Sólin Sólin Rís 05:15 • sest 21:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:18 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 13:42 í Reykjavík

Hvað er átt við með auga fyrir auga og tönn fyrir tönn og hvaðan kemur það?

Jón Ásgeir Sigurvinsson

„Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn“ hefur orðið að föstu orðatiltæki í vestrænum heimi, sem vísar til grundvallarlögmáls í lögum og rétti fornra samfélaga, svokallað lex talionis, „lög jafns endurgjalds“ eða „endurgjaldsrefsingu“. Merking latneska orðsins talio felur í sér að einhverjum sé endurgoldið í sömu mynt fyrir líkamlega áverka en regluna má einnig orða á almennari hátt þannig, að bæturnar skuli jafngilda skaðanum (1:1).

Lex talionis er þó langt í frá fyrirbæri sem aðeins tilheyrir liðinni tíð. Segja má að í nútímaréttarfari birtist reglan um jafnt endurgjald á tvenns konar hátt: annars vegar í bókstaflegri túlkun reglunnar, sem kemur til dæmis fram í kröfunni um dauðarefsingu, að morðingi sé tekinn af lífi rétt eins og hann sjálfur tók líf þess sem hann myrti, hins vegar í yfirfærðri merkingu í þeirri meginreglu nútímaréttarríkis að refsing fyrir brot sé í hóflegu samræmi við eðli brotsins og þann skaða sem af því hlaust.

Í Mósebókum Gamla testamentisins er að finna lagaákvæði sem endurspegla lex talionis. Í 3. Mósebók 24.19-20 er grunnhugsun lex talionis sett fram:

Þegar einhver maður veitir landa sínum áverka skal honum gert það sama og hann sjálfur gerði: Beinbrot fyrir beinbrot, auga fyrir auga, tönn fyrir tönn. Honum skal veittur sami áverki og hann veitti manninum.

Þetta lagaviðmið einskorðast þó ekki við biblíulegt lagaumhverfi heldur finnst það víða meðal fornra samfélaga, í Grikklandi og Róm, í Austurlöndum nær, Kína, Litlu Asíu og meðal germanskra þjóðflokka, svo eitthvað sé nefnt (Parisi, 96). Í babýlonsku réttarfari hafði lagareglan lex talionis verið þekkt í að minnsta kosti hálft annað árþúsund áður en hún var sett í ritað form í Gamla testamentinu og hetitísk lög frá 17. öld f.Kr. eru í ýmsu tilliti sláandi lík lagaákvæðum Gamla testamentisins. Í hinum fræga lagabálki Hammúrabís, sem var konungur í Babýlon á 18. eða 17. öld f.Kr., eru til dæmis eftirfarandi ákvæði:
Ef heldri maður blindar annan heldri mann, skulu þeir blinda hann (gr. 196). Ef hann brýtur bein annars heldri manns, skulu þeir brjóta hans bein (gr. 197).

Reglan er einnig notuð sem viðmið í tilfelli eignatjóns, sem í hinum fornu samfélögum sneri aðallega að búfénaði:

Ef maður leigir uxa og verður þess valdandi með vanrækslu eða misþyrmingum að hann deyr, skal hann bæta eigandanum uxann með uxa af sambærilegu virði (gr. 245).

Þó svo að afleiðingarnar fyrir hinn brotlega séu vissulega óhugnanlegri í ákvæðum 196 og 197 en í ákvæði 245, þá byggja þau á sömu grundvallarreglu, að goldið sé líku líkt og í sama mæli, einn á móti einum (1:1).

Samsvarandi lagaákvæði er að finna í 2. Mósebók 21.19-20:

(19) Þegar einhver maður veitir landa sínum áverka skal honum gert það sama og hann sjálfur gerði: (20) Beinbrot fyrir beinbrot, auga fyrir auga, tönn fyrir tönn. Honum skal veittur sami áverki og hann veitti manninum.

