Sólin Sólin Rís 02:57 • sest 24:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:51 • Sest 07:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:40 • Síðdegis: 21:03 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:39 • Síðdegis: 14:42 í Reykjavík

Hvað er embætti sýslumanns gamalt og hvað var yfirvaldið kallað fyrir það?

Már Jónsson

Fram yfir miðja 13. öld, á svonefndum þjóðveldistíma, réðu goðar yfir héruðum landsins og ekki er hægt að tala um miðstjórnarvald að öðru leyti en því að þeir komu með þingmönnum sínum til fundar á alþingi á Þingvöllum á sumrum, enda giltu ein lög í landinu sem nú ganga undir nafninu Grágás. Eftir að íslenskir höfðingjar gengust Noregskonungi á hönd árin 1262–1264 var farið að huga að nýrri löggjöf sem svo sagnaritarinn Sturla Þórðarson kom með til landsins sumarið 1271 eftir nokkra dvöl í Noregi. Sú lögbók hlaut þá þegar nafnið Járnsíða og er varðveitt að mestum hluta. Illu heilli er norsk löggjöf frá árunum 1267–1269 að langmestu leyti glötuð en ljóst má vera að Járnsíða byggði mikið til á þeirri vinnu, því stærsti hluti hennar er hugvitsamleg samþætting eldri laga í Noregi, Gulaþingslaga og Frostaþingslaga. Eitthvert tillit var þó tekið til aðstæðna á Íslandi og um fimmti hluti textans er tekinn úr Grágás.

Ekki verður sagt að ný stjórnskipan landsins sé deginum ljósari. Í Járnsíðu er gert ráð fyrir hvorki fleiri né færri en þremur embættum sem tengjast konungsvaldinu, því þar eru nefndir „umboðsmaður konungs“, „valdsmaður“ og „sóknarmaður“ eða „sóknari“. Á einum stað koma öll heitin fyrir þegar rætt er um það hvernig eigi að fara með mann sem ræðst á annan á þingi og er handsamaður: „Binda skal þann mann og færa sóknarmanni þeim er til sóknar er tekinn í því héraði, en hann á að varðveita hann og svo valdsmaður er honum er færður. ... En ef hann hleypur frá sóknarmanni og verður hinn sári dauður, þá er sóknarmaðurinn sjálfur í veði til úrskurðar konungs umboðsmanns.“ Ákvæðið er byggt á Frostaþingslögum sem giltu í Þrændalögum en embættisheitin þar eru önnur og viðbrögð við mistökum öllu hastarlegri: „Binda skal þann mann og ármanni færa, en hann á vörð að veita og svo lendur maður. ... En ef hann hleypur frá ármanni og verður hinn sári dauður, þá skal drepa ármanninn.“ Hugsunin í Járnsíðu er þá líklegast sú að valdsmenn verði ígildi lendra manna í Noregi, sem höfðu svarið konungi hollustu sína og gættu hagsmuna hans á tilteknu svæði, með undirskipaða ármenn sem sáu um hlutina til sveita. Þeir urðu sóknarmenn. Vegna fjarlægðar Íslands var búið til nýtt starf umboðsmanns konungs. Hann er ávallt í eintölu í Járnsíðu (nefndur fjórtán sinnum) en valdsmenn og sóknarmenn koma fyrir bæði í eintölu og fleirtölu. Valdsmenn voru hinum æðri og tilnefndu fulltrúa til alþingisfarar og þeir áttu sjálfir að vera þar eða umboðsmenn þeirra – sóknarar eru ekki nefndir í því samhengi. Ætla má út frá norsku samhengi að konungur hafi átt að skipa sér umboðsmann sem svo skipaði valdsmenn – óvíst hversu marga. Þeir aftur völdu sóknarmenn eftir þörfum eða sáu um hlutina sjálfir, því stundum eru bæði heitin nefnd um tiltekin verkefni. Orðin „sýsla“ eða „sýslumaður“ koma ekki fyrir í Járnsíðu.

Embætti sýslumanna koma fyrst við sögu í Noregi seint á 12. öld. Myndin sýnir endurgerð Sverrisborgar sem byggð var í Noregi seint á 12. öld af Sverri konungi Sigurðssyni.

