Sólin Sólin Rís 10:37 • sest 15:54 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:55 • Sest 20:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:23 • Síðdegis: 21:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:58 • Síðdegis: 15:50 í Reykjavík

Hvernig er hérað skilgreint samkvæmt íslenskri venju?

Már Jónsson

Í heild hljóðaði spurningin svona:
Hvernig er hérað skilgreint samkvæmt íslenskri venju? Frá landnámi hefur verið talað um að eitthvað sé í héraði og mun síðar komu héraðsdómar en mér hefur ávallt þótt það óljóst hvað átt sé nákvæmlega við með héraði á Íslandi. Ömt, sýslur, hreppar og sveitarfélög þekkjum við en héruð virðast aldrei hafa verið nákvæmlega skilgreind.

Sveinn Pálsson náttúrufræðingur fór um Ísland árin 1791–1795 og í ferðadagbók sem hann sendi dönskum styrkveitendum sínum sá hann í umfjöllun um Skagafjörð haustið 1792 ástæðu til að útskýra á spássíu hvað hérað væri:
Hérað nefndist að fornu allt það landsvæði er liggur að firði og höfuðá þeirri er í hann fellur, með þverám hennar öllum eða svo langt sem vötn falla til sjóar. Hér merkir hérað hið byggða land sjálft er liggur upp frá firðinum, nema dalina, þar sem það er svo breitt að tvær höfuðár eða fleiri falla samsíða sitt hvorum megin á þessu svæði, án þess að á milli verði óbyggður háls. Dalur nefnist aftur á móti þar sem ein höfuðá rennur um fremur þröngt svæði sem lukt er fjöllum á báða vegu (Ferðabók, bls. 616).

Þetta er afar vönduð þýðing Pálma Hannessonar en danskan texta Sveins má sjá hér á mynd, með eigin hendi hans:

Herred kaldtes i gamle dage ald den strækning land der omgav en fiord og den der i löbende hovedelv med alle dens bielve, eller saa langt som „vötn falla til sjóar“. Her menes for herred selv det beboede opland for uden dalerne, hvor sammen er saa bredt, at to eller flere hovedelve uden mellem löbende ubeboet biærgryg falde parallel en paa hver sin side af böigden. Dal derimod kaldes, hvor kuns en hovedelv löber langs en smalere paa begge sider med fielde indesluttet egn.

Svona skildu menn hugtakið í lok 18. aldar og þótt ekki sé vitað hvað orðið í eðli sínu merkir eða hvernig það þróaðist í norrænum málum virðist sem elstu höfundar íslenskir hafi skilið það á svipaðan veg sem opið landsvæði þar sem vítt var til veggja, ef svo má segja, en þó afgirt fjöllum. Hann tók mið af Skagafirði og þar eru einmitt Héraðsvötn – á Austurlandi er Hérað sem einnig passar við skilgreininguna. Í Egils sögu Skallagrímssonar er svæði á Vesturlandi aukið við, því þegar Kveldúlfur kom til landsins setti hann bæ og „kallaði að Borg, en fjörðinn Borgarfjörð og svo héraðið upp frá kenndu þeir við fjörðinn“ (Íslendingasögur I, bls. 35). Annars er ekki mikið um svo víðáttumikil svæði umlukin fjöllum á landinu og ljóst má vera að á miðöldum var héraðshugtakið talsvert rýmra í hugum flestra. Í lagasafninu Grágás, sem að stofni til er frá 12. öld, birtist það í einhvers konar andstæðupari við fjöll og firnindi, þá í merkingunni láglendi almennt eða jafnvel byggð. Þannig segir um lík sem fundust á fjöllum: „Þangað skal lík færa til héraðs sem þau vötn falla“ (Grágás, bls. 9). Tæki maður eigur annars manns í misgripum „á fjöllum uppi eða að óbyggðum“ naut hann vafans ef hann ekki áttaði sig á óhappinu „áður hann kemur í hérað“ (bls. 472). Það varðaði sektum léti maður hesta annars manns elta sig „úr héraði og yfir þær heiðar er vatnföll deilir af tveggja vegna á millum héraða“ (bls. 179). Í Sturlunga sögu frá síðari hluta 13. aldar sést sama aðgreining. Sturla Sighvatsson „sendi jafnan bændur úr héraði upp úr byggð eða á Kjöl suður eða annan veg á njósn“ (Sturlunga saga II, bls. 324). Á einhverjum punkti var „þoka mikil um héraðið en þokulaust um fjöll“ (II, bls. 189). Í norskum textum er hérað aftur á móti viðhaft í andstöðu við bæi og kaupstaði: „hvert málið var gjört í kaupangi eða héraði“ (Norges gamle love I, bls. 224).