Hammúrabí konungur Babýloníumanna lét höggva lög og reglur um samskipti manna í stein. Steinninn er stundum kallaður „fyrsta lögbókin“ og er varðveittur í Louvre-safninu í París. Hér sést efsti hluti steinsins.

Sú hugsun, sem liggur lex talionis til grundvallar, er vissulega samofin hugmyndinni um hefnd en við nánari skoðun virðist lex talionis vera mikilvægt skref í þeirri þróun að í stað hefndar komi bætur (Parisi, 84). Lagaregluna „auga fyrir auga og tönn fyrir tönn“ má útskýra sem tilraun til þess að koma í veg fyrir hömlulausa hefnd með því að setja fram jafngildisviðmið: endurgjaldið skal vera sama eðlis og í sama mæli (Blenkinsopp, 91). Sögulegur bakgrunnur þess að fundið var upp á slíku ákvæði kann að vera sá, að hefndaraðgerðir ættbálksins, sem átti harma að hefna, hafi að jafnaði verið þyngri en upprunalegi skaðinn gaf tilefni til – það er ef styrkur ættbálksins leyfði (Parisi, 86). Í samfélagsskipan, þar sem brot gegn einstaklingi var um leið brot gegn ættbálki hans og fjölskyldu, og hefndarskylda hvíldi á ættbálki viðkomandi (sjá 4. Mósebók 35.21), gat slíkt kerfi, sem setti engar hömlur á umfang endurgjaldsins, leitt til vítahrings hefndaraðgerða, vegna þess að ættbálkurinn, sem fyrir hefndinni varð, upplifði hana sem óhóflega og þótti því ástæða til að hefna á móti.

Flest bendir til þess að eftir að lex talionis var formlega sett í rituð lög Gamla testamentisins hafi bókstafleg framfylgd hennar farið snarminnkandi (Parisi, 85) þó að vissulega séu enn skiptar skoðanir uppi meðal fræðimanna um það hvort „auga fyrir auga, tönn fyrir tönn“ hafi verið skilið bókstaflegum skilningi (sem almennt eða spekilögmál) ellegar einfaldlega sem nokkurs konar orðatiltæki sem tjáði þá grundvallarreglu að refsingin skyldi vera í samræmi við brotið (Maclean, 807; Huffmon, 322, heldur fram síðarnefndu skýringunni). 4. Mósebók 35.31 sýnir svart á hvítu að fébætur voru leyfðar í öllum málum öðrum en morðmálum. Í hetitískum lögum frá miðri 17. öld f. Kr. er sá möguleiki gefinn að fórnarlambið afsali sér réttinum til hefndar með því að taka við fébótum (Parisi, 110).

Í útleggingum gyðinglegra fræðimanna af flokki farísea á biblíutextunum var þeirri túlkun haldið á lofti að reglan „auga fyrir auga“ þýddi í framkvæmd „virði eins auga fyrir virði eins auga“. Sú skýring á því, að bókstafleg túlkun lex talionis lætur undan síga, hefur verið sett fram, að jafngildisreglan hafi skapað skýrar forsendur til samninga og af ýmsum – efnahagslegum og praktískum – ástæðum hafi brotaþoli (eða ættbálkur hans) í flestum tilfellum metið það betri lausn að þiggja bætur en að fá komið fram hefndum. Ákveðið millistig í þessari þróun má líklega sjá í þeim möguleika, sem endurspeglast í rómverskum lögum, að framselja hinn brotlega ættbálki brotaþola sem þræl (Parisi, 113n). Í umhverfi þar sem framkvæmd lex talionis felst að jafnaði í greiðslu bóta kemur reglan „auga fyrir auga, tönn fyrir tönn“ annars vegar í veg fyrir að hinn brotlegi sé krafinn um hærri bætur en sanngjarnar mega teljast en tryggir á hinn bóginn að brotaþola sé bættur skaðinn að fullu.

