Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Hvað getið þið sagt mér um pílagrímsför múslima?

Hilmar Árni Halldórsson og Steinunn Hákonardóttir

Íslamstrú kveður á um það að til að teljast skyldurækinn múslimi þurfi að fara eftir fimm kjarnareglum. Þessar fimm reglur eru einnig nefndar fimm stoðir íslam. Þær eru eftirfarandi:
  1. Shahadah, sem er trúarjátning múslima.
  2. Salat, bænirnar sem múslimar fara með fimm sinnum á dag.
  3. Zakat, skylda múslima til að gefa hluta af tekjum sínum til þeirra sem minna mega sín.
  4. Sawm, kveður á um föstu í Ramadan-mánuði.
  5. Hajj, sjálf pílagrímsferðin.

Samkvæmt Kóraninum ber öllum aflögufærum múslimum skylda til að ferðast til borgarinnar Mekka í Sádi-Arabíu að minnsta kosti einu sinni á lífsleiðinni í svokallaðri pílagrímsferð, svo fremi sem þeir eru færir um það með tilliti til heilsu og fjárhags. Þangað fari þeir sem eru reiðubúnir að framfylgja skyldum sínum sem múslimar samkvæmt orði Guðs. Meira en tvær milljónir múslima fara í þessa pílagrímsferð árlega og stendur förin yfir í fimm daga.

Teikning af borginni Mekka í Sádi-Arabíu eins og hún leit út árið 1845. Í miðju hennar má sjá heilögu bygginguna Ka’bah.

Af hverju Mekka?

Mekka er borgin þar sem íslam á að hafa orðið til. Það var fæðingarstaður Múhameðs spámanns (580 - 632 e.kr.) og það var einnig þar sem hann er sagður hafa fengið sín fyrstu skilaboð frá Allah (Guði) sem síðar varð að helgiriti múslima, Kóraninum. Allir múslimar sem biðja í sínu daglega lífi, gera það í átt að Mekka, nánar tiltekið til Ka’bah sem er heilög bygging talin vera byggð af Ibrahim (Abraham) og er staðsett í hjarta borgarinnar. Næsthelgasta borg múslima er borgin Medína sem er einnig í Sádi-Arabíu. Medína er einnig hluti af pílagrímsferð margra múslima, en í þeirri borg er hægt að finna gröf Múhammeðs spámanns.

Borgin Mekka er einn allra heilagasti staður múslima og er þar af leiðandi mjög eftirsóttur ferðamannastaður af múslimum víðsvegar um heim allan. Vegna þessa er óheimilt fyrir aðra en múslima að ferðast til Mekka, en til að fylgja þeirri reglu eftir er mjög strangt landamæraeftirlit við borgarmörkin. Múslimar sem halda til Mekka geta átt von á því að þurfa að sanna trú sína hjá landamæraeftirlitinu, en til þess þurfa þeir að hafa meðferðis skriflega staðfestingu á því að þeir séu í raun og veru iðkandi múslimar og þá staðfestingu fá þeir frá bænahofi sínu (mosku) í viðkomandi landi. Ef ekki er unnt að sýna fram á slíkt má búast við því að viðkomandi verði synjað um leyfi og verði þar af leiðandi óheimilt að fara yfir borgarmörkin.

Margir múslimar leggja mikið á sig, bæði fjárhagslega og andlega til að ferðast til Mekka. Sá sem hefur lokið pílagrímsför sinni, fær viðurnefnið hají, og verður mjög virtur meðal múslima í sínu samfélagi. Þeir pílagrímsfarar sem heimsækja borgirnar Mekka og Medínu utan hins formlega pílagrímsmánaðar, Dhul Hijjah, sækja þá ekki Hajj heldur kallast pílagrímsför þeirra Umrah. Þessa pílagrímsför er hægt að fara allt árið, en Umrah þykir af sumum „síðri“ pílagrímsför þar sem múslimar eru ekki skyldugir til að fara hana. Ólíkt Hajj er hægt að ljúka Umrah af á nokkrum klukkutímum, en Hajj tekur að meðaltali um 3 daga. Engu að síður eru báðar pílagrímsferðirnar viðurkenndar af íslam sem táknræn undirgefni frammi fyrir Allah.

