Sólin Sólin Rís 08:23 • sest 18:57 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:16 • Síðdegis: 25:08 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:12 • Síðdegis: 18:26 í Reykjavík

Hvað getið þið sagt mér um Dalvíkurskjálftann 1934?

Páll Halldórsson, Bryndís Brandsdóttir, Júlíus Sólnes og Ragnar Stefánsson

Laugardaginn 2. júní 1934 fannst mikill jarðskjálfti á Norðurlandi um klukkan 12:43 að íslenskum tíma, sem mældist 6,2 að stærð (MS).[1] Hans varð vart allt frá Búðardal í vestri að Vopnafirði í austri, en snarpastur var hann á Dalvík þar sem miklar skemmdir urðu. Mikið tjón varð einnig í öðrum byggðum næst skjálftamiðjunni.

Illa sprungið íbúðarhús eftir Dalvíkurskjálftann 1934.

Upptök skjálftans voru á Dalvíkurmisgenginu, hinni syðstu af þremur misgengislínum í stefnu suðaustur til norðvestur, um það bil einn kílómetra austur af Dalvík. Fyrsti kippurinn var langharðastur og lengstur. „Þessi kippur mun hafa staðið hálfa aðra mínútu.“[2] Honum fylgdi svo mikill hávaði að fólk sagðist hafa haldið hann stafa af sprengingu. Sjómenn á skipum á Eyjafirði urðu víða varir við eins konar högg sem bátar þeirra urðu fyrir. Nálægt mynni fjarðarins töldu sjómenn sig hafa séð hafsbylgju sem greinilega var allt annað en venjulegur öldugangur, og virðist hún hafa verið það sem kalla mætti minni háttar skjálftaflóðbylgju. Hún hafi risið og borið við fjöll séð frá skipinu.

Þetta hvort tveggja ýtir undir þá tilgátu að upptök skjálftans hafi að hluta til verið undir hafsbotni, og lóðréttur misgengisþáttur hafi verið í honum. Miklar jarðsprungur mynduðust, og bentu stefnur þeirra til þess að jarðskjálftinn hefði átt upptök sín í Böggvisstaðafjalli. Eftir fyrsta kippinn voru nánast stöðugir skjálftar næstu klukkutíma.

Smjáskjálftar, tilgreindir með rauðum punktum sýna útlínur Tjörnesbrotabeltisins. Kassar og örvar í bláum lit tjá niðurstöður rannsóknar til að finna staðsetningu upptaka, brotalínu og stefnu sniðgengishreyfingar í jarðskjálftum af stærð 6-7 á svæðinu. Staðsetning upptaka er í miðjum kassa og ártal sýnir hvenær þau urðu.

Samkvæmt smáskjálftamælingum (sjá mynd) eru líklegustu upptök Dalvíkurskjálftans mitt á milli Hríseyjar og Dalvíkur, sprungustefnan lítið eitt austan við norður og nær til lands tveimur til þremur kílómetrum austur af Dalvík. Þetta er því misgengissprunga niðri á fimm til tíu kílómetra dýpi, en þar eru upptök flestra smáskjálfta.

Tilvísanir:
  1. ^ Ragnar Stefánsson, Gunnar B. Guðmundsson og Páll Halldórsson. Tjörnes fracture zone. New and old seismic evