Sólin Sólin Rís 11:02 • sest 15:37 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:37 • Sest 23:27 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:30 • Síðdegis: 23:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:04 • Síðdegis: 17:00 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:02 • sest 15:37 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:37 • Sest 23:27 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:30 • Síðdegis: 23:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:04 • Síðdegis: 17:00 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju er veðrið í Skandinavíu öðruvísi en á Íslandi?

Trausti Jónsson

Upprunalega spurningin var:
Af hverju er mildara veður á Íslandi heldur en í Skandinavíu þrátt fyrir að vera bæði undir áhrifum Golfstraumsins?

Í þröngri merkingu nær hugtakið „Skandinavía“ aðeins til Noregs og Svíþjóðar, hér að neðan er rýmri merking notuð, látin ná til „Norðurlanda“ án Íslands, Færeyja og Grænlands.

Því er fyrst til að svara að veður er víðast hvar mildara á þéttbýlum svæðum Skandinavíu heldur en hér á landi. Aftur á móti ríkir þar sums staðar meginlandsloftslag, munur á hita á vetrum og sumrum er meiri en hér á landi, sums staðar mun meiri. Á Íslandi ríkir úthafsloftslag, munur á meðalhita kaldasta og hlýjasta mánaðar er aðeins 8 til 13 stig víðast hvar. Mestur munur er í innsveitum á Norðausturlandi, meiri en 14 stig við Mývatn og á Grímsstöðum á Fjöllum, en minnstur innan við 8 stig á Dalatanga og Kambanesi. Í Reykjavík var munur á meðalhita hlýjasta og kaldasta mánaðar ársins 11 stig á árunum 1961 til 1990 (og sá sami 1991 til 2020).

Í þröngri merkingu nær hugtakið „Skandinavía“ aðeins til Noregs og Svíþjóðar, í svarinu er rýmri merking notuð, látin ná til „Norðurlanda“ án Íslands, Færeyja og Grænlands.

Í Osló er munur á meðalhita hlýjasta og kaldasta mánaðar hins vegar tæpt 21 stig, um 20 stig í Stokkhólmi, 24 stig í Helsinki og 17 stig tæp í Kaupmannahöfn [sjá töflu]. Vetrarhiti í Kaupmannahöfn er svipaður og í Reykjavík, ekki fjarri frostmarki á árunum 1961 til 1990 (hlýrra þó í Kaupmannahöfn í mars), en talsvert kaldara er í hinum borgunum þremur á vetrum heldur en í Reykjavík. Meðalhiti í janúar er -7 stig í Helsinki (1961 til 1990), en -3 í Stokkhólmi. Í öllum borgunum er hins vegar mun hlýrra á sumrin heldur en hér á landi (16 til 17 stig í borgunum fjórum í júlí, en ekki nema 11 í Reykjavík) og það svo að meðalhiti ársins í bæði Osló og Helsinki er svipaður og í Reykjavík, en hærri en hér bæði í Stokkhólmi og Kaupmannahöfn.

Staður Spönn °C Kaldast Hlýjast
Helsinki-Vantaa23,5janúarjúlí
Osló-Blinern20,7janúarjúlí
Stokkhólmur20,2febrúarjúlí
Kaupmannah.-Kastrup16,5febrúarjúlí
Reykjavík11,1janúarjúlí
Ársspönn (mismunur meðalhita hlýjasta og kaldasta mánaðar) í höfuðborgum Norðurlanda. Hún er mest í Helsinki, en langminnst í Reykjavík. Tölurnar eiga við meðaltalstímabilið 1961 til 1990.

