Sólin Sólin Rís 03:29 • sest 23:24 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 03:35 • Sest 09:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:38 • Síðdegis: 23:07 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:33 • Síðdegis: 16:38 í Reykjavík

Hvað er málþroskaröskun?

Jóhanna Thelma Einarsdóttir

Einstaklingar greinast með málþroskaröskun (e. developmental language disorder, DLD) ef þeir eiga í erfiðleikum með að tileinka sér eigið tungumál án þekktra orsaka. Röskunin nær bæði til málskilnings og máltjáningar. Ef frávik í máli koma fram vegna þekktra orsaka eins og einhverfu eða greindarskerðingar er talað um málröskun (LD) en ekki málþroskaröskun. Málþroskaröskun er mjög algeng og er talið að um 7,5% - 9% barna geti verið með DLD eða um tvö börn í hverjum bekk.

Hugtakið málþroskaröskun kom fram í kringum 2017 og leysti af hólmi mörg önnur hugtök sem höfðu verið notuð fram að því, eins og sértæk málþroskaröskun (e. specific language disorder) eða málhömlun (e. language impairment). Börn eru ekki greind með málþroskaröskun fyrir þriggja ára aldur en talað um að þau séu sein til máls (e. late talkers). Sum ná síðar færni í tungumálinu sem er á pari við jafnaldra en önnur eiga í varanlegum erfiðleikum. Greining fyrir fimm ára aldur getur verið ónákvæm. Við greiningu á málþroskaröskun er stuðst við stöðluð málþroskapróf ásamt óformlegum athugunum og mat sérfræðinga.

Málþroskaröskun er mjög algeng og er talið að um 7,5% - 9% barna geti verið með DLD.

Öll greiningarviðmið voru einfölduð með tilkomu hugtaksins málþroskaröskun. Ekki er gerð krafa um að fyrir liggi ítarlegar þroskamælingar með greindarprófum eins og áður þegar sértæk málþroskaröskun var greind. Barn sem sýnir frávik í málþroska þrátt fyrir að hafa fengið viðhlítandi málörvun í umhverfinu getur verið með málþroskaröskun. Börn með málþroskaröskun hafa oft slakan orðaforða, þau eiga í erfiðleikum með formgerð tungumálsins eins og setningafræði og beygingar og einnig með að nota tungumálið á viðeigandi hátt í félagslegum samskiptum. Á grunnskólaaldri koma erfiðleikar fram í lestri og ritun. Nám í skólanum byggir á tungumálinu og því er aukin áhætta á námserfiðleikum hjá börnum með málþroskaröskun. Málþroskaröskun getur leitt til félagslegrar einangrunar, einkum hjá eldri börnum þegar félagsleg samskipti við jafnaldra verða flóknari. Börn með málþroskaröskun eru í aukinni hættu með að verða fyrir einelti. Málþroskaröskun getur verið falin, vangreind eða mistúlkuð sem slæm hegðun, eftirtektarleysi eða léleg hlustun. Hún getur fylgt ADHD og sértækum lestrarerfiðleikum eða lesblindu.

Það er mikilvægt að greina málþroskaröskun til þess að einstaklingar fái viðeigandi aðstoð. Talmeinafræðingar eru lykilsérfræðingar við að greina frávikin í tungumálinu. Aðrir, eins og sérkennarar og bekkjarkennarar, gegna mikilvægu hlutverki við að skilja börn með málþroskafrávik og aðlaga kennsluaðferðir að þörfum þeirra. Snemmtæk íhlutun skiptir verulegu máli og að umhverfið bregðist við á styðjandi hátt. Málþroskaröskun eldist ekki af börnum en einkennin breytast með aldrinum. Með viðeigandi aðstoð geta einstaklingar með málþroskaröskun náð að þroska hæfileika sína þannig að þeir geti lifað góðu lífi með vinum og fjölskyldu og lagt sitt af mörkum til að byggja upp gott samfélag.

Mynd:
  • Pixabay.com. Höfundur myndar: Pezibear. (Sótt 4.10.2022).

Höfundur

Jóhanna Thelma Einarsdóttir

prófessor í talmeinafræði við HÍ

Útgáfudagur

6.10.2022

Spyrjandi

Ásgeir Beinteinsson

Tilvísun

Jóhanna Thelma Einarsdóttir. „Hvað er málþroskaröskun?“ Vísindavefurinn, 6. október 2022. Sótt 29. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=83917.

