Eru líkur á því að sjávaryfirborð muni hækka t.d. í kringum Seltjarnarnesið þannig að það ógni byggð? Hafa verið byggðir eða stendur til að byggja flóðgarða til að sporna við slíku þar eða hér á landi?Stutta svarið er að ekki hefur verið nógu mikið gert á höfuðborgarsvæðinu til að bregðast við yfirvofandi hættu af völdum hækkunar sjávar og ekki liggja fyrir áætlanir um úrbætur í þeim efnum. Rétt er að taka það fram að flóðgarðar hafa ekki sama tilgang og sjóvarnargarðar. Sjóvarnargarðar eru fyrst og fremst hugsaðir til að verja land rofi en flóðgarðar eiga að halda vatni í skefjum. Flóðgarðar hafa ekki verið byggðir, svo vitað sé, en í einstaka tilvikum hefur verið gert ráð fyrir hækkun sjávar með skilmálum um gólfhæð, landhæð og öðrum byggingatæknilegum útfærslum í deiliskipulagi. Það hefur lengi verið vitað að sjávarborð fer hækkandi af völdum loftslagsbreytinga og að byggð sem stendur lágt við sjávarsíðuna getur verið í hættu. Það eru hins vegar margir þættir sem ákvarða hversu mikið sjávarborð við Ísland mun hækka og því ekki hægt eins og staðan er í dag að segja nákvæmlega fyrir um hver áhrifin á byggð við Ísland verða. Í skýrslu vísindanefndar um loftslagsbreytingar, bls. 97 (Halldór Björnsson, o.fl., 2008) segir:
Hlýni um 2°C á öldinni er líklegt að sjávaryfirborð hækki að jafnaði um 0,4 m. Hlýni um 3°C á jörðinni hækkar sjávarborð líklega um 0,5 m og nái hlýnunin 4°C hækkar það um 0,6 m. Með hliðsjón af óvissumörkum bæði á hlýnun og sjávarborðshækkun þarf að lágmarki að gera ráð fyrir um hálfs metra hækkun sjávaryfirborðs og meiri þar sem landsigs gætir.Í rannsókn sem gerð var af VSÓ Ráðgjöf (Auður Magnúsdóttir o.fl., 2016) var sett fram sviðsmynd þar sem valin var námundun af miðgildi ofangreindrar sjávarhækkunar og landsigs. Miðað var við flóð sem nemur 4 m miðað við hæðarkerfi höfuðborgarsvæðisins. Út frá þeirri sviðsmynd voru teiknuð kort sem sýna hversu langt inn í landið flóðið gæti náð og hvar byggð höfuðborgarsvæðisins yrði fyrir áhrifum. Það sem ekki var tekið með í þessa sviðsmynd var áhrif öldu, þar sem hún kemur að landi en ef tekið væri tillit til þess gæti áhrifasvæðið verið stærra. Þá ber einnig að hafa í huga að það skiptir máli hvernig veður er, hver sjávarstaða er og hversu berskjölduð viðkomandi byggð er fyrir úthafsöldu. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa því aðeins vísbendingu um hvar byggð gæti verið í hættu en krefjast nánari rýni. Til þess að setja flóðatölurnar í samengi má nefna að hæsta mælda sjávarstaða í Reykjavíkurhöfn var 3,27 m árið 1997, það er mesta sjávarhæð sem mæld hefur verið. Sama ár mældist sjávarhæð 3,3 m í Hafnarfirði. Til viðmiðunar er hæð lands við Strandgötu og Fjarðargötu í Hafnarfirði hins vegar 3,9-4,0 m (Bjarki Jóhannesson, 2005). Ráðstafanir sem hægt er að grípa til þar sem hætta er á sjávarflóðum eru margvíslegar en samkvæmt leiðbeiningum sem lagðar voru fram sem tillaga að skipulags- og byggingarreglum á lágsvæðum þar sem hætta er á flóðum (Fjarhitun,1992) eru þær í eftirfarandi mikilvægisröð: 1. Tillögur að ráðstöfunum þar sem svæði eru óbyggð: a) Skipulagsráðstafanir
- Ákveða lágmarksfjarlægð frá sjó (hoplína eða öryggissvæði).
