögurnar alþýðlegri en aðrar samtímabókmenntir, enda ber útbreiðsla þeirra í gegnum tíðina vott um almennar vinsældir meðal lærðra og leikra, auk þess sem efnið talar sínu máli og ber að jafnaði með sér að hafa höfðað til ólíkra samfélagshópa, þvert á stéttir og kynslóðir. Þótt kóngar, klerkar og veraldlegir höfðingjar hafi vissulega verið meðal þeirra sem nutu fornaldarsagna, skera þær sig mjög frá þeim lærðu bókmenntum sem samdar voru á sama tíma, bæði kirkjulegum og veraldlegum, og að mörgu leyti liggja þær nálægt munnlegri sagnahefð, þótt lærð hefð, öflug ritmenning og erlendir menningarstraumar séu engu að síður grundvöllur þess að þær urðu til í núverandi mynd.

Þótt ef til vill mætti segja að fornaldarsögur séu „sögur fólksins“ í þeirri merkingu að áheyrendahópurinn hafi verið bæði hlutfallslega stór og blandaður, kynni einhver að benda á, og með réttu, að sögurnar séu ekki alþýðubókmenntir að því leyti að þær endurspegla ekki með augljósum hætti siði og viðhorf almennings. Sögurnar snúast fyrst og fremst um líf höfðingja og stálpaðra höfðingjabarna, og þó einkum og sér í lagi hreystimanna; hetja og víkinga. Þær endurspegla því í raun hernaðarsamfélag sem ólíklegt er að hafi tilheyrt reynsluheimi fólks, almennt séð, og lítill gaumur er gefinn að bændafólki, vinnuhjúum og almúgabörnum. Sé litið á persónur sagnanna og hlutverk þeirra með þetta í huga, eru fornaldarsögurnar líklega eins langt frá því að vera heimild um líf alþýðufólks á miðöldum og hugsast getur. Það sem skiptir þó líklega meira máli er vitnisburður þeirra um hugarheim fólks. Alþýðan skemmti sér með samskonar hætti og þeir hærra settu, við sögur af hetjum og hábornum höfðingjum, líkt og hún gerir enn – og fjöldi rannsókna á munnlegri hefð og alþýðlegu sagnaefni bendir til að svo hafi verið um langan aldur. Alltaf skal það vera hið óvenjulega sem heillar fólk, sagnaefnið á jaðrinum; þær sögur sem fjalla um hetjur, ævintýri þeirra, villta bardaga og baráttu þeirra við ómennska fjendur. Slíkur er heimur fornaldarsagnanna og um leið er hann um margt opnari fyrir möguleikum þess óvænta og óútskýrða en í öðrum norrænum bókmenntum.

Af fornaldarsögum má ýmislegt læra um mannlegt eðli í víðu samhengi, sem og um samfélagsleg gildi á ritunartíma þeirra, miðöldum. Það breytir því þó ekki að afþreyingargildi þeirra er mikið og hefur átt stóran þátt í vinsældum þeirra í gegnum aldirnar. Þar að auki má fastlega gera ráð fyrir að alþýða manna hafi ekki einungis þekkt til bókmenntanna, heldur einnig efniviðarins í stærra samhengi; þeirra munnmæla sem lágu hinum rituðu sögum að baki – og svo áfram við hlið þeirra eftir að ritun hófst. Þetta er í sjálfu sér augljóst af því einu saman að sögurnar tilheyra ákveðinni sagnahefð og að hver einstök saga hefur orðið til eða mótast í staðbundnu íslensku sagnaumhverfi, þar sem hún féll inn í tiltekið menningar- og bókmenntalegt samhengi.

Myndir:

...