Er vitað hversu mikið, ef eitthvað, sjávarstaða við Ísland hefir hækkað s.l. 30 ár?Hér er einnig svarað spurningunni:
Af hverju er yfirborð sjávar að hækka?Sjávarstaða á jörðinni hækkar vegna hlýnunar jarðar. Við hlýnunina bráðna jöklar og leysingarvatn úr þeim rennur í auknum mæli til sjávar. Við það hækkar í heimshöfunum. Sjávarstaða hækkar einnig vegna þess að eftir því sem sjórinn hitnar þenst hann út og rúmmál hafsins eykst. Í skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (Intergovernmental Panel on Climate Change, IPCC) frá 2008 var því spáð að næstu 20 ár verði hækkun sjávar í heimshöfunum á bilinu 4 til 10 cm. Nú er talið að hækkunin verði nær efri mörkunun og jafnvel meiri. Hækkun á sjávarborði heimshafanna hefur aukist verulega síðustu ár. Hún var 3,4±0,4 mm/ár á tímabilinu 1993-2016 en hækkaði í 5-6 mm/ár 2016-2017. Til samanburðar má geta þess að á 20. öld var meðaltalshækkun um 1,8 mm á ári. Hækkun um 10 cm á 20 ára tímabili samsvarar 5 mm hækkun á ári eða 0,5 m á 100 árum. Þó er líklegt að herða muni á bæði bráðnun jökla og varmaþenslu sjávar. Við lok 21. aldar gæti sjávarborð á jörðinni verið 1 m hærra en við upphaf aldarinnar. Vegna óvissu um framlag jökla til hækkunar sjávarborðs hafa sumar þjóðir lagt fram spár með breiðu óvissubili. Spá Hollendinga um hækkun sjávarborðs í Norðursjó gerir til að mynda ráð fyrir hækkun á bilinu 0,65-1,3 m á þessari öld.

Bestu gögn um sjávarstöðu við Ísland eru frá Reykjavík. Þar er til samfelld mæliröð sjávarstöðu allt frá 1956. Gögnin sýna að í Reykjavík hefur sjávarstaða hækkað um 2 mm á ári eða sem samsvarar um 20 cm á öld.

Kort sem sýnir lóðrétta hreyfingu lands á Íslandi árin 1993-2004. Kortið sýnir vel landris nálægt stærstu jöklum. Það er vegna þess að við bráðnun jökla, minnkar fargið á jarðskorpunni sem rís þá upp.
- Halldór Björnsson, Bjarni D. Sigurðsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Jón Ólafsson, Ólafur S. Ástþórssson, Snjólaug Ólafsdóttir, Trausti Baldursson, Trausti Jónsson. 2018. Breytingar á jöklum, vatnafari og sjávarstöðu og Hnattrænar loftslagsbreytingar. Í Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi – Skýrsla vísindanefndar um loftslagsbreytingar 2018. Veðurstofa Íslands. (Sótt 5.1.2022).
- Freysteinn Sigmundsson og Helgi Björnsson. (2011, 13. apríl). Hve mikið hækkar sjávarstaða við suðausturströnd Íslands á næstu 20 árum við bráðnun jökla á jörðinni? Vísindavefurinn. (Sótt 5.1.2022).
- Halldór Björnsson o.fl. 2018. Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi – Skýrsla vísindanefndar um loftslagsbreytingar 2018. Veðurstofa Íslands. Bls. 100 og 101. (Sótt 5.1.2022).