Á öllu þessu svæði (Íslandi og Skandinavíu) er þó mun hlýrra á vetrum heldur en að meðaltali á þessu breiddarstigi jarðar. Ástæður þess að svæðið er svona vetrarhlýtt miðað við önnur svæði eru ekki alveg einfaldar, en í grunninn þó lega úthafa og meginlanda. Vegna snúnings jarðar eru vestlægar áttir ríkjandi í háloftum. Fjallgarðar vestanverðrar Norður-Ameríku og straumakerfi Atlantshafs snúa áttinni lítillega suður fyrir vestur þannig að loft af suðrænum uppruna á greiða leið norðaustur um hafið og inn á land í norðanverðri Evrópu. Norður-Atlantshafsstraumurinn („Golfstraumur“) ber einnig varma inn á svæðið úr suðri. Að sumarlagi eru áhrif fjallgarða minni (háloftavindar vægari) og Atlantshafið svalt miðað við meginlöndin, Ameríku og Evrópu.

Meðalhiti í janúar, júlí og árið allt hringinn í kringum pólinn, á 59 til 66 gráðum norðlægrar breiddar. Í janúar (bláir punktar og ferill) er meðalhiti á þessu breiddarbili um -15 til -18 stig, en á láglendi á Íslandi um frostmark. Enn hlýrra er á fáeinum stöðum við vesturströnd Noregs, en kaldara austan Skandinavíufjallgarðsins. Mjög kólnar eftir því sem austar dregur í Rússlandi og Síberíu, en mildast heldur aftur þegar næst kemur Kyrrahafinu og á nokkrum stöðvum í Alaska fer hiti upp fyrir meðaltal breiddarstigsins. Aftur á móti er mjög kalt austan Klettafjalla í Kanada, þó ekki eins kalt og í Síberíu. Í júlí (rauður ferill) er meðalhiti aftur á móti 13 til 15 stig á þessu breiddarbili. Heldur kaldara er á Íslandi og enn kaldara á Baffinlandi. Hlýtt er þá á þessu breiddarstigi í Síberíu og munar meir en 50 stigum á meðalhita janúar og júlí þar sem mest er.

Ísland er ekki stórt land og hvergi mjög langt til sjávar. Loft kemst ekki til landsins án þess að hafa farið langa leið yfir sjó. Þessu er öðru vísi farið á meginlandinu. Á vetrum eru austlægar áttir þar mjög kaldar. Hinn mikli fjallgarður Skandinavíu stíflar alloft aðsókn sjávarlofts úr vestri – og landið sjálft, gróður þess og skógar draga úr vindraða og torvelda vestanáttinni að hreinsa kalt meginlandsloftið burt af svæðinu leggist það yfir á annað borð.

Að sumarlagi er vestanáttin fremur svöl í Skandinavíu, austlægar og suðlægar áttir hins vegar mjög hlýjar, færa með sér loft sem hefur hlýnað yfir sólheitu meginlandi Evrópu og Asíu. Þó sjórinn kringum Ísland hlýni þó nokkuð á löngum sólardögum að vor- og sumarlagi er hann samt mun tregari til heldur en meginlandið. Hluti sólarvarmans fer til dæmis í mjög orkufreka uppgufun. Hafið er því til þess að gera kalt á sumrin miðað við meginlöndin, öfugt við það sem er á vetrum. Loft sem hingað kemur þarf sem fyrr að blása yfir sjó, loft sem leggur af stað mjög hlýtt frá Evrópu kólnar mjög í neðstu lögum á leið sinni hingað og mjög hlýir sumardagar eru því mjög fáir. Í Skandinavíu er þessu öðru vísi varið. Sjór undan landi er þar allnokkru hlýrri heldur en við Ísland og nálægð við suðlæg lönd miklu meiri. Mjög hlýir sumardagar eru því fleiri þar heldur en hér á landi.

Myndir:
  • Kort: Google map. Merkingar settar inn af ritstjórn Vísindavefsins. (Sótt 3.6.2020).
  • Graf: Trausti Jónsson.