Hefðbundin sýn réttarsagnfræðinga á almenna þróun lagakerfa hefur verið sú að hefndarkerfi hafi vikið fyrir bótakerfum sem síðan hafi greitt götu opinbers réttarkerfis á vegum ríkisins. Slík mynd línulegrar þróunar er þó líklega of einföld (Miller, staðs. 428) en kann að gefa sannferðuga mynd af því í hvaða átt réttarkerfi hafa tilhneigingu til að þróast; í raun og veru var þó – í ýmsum samfélögum og á ýmsum tímum – sá möguleiki til staðar að greiða bætur í stað þess að gjalda í líku („auga fyrir auga“) – á sama tíma og brotaþoli gat staðið á rétti sínum til hefndar (Miller, staðs. 428).

Á það hefur hins vegar verið bent að í elstu lögum, sem þekkt eru frá Austurlöndum nær og eru eldri en lagabálkur Hammúrabís, sé þá þegar til staðar sá möguleika að bæta líkamlegan skaða með fébótum (Huffmon, 321; sbr. einnig framangreind hetitísk lög). Sú tilgáta – sem er í andstöðu við framangreindar skýringar – hefur því verið sett fram að upprunalegur tilgangur lex talionis kunni að hafa verið sá, að koma í stað eldri laga sem leyfðu fébætur í ofbeldismálum, jafnvel morðmálum (Maclean, 807); þá er gert ráð fyrir því að lex talionis tjái þá afstöðu að í tilfelli ofbeldis og manndrápa nægi fébætur ekki til þess að réttlætið nái fram að ganga. Þessi skýring hefur þó ekki fengið brautargengi í fræðunum.

Í hnotskurn má því svara spurningunni þannig, að lagareglunni „auga fyrir auga, tönn fyrir tönn“ sé ætlað að tryggja að refsingin hæfi glæpnum og að líklega hafi hún í flestum tilfellum verið túlkuð á þann veg að fyrir virði eins auga skyldi greiða virði eins auga, fyrir virði einnar tannar skyldi greiða virði einnar tannar, og svo framvegis. Hvernig hinir fornu löggjafar og/eða aðilar máls ákváðu bótavirði líkamlegs tjóns er síðan annað mál en ýmis dæmi eru til um slíkt í fornum lögum (þannig skyldi til dæmis alþýðumaður greiða alþýðumanni, sem hann hafði löðrungað, virði 10 sikla silfurs, skv. gr. 204 í lagabálki Hammúrabís).

Heimildir:
  • Blenkinsopp, Joseph, Wisdom and Law in the Old Testament: The Ordering of Life in Israel and Early Judaism. Oxford University Press: Oxford 1995.
  • Huffmon, H. B., „Lex Talionis“, The Anchor Yale Bible Dictionary.
  • Miller, William Ian, Eye for an Eye. Cambridge University Press: Cambridge – New York 2006.
  • Maclean, Jennifer K. Berenson, „Lex Talionis“, Eerdmans dictionary of the Bible.
  • Parisi, Francesco. „The Genesis of Liability in Ancient Law“, American Law and Economics Review 3/1 (2001): 82-124. Sótt 14. apríl 2021. http://www.jstor.org/stable/42705382.
  • Roth, Martha Tobi – Hoffner, H. A. – Michalowski, P., Law Collections from Mesopotamia and Asia Minor (Writings from the ancient world; Atlanta, GA 1997) VI.

Mynd

Upprunalega spurningin sem Jana Mist sendi okkur hljóðaði svona:

Hvað merkir auga fyrir auga og tönn fyrir tönn, ég er með bók sem heitir fyrstu samfélögin og það er spurt hvað merkir auga fyrir auga og tönn fyrir tönn?

Höfundur

Jón Ásgeir Sigurvinsson

doktor í guðfræði

Útgáfudagur

26.4.2021

Spyrjandi

Jana Mist Sörudóttir, Aðaleiður Rúnarsdóttir og Bergur Tjörvi Bjarnason

Tilvísun

Jón Ásgeir Sigurvinsson. „Hvað er átt við með auga fyrir auga og tönn fyrir tönn og hvaðan kemur það?“ Vísindavefurinn, 26. apríl 2021. Sótt 26. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=81131.

