Sólin Sólin Rís 11:15 • sest 15:30 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:11 • Síðdegis: 17:36 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:33 • Síðdegis: 23:44 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:15 • sest 15:30 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:11 • Síðdegis: 17:36 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:33 • Síðdegis: 23:44 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Vissu fornkappar Njálu hvernig ljón litu út?

Arngrímur Vídalín

Spurningin hljóðaði upphaflega svona:

Í Njálu stendur að Kári Sölmundarson væri með skjöld sem á væri mynd af ljóni. Hvernig átti Kári Sölmundarson að vita hvernig ljón liti út?

Spurt er um eftirfarandi stað í Njálu:

Skarphéðinn var fremstur. Hann var í blám stakki og hafði törguskjöld og öxi sína reidda um öxl. Næst honum gekk Kári. Hann hafði silkitreyju og hjálm gylltan, skjöld og var dreginn á leó.

Spurningin er í raun tvíþætt: Annars vegar hvernig Kári Sölmundarson gat vitað hvernig ljón litu út, og þar með hvaða dýr hann hefði á skildi sínum; hins vegar hvað höfundur Njálu kann að hafa vitað um ljón, þar sem vitneskja okkar um skjöld Kára er alfarið fengin úr Njálu. Til að fá sem fyllsta mynd verður að svara báðum hlutum spurningarinnar.

Þegar Kári Sölmundarson kemur til sögunnar um miðbik Njálu er sagt að hann sé hirðmaður Sigurðar jarls í Orkneyjum, og færir Kári Njálssyni á fund jarlsins eftir að hann hefur veitt þeim liðsinni í orrustu. Þetta atriði eitt og sér kann að vera nægileg skýring þess að Kára áskotnast skjöldur með ljónsmerki á. Ljónið var þekkt táknmynd á Bretlandseyjum sem og í Evrópu. Nokkru eftir sögutíma Njálu verður ljónið að tákni Ríkharðs I. Englandskonungs, sem ríkti frá 1189-1199, og síðar verður ljónið að táknmynd Englands. Frá fornu fari er ljónið sagt vera konungur dýranna og því fer vel á því að konungur velji sér slíka táknmynd. Að öllum líkindum munu fleiri konungar og jarlar hafa tengt sig við ljónið og því ekki ósennilegt að hirðmanni þeirra myndi áskotnast skjöldur með viðlíka merki.

Annað höfuðeinkenni ljónsins sem menn vildu tengja sig við er hugprýði þess og óttaleysi, og því er ljónið iðulega nefnt hið óarga dýr (hið óttalausa dýr) í forníslenskum textum fremur en leó eða ljón. Af hinu fyrstnefnda kemur svo orðið óargadýr sem í nútímamáli merkir hættulegt villidýr. Dvöl Kára á Bretlandseyjum ætti því ein sér að duga honum til að þekkja ljónsmynd á skildi.

Ekki gengur þó að láta sem spurningunni sé svarað með því að benda eitthvert annað, svo enn stendur eftir spurningin sem nú skal svarað: Hvernig gátu Bretar, svo ekki sé minnst á höfund Njálu, vitað hvernig ljón litu út?

Þó að Bretar hefðu auðvitað engu frekar beina vitneskju um útlit ljóna en Íslendingar, þá var í Bretlandi mjög rík hefð fallegra myndskreyttra dýrafræðirita, þar sem goðsagnakennd dýr og raunveruleg dýr eru skrásett í bland og talin jafnraunveruleg: fílar innan um dreka, ljón innan um einhyrninga (sem, af lýsingum að dæma, eru bersýnilega nashyrningar). Þessi hefð nær aftur til gríska dýrafræðiritsins Physiologus (ísl. Náttúrufræðingurinn) sem talið er ritað í Alexandríu á annarri öld eftir Krist. Physiologus, líkt og sú dýrafræði miðalda sem af honum sprettur, lýsir fyrst eiginleikum dýrs en túlkar síðan þessa eiginleika í samræmi við ritninguna.

Monoceros, það er ein-/nashyrningur, úr KB, KA 16, Folio 71r, Flandri um 1350.