Ka’bah

Múslimar trúa því að Allah hafi sagt Ibrahim að senda konu sína Hajira og son sinn Is’mail til Arabíu frá Palestínu til að forðast öfundsýki fyrri konu Ibrahim, Söru. Þau lögðu af stað í þennan leiðangur með litlar vistir brátt voru á þrotum. Í örvæntingu sinni hljóp Hajira fram og til baka milli tveggja hæða, Safa og Marwa, í leit að hjálp. Að lokum féll hún niður við fætur sonar síns og bað Allah um hjálp. Is’mail á þá að hafa sparkað í jörðina með þeim afleiðingum að vatn streymdi upp úr jörðinni og þeim var borgið. Þegar Ibrahim hitti þau á ný sagði Allah honum að byggja helgiskrín tileinkað sér. Ibrahim og Is’mail byggðu þá Ka’bah sem átti að vera staður fyrir alla þá sem vildu styrkja trú sína og tilbiðja Allah. Nokkrar aldir liðu og Mekka stækkaði. Með tíð og tíma tók fólk að þróa með sér trúarbrögð sín og voru margir sem trúðu þá á marga guði og var Ka’bah meðal annars nýtt til að geyma hin ýmsu trúarleg skurðgoð. Mörgum árum síðar var síðan komið að Múhammeð spámanni að framfylgja skipun Allah um að Ka’bah ætti að vera tileinkað aðeins einum guði og það væri Allah. Síðan þá hafa múslimar snúið sér í átt að Ka’bah í Mekka þegar þeir biðja.

Hvað á sér stað í þessari pílagrímsferð?

Einu sinni á ári, í síðasta mánuði múslima sem nefnist Dhul Hijjah, koma múslimar hvaðanæva í heiminum saman í borginni Mekka til að framfylgja trúarlegum skyldum sínum og dýpka trú sína. Þessi ferð þeirra getur tekið á bæði fjárhagslega sem og líkamlega. Þegar múslimar koma til Mekka í þessa pílagrímsferð eru þau skyldug til að klæðast á ákveðinn hátt. Karlmennirnir klæðast hvítu á meðan konurnar klæðast hefðbundnum fötum og eiga að hylja höfuð sitt en ekki andlit. Þetta er táknrænt og á að sýna hvernig allir eru jafnir fyrir Allah. Þetta ferli kallast Ihram, en í Ihram er það ekki aðeins klæðaburðurinn sem skiptir máli, heldur ber öllum að fylgja ákveðnum reglum: Óheimilt er að stunda kynlíf, ekki má klippa neglur, ekki má nota ilmvatn eða rakspíra, ekki má drepa eða veiða og þá er einnig bannað að rífast eða slást. Eftir Ihram ganga allir hringinn í kringum Ka’bah rangsælis sjö sinnum. Þessi ganga kallast Tawaf og er hún gengin til að sýna að allir múslimar eru jafnir.

Næst eiga múslimarnir að hlaupa milli tveggja hæðanna, Safa og Marwah, sjö sinnum til að líkja eftir Hajiru, konu Ibrahim. Þar er einmitt brunnurinn sem Allah skapaði sem kallast Zamzam. Eftir þetta fara allir til sléttunar Arafat þar sem Múhammeð spámaður predikaði í seinasta sinn og þar biðja múslimar til Allah um fyrirgefningu og leiðbeiningu. Þá er stoppað hjá þremur súlum sem kallast Jamarat. Þar er talið að Satan hafi reynt að freista Múhammeð svo múslimar kasta steinum í þessar súlur. Að lokum er hátíðinni Eid ul-Adha fagnað. Þá á Allah að hafa birst Ibrahim í draumi og beðið hann um að fórna syni sínum, Is’mail, til að sýna fram á hollustu sína. Á meðan á djöfullinn að hafa sagt Ibrahim að óhlýðnast Allah og þyrma syni sínum. Þegar Ibrahim er við það að taka líf sonar síns á Allah að hafa birst honum og gefið honum lamb til slátrunar í staðinn. Í tilefni þess slátra margir múslimar oft lambi til að marka lok sinnar pílagrímsfarar.

Fjöldi pílagrímsfara við Ka’bah í Mekka.