Jón Ásgeir Sigurvinsson. (2021, 26. apríl). Hvað er átt við með auga fyrir auga og tönn fyrir tönn og hvaðan kemur það? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=81131

Jón Ásgeir Sigurvinsson. „Hvað er átt við með auga fyrir auga og tönn fyrir tönn og hvaðan kemur það?“ Vísindavefurinn. 26. apr. 2021. Vefsíða. 26. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=81131>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er átt við með auga fyrir auga og tönn fyrir tönn og hvaðan kemur það?
„Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn“ hefur orðið að föstu orðatiltæki í vestrænum heimi, sem vísar til grundvallarlögmáls í lögum og rétti fornra samfélaga, svokallað lex talionis, „lög jafns endurgjalds“ eða „endurgjaldsrefsingu“. Merking latneska orðsins talio felur í sér að einhverjum sé endurgoldið í sömu mynt fyrir líkamlega áverka en regluna má einnig orða á almennari hátt þannig, að bæturnar skuli jafngilda skaðanum (1:1).

Lex talionis er þó langt í frá fyrirbæri sem aðeins tilheyrir liðinni tíð. Segja má að í nútímaréttarfari birtist reglan um jafnt endurgjald á tvenns konar hátt: annars vegar í bókstaflegri túlkun reglunnar, sem kemur til dæmis fram í kröfunni um dauðarefsingu, að morðingi sé tekinn af lífi rétt eins og hann sjálfur tók líf þess sem hann myrti, hins vegar í yfirfærðri merkingu í þeirri meginreglu nútímaréttarríkis að refsing fyrir brot sé í hóflegu samræmi við eðli brotsins og þann skaða sem af því hlaust.

Í Mósebókum Gamla testamentisins er að finna lagaákvæði sem endurspegla lex talionis. Í 3. Mósebók 24.19-20 er grunnhugsun lex talionis sett fram:

Þegar einhver maður veitir landa sínum áverka skal honum gert það sama og hann sjálfur gerði: Beinbrot fyrir beinbrot, auga fyrir auga, tönn fyrir tönn. Honum skal veittur sami áverki og hann veitti manninum.

Þetta lagaviðmið einskorðast þó ekki við biblíulegt lagaumhverfi heldur finnst það víða meðal fornra samfélaga, í Grikklandi og Róm, í Austurlöndum nær, Kína, Litlu Asíu og meðal germanskra þjóðflokka, svo eitthvað sé nefnt (Parisi, 96). Í babýlonsku réttarfari hafði lagareglan lex talionis verið þekkt í að minnsta kosti hálft annað árþúsund áður en hún var sett í ritað form í Gamla testamentinu og hetitísk lög frá 17. öld f.Kr. eru í ýmsu tilliti sláandi lík lagaákvæðum Gamla testamentisins. Í hinum fræga lagabálki Hammúrabís, sem var konungur í Babýlon á 18. eða 17. öld f.Kr., eru til dæmis eftirfarandi ákvæði:
Ef heldri maður blindar annan heldri mann, skulu þeir blinda hann (gr. 196). Ef hann brýtur bein annars heldri manns, skulu þeir brjóta hans bein (gr. 197).

Reglan er einnig notuð sem viðmið í tilfelli eignatjóns, sem í hinum fornu samfélögum sneri aðallega að búfénaði:

Ef maður leigir uxa og verður þess valdandi með vanrækslu eða misþyrmingum að hann deyr, skal hann bæta eigandanum uxann með uxa af sambærilegu virði (gr. 245).

Þó svo að afleiðingarnar fyrir hinn brotlega séu vissulega óhugnanlegri í ákvæðum 196 og 197 en í ákvæði 245, þá byggja þau á sömu grundvallarreglu, að goldið sé líku líkt og í sama mæli, einn á móti einum (1:1).