Hér sjást tengsl orðsins „hérað“ við svonefnd „skyldheiti“ sem varða sams konar eða tengd fyrirbæri. Heimild: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Íslenskt orðanet.

Orðið var hins vegar til margra hluta nýtilegt – eins og það er enn þann dag í dag. Það tók aldrei á sig fasta eða skýra merkingu í stjórnsýslu eins og til dæmis „hreppur“ og „þing“ eða „fjórðungur“. Það gat reyndar dugað sem samheiti slíkra orða, eins og Magnús Már Magnússon útskýrði í Kulturhistorisk leksikon for middelalder árið 1961, en það entist ekki. Ein sértækari merking festist þó í sessi með orðunum „héraðsdómur“ og „héraðsþing“. Þar myndaðist eins konar sem andstæðupar Alþingis á Þingvöllum og dómþinga sem tóku til minni landsvæða eða með öðrum orðum þar sem menn áttu heima. Mál voru send heim í hérað eða komu úr héraði til endanlegs úrskurðar. Á einum stað í Grágás er meira að segja talað um hérað og héraðsdóma í sömu andrá: „Of ljúggögn þau öll er borin verða á vorþingi eða á héraðsdómum heima í héraði“ (Grágás, bls. 422). Oftar er þó bara getið dómanna, svo sem þegar segir: „Enda skal svo fara of alla héraðsdóma“ (bls. 318). Í hinum norsku Frostaþingslögum frá því fyrir miðja 13. öld gætir sama skilnings á orðinu: „þá er mál kemur heim í hérað“ (Norges gamle love I, bls. 183).

Konungsbók Grágásar (GKS 1157 fol.), bl. 24r. Ljósmynd: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Þessi tenging miðju og útjaðra birtist líka í sagnaritum. Í Sturlungu segir á einum stað um árið 1187 að menn bjuggust til alþingis og vildu tveir kapparnir ekki fara „og kváðust mundu klappa um eftir er mál kæmi heim í hérað.“ Þeim þriðja var leyft að ráða hvort hann vildi heldur „fara til þings eða vera heima og gæta héraðs“ (Sturlunga saga I, bls. 185). Í Laxdælu segir Þórður Ingunnarson: „Hvort ræður þú mér að ég segi skilið við Auði hér á þingi eða í héraði“ (Íslendingasögur V, bls. 46). Í Njálu segir Bjarni Broddhelgason við Eyjólf Bölverksson, honum til hróss: „Hafa og foreldrar þínir jafnan í stórmælum staðið víða á þingum og heima í héraði“ (Íslendingasögur III, bls. 171).

Héraðsdómar að hætti Grágásar gátu vart farið annars staðar fram en á þar til settum þingum, það er á héraðsþingum. Í Eyrbyggju segir af landnámsmanninum Þórólfi Mostrarskegg sem kom að landi nærri miðjum Breiðafirði að sunnanverðu, við nes sem hann nefndi Þórsnes. Þar á tanganum „lét hann hafa dóma alla og setti þar héraðsþing.“ Sama frásögn er í Landnámu en frumkvæðinu hnikað til: „hafði Þórólfur dóma alla og þar var sett héraðsþing með ráði allra sveitarmanna“ (Íslendingasögur V, bls. 127; Íslendingabók. Landnámabók, bls. 125). Í lýsingu á deilum varðandi nýjan kristinrétt sem var settur árið 1275 segir í Árna sögu biskups að Indriði böggul, sendimaður konungs, hafi sagt við biskup að hann mætti „sækja þau öll mál að nýjum lögum á héraðsþingum“ (Biskupa sögur III, bls. 70). Hugtakið festist svo í sessi með Jónsbók árið 1281. Fjármörkum átti að lýsa á héraðsþingi og um brúargerð segir: „Hann skal gera skilorð á brúnni þar sem hann vill og lýsa á héraðsþingi“ (Jónsbók, bls. 187, 189). Í dómum um allt land næstu aldirnar var orðið haft um hönd sem lagalegt hugtak um fyrsta dómstig og þaðan mátti senda mál til Alþingis. Nægir að nefna dóm 10. nóvember 1411 að Vaðli á Barðaströnd og annan 24. maí 1486 í Saurbæ í Eyjafirði þar sem talað er um „almennileg héraðsþing“ (Íslenzkt fornbréfasafn III, bls. 736; VI, bls. 569). Til eru lagalegir formálar frá því 1570 sem segja til um það að setja „héraðsþing á þingstað réttum“ (Alþingisbækur I, bls. 207, 212); sambærilegt orðalag var algilt á 17. og 18. öld, jafnvel lengur, og fyrirbærið rótfast í réttarfari.