- Ekki verði byggt nær en 30-50 m frá strönd eftir því sem hægt er m.t.t. mats á áhættu og ákvörðun um sjóvarnir.
- Skilgreina lágmarksgólfhæð bygginga og lágmarks landhæð miðað við fjarlægð frá sjó.
- Byggingarbann verði sett á ákveðin svæði að undangengnu áhættumati.
- Byggingareftirlit
- Sérstakt eftirlit með byggingum á lágsvæðum m.t.t. hönnunar, frágangs, burðarþols og skipulags.
- Verja fyrirhugaða byggð á hættusvæði.
- Burðarþol og byggingarefni taki mið af hættu.
- Hönnun húsa, frágangur og útlitshönnun taki mið af hættu.
- Viðhafa almennar varúðarráðstafanir.
- Reglur um endurbyggingu og lagfæringar, taki mið af áhættu.
- Sjóvarnir.
Viðmið | Til staðar | Athugasemd |
Skilmálar um lágmarks gólfhæð | Nei | Í deiliskipulagi eins hverfis, Melhúsatúns. |
Skilmálar um hoplínur (öryggissvæði) | Nei | |
Skilmálar um landhæð eða byggingarefni | Nei | |
Núverandi eða fyrirhugaðar sjóvarnir | Já | |
Skilgreind varúðarsvæði í skipulagi | Nei | |
Stefna eða umræða um náttúruvá af völdum loftslagsbreytinga | Já | |
Tilvísun í tillögu að byggingareglum á lágsvæðum | Já |

Myndin sýnir áhrifasvæði 4 m flóðs á Seltjarnarnesi. Það sem myndin sýnir ekki er áhrif öldu og áhrif á grunnvatnshæð sem getur til dæmis haft þau áhrif að flæði inn í kjallara.
- Auður Magnúsdóttir, Grétar Mar Hreggviðsson, Kristín Þrastardóttir. 2016. Hækkuð sjávarstaða á höfuðborgarsvæðinu. Áhrif og aðgerðir. VSÓ Ráðgjöf, Reykjavík.
- Ásdís Jónsdóttir. (e.d.). Climate change in Iceland: Impacts and adaptive measures. CoastAdapt report. Reykjavík: Institute for Sustainable Studies, Univeristy of Iceland.
- Dr. Bjarki Jóhannesson. (28. april 2005). Áhrif sjóflóða og hækkaðrar sjávarstöðu í Hafnarfirði. Erindi á ráðstefnunni Áhrif sjóflóða og hækkunar sjávarstöðu á skipulag 28.04.2005.
- Fjarhitun. (1992). Skipulags- og byggingarreglur á lágsvæðum þar sem hætta er á flóðum. Reykjavík: Skipulag ríkisins.
- Fjarhitun hf. (1995). Lágsvæði, 2. áfangi Skipulags- og byggingarráðstafanir og sjóvarnir. Reykjavík: Skipulag ríkisins.
- Grétar Mar Hreggviðsson. (2010). Áhrif hækkunar sjávar á fráveitukerfi. Lokaverkefni í byggingartæknifræði. Reykjavík: Háskólinn í Reykjavík.
- Halldór Björnsson, Árný E Sveinbjörnsdóttir, Anna K. Daníelsdóttir, Árni Snorrason, Bjarni D. Sigurðsson, Einar Sveinbjörnsson, o.fl. (2008). Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi: Skýrsla vísindanefndar um loftslagsbreytingar.
- Fyrri mynd: Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund. (Sótt 18.10.2017).
- Seinni mynd: Úr safni höfundar.