Jóhanna Thelma Einarsdóttir. (2022, 6. október). Hvað er málþroskaröskun? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=83917

Jóhanna Thelma Einarsdóttir. „Hvað er málþroskaröskun?“ Vísindavefurinn. 6. okt. 2022. Vefsíða. 29. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=83917>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er málþroskaröskun?
Einstaklingar greinast með málþroskaröskun (e. developmental language disorder, DLD) ef þeir eiga í erfiðleikum með að tileinka sér eigið tungumál án þekktra orsaka. Röskunin nær bæði til málskilnings og máltjáningar. Ef frávik í máli koma fram vegna þekktra orsaka eins og einhverfu eða greindarskerðingar er talað um málröskun (LD) en ekki málþroskaröskun. Málþroskaröskun er mjög algeng og er talið að um 7,5% - 9% barna geti verið með DLD eða um tvö börn í hverjum bekk.

Hugtakið málþroskaröskun kom fram í kringum 2017 og leysti af hólmi mörg önnur hugtök sem höfðu verið notuð fram að því, eins og sértæk málþroskaröskun (e. specific language disorder) eða málhömlun (e. language impairment). Börn eru ekki greind með málþroskaröskun fyrir þriggja ára aldur en talað um að þau séu sein til máls (e. late talkers). Sum ná síðar færni í tungumálinu sem er á pari við jafnaldra en önnur eiga í varanlegum erfiðleikum. Greining fyrir fimm ára aldur getur verið ónákvæm. Við greiningu á málþroskaröskun er stuðst við stöðluð málþroskapróf ásamt óformlegum athugunum og mat sérfræðinga.

Málþroskaröskun er mjög algeng og er talið að um 7,5% - 9% barna geti verið með DLD.

Öll greiningarviðmið voru einfölduð með tilkomu hugtaksins málþroskaröskun. Ekki er gerð krafa um að fyrir liggi ítarlegar þroskamælingar með greindarprófum eins og áður þegar sértæk málþroskaröskun var greind. Barn sem sýnir frávik í málþroska þrátt fyrir að hafa fengið viðhlítandi málörvun í umhverfinu getur verið með málþroskaröskun. Börn með málþroskaröskun hafa oft slakan orðaforða, þau eiga í erfiðleikum með formgerð tungumálsins eins og setningafræði og beygingar og einnig með að nota tungumálið á viðeigandi hátt í félagslegum samskiptum. Á grunnskólaaldri koma erfiðleikar fram í lestri og ritun. Nám í skólanum byggir á tungumálinu og því er aukin áhætta á námserfiðleikum hjá börnum með málþroskaröskun. Málþroskaröskun getur leitt til félagslegrar einangrunar, einkum hjá eldri börnum þegar félagsleg samskipti við jafnaldra verða flóknari. Börn með málþroskaröskun eru í aukinni hættu með að verða fyrir einelti. Málþroskaröskun getur verið falin, vangreind eða mistúlkuð sem slæm hegðun, eftirtektarleysi eða léleg hlustun. Hún getur fylgt ADHD og sértækum lestrarerfiðleikum eða lesblindu.

Það er mikilvægt að greina málþroskaröskun til þess að einstaklingar fái viðeigandi aðstoð. Talmeinafræðingar eru lykilsérfræðingar við að greina frávikin í tungumálinu. Aðrir, eins og sérkennarar og bekkjarkennarar, gegna mikilvægu hlutverki við að skilja börn með málþroskafrávik og aðlaga kennsluaðferðir að þörfum þeirra. Snemmtæk íhlutun skiptir verulegu máli og að umhverfið bregðist við á styðjandi hátt. Málþroskaröskun eldist ekki af börnum en einkennin breytast með aldrinum. Með viðeigandi aðstoð geta einstaklingar með málþroskaröskun náð að þroska hæfileika sína þannig að þeir geti lifað góðu lífi með vinum og fjölskyldu og lagt sitt af mörkum til að byggja upp gott samfélag.

Mynd:
  • Pixabay.com. Höfundur myndar: Pezibear. (Sótt 4.10.2022).
...