Prentuð rit

 • Alþingisbækur Íslands I. Reykjavík 1912–1914.
 • Biskupa sögur III. Guðrún Ása Grímsdóttir gaf út. Íslenzk fornrit XVII. Reykjavík 1998.
 • Ferðabók Sveins Pálssonar. Dagbækur og ritgerðir 1791–1797. Tvö bindi. Steindór Steindórsson frá Hlöðum, Jón Eyþórsson og Pálmi Hannesson þýddu. Reykjavík 1945.
 • Grágás. Lagasafn íslenska þjóðveldisins. Gunnar Karlsson, Kristján Sveinsson og Mörður Árnason sáu um útgáfuna. Reykjavík 1992.
 • Íslendingabók. Landnámabók. Jakob Benediktsson gaf út. Íslenzk fornrit I. Reykjavík 1968.
 • Íslendingasögur. Fimm bindi. Reykjavík 2018.
 • Íslenzkt fornbréfasafn III. Kaupmannahöfn 1896.
 • Íslenzkt fornbréfasafn VI. Reykjavík 1900–1904.
 • Jónsbók. Lögbók Íslendinga. Már Jónsson tók saman. Reykjavík 2004.
 • Magnús Már Lárusson, „Herred. Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder VI. Reykjavík 1961, d. 494–495.
 • Norges gamle love I. Ósló 1846.

Handrit

 • Landsbókasafn-Háskólabókasafn
 • ÍB 1 fol. Ferðadagbók Sveins Pálssonar 1791–1792.

Vefheimildir

Höfundur

Már Jónsson

prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

5.10.2022

Spyrjandi

Stefán Örvar Sigmundsson

Tilvísun

Már Jónsson. „Hvernig er hérað skilgreint samkvæmt íslenskri venju?“ Vísindavefurinn, 5. október 2022. Sótt 28. nóvember 2022. http://visindavefur.is/svar.php?id=83774.

Már Jónsson. (2022, 5. október). Hvernig er hérað skilgreint samkvæmt íslenskri venju? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=83774

Már Jónsson. „Hvernig er hérað skilgreint samkvæmt íslenskri venju?“ Vísindavefurinn. 5. okt. 2022. Vefsíða. 28. nóv. 2022. <http://visindavefur.is/svar.php?id=83774>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig er hérað skilgreint samkvæmt íslenskri venju?
Í heild hljóðaði spurningin svona:

Hvernig er hérað skilgreint samkvæmt íslenskri venju? Frá landnámi hefur verið talað um að eitthvað sé í héraði og mun síðar komu héraðsdómar en mér hefur ávallt þótt það óljóst hvað átt sé nákvæmlega við með héraði á Íslandi. Ömt, sýslur, hreppar og sveitarfélög þekkjum við en héruð virðast aldrei hafa verið nákvæmlega skilgreind.

Sveinn Pálsson náttúrufræðingur fór um Ísland árin 1791–1795 og í ferðadagbók sem hann sendi dönskum styrkveitendum sínum sá hann í umfjöllun um Skagafjörð haustið 1792 ástæðu til að útskýra á spássíu hvað hérað væri:
Hérað nefndist að fornu allt það landsvæði er liggur að firði og höfuðá þeirri er í hann fellur, með þverám hennar öllum eða svo langt sem vötn falla til sjóar. Hér merkir hérað hið byggða land sjálft er liggur upp frá firðinum, nema dalina, þar sem það er svo breitt að tvær höfuðár eða fleiri falla samsíða sitt hvorum megin á þessu svæði, án þess að á milli verði óbyggður háls. Dalur nefnist aftur á móti þar sem ein höfuðá rennur um fremur þröngt svæði sem lukt er fjöllum á báða vegu (Ferðabók, bls. 616).