Samsvarandi lagaákvæði er að finna í 2. Mósebók 21.19-20:

(19) Þegar einhver maður veitir landa sínum áverka skal honum gert það sama og hann sjálfur gerði: (20) Beinbrot fyrir beinbrot, auga fyrir auga, tönn fyrir tönn. Honum skal veittur sami áverki og hann veitti manninum.

Hammúrabí konungur Babýloníumanna lét höggva lög og reglur um samskipti manna í stein. Steinninn er stundum kallaður „fyrsta lögbókin“ og er varðveittur í Louvre-safninu í París. Hér sést efsti hluti steinsins.

Sú hugsun, sem liggur lex talionis til grundvallar, er vissulega samofin hugmyndinni um hefnd en við nánari skoðun virðist lex talionis vera mikilvægt skref í þeirri þróun að í stað hefndar komi bætur (Parisi, 84). Lagaregluna „auga fyrir auga og tönn fyrir tönn“ má útskýra sem tilraun til þess að koma í veg fyrir hömlulausa hefnd með því að setja fram jafngildisviðmið: endurgjaldið skal vera sama eðlis og í sama mæli (Blenkinsopp, 91). Sögulegur bakgrunnur þess að fundið var upp á slíku ákvæði kann að vera sá, að hefndaraðgerðir ættbálksins, sem átti harma að hefna, hafi að jafnaði verið þyngri en upprunalegi skaðinn gaf tilefni til – það er ef styrkur ættbálksins leyfði (Parisi, 86). Í samfélagsskipan, þar sem brot gegn einstaklingi var um leið brot gegn ættbálki hans og fjölskyldu, og hefndarskylda hvíldi á ættbálki viðkomandi (sjá 4. Mósebók 35.21), gat slíkt kerfi, sem setti engar hömlur á umfang endurgjaldsins, leitt til vítahrings hefndaraðgerða, vegna þess að ættbálkurinn, sem fyrir hefndinni varð, upplifði hana sem óhóflega og þótti því ástæða til að hefna á móti.

Flest bendir til þess að eftir að lex talionis var formlega sett í rituð lög Gamla testamentisins hafi bókstafleg framfylgd hennar farið snarminnkandi (Parisi, 85) þó að vissulega séu enn skiptar skoðanir uppi meðal fræðimanna um það hvort „auga fyrir auga, tönn fyrir tönn“ hafi verið skilið bókstaflegum skilningi (sem almennt eða spekilögmál) ellegar einfaldlega sem nokkurs konar orðatiltæki sem tjáði þá grundvallarreglu að refsingin skyldi vera í samræmi við brotið (Maclean, 807; Huffmon, 322, heldur fram síðarnefndu skýringunni). 4. Mósebók 35.31 sýnir svart á hvítu að fébætur voru leyfðar í öllum málum öðrum en morðmálum. Í hetitískum lögum frá miðri 17. öld f. Kr. er sá möguleiki gefinn að fórnarlambið afsali sér réttinum til hefndar með því að taka við fébótum (Parisi, 110).

Í útleggingum gyðinglegra fræðimanna af flokki farísea á biblíutextunum var þeirri túlkun haldið á lofti að reglan „auga fyrir auga“ þýddi í framkvæmd „virði eins auga fyrir virði eins auga“. Sú skýring á því, að bókstafleg túlkun lex talionis lætur undan síga, hefur verið sett fram, að jafngildisreglan hafi skapað skýrar forsendur til samninga og af ýmsum – efnahagslegum og praktískum – ástæðum hafi brotaþoli (eða ættbálkur hans) í flestum tilfellum metið það betri lausn að þiggja bætur en að fá komið fram hefndum. Ákveðið millistig í þessari þróun má líklega sjá í þeim möguleika, sem endurspeglast í rómverskum lögum, að framselja hinn brotlega ættbálki brotaþola sem þræl (Parisi, 113n). Í umhverfi þar sem framkvæmd lex talionis felst að jafnaði í greiðslu bóta kemur reglan „auga fyrir auga, tönn fyrir tönn“ annars vegar í veg fyrir að hinn brotlegi sé krafinn um hærri bætur en sanngjarnar mega teljast en tryggir á hinn bóginn að brotaþola sé bættur skaðinn að fullu.