Höldum okkur við ljónið sem dæmi. Ljónið er iðulega sagt hafa þrenna náttúru: sjái ljón að því sé veitt eftirför þá þurrkar það út spor sín með rófunni; það sefur ætíð með augun opin; loks fæðast ungar þess dauðir en lifna við á þriðja degi þegar móðirin andar framan í þá eða faðirinn öskrar yfir þeim. Fleiri einkenni mætti telja, svo sem að ljónið ræðst ekki á varnarlausan mann og að það drepur aðeins sakir hungurs. Kristilega útlegging þessara eiginleika er á þá leið að ljónið feli slóð sína á sama hátt og Kristur duldi guðlega náttúru sína öllum nema fylgjendum sínum; að þegar ljónið sofi með augun opin líki það eftir Kristi, líkamlega dauðum eftir krossfestinguna en andlega lifandi sakir guðlegrar náttúru sinnar; að ljónið endurlífgi unga sína líkt og Guð vakti Krist á þriðja degi í grafhýsi sínu. Aðrir eiginleikar ljónsins, svo sem að það ræðst ekki á varnarlausan mann og annað í þeim dúr, táknar það hvernig fólki sé best að lifa: að láta ekki reiðast auðveldlega og vera fljótt til fyrirgefningar. Allt eru þetta dyggðir sem sæma konungum, og höfuðlíkingin er auðvitað við hinn almesta konung Jesú Krist.

Ljónið sefur með augun opin. Úr Bibliothèque Nationale de France, fr. 1951, fol. 32r, frá 13.-14. öld.

Talið er að dýrafræðihefðin hafi borist til Íslands frá Englandi og það mun hafa gerst eigi síðar en á 11. öld, því tvö handritsbrot af íslenskum Physiologus eru varðveitt frá aldamótunum 1200. Minna má á að elstu varðveitt Njáluhandrit eru frá um 1300 og sagan sjálf ekki talin mikið eldri. Það er því ekki ómögulegt að höfundur Njálu hafi kannast við Physiologus, þó að það sé alls engin forsenda þess að ljónið hafi verið honum kunnugt. Því miður er kaflinn um ljónið ekki varðveittur, en orðmyndin leo birtist í samlíkingu aftan við kaflann um asnann og þar með er mynd af ljónynju sem fer allnokkuð nærri veruleikanum.

Ljónynja í íslenskum Physiologus, AM 673 a II 4to, fol. 1v, frá um 1200.

Rétt er þó að geta þess að stundum eru myndlýsingar dýrafræðirita miðalda næsta fáránlegar og má til gamans nefna að fíllinn í íslenskum Physiologus er alls ekkert eins og fíll á myndinni heldur líkari mauraætu, svo ljóst er að hver sem fyrirmynd þeirrar myndlýsingar er þá hafi sú fyrirmynd ekki byggst á sjónrænu vitni að dýrinu. Fílar koma sjaldan fyrir í forníslenskum textum og er þá jafnan lýst sem miklum furðuverum, til að mynda í Yngvars sögu víðförla þar sem söguhetjurnar ná valdi á stríðsfíl en kunna ekki að fóðra hann, svo þeir í ráðaleysi sínu leggja hann spjótum til bana. Aldrei er dýrið nefnt á nafn en lærður lesandi mun sannarlega hafa kunnað á því deili.

„Elephans heitir dýr á látínu en á óra tungu fíll. Þat er haft í orrustum á útlǫndum.“ Úr íslenskum Physiologus, AM 673 a II 4to, fol. 7r, frá um 1200.

Ljón koma hins vegar víða fyrir í forníslenskum textum og eiginleikar þeirra virðast hafa verið sæmilega vel þekktir, en athygli vekur þó að sagnaritarar eru ekki gjarnir á að lýsa þeim útlitslega. Þó þarf það ekki að merkja að útlit ljónsins hafi verið mönnum framandi, altént í grófum dráttum, enda væri það með ólíkindum að svo þekkt táknmynd og svo algengt skjaldarmerki hefði ekki þekkst á Íslandi.