Fyrsta pílagrímsförin

Múhammeð er sagður hafa fengið vitrun frá Allah sem sagði honum að hann skyldi snúa aftur til Mekka. Múhammeð hafði verið ofsóttur og hrakinn frá borginni þar sem hann vildi breiða út eingyðistrú, en ekki fjölgyðistrú sem var þá við lýði í Mekka. Múhammeð hafði þá aðsetur í borginni Medínu, en hann ásamt fylgimönnum sínum vildi snúa aftur til Mekka þar sem Múhammeð trúði því að hann fengi sýnir og skilaboð frá Allah um að hann ætti að snúa aftur þangað frá Medínu og útbreiða hans orð. Þessi leið er sögð hafa tekið þrjá daga, og telst vera fyrsta pílagrímsförin. Í dag heiðra múslimar þessa för með því að heimsækja Mekka, borgina sem er sögð hafa verið fyrsti staðurinn þar sem ákveðið var að hætta að trúa á marga guði og þess í stað taka upp trú á einn guð (Allah). Það má með sanni segja að Mekka sé einstakur staður að því leyti að hvergi annars staðar í heiminum má finna stað þar sem eins margir koma saman á sama tíma í sömu erindagjörðum.

Manntjón

Sökum umfangs og stærðar Hajj hafa því miður komið upp mörg atvik þar sem slys hafa kostað marga pílagrímsfara lífið. Árið 1990 urðu meira en þúsund manns undir í troðningi í göngum sem leiða mannfjöldann að Ka‘bah-steininum, og einnig olli troðningur því að rúmlega 300 manns létust árið 2006. 24. september árið 2015 létust að minnsta kosti 700 og næstum 900 slösuðust í kjölfar mikils troðnings. Árið 1945 var sett á laggirnar sérstakt ráðuneyti sem hefur þann tilgang að halda utan um öll mál sem koma að pílagrímsförinni. Ráðuneytið ber einnig ábyrgð á skipulagi og þjónustu sem er veitt þeim pílagrímsförum sem sækja Hajj. Pílagrímsförin til Mekka er mjög þýðingarmikil fyrir múslima og er þess vegna mikilvægt fyrir Sádi-Arabíu að viðhalda skipulagi og halda uppi virkri stjórn á einum umfangsmesta ferðamannastraumi sem fyrirfinnst í heiminum í dag. Fjöldamet eru iðulega slegin á hverju ári þegar Hajj stendur yfir og ljóst er að vinsældir pílagrímsferða múslima eru alls ekki á undanhaldi.

Heimildir:
  • Batrawy, Aya. (19. ágúst 2018). The hajj pilgrimage – what’s the purpose, the history and what happens over the 5 days? Sótt af https://www.independent.ie/world-news/middle-east/the-hajj-pilgrimage-whats-the-purpose-the-history-and-what-happens-over-the-5-days-37229852.html.
  • BBC Editors. (8. september 2009). Hajj: Pilgrimage to Mecca. Sótt af https://www.bbc.co.uk/religion/religions/islam/practices/hajj_1.shtml.
  • BBC Editors. (11. ágúst 2019). What is the Hajj pilgrimage? Sótt af https://www.bbc.co.uk/newsround/24566691.
  • Benten, Mohammad Saleh bin Taher. [Ártal vantar]. Minister’s Speech. Sótt af https://www.haj.gov.sa/en/InternalPages/Details/50.
  • CNN Editors. (10. september 2019). Hajj Pilgrimage Fast Facts. Sótt af https://edition.cnn.com/2013/06/21/world/hajj-fast-facts/index.html.
  • Global Data Editors. (19. október 2019). Saudi Arabia to see over 20 million visitors by 2020 as Hajj pilgrimage boosts tourism sector. Sótt af https://www.globaldata.com/saudi-arabia-see-20-million-visitors-2020-hajj-pilgrimage-boosts-tourism-sector-says-globaldata/

Myndir:


Þetta svar var upphaflega unnið í námskeiðinu MAF101G Saga Miðausturlanda I haustið 2019. Kolbrún Lilja Kolbeinsdóttur hafði umsjón með námskeiðinu.

Spurningu Sunnu, „Hvað er pílagrímsferð?“, er svarað hér að hluta.

Höfundar

Hilmar Árni Halldórsson

MA-nemi í heimspeki

Steinunn Hákonardóttir

BA-nemi í Mið-Austurlandafræði og arabísku

Útgáfudagur

4.7.2022

Spyrjandi

Sunna

Tilvísun

Hilmar Árni Halldórsson og Steinunn Hákonardóttir. „Hvað getið þið sagt mér um pílagrímsför múslima?“ Vísindavefurinn, 4. júlí 2022. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=78480.