Höfundur

Trausti Jónsson

veðurfræðingur

Útgáfudagur

18.6.2020

Spyrjandi

Viktor Kolbeinn Sigurðarson

Tilvísun

Trausti Jónsson. „Af hverju er veðrið í Skandinavíu öðruvísi en á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 18. júní 2020, sótt 7. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=77783.

Trausti Jónsson. (2020, 18. júní). Af hverju er veðrið í Skandinavíu öðruvísi en á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=77783

Trausti Jónsson. „Af hverju er veðrið í Skandinavíu öðruvísi en á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 18. jún. 2020. Vefsíða. 7. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=77783>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju er veðrið í Skandinavíu öðruvísi en á Íslandi?
Upprunalega spurningin var:

Af hverju er mildara veður á Íslandi heldur en í Skandinavíu þrátt fyrir að vera bæði undir áhrifum Golfstraumsins?

Í þröngri merkingu nær hugtakið „Skandinavía“ aðeins til Noregs og Svíþjóðar, hér að neðan er rýmri merking notuð, látin ná til „Norðurlanda“ án Íslands, Færeyja og Grænlands.

Því er fyrst til að svara að veður er víðast hvar mildara á þéttbýlum svæðum Skandinavíu heldur en hér á landi. Aftur á móti ríkir þar sums staðar meginlandsloftslag, munur á hita á vetrum og sumrum er meiri en hér á landi, sums staðar mun meiri. Á Íslandi ríkir úthafsloftslag, munur á meðalhita kaldasta og hlýjasta mánaðar er aðeins 8 til 13 stig víðast hvar. Mestur munur er í innsveitum á Norðausturlandi, meiri en 14 stig við Mývatn og á Grímsstöðum á Fjöllum, en minnstur innan við 8 stig á Dalatanga og Kambanesi. Í Reykjavík var munur á meðalhita hlýjasta og kaldasta mánaðar ársins 11 stig á árunum 1961 til 1990 (og sá sami 1991 til 2020).

Í þröngri merkingu nær hugtakið „Skandinavía“ aðeins til Noregs og Svíþjóðar, í svarinu er rýmri merking notuð, látin ná til „Norðurlanda“ án Íslands, Færeyja og Grænlands.

Í Osló er munur á meðalhita hlýjasta og kaldasta mánaðar hins vegar tæpt 21 stig, um 20 stig í Stokkhólmi, 24 stig í Helsinki og 17 stig tæp í Kaupmannahöfn [sjá töflu]. Vetrarhiti í Kaupmannahöfn er svipaður og í Reykjavík, ekki fjarri frostmarki á árunum 1961 til 1990 (hlýrra þó í Kaupmannahöfn í mars), en talsvert kaldara er í hinum borgunum þremur á vetrum heldur en í Reykjavík. Meðalhiti í janúar er -7 stig í Helsinki (1961 til 1990), en -3 í Stokkhólmi. Í öllum borgunum er hins vegar mun hlýrra á sumrin heldur en hér á landi (16 til 17 stig í borgunum fjórum í júlí, en ekki nema 11 í Reykjavík) og það svo að meðalhiti ársins í bæði Osló og Helsinki er svipaður og í Reykjavík, en hærri en hér bæði í Stokkhólmi og Kaupmannahöfn.

Staður Spönn °C Kaldast Hlýjast
Helsinki-Vantaa23,5janúarjúlí
Osló-Blinern20,7janúarjúlí
Stokkhólmur20,2febrúarjúlí
Kaupmannah.-Kastrup16,5febrúarjúlí
Reykjavík11,1janúarjúlí
Ársspönn (mismunur meðalhita hlýjasta og kaldasta mánaðar) í höfuðborgum Norðurlanda. Hún er mest í Helsinki, en langminnst í Reykjavík. Tölurnar eiga við meðaltalstímabilið 1961 til 1990.