Og þar með bítur seinni liður svarsins í halann á þeim fyrri. Ef til vill á ljónið á skildi Kára að segja viðtakendum sögunnar eitthvað um Kára sjálfan, hina óttalausu hetju síðari hluta Njálu sem sjálfur birtist í sögunni eins og framandi vera frá útlöndum. Og þá má að líkum leiða að hinn almenni viðtakandi sögunnar muni hafa þekkt nokkuð til hins óarga dýrs og þess ýmsu göfugu merkingarauka. Svarið er þá að ljónið hafi þegar verið slík stærð í menningarheimi Norður-Evrópu að útlit þess, eiginleikar og táknræn merking þess hafi talist til almennrar vitneskju, í það minnsta meðal höfðingjastéttarinnar, um það leyti sem Njála er færð í letur. Það að leó á skildi Kára þurfi ekki frekari skýringar við í textanum er sterk vísbending um það.

Heimildir:
  • AM 673 a II 4to, Handrit.is, vefslóð: https://handrit.is/en/manuscript/view/is/AM04-0673a-II.
  • Barber, Richard (útg.), Bestiary: being an English version of the Bodleian Library, Oxford M.S. Bodley 764 with all the original miniatures reproduced in facsimile (Lundúnum: Folio Society, 1992).
  • Corazza, Vittoria Dolcetti, „Crossing Paths in the Middle Ages: the Physiologus in Iceland,“ The Garden of Crossing Paths: The Manipulation and Rewriting of Medieval Texts. Ritstj. Marina Buzzoni o.fl. (Feneyjum: Libreria Cafoscarina, 2005), bls. 225-48.
  • Halldór Hermannsson (útg.), The Icelandic Physiologus (Íþöku, NY: Cornell University Press, 1938).
  • The Medieval Bestiary, vefslóð: http://bestiary.ca.
  • Vésteinn Ólason, „Hver skrifaði Njálu og hvenær var hún skrifuð?“. Vísindavefurinn, 4. ágúst 2000. Sótt 4. júní 2019. http://visindavefur.is/svar.php?id=731.

Höfundur

Arngrímur Vídalín

doktor í íslenskum bókmenntum frá HÍ

Útgáfudagur

13.6.2019

Spyrjandi

Ketill Axelsson

Tilvísun

Arngrímur Vídalín. „Vissu fornkappar Njálu hvernig ljón litu út?“ Vísindavefurinn, 13. júní 2019, sótt 14. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=77650.

Arngrímur Vídalín. (2019, 13. júní). Vissu fornkappar Njálu hvernig ljón litu út? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=77650

Arngrímur Vídalín. „Vissu fornkappar Njálu hvernig ljón litu út?“ Vísindavefurinn. 13. jún. 2019. Vefsíða. 14. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=77650>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Vissu fornkappar Njálu hvernig ljón litu út?
Spurningin hljóðaði upphaflega svona:

Í Njálu stendur að Kári Sölmundarson væri með skjöld sem á væri mynd af ljóni. Hvernig átti Kári Sölmundarson að vita hvernig ljón liti út?

Spurt er um eftirfarandi stað í Njálu:

Skarphéðinn var fremstur. Hann var í blám stakki og hafði törguskjöld og öxi sína reidda um öxl. Næst honum gekk Kári. Hann hafði silkitreyju og hjálm gylltan, skjöld og var dreginn á leó.

Spurningin er í raun tvíþætt: Annars vegar hvernig Kári Sölmundarson gat vitað hvernig ljón litu út, og þar með hvaða dýr hann hefði á skildi sínum; hins vegar hvað höfundur Njálu kann að hafa vitað um ljón, þar sem vitneskja okkar um skjöld Kára er alfarið fengin úr Njálu. Til að fá sem fyllsta mynd verður að svara báðum hlutum spurningarinnar.

Þegar Kári Sölmundarson kemur til sögunnar um miðbik Njálu er sagt að hann sé hirðmaður Sigurðar jarls í Orkneyjum, og færir Kári Njálssyni á fund jarlsins eftir að hann hefur veitt þeim liðsinni í orrustu. Þetta atriði eitt og sér kann að vera nægileg skýring þess að Kára áskotnast skjöldur með ljónsmerki á. Ljónið var þekkt táknmynd á Bretlandseyjum sem og í Evrópu. Nokkru eftir sögutíma Njálu verður ljónið að tákni Ríkharðs I. Englandskonungs, sem ríkti frá 1189-1199, og síðar verður ljónið að táknmynd Englands. Frá fornu fari er ljónið sagt vera konungur dýranna og því fer vel á því að konungur velji sér slíka táknmynd. Að öllum líkindum munu fleiri konungar og jarlar hafa tengt sig við ljónið og því ekki ósennilegt að hirðmanni þeirra myndi áskotnast skjöldur með viðlíka merki.