Hefðbundin sýn réttarsagnfræðinga á almenna þróun lagakerfa hefur verið sú að hefndarkerfi hafi vikið fyrir bótakerfum sem síðan hafi greitt götu opinbers réttarkerfis á vegum ríkisins. Slík mynd línulegrar þróunar er þó líklega of einföld (Miller, staðs. 428) en kann að gefa sannferðuga mynd af því í hvaða átt réttarkerfi hafa tilhneigingu til að þróast; í raun og veru var þó – í ýmsum samfélögum og á ýmsum tímum – sá möguleiki til staðar að greiða bætur í stað þess að gjalda í líku („auga fyrir auga“) – á sama tíma og brotaþoli gat staðið á rétti sínum til hefndar (Miller, staðs. 428).

Á það hefur hins vegar verið bent að í elstu lögum, sem þekkt eru frá Austurlöndum nær og eru eldri en lagabálkur Hammúrabís, sé þá þegar til staðar sá möguleika að bæta líkamlegan skaða með fébótum (Huffmon, 321; sbr. einnig framangreind hetitísk lög). Sú tilgáta – sem er í andstöðu við framangreindar skýringar – hefur því verið sett fram að upprunalegur tilgangur lex talionis kunni að hafa verið sá, að koma í stað eldri laga sem leyfðu fébætur í ofbeldismálum, jafnvel morðmálum (Maclean, 807); þá er gert ráð fyrir því að lex talionis tjái þá afstöðu að í tilfelli ofbeldis og manndrápa nægi fébætur ekki til þess að réttlætið nái fram að ganga. Þessi skýring hefur þó ekki fengið brautargengi í fræðunum.

Í hnotskurn má því svara spurningunni þannig, að lagareglunni „auga fyrir auga, tönn fyrir tönn“ sé ætlað að tryggja að refsingin hæfi glæpnum og að líklega hafi hún í flestum tilfellum verið túlkuð á þann veg að fyrir virði eins auga skyldi greiða virði eins auga, fyrir virði einnar tannar skyldi greiða virði einnar tannar, og svo framvegis. Hvernig hinir fornu löggjafar og/eða aðilar máls ákváðu bótavirði líkamlegs tjóns er síðan annað mál en ýmis dæmi eru til um slíkt í fornum lögum (þannig skyldi til dæmis alþýðumaður greiða alþýðumanni, sem hann hafði löðrungað, virði 10 sikla silfurs, skv. gr. 204 í lagabálki Hammúrabís).

Heimildir:
  • Blenkinsopp, Joseph, Wisdom and Law in the Old Testament: The Ordering of Life in Israel and Early Judaism. Oxford University Press: Oxford 1995.
  • Huffmon, H. B., „Lex Talionis“, The Anchor Yale Bible Dictionary.
  • Miller, William Ian, Eye for an Eye. Cambridge University Press: Cambridge – New York 2006.
  • Maclean, Jennifer K. Berenson, „Lex Talionis“, Eerdmans dictionary of the Bible.
  • Parisi, Francesco. „The Genesis of Liability in Ancient Law“, American Law and Economics Review 3/1 (2001): 82-124. Sótt 14. apríl 2021. http://www.jstor.org/stable/42705382.
  • Roth, Martha Tobi – Hoffner, H. A. – Michalowski, P., Law Collections from Mesopotamia and Asia Minor (Writings from the ancient world; Atlanta, GA 1997) VI.

Mynd

Upprunalega spurningin sem Jana Mist sendi okkur hljóðaði svona:

Hvað merkir auga fyrir auga og tönn fyrir tönn, ég er með bók sem heitir fyrstu samfélögin og það er spurt hvað merkir auga fyrir auga og tönn fyrir tönn?
...