Á öllu þessu svæði (Íslandi og Skandinavíu) er þó mun hlýrra á vetrum heldur en að meðaltali á þessu breiddarstigi jarðar. Ástæður þess að svæðið er svona vetrarhlýtt miðað við önnur svæði eru ekki alveg einfaldar, en í grunninn þó lega úthafa og meginlanda. Vegna snúnings jarðar eru vestlægar áttir ríkjandi í háloftum. Fjallgarðar vestanverðrar Norður-Ameríku og straumakerfi Atlantshafs snúa áttinni lítillega suður fyrir vestur þannig að loft af suðrænum uppruna á greiða leið norðaustur um hafið og inn á land í norðanverðri Evrópu. Norður-Atlantshafsstraumurinn („Golfstraumur“) ber einnig varma inn á svæðið úr suðri. Að sumarlagi eru áhrif fjallgarða minni (háloftavindar vægari) og Atlantshafið svalt miðað við meginlöndin, Ameríku og Evrópu.

Meðalhiti í janúar, júlí og árið allt hringinn í kringum pólinn, á 59 til 66 gráðum norðlægrar breiddar. Í janúar (bláir punktar og ferill) er meðalhiti á þessu breiddarbili um -15 til -18 stig, en á láglendi á Íslandi um frostmark. Enn hlýrra er á fáeinum stöðum við vesturströnd Noregs, en kaldara austan Skandinavíufjallgarðsins. Mjög kólnar eftir því sem austar dregur í Rússlandi og Síberíu, en mildast heldur aftur þegar næst kemur Kyrrahafinu og á nokkrum stöðvum í Alaska fer hiti upp fyrir meðaltal breiddarstigsins. Aftur á móti er mjög kalt austan Klettafjalla í Kanada, þó ekki eins kalt og í Síberíu. Í júlí (rauður ferill) er meðalhiti aftur á móti 13 til 15 stig á þessu breiddarbili. Heldur kaldara er á Íslandi og enn kaldara á Baffinlandi. Hlýtt er þá á þessu breiddarstigi í Síberíu og munar meir en 50 stigum á meðalhita janúar og júlí þar sem mest er.

Ísland er ekki stórt land og hvergi mjög langt til sjávar. Loft kemst ekki til landsins án þess að hafa farið langa leið yfir sjó. Þessu er öðru vísi farið á meginlandinu. Á vetrum eru austlægar áttir þar mjög kaldar. Hinn mikli fjallgarður Skandinavíu stíflar alloft aðsókn sjávarlofts úr vestri – og landið sjálft, gróður þess og skógar draga úr vindraða og torvelda vestanáttinni að hreinsa kalt meginlandsloftið burt af svæðinu leggist það yfir á annað borð.

Að sumarlagi er vestanáttin fremur svöl í Skandinavíu, austlægar og suðlægar áttir hins vegar mjög hlýjar, færa með sér loft sem hefur hlýnað yfir sólheitu meginlandi Evrópu og Asíu. Þó sjórinn kringum Ísland hlýni þó nokkuð á löngum sólardögum að vor- og sumarlagi er hann samt mun tregari til heldur en meginlandið. Hluti sólarvarmans fer til dæmis í mjög orkufreka uppgufun. Hafið er því til þess að gera kalt á sumrin miðað við meginlöndin, öfugt við það sem er á vetrum. Loft sem hingað kemur þarf sem fyrr að blása yfir sjó, loft sem leggur af stað mjög hlýtt frá Evrópu kólnar mjög í neðstu lögum á leið sinni hingað og mjög hlýir sumardagar eru því mjög fáir. Í Skandinavíu er þessu öðru vísi varið. Sjór undan landi er þar allnokkru hlýrri heldur en við Ísland og nálægð við suðlæg lönd miklu meiri. Mjög hlýir sumardagar eru því fleiri þar heldur en hér á landi.

Myndir:
  • Kort: Google map. Merkingar settar inn af ritstjórn Vísindavefsins. (Sótt 3.6.2020).
  • Graf: Trausti Jónsson.

...