Annað höfuðeinkenni ljónsins sem menn vildu tengja sig við er hugprýði þess og óttaleysi, og því er ljónið iðulega nefnt hið óarga dýr (hið óttalausa dýr) í forníslenskum textum fremur en leó eða ljón. Af hinu fyrstnefnda kemur svo orðið óargadýr sem í nútímamáli merkir hættulegt villidýr. Dvöl Kára á Bretlandseyjum ætti því ein sér að duga honum til að þekkja ljónsmynd á skildi.

Ekki gengur þó að láta sem spurningunni sé svarað með því að benda eitthvert annað, svo enn stendur eftir spurningin sem nú skal svarað: Hvernig gátu Bretar, svo ekki sé minnst á höfund Njálu, vitað hvernig ljón litu út?

Þó að Bretar hefðu auðvitað engu frekar beina vitneskju um útlit ljóna en Íslendingar, þá var í Bretlandi mjög rík hefð fallegra myndskreyttra dýrafræðirita, þar sem goðsagnakennd dýr og raunveruleg dýr eru skrásett í bland og talin jafnraunveruleg: fílar innan um dreka, ljón innan um einhyrninga (sem, af lýsingum að dæma, eru bersýnilega nashyrningar). Þessi hefð nær aftur til gríska dýrafræðiritsins Physiologus (ísl. Náttúrufræðingurinn) sem talið er ritað í Alexandríu á annarri öld eftir Krist. Physiologus, líkt og sú dýrafræði miðalda sem af honum sprettur, lýsir fyrst eiginleikum dýrs en túlkar síðan þessa eiginleika í samræmi við ritninguna.

Monoceros, það er ein-/nashyrningur, úr KB, KA 16, Folio 71r, Flandri um 1350.

Höldum okkur við ljónið sem dæmi. Ljónið er iðulega sagt hafa þrenna náttúru: sjái ljón að því sé veitt eftirför þá þurrkar það út spor sín með rófunni; það sefur ætíð með augun opin; loks fæðast ungar þess dauðir en lifna við á þriðja degi þegar móðirin andar framan í þá eða faðirinn öskrar yfir þeim. Fleiri einkenni mætti telja, svo sem að ljónið ræðst ekki á varnarlausan mann og að það drepur aðeins sakir hungurs. Kristilega útlegging þessara eiginleika er á þá leið að ljónið feli slóð sína á sama hátt og Kristur duldi guðlega náttúru sína öllum nema fylgjendum sínum; að þegar ljónið sofi með augun opin líki það eftir Kristi, líkamlega dauðum eftir krossfestinguna en andlega lifandi sakir guðlegrar náttúru sinnar; að ljónið endurlífgi unga sína líkt og Guð vakti Krist á þriðja degi í grafhýsi sínu. Aðrir eiginleikar ljónsins, svo sem að það ræðst ekki á varnarlausan mann og annað í þeim dúr, táknar það hvernig fólki sé best að lifa: að láta ekki reiðast auðveldlega og vera fljótt til fyrirgefningar. Allt eru þetta dyggðir sem sæma konungum, og höfuðlíkingin er auðvitað við hinn almesta konung Jesú Krist.

Ljónið sefur með augun opin. Úr Bibliothèque Nationale de France, fr. 1951, fol. 32r, frá 13.-14. öld.

Talið er að dýrafræðihefðin hafi borist til Íslands frá Englandi og það mun hafa gerst eigi síðar en á 11. öld, því tvö handritsbrot af íslenskum Physiologus eru varðveitt frá aldamótunum 1200. Minna má á að elstu varðveitt Njáluhandrit eru frá um 1300 og sagan sjálf ekki talin mikið eldri. Það er því ekki ómögulegt að höfundur Njálu hafi kannast við Physiologus, þó að það sé alls engin forsenda þess að ljónið hafi verið honum kunnugt. Því miður er kaflinn um ljónið ekki varðveittur, en orðmyndin leo birtist í samlíkingu aftan við kaflann um asnann og þar með er mynd af ljónynju sem fer allnokkuð nærri veruleikanum.

Ljónynja í íslenskum Physiologus, AM 673 a II 4to, fol. 1v, frá um 1200.

Rétt er þó að geta þess að stundum eru myndlýsingar dýrafræðirita miðalda næsta fáránlegar og má til gamans nefna að fíllinn í íslenskum Physiologus er alls ekkert eins og fíll á myndinni heldur líkari mauraætu, svo ljóst er að hver sem fyrirmynd þeirrar myndlýsingar er þá hafi sú fyrirmynd ekki byggst á sjónrænu vitni að dýrinu. Fílar koma sjaldan fyrir í forníslenskum textum og er þá jafnan lýst sem miklum furðuverum, til að mynda í Yngvars sögu víðförla þar sem söguhetjurnar ná valdi á stríðsfíl en kunna ekki að fóðra hann, svo þeir í ráðaleysi sínu leggja hann spjótum til bana. Aldrei er dýrið nefnt á nafn en lærður lesandi mun sannarlega hafa kunnað á því deili.

„Elephans heitir dýr á látínu en á óra tungu fíll. Þat er haft í orrustum á útlǫndum.“ Úr íslenskum Physiologus, AM 673 a II 4to, fol. 7r, frá um 1200.

Ljón koma hins vegar víða fyrir í forníslenskum textum og eiginleikar þeirra virðast hafa verið sæmilega vel þekktir, en athygli vekur þó að sagnaritarar eru ekki gjarnir á að lýsa þeim útlitslega. Þó þarf það ekki að merkja að útlit ljónsins hafi verið mönnum framandi, altént í grófum dráttum, enda væri það með ólíkindum að svo þekkt táknmynd og svo algengt skjaldarmerki hefði ekki þekkst á Íslandi.

Og þar með bítur seinni liður svarsins í halann á þeim fyrri. Ef til vill á ljónið á skildi Kára að segja viðtakendum sögunnar eitthvað um Kára sjálfan, hina óttalausu hetju síðari hluta Njálu sem sjálfur birtist í sögunni eins og framandi vera frá útlöndum. Og þá má að líkum leiða að hinn almenni viðtakandi sögunnar muni hafa þekkt nokkuð til hins óarga dýrs og þess ýmsu göfugu merkingarauka. Svarið er þá að ljónið hafi þegar verið slík stærð í menningarheimi Norður-Evrópu að útlit þess, eiginleikar og táknræn merking þess hafi talist til almennrar vitneskju, í það minnsta meðal höfðingjastéttarinnar, um það leyti sem Njála er færð í letur. Það að leó á skildi Kára þurfi ekki frekari skýringar við í textanum er sterk vísbending um það.

Heimildir:
  • AM 673 a II 4to, Handrit.is, vefslóð: https://handrit.is/en/manuscript/view/is/AM04-0673a-II.
  • Barber, Richard (útg.), Bestiary: being an English version of the Bodleian Library, Oxford M.S. Bodley 764 with all the original miniatures reproduced in facsimile (Lundúnum: Folio Society, 1992).
  • Corazza, Vittoria Dolcetti, „Crossing Paths in the Middle Ages: the Physiologus in Iceland,“ The Garden of Crossing Paths: The Manipulation and Rewriting of Medieval Texts. Ritstj. Marina Buzzoni o.fl. (Feneyjum: Libreria Cafoscarina, 2005), bls. 225-48.
  • Halldór Hermannsson (útg.), The Icelandic Physiologus (Íþöku, NY: Cornell University Press, 1938).
  • The Medieval Bestiary, vefslóð: http://bestiary.ca.
  • Vésteinn Ólason, „Hver skrifaði Njálu og hvenær var hún skrifuð?“. Vísindavefurinn, 4. ágúst 2000. Sótt 4. júní 2019. http://visindavefur.is/svar.php?id=731.

...