Embætti sýslumanna koma fyrst við sögu í Noregi seint á 12. öld. Þeir komu úr hópi lendra manna en fengu aukna ábyrgð á stjórnsýslu, innheimtu skatta, dómum og refsingum gagnvart konungi, auk þess sem þeir sinntu landvörnum. Nýjung var að þessir menn voru ekkert endilega og jafnvel síður af svæðinu sem þeir fengu til umsýslu og skyldi með því tryggja að þeir gættu hagsmuna konungs fyrst og fremst. Meðfram nýrri löggjöf fyrir landið eftir miðja 13. öld var landinu skipt í um það bil 50 sýslur sem voru misjafnar að stærð og fólksfjölda. Til merkis um þessa breytingu má tilgreina klausuna hér að ofan eftir hinum norsku landslögum frá 1274: „Binda skal þann mann og færa sýslumanni eða hans umboðsmanni vörð að veita. ... En ef hann hleypur frá sýslumanni ok deyr hinn sári þá er sýslumaður í veði sjálfur til konungs miskunnar.“ Orðalag er skilvirkara heldur en það var í Járnsíðu, því hér er sýslumaður einn ábyrgur en ekki umboðsmaður hans. Umboðsmaðurinn, áður sóknari, er ekki aðili máls gagnvart konungi. Þessi málsgrein er nokkurn veginn nákvæmlega eins í lögbókinni Jónsbók sem konungur sendi til Íslands og var samþykkt á alþingi sumarið 1281: „Binda skal þann mann og færa sýslumanni. En hann á að varðveita hann og svo umboðsmaður ef honum er færður. ... En ef hann hleypur brott frá sýslumanni og verður hinn sári dauður, þá er sýslumaður sjálfur í veði til konungs úrskurðar.“

Axel Kristinsson hefur gert góða grein fyrir heldur óljósum ákvæðum Jónsbókar um sýslumenn og aðra æðstu embættismenn í landinu á fyrstu áratugum konungsvalds. Niðurstaða hans er að í fyrstu hafi sýslur ekki verið landfræðilega afmarkaðar einingar, eins og síðar varð – enda var talað um þing: Múlaþing, Árnesþing, Hegranesþing og svo framvegis. Hann segir: „Sýsla var embætti valdsmannsins og það svæði sem hann stjórnaði, hversu stórt eða lítið sem það var. Flest bendir til að stærð sýslna og mörk þeirra hafi verið mjög á reiki og farið mest eftir því samkomulagi sem hver sýslumaður náði við konung eða hirðstjóra“ (bls. 121). Eftir því sem takmarkaðar heimildir greina fengu menn nú sýslu í heilum fjórðungi landsins og jafnvel tveimur, en nokkru fyrir miðja 14. öld tók sú skipan að mótast sem gilti til skamms tíma og undir lok aldarinnar munu sýslumenn hafa verið orðnir á annan tug með yfirráð yfir skýrt afmörkuðum svæðum sem þá framvegis hétu sýslur en ekki þing.

Hirðstjóraembættið sem Axel nefnir kemur ekki fyrir sem starfsheiti í Jónsbók, heldur er þar líkt og í Járnsíðu talað um umboðsmann konungs sem millilið gagnvart sýslumönnum. Þeir gegndu þeim verkefnum sem valdsmenn höfðu samkvæmt Járnsíðu og völdu sér undirmenn sem eru ýmist nefndir „sóknarar“ eða „réttarar.“ Vart er verjandi að gera ráð fyrir tveimur aðskildum embættum og líklegast að þetta hafi verið menn sem í umboði sýslumanns önnuðust minna landsvæði. Til merkis um fjölda þeirra á landsvísu má hafa eftirfarandi ákvæði: „Eigi skulu sóknarmenn sýslumanna fleiri en fjórir í fjórðungi hverjum. En tveir þar sem sýslumaður situr í fjórðungi.“

Sýsluskipting Íslands eins og hún var við afnám sýslanna sem stjórnsýslueininga 1988. Samliggjandi sýslur í sama lit voru sama lögsagnarumdæmi sýslumanns.