Hilmar Árni Halldórsson og Steinunn Hákonardóttir. (2022, 4. júlí). Hvað getið þið sagt mér um pílagrímsför múslima? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=78480

Hilmar Árni Halldórsson og Steinunn Hákonardóttir. „Hvað getið þið sagt mér um pílagrímsför múslima?“ Vísindavefurinn. 4. júl. 2022. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=78480>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um pílagrímsför múslima?
Íslamstrú kveður á um það að til að teljast skyldurækinn múslimi þurfi að fara eftir fimm kjarnareglum. Þessar fimm reglur eru einnig nefndar fimm stoðir íslam. Þær eru eftirfarandi:

  1. Shahadah, sem er trúarjátning múslima.
  2. Salat, bænirnar sem múslimar fara með fimm sinnum á dag.
  3. Zakat, skylda múslima til að gefa hluta af tekjum sínum til þeirra sem minna mega sín.
  4. Sawm, kveður á um föstu í Ramadan-mánuði.
  5. Hajj, sjálf pílagrímsferðin.

Samkvæmt Kóraninum ber öllum aflögufærum múslimum skylda til að ferðast til borgarinnar Mekka í Sádi-Arabíu að minnsta kosti einu sinni á lífsleiðinni í svokallaðri pílagrímsferð, svo fremi sem þeir eru færir um það með tilliti til heilsu og fjárhags. Þangað fari þeir sem eru reiðubúnir að framfylgja skyldum sínum sem múslimar samkvæmt orði Guðs. Meira en tvær milljónir múslima fara í þessa pílagrímsferð árlega og stendur förin yfir í fimm daga.

Teikning af borginni Mekka í Sádi-Arabíu eins og hún leit út árið 1845. Í miðju hennar má sjá heilögu bygginguna Ka’bah.

Af hverju Mekka?

Mekka er borgin þar sem íslam á að hafa orðið til. Það var fæðingarstaður Múhameðs spámanns (580 - 632 e.kr.) og það var einnig þar sem hann er sagður hafa fengið sín fyrstu skilaboð frá Allah (Guði) sem síðar varð að helgiriti múslima, Kóraninum. Allir múslimar sem biðja í sínu daglega lífi, gera það í átt að Mekka, nánar tiltekið til Ka’bah sem er heilög bygging talin vera byggð af Ibrahim (Abraham) og er staðsett í hjarta borgarinnar. Næsthelgasta borg múslima er borgin Medína sem er einnig í Sádi-Arabíu. Medína er einnig hluti af pílagrímsferð margra múslima, en í þeirri borg er hægt að finna gröf Múhammeðs spámanns.

Borgin Mekka er einn allra heilagasti staður múslima og er þar af leiðandi mjög eftirsóttur ferðamannastaður af múslimum víðsvegar um heim allan. Vegna þessa er óheimilt fyrir aðra en múslima að ferðast til Mekka, en til að fylgja þeirri reglu eftir er mjög strangt landamæraeftirlit við borgarmörkin. Múslimar sem halda til Mekka geta átt von á því að þurfa að sanna trú sína hjá landamæraeftirlitinu, en til þess þurfa þeir að hafa meðferðis skriflega staðfestingu á því að þeir séu í raun og veru iðkandi múslimar og þá staðfestingu fá þeir frá bænahofi sínu (mosku) í viðkomandi landi. Ef ekki er unnt að sýna fram á slíkt má búast við því að viðkomandi verði synjað um leyfi og verði þar af leiðandi óheimilt að fara yfir borgarmörkin.

Margir múslimar leggja mikið á sig, bæði fjárhagslega og andlega til að ferðast til Mekka. Sá sem hefur lokið pílagrímsför sinni, fær viðurnefnið hají, og verður mjög virtur meðal múslima í sínu samfélagi. Þeir pílagrímsfarar sem heimsækja borgirnar Mekka og Medínu utan hins formlega pílagrímsmánaðar, Dhul Hijjah, sækja þá ekki Hajj heldur kallast pílagrímsför þeirra Umrah. Þessa pílagrímsför er hægt að fara allt árið, en Umrah þykir af sumum „síðri“ pílagrímsför þar sem múslimar eru ekki skyldugir til að fara hana. Ólíkt Hajj er hægt að ljúka Umrah af á nokkrum klukkutímum, en Hajj tekur að meðaltali um 3 daga. Engu að síður eru báðar pílagrímsferðirnar viðurkenndar af íslam sem táknræn undirgefni frammi fyrir Allah.

