Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað merkir Ging gang gúllí gúllí sem skátar syngja oft?

Spurningin hljóðaði upprunalega svona:

Hvað merkir Gingan gúllígúllí, gúllígúllí vass vass?!?

Söngurinn „Ging gang gúllí gúllí“ er ekki á raunverulegu tungumáli og merkir ekki neitt. Hann hefur lengi verið vinsæll í skátahreyfingunni, bæði hérlendis og erlendis, og fram hefur komið kenning um það að stofnandi alþjóðlegu skátahreyfingarinnar, Robert Baden-Powell, hafi samið sönginn fyrir fyrsta alþjóðamót skáta (Jamboree) í Vestur-Kensington 1920.[1] Baden-Powell hafi haft textann á bullmáli svo að allir skátarnir gætu sungið hann, hverrar þjóðar sem þeir væru, en lagið hafi hann byggt á upphafi sinfóníu nr. 1 í Es-dúr eftir Wolfgang Amadeus Mozart, verki sem Mozart samdi þegar hann var aðeins 8 ára gamall.

Fram hefur komið kenning um það að Robert Baden-Powell hafi samið sönginn fyrir fyrsta alþjóðamót skáta árið 1920. Sú kenning stenst ekki. Á myndinn sést Baden-Powell á skátamótinu í Jamboree.

Engar öruggar heimildir eru hins vegar fyrir þessari kenningu, enda er ljóst að hún getur ekki staðist því söngurinn kom fram árið 1905 í nýársrevíunni „Fru Lundins inackorderingar“ í Gautaborg í Svíþjóð. Höfundur revíunnar var Axel Engdahl og í leikskránni birtist textinn og lagið, hvort tveggja mjög svipað því sem við þekkjum. Í revíunni hét söngurinn „The Niggers´ Morning-Song“ og textinn var svohljóðandi:

:Hinkan, kolikolikolikolifejsan.
Kinkan koh, kinkan koh:
:Ava, illa shava,
O illa shava
Kolifejs:
Tjolafalla, tjolafalla![2]

Á ljósmynd í leikskránni má sjá að ein leikkonan sem flutti sönginn var svert í framan svo að hún líktist blökkukonu. Persónan sem hún lék hét Hiaswintha prinsessa og líklegt að söngurinn hafi átt að vera á ímynduðu móðurmáli prinsessunnar.

Söngurinn kom fram árið 1905 í nýársrevíunni „Fru Lundins inackorderingar“ eftir Axel Engdahl. Þar hét hann „The Niggers´ Morning-Song“ og er líklegt að söngurinn hafi átt að vera á ímynduðu móðurmáli Hiaswinthu prinsessu.

Talið er að söngurinn hafi orðið vinsæll hjá skátum á Norðurlöndum og borist þaðan til skáta út um allan heim um miðja 20. öld.[3] Hvað fyrri kenninguna um uppruna söngsins varðar þá er það reyndar rétt að fyrsta hendingin í laginu líkist mjög upphafshendingunni í 1. sinfóníu Mozarts.[4] Ekki er vitað hvort það var með ráðum gert eða tilviljun.

Tilvísanir:
  1. ^ St Margarets. Shally Wally, Shally Wally, Shally Wally etc etc.... (Sótt 13.5.2019).
  2. ^ Libris. Fru Lundins inackorderingar eller den nyaste kinematagrafen: Folkteaterns nyårsrevy 1905. (Sótt 13.5.2019)
  3. ^ Wikipedia. Ging Gang Goolie. (Sótt 13.5.2019).
  4. ^ Wikipedia. Symphony No. 1 (Mozart). (Sótt 14.5.2019).

Mynd:

Útgáfudagur

20.5.2019

Spyrjandi

Örn Ó.

Höfundur

Una Margrét Jónsdóttir

dagskrárgerðarmaður á Rás 1

Tilvísun

Una Margrét Jónsdóttir. „Hvað merkir Ging gang gúllí gúllí sem skátar syngja oft?“ Vísindavefurinn, 20. maí 2019. Sótt 26. janúar 2020. http://visindavefur.is/svar.php?id=77498.

Una Margrét Jónsdóttir. (2019, 20. maí). Hvað merkir Ging gang gúllí gúllí sem skátar syngja oft? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=77498

Una Margrét Jónsdóttir. „Hvað merkir Ging gang gúllí gúllí sem skátar syngja oft?“ Vísindavefurinn. 20. maí. 2019. Vefsíða. 26. jan. 2020. <http://visindavefur.is/svar.php?id=77498>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Guðrún Kvaran

1943

Guðrún Kvaran er málfræðingur og prófessor emeritus. Hún starfaði um áratuga skeið við Orðabók Háskólans og varð forstöðumaður hennar árið 2000. Guðrún hefur skrifað fjölda greina sem birst hafa innanlands og erlendis og flutt fjölmarga fyrirlestra um fræðasvið sín, en viðfangsefnin eru einkum íslenskur orðaforði í sögulegu ljósi, nafnfræði og orðabókafræði.