Sum ákvæði Jónsbókar opinbera nýja sýn konungs á stjórnarhætti á Íslandi en önnur endurtaka eldra orðalag sem lagasmiðir hafa ekki áttað sig á að breyta. Það veldur því að hálfri áttundu öld síðar er ekki alveg auðvelt að átta sig á hugsuninni. Til dæmis er í Jónsbók á nokkrum stöðum enn talað um valdsmenn þar sem greinilega hefði átt að setja sýslumenn. Það skal því engan undra að skipulagið breyttist í meðförum næstu áratugina, án þess reyndar að nokkru sinni væri kveðið á það með lögum. Strangt tekið runnu embætti sýslumanna og sóknara saman og kerfið tók á sig formfagra mynd um það bil tuttugu sýslna og sýslumanna sem var við lýði í landinu fram undir lok síðustu aldar, þar sem allt var á einni hendi. Í Noregi varð þróunin allt önnur.

Heimildir:
 • Axel Kristinsson, „Embættismenn konungs fyrir 1400“, Saga 36 (1998), bls. 113–152.
 • Einar Arnórsson, Réttarsaga Alþingis. Reykjavík 1945.
 • Járnsíða og kristinréttur Árna Þorlákssonar. Haraldur Bernharðsson, Magnús Lyngdal Magnússon og Már Jónsson bjuggu til prentunar. Reykjavík 2005.
 • Jónsbók. Lögbók Íslendinga. Már Jónsson bjó til prentunar. Reykjavík 2004.
 • Norges gamle love I. Rudolph Keyser og Peter Andreas Munch bjuggu til prentunar. Osló [Christiania] 1846.
 • Erik Opsahl, „Sysle“, Store norske leksikon, snl.no/sysle. (Sótt 5.04.2022).
 • Ordbog over det norrøne prosasprog, onp.ku.dk/onp/onp.php. (Sótt 5.4.2022).

Myndir:

Höfundur

Már Jónsson

prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

12.4.2022

Spyrjandi

Gyða Fanney Guðjónsdóttir

Tilvísun

Már Jónsson. „Hvað er embætti sýslumanns gamalt og hvað var yfirvaldið kallað fyrir það?“ Vísindavefurinn, 12. apríl 2022. Sótt 25. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=83455.

Már Jónsson. (2022, 12. apríl). Hvað er embætti sýslumanns gamalt og hvað var yfirvaldið kallað fyrir það? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=83455

Már Jónsson. „Hvað er embætti sýslumanns gamalt og hvað var yfirvaldið kallað fyrir það?“ Vísindavefurinn. 12. apr. 2022. Vefsíða. 25. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=83455>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er embætti sýslumanns gamalt og hvað var yfirvaldið kallað fyrir það?
Fram yfir miðja 13. öld, á svonefndum þjóðveldistíma, réðu goðar yfir héruðum landsins og ekki er hægt að tala um miðstjórnarvald að öðru leyti en því að þeir komu með þingmönnum sínum til fundar á alþingi á Þingvöllum á sumrum, enda giltu ein lög í landinu sem nú ganga undir nafninu Grágás. Eftir að íslenskir höfðingjar gengust Noregskonungi á hönd árin 1262–1264 var farið að huga að nýrri löggjöf sem svo sagnaritarinn Sturla Þórðarson kom með til landsins sumarið 1271 eftir nokkra dvöl í Noregi. Sú lögbók hlaut þá þegar nafnið Járnsíða og er varðveitt að mestum hluta. Illu heilli er norsk löggjöf frá árunum 1267–1269 að langmestu leyti glötuð en ljóst má vera að Járnsíða byggði mikið til á þeirri vinnu, því stærsti hluti hennar er hugvitsamleg samþætting eldri laga í Noregi, Gulaþingslaga og Frostaþingslaga. Eitthvert tillit var þó tekið til aðstæðna á Íslandi og um fimmti hluti textans er tekinn úr Grágás.