Ka’bah

Múslimar trúa því að Allah hafi sagt Ibrahim að senda konu sína Hajira og son sinn Is’mail til Arabíu frá Palestínu til að forðast öfundsýki fyrri konu Ibrahim, Söru. Þau lögðu af stað í þennan leiðangur með litlar vistir brátt voru á þrotum. Í örvæntingu sinni hljóp Hajira fram og til baka milli tveggja hæða, Safa og Marwa, í leit að hjálp. Að lokum féll hún niður við fætur sonar síns og bað Allah um hjálp. Is’mail á þá að hafa sparkað í jörðina með þeim afleiðingum að vatn streymdi upp úr jörðinni og þeim var borgið. Þegar Ibrahim hitti þau á ný sagði Allah honum að byggja helgiskrín tileinkað sér. Ibrahim og Is’mail byggðu þá Ka’bah sem átti að vera staður fyrir alla þá sem vildu styrkja trú sína og tilbiðja Allah. Nokkrar aldir liðu og Mekka stækkaði. Með tíð og tíma tók fólk að þróa með sér trúarbrögð sín og voru margir sem trúðu þá á marga guði og var Ka’bah meðal annars nýtt til að geyma hin ýmsu trúarleg skurðgoð. Mörgum árum síðar var síðan komið að Múhammeð spámanni að framfylgja skipun Allah um að Ka’bah ætti að vera tileinkað aðeins einum guði og það væri Allah. Síðan þá hafa múslimar snúið sér í átt að Ka’bah í Mekka þegar þeir biðja.

Hvað á sér stað í þessari pílagrímsferð?

Einu sinni á ári, í síðasta mánuði múslima sem nefnist Dhul Hijjah, koma múslimar hvaðanæva í heiminum saman í borginni Mekka til að framfylgja trúarlegum skyldum sínum og dýpka trú sína. Þessi ferð þeirra getur tekið á bæði fjárhagslega sem og líkamlega. Þegar múslimar koma til Mekka í þessa pílagrímsferð eru þau skyldug til að klæðast á ákveðinn hátt. Karlmennirnir klæðast hvítu á meðan konurnar klæðast hefðbundnum fötum og eiga að hylja höfuð sitt en ekki andlit. Þetta er táknrænt og á að sýna hvernig allir eru jafnir fyrir Allah. Þetta ferli kallast Ihram, en í Ihram er það ekki aðeins klæðaburðurinn sem skiptir máli, heldur ber öllum að fylgja ákveðnum reglum: Óheimilt er að stunda kynlíf, ekki má klippa neglur, ekki má nota ilmvatn eða rakspíra, ekki má drepa eða veiða og þá er einnig bannað að rífast eða slást. Eftir Ihram ganga allir hringinn í kringum Ka’bah rangsælis sjö sinnum. Þessi ganga kallast Tawaf og er hún gengin til að sýna að allir múslimar eru jafnir.

Næst eiga múslimarnir að hlaupa milli tveggja hæðanna, Safa og Marwah, sjö sinnum til að líkja eftir Hajiru, konu Ibrahim. Þar er einmitt brunnurinn sem Allah skapaði sem kallast Zamzam. Eftir þetta fara allir til sléttunar Arafat þar sem Múhammeð spámaður predikaði í seinasta sinn og þar biðja múslimar til Allah um fyrirgefningu og leiðbeiningu. Þá er stoppað hjá þremur súlum sem kallast Jamarat. Þar er talið að Satan hafi reynt að freista Múhammeð svo múslimar kasta steinum í þessar súlur. Að lokum er hátíðinni Eid ul-Adha fagnað. Þá á Allah að hafa birst Ibrahim í draumi og beðið hann um að fórna syni sínum, Is’mail, til að sýna fram á hollustu sína. Á meðan á djöfullinn að hafa sagt Ibrahim að óhlýðnast Allah og þyrma syni sínum. Þegar Ibrahim er við það að taka líf sonar síns á Allah að hafa birst honum og gefið honum lamb til slátrunar í staðinn. Í tilefni þess slátra margir múslimar oft lambi til að marka lok sinnar pílagrímsfarar.