Þetta er afar vönduð þýðing Pálma Hannessonar en danskan texta Sveins má sjá hér á mynd, með eigin hendi hans:

Herred kaldtes i gamle dage ald den strækning land der omgav en fiord og den der i löbende hovedelv med alle dens bielve, eller saa langt som „vötn falla til sjóar“. Her menes for herred selv det beboede opland for uden dalerne, hvor sammen er saa bredt, at to eller flere hovedelve uden mellem löbende ubeboet biærgryg falde parallel en paa hver sin side af böigden. Dal derimod kaldes, hvor kuns en hovedelv löber langs en smalere paa begge sider med fielde indesluttet egn.

Svona skildu menn hugtakið í lok 18. aldar og þótt ekki sé vitað hvað orðið í eðli sínu merkir eða hvernig það þróaðist í norrænum málum virðist sem elstu höfundar íslenskir hafi skilið það á svipaðan veg sem opið landsvæði þar sem vítt var til veggja, ef svo má segja, en þó afgirt fjöllum. Hann tók mið af Skagafirði og þar eru einmitt Héraðsvötn – á Austurlandi er Hérað sem einnig passar við skilgreininguna. Í Egils sögu Skallagrímssonar er svæði á Vesturlandi aukið við, því þegar Kveldúlfur kom til landsins setti hann bæ og „kallaði að Borg, en fjörðinn Borgarfjörð og svo héraðið upp frá kenndu þeir við fjörðinn“ (Íslendingasögur I, bls. 35). Annars er ekki mikið um svo víðáttumikil svæði umlukin fjöllum á landinu og ljóst má vera að á miðöldum var héraðshugtakið talsvert rýmra í hugum flestra. Í lagasafninu Grágás, sem að stofni til er frá 12. öld, birtist það í einhvers konar andstæðupari við fjöll og firnindi, þá í merkingunni láglendi almennt eða jafnvel byggð. Þannig segir um lík sem fundust á fjöllum: „Þangað skal lík færa til héraðs sem þau vötn falla“ (Grágás, bls. 9). Tæki maður eigur annars manns í misgripum „á fjöllum uppi eða að óbyggðum“ naut hann vafans ef hann ekki áttaði sig á óhappinu „áður hann kemur í hérað“ (bls. 472). Það varðaði sektum léti maður hesta annars manns elta sig „úr héraði og yfir þær heiðar er vatnföll deilir af tveggja vegna á millum héraða“ (bls. 179). Í Sturlunga sögu frá síðari hluta 13. aldar sést sama aðgreining. Sturla Sighvatsson „sendi jafnan bændur úr héraði upp úr byggð eða á Kjöl suður eða annan veg á njósn“ (Sturlunga saga II, bls. 324). Á einhverjum punkti var „þoka mikil um héraðið en þokulaust um fjöll“ (II, bls. 189). Í norskum textum er hérað aftur á móti viðhaft í andstöðu við bæi og kaupstaði: „hvert málið var gjört í kaupangi eða héraði“ (Norges gamle love I, bls. 224).

Hér sjást tengsl orðsins „hérað“ við svonefnd „skyldheiti“ sem varða sams konar eða tengd fyrirbæri. Heimild: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Íslenskt orðanet.

Orðið var hins vegar til margra hluta nýtilegt – eins og það er enn þann dag í dag. Það tók aldrei á sig fasta eða skýra merkingu í stjórnsýslu eins og til dæmis „hreppur“ og „þing“ eða „fjórðungur“. Það gat reyndar dugað sem samheiti slíkra orða, eins og Magnús Már Magnússon útskýrði í Kulturhistorisk leksikon for middelalder árið 1961, en það entist ekki. Ein sértækari merking festist þó í sessi með orðunum „héraðsdómur“ og „héraðsþing“. Þar myndaðist eins konar sem andstæðupar Alþingis á Þingvöllum og dómþinga sem tóku til minni landsvæða eða með öðrum orðum þar sem menn áttu heima. Mál voru send heim í hérað eða komu úr héraði til endanlegs úrskurðar. Á einum stað í Grágás er meira að segja talað um hérað og héraðsdóma í sömu andrá: „Of ljúggögn þau öll er borin verða á vorþingi eða á héraðsdómum heima í héraði“ (Grágás, bls. 422). Oftar er þó bara getið dómanna, svo sem þegar segir: „Enda skal svo fara of alla héraðsdóma“ (bls. 318). Í hinum norsku Frostaþingslögum frá því fyrir miðja 13. öld gætir sama skilnings á orðinu: „þá er mál kemur heim í hérað“ (Norges gamle love I, bls. 183).