Ekki verður sagt að ný stjórnskipan landsins sé deginum ljósari. Í Járnsíðu er gert ráð fyrir hvorki fleiri né færri en þremur embættum sem tengjast konungsvaldinu, því þar eru nefndir „umboðsmaður konungs“, „valdsmaður“ og „sóknarmaður“ eða „sóknari“. Á einum stað koma öll heitin fyrir þegar rætt er um það hvernig eigi að fara með mann sem ræðst á annan á þingi og er handsamaður: „Binda skal þann mann og færa sóknarmanni þeim er til sóknar er tekinn í því héraði, en hann á að varðveita hann og svo valdsmaður er honum er færður. ... En ef hann hleypur frá sóknarmanni og verður hinn sári dauður, þá er sóknarmaðurinn sjálfur í veði til úrskurðar konungs umboðsmanns.“ Ákvæðið er byggt á Frostaþingslögum sem giltu í Þrændalögum en embættisheitin þar eru önnur og viðbrögð við mistökum öllu hastarlegri: „Binda skal þann mann og ármanni færa, en hann á vörð að veita og svo lendur maður. ... En ef hann hleypur frá ármanni og verður hinn sári dauður, þá skal drepa ármanninn.“ Hugsunin í Járnsíðu er þá líklegast sú að valdsmenn verði ígildi lendra manna í Noregi, sem höfðu svarið konungi hollustu sína og gættu hagsmuna hans á tilteknu svæði, með undirskipaða ármenn sem sáu um hlutina til sveita. Þeir urðu sóknarmenn. Vegna fjarlægðar Íslands var búið til nýtt starf umboðsmanns konungs. Hann er ávallt í eintölu í Járnsíðu (nefndur fjórtán sinnum) en valdsmenn og sóknarmenn koma fyrir bæði í eintölu og fleirtölu. Valdsmenn voru hinum æðri og tilnefndu fulltrúa til alþingisfarar og þeir áttu sjálfir að vera þar eða umboðsmenn þeirra – sóknarar eru ekki nefndir í því samhengi. Ætla má út frá norsku samhengi að konungur hafi átt að skipa sér umboðsmann sem svo skipaði valdsmenn – óvíst hversu marga. Þeir aftur völdu sóknarmenn eftir þörfum eða sáu um hlutina sjálfir, því stundum eru bæði heitin nefnd um tiltekin verkefni. Orðin „sýsla“ eða „sýslumaður“ koma ekki fyrir í Járnsíðu.

Embætti sýslumanna koma fyrst við sögu í Noregi seint á 12. öld. Myndin sýnir endurgerð Sverrisborgar sem byggð var í Noregi seint á 12. öld af Sverri konungi Sigurðssyni.

Embætti sýslumanna koma fyrst við sögu í Noregi seint á 12. öld. Þeir komu úr hópi lendra manna en fengu aukna ábyrgð á stjórnsýslu, innheimtu skatta, dómum og refsingum gagnvart konungi, auk þess sem þeir sinntu landvörnum. Nýjung var að þessir menn voru ekkert endilega og jafnvel síður af svæðinu sem þeir fengu til umsýslu og skyldi með því tryggja að þeir gættu hagsmuna konungs fyrst og fremst. Meðfram nýrri löggjöf fyrir landið eftir miðja 13. öld var landinu skipt í um það bil 50 sýslur sem voru misjafnar að stærð og fólksfjölda. Til merkis um þessa breytingu má tilgreina klausuna hér að ofan eftir hinum norsku landslögum frá 1274: „Binda skal þann mann og færa sýslumanni eða hans umboðsmanni vörð að veita. ... En ef hann hleypur frá sýslumanni ok deyr hinn sári þá er sýslumaður í veði sjálfur til konungs miskunnar.“ Orðalag er skilvirkara heldur en það var í Járnsíðu, því hér er sýslumaður einn ábyrgur en ekki umboðsmaður hans. Umboðsmaðurinn, áður sóknari, er ekki aðili máls gagnvart konungi. Þessi málsgrein er nokkurn veginn nákvæmlega eins í lögbókinni Jónsbók sem konungur sendi til Íslands og var samþykkt á alþingi sumarið 1281: „Binda skal þann mann og færa sýslumanni. En hann á að varðveita hann og svo umboðsmaður ef honum er færður. ... En ef hann hleypur brott frá sýslumanni og verður hinn sári dauður, þá er sýslumaður sjálfur í veði til konungs úrskurðar.“