Fjöldi pílagrímsfara við Ka’bah í Mekka.

Fyrsta pílagrímsförin

Múhammeð er sagður hafa fengið vitrun frá Allah sem sagði honum að hann skyldi snúa aftur til Mekka. Múhammeð hafði verið ofsóttur og hrakinn frá borginni þar sem hann vildi breiða út eingyðistrú, en ekki fjölgyðistrú sem var þá við lýði í Mekka. Múhammeð hafði þá aðsetur í borginni Medínu, en hann ásamt fylgimönnum sínum vildi snúa aftur til Mekka þar sem Múhammeð trúði því að hann fengi sýnir og skilaboð frá Allah um að hann ætti að snúa aftur þangað frá Medínu og útbreiða hans orð. Þessi leið er sögð hafa tekið þrjá daga, og telst vera fyrsta pílagrímsförin. Í dag heiðra múslimar þessa för með því að heimsækja Mekka, borgina sem er sögð hafa verið fyrsti staðurinn þar sem ákveðið var að hætta að trúa á marga guði og þess í stað taka upp trú á einn guð (Allah). Það má með sanni segja að Mekka sé einstakur staður að því leyti að hvergi annars staðar í heiminum má finna stað þar sem eins margir koma saman á sama tíma í sömu erindagjörðum.

Manntjón

Sökum umfangs og stærðar Hajj hafa því miður komið upp mörg atvik þar sem slys hafa kostað marga pílagrímsfara lífið. Árið 1990 urðu meira en þúsund manns undir í troðningi í göngum sem leiða mannfjöldann að Ka‘bah-steininum, og einnig olli troðningur því að rúmlega 300 manns létust árið 2006. 24. september árið 2015 létust að minnsta kosti 700 og næstum 900 slösuðust í kjölfar mikils troðnings. Árið 1945 var sett á laggirnar sérstakt ráðuneyti sem hefur þann tilgang að halda utan um öll mál sem koma að pílagrímsförinni. Ráðuneytið ber einnig ábyrgð á skipulagi og þjónustu sem er veitt þeim pílagrímsförum sem sækja Hajj. Pílagrímsförin til Mekka er mjög þýðingarmikil fyrir múslima og er þess vegna mikilvægt fyrir Sádi-Arabíu að viðhalda skipulagi og halda uppi virkri stjórn á einum umfangsmesta ferðamannastraumi sem fyrirfinnst í heiminum í dag. Fjöldamet eru iðulega slegin á hverju ári þegar Hajj stendur yfir og ljóst er að vinsældir pílagrímsferða múslima eru alls ekki á undanhaldi.

Heimildir:
  • Batrawy, Aya. (19. ágúst 2018). The hajj pilgrimage – what’s the purpose, the history and what happens over the 5 days? Sótt af https://www.independent.ie/world-news/middle-east/the-hajj-pilgrimage-whats-the-purpose-the-history-and-what-happens-over-the-5-days-37229852.html.
  • BBC Editors. (8. september 2009). Hajj: Pilgrimage to Mecca. Sótt af https://www.bbc.co.uk/religion/religions/islam/practices/hajj_1.shtml.
  • BBC Editors. (11. ágúst 2019). What is the Hajj pilgrimage? Sótt af https://www.bbc.co.uk/newsround/24566691.
  • Benten, Mohammad Saleh bin Taher. [Ártal vantar]. Minister’s Speech. Sótt af https://www.haj.gov.sa/en/InternalPages/Details/50.
  • CNN Editors. (10. september 2019). Hajj Pilgrimage Fast Facts. Sótt af https://edition.cnn.com/2013/06/21/world/hajj-fast-facts/index.html.
  • Global Data Editors. (19. október 2019). Saudi Arabia to see over 20 million visitors by 2020 as Hajj pilgrimage boosts tourism sector. Sótt af https://www.globaldata.com/saudi-arabia-see-20-million-visitors-2020-hajj-pilgrimage-boosts-tourism-sector-says-globaldata/

Myndir:


Þetta svar var upphaflega unnið í námskeiðinu MAF101G Saga Miðausturlanda I haustið 2019. Kolbrún Lilja Kolbeinsdóttur hafði umsjón með námskeiðinu.

Spurningu Sunnu, „Hvað er pílagrímsferð?“, er svarað hér að hluta....