Konungsbók Grágásar (GKS 1157 fol.), bl. 24r. Ljósmynd: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Þessi tenging miðju og útjaðra birtist líka í sagnaritum. Í Sturlungu segir á einum stað um árið 1187 að menn bjuggust til alþingis og vildu tveir kapparnir ekki fara „og kváðust mundu klappa um eftir er mál kæmi heim í hérað.“ Þeim þriðja var leyft að ráða hvort hann vildi heldur „fara til þings eða vera heima og gæta héraðs“ (Sturlunga saga I, bls. 185). Í Laxdælu segir Þórður Ingunnarson: „Hvort ræður þú mér að ég segi skilið við Auði hér á þingi eða í héraði“ (Íslendingasögur V, bls. 46). Í Njálu segir Bjarni Broddhelgason við Eyjólf Bölverksson, honum til hróss: „Hafa og foreldrar þínir jafnan í stórmælum staðið víða á þingum og heima í héraði“ (Íslendingasögur III, bls. 171).

Héraðsdómar að hætti Grágásar gátu vart farið annars staðar fram en á þar til settum þingum, það er á héraðsþingum. Í Eyrbyggju segir af landnámsmanninum Þórólfi Mostrarskegg sem kom að landi nærri miðjum Breiðafirði að sunnanverðu, við nes sem hann nefndi Þórsnes. Þar á tanganum „lét hann hafa dóma alla og setti þar héraðsþing.“ Sama frásögn er í Landnámu en frumkvæðinu hnikað til: „hafði Þórólfur dóma alla og þar var sett héraðsþing með ráði allra sveitarmanna“ (Íslendingasögur V, bls. 127; Íslendingabók. Landnámabók, bls. 125). Í lýsingu á deilum varðandi nýjan kristinrétt sem var settur árið 1275 segir í Árna sögu biskups að Indriði böggul, sendimaður konungs, hafi sagt við biskup að hann mætti „sækja þau öll mál að nýjum lögum á héraðsþingum“ (Biskupa sögur III, bls. 70). Hugtakið festist svo í sessi með Jónsbók árið 1281. Fjármörkum átti að lýsa á héraðsþingi og um brúargerð segir: „Hann skal gera skilorð á brúnni þar sem hann vill og lýsa á héraðsþingi“ (Jónsbók, bls. 187, 189). Í dómum um allt land næstu aldirnar var orðið haft um hönd sem lagalegt hugtak um fyrsta dómstig og þaðan mátti senda mál til Alþingis. Nægir að nefna dóm 10. nóvember 1411 að Vaðli á Barðaströnd og annan 24. maí 1486 í Saurbæ í Eyjafirði þar sem talað er um „almennileg héraðsþing“ (Íslenzkt fornbréfasafn III, bls. 736; VI, bls. 569). Til eru lagalegir formálar frá því 1570 sem segja til um það að setja „héraðsþing á þingstað réttum“ (Alþingisbækur I, bls. 207, 212); sambærilegt orðalag var algilt á 17. og 18. öld, jafnvel lengur, og fyrirbærið rótfast í réttarfari.

Prentuð rit

 • Alþingisbækur Íslands I. Reykjavík 1912–1914.
 • Biskupa sögur III. Guðrún Ása Grímsdóttir gaf út. Íslenzk fornrit XVII. Reykjavík 1998.
 • Ferðabók Sveins Pálssonar. Dagbækur og ritgerðir 1791–1797. Tvö bindi. Steindór Steindórsson frá Hlöðum, Jón Eyþórsson og Pálmi Hannesson þýddu. Reykjavík 1945.
 • Grágás. Lagasafn íslenska þjóðveldisins. Gunnar Karlsson, Kristján Sveinsson og Mörður Árnason sáu um útgáfuna. Reykjavík 1992.
 • Íslendingabók. Landnámabók. Jakob Benediktsson gaf út. Íslenzk fornrit I. Reykjavík 1968.
 • Íslendingasögur. Fimm bindi. Reykjavík 2018.
 • Íslenzkt fornbréfasafn III. Kaupmannahöfn 1896.
 • Íslenzkt fornbréfasafn VI. Reykjavík 1900–1904.
 • Jónsbók. Lögbók Íslendinga. Már Jónsson tók saman. Reykjavík 2004.
 • Magnús Már Lárusson, „Herred. Island“, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder VI. Reykjavík 1961, d. 494–495.
 • Norges gamle love I. Ósló 1846.

Handrit

 • Landsbókasafn-Háskólabókasafn
 • ÍB 1 fol. Ferðadagbók Sveins Pálssonar 1791–1792.

Vefheimildir

...