Er vitað hversu mikið, ef eitthvað, sjávarstaða við Ísland hefir hækkað s.l. 30 ár?Hér er einnig svarað spurningunni:
Af hverju er yfirborð sjávar að hækka?Sjávarstaða á jörðinni hækkar vegna hlýnunar jarðar. Við hlýnunina bráðna jöklar og leysingarvatn úr þeim rennur í auknum mæli til sjávar. Við það hækkar í heimshöfunum. Sjávarstaða hækkar einnig vegna þess að eftir því sem sjórinn hitnar þenst hann út og rúmmál hafsins eykst. Í skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (Intergovernmental Panel on Climate Change, IPCC) frá 2008 var því spáð að næstu 20 ár verði hækkun sjávar í heimshöfunum á bilinu 4 til 10 cm. Nú er talið að hækkunin verði nær efri mörkunun og jafnvel meiri. Hækkun á sjávarborði heimshafanna hefur aukist verulega síðustu ár. Hún var 3,4±0,4 mm/ár á tímabilinu 1993-2016 en hækkaði í 5-6 mm/ár 2016-2017. Til samanburðar má geta þess að á 20. öld var meðaltalshækkun um 1,8 mm á ári. Hækkun um 10 cm á 20 ára tímabili samsvarar 5 mm hækkun á ári eða 0,5 m á 100 árum. Þó er líklegt að herða muni á bæði bráðnun jökla og varmaþenslu sjávar. Við lok 21. aldar gæti sjávarborð á jörðinni verið 1 m hærra en við upphaf aldarinnar. Vegna óvissu um framlag jökla til hækkunar sjávarborðs hafa sumar þjóðir lagt fram spár með breiðu óvissubili. Spá Hollendinga um hækkun sjávarborðs í Norðursjó gerir til að mynda ráð fyrir hækkun á bilinu 0,65-1,3 m á þessari öld. Hitabreytingar í hafinu eru mismiklar eftir svæðum og því verður risið sums staðar meira og annars staðar minna. Nokkur óvissa ríkir um hvort sjávarborð við Ísland hækki jafn mikið og meðaltalstölur fyrir heimshöfin gera ráð fyrir. Sums staðar á Íslandi, sér í lagi við suðurströndina, mun afstæð sjávarstaða lækka. Það er vegna þess að við bráðnun jökla, minnkar fargið á jarðskorpunni sem rís þá upp. Risið hjá svæðum þar sem jöklar þrýstu landinu áður niður, vegur mun meira en hækkun sjávarborðs á hafsvæðum í kringum landið. Bestu gögn um sjávarstöðu við Ísland eru frá Reykjavík. Þar er til samfelld mæliröð sjávarstöðu allt frá 1956. Af gögnunum er ljóst að í Reykjavík hefur sjávarstaða hækkað um 2 mm á ári eða sem samsvarar um 20 cm á öld. Einnig er til nýleg greining á sjávarstöðu í Grindavík á árabilinu 1997-2015. Greiningin bendir til þess að þar hækki sjávarstaða um 9 mm ári. Heimildir:
- Halldór Björnsson, Bjarni D. Sigurðsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Jón Ólafsson, Ólafur S. Ástþórssson, Snjólaug Ólafsdóttir, Trausti Baldursson, Trausti Jónsson. 2018. Breytingar á jöklum, vatnafari og sjávarstöðu og Hnattrænar loftslagsbreytingar. Í Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi – Skýrsla vísindanefndar um loftslagsbreytingar 2018. Veðurstofa Íslands. (Sótt 5.1.2022).
- Freysteinn Sigmundsson og Helgi Björnsson. (2011, 13. apríl). Hve mikið hækkar sjávarstaða við suðausturströnd Íslands á næstu 20 árum við bráðnun jökla á jörðinni? Vísindavefurinn. (Sótt 5.1.2022).
- Halldór Björnsson o.fl. 2018. Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi – Skýrsla vísindanefndar um loftslagsbreytingar 2018. Veðurstofa Íslands. Bls. 100 og 101. (Sótt 5.1.2022).