Axel Kristinsson hefur gert góða grein fyrir heldur óljósum ákvæðum Jónsbókar um sýslumenn og aðra æðstu embættismenn í landinu á fyrstu áratugum konungsvalds. Niðurstaða hans er að í fyrstu hafi sýslur ekki verið landfræðilega afmarkaðar einingar, eins og síðar varð – enda var talað um þing: Múlaþing, Árnesþing, Hegranesþing og svo framvegis. Hann segir: „Sýsla var embætti valdsmannsins og það svæði sem hann stjórnaði, hversu stórt eða lítið sem það var. Flest bendir til að stærð sýslna og mörk þeirra hafi verið mjög á reiki og farið mest eftir því samkomulagi sem hver sýslumaður náði við konung eða hirðstjóra“ (bls. 121). Eftir því sem takmarkaðar heimildir greina fengu menn nú sýslu í heilum fjórðungi landsins og jafnvel tveimur, en nokkru fyrir miðja 14. öld tók sú skipan að mótast sem gilti til skamms tíma og undir lok aldarinnar munu sýslumenn hafa verið orðnir á annan tug með yfirráð yfir skýrt afmörkuðum svæðum sem þá framvegis hétu sýslur en ekki þing.

Hirðstjóraembættið sem Axel nefnir kemur ekki fyrir sem starfsheiti í Jónsbók, heldur er þar líkt og í Járnsíðu talað um umboðsmann konungs sem millilið gagnvart sýslumönnum. Þeir gegndu þeim verkefnum sem valdsmenn höfðu samkvæmt Járnsíðu og völdu sér undirmenn sem eru ýmist nefndir „sóknarar“ eða „réttarar.“ Vart er verjandi að gera ráð fyrir tveimur aðskildum embættum og líklegast að þetta hafi verið menn sem í umboði sýslumanns önnuðust minna landsvæði. Til merkis um fjölda þeirra á landsvísu má hafa eftirfarandi ákvæði: „Eigi skulu sóknarmenn sýslumanna fleiri en fjórir í fjórðungi hverjum. En tveir þar sem sýslumaður situr í fjórðungi.“

Sýsluskipting Íslands eins og hún var við afnám sýslanna sem stjórnsýslueininga 1988. Samliggjandi sýslur í sama lit voru sama lögsagnarumdæmi sýslumanns.

Sum ákvæði Jónsbókar opinbera nýja sýn konungs á stjórnarhætti á Íslandi en önnur endurtaka eldra orðalag sem lagasmiðir hafa ekki áttað sig á að breyta. Það veldur því að hálfri áttundu öld síðar er ekki alveg auðvelt að átta sig á hugsuninni. Til dæmis er í Jónsbók á nokkrum stöðum enn talað um valdsmenn þar sem greinilega hefði átt að setja sýslumenn. Það skal því engan undra að skipulagið breyttist í meðförum næstu áratugina, án þess reyndar að nokkru sinni væri kveðið á það með lögum. Strangt tekið runnu embætti sýslumanna og sóknara saman og kerfið tók á sig formfagra mynd um það bil tuttugu sýslna og sýslumanna sem var við lýði í landinu fram undir lok síðustu aldar, þar sem allt var á einni hendi. Í Noregi varð þróunin allt önnur.

Heimildir:
 • Axel Kristinsson, „Embættismenn konungs fyrir 1400“, Saga 36 (1998), bls. 113–152.
 • Einar Arnórsson, Réttarsaga Alþingis. Reykjavík 1945.
 • Járnsíða og kristinréttur Árna Þorlákssonar. Haraldur Bernharðsson, Magnús Lyngdal Magnússon og Már Jónsson bjuggu til prentunar. Reykjavík 2005.
 • Jónsbók. Lögbók Íslendinga. Már Jónsson bjó til prentunar. Reykjavík 2004.
 • Norges gamle love I. Rudolph Keyser og Peter Andreas Munch bjuggu til prentunar. Osló [Christiania] 1846.
 • Erik Opsahl, „Sysle“, Store norske leksikon, snl.no/sysle. (Sótt 5.04.2022).
 • Ordbog over det norrøne prosasprog, onp.ku.dk/onp/onp.php. (Sótt 5.4.2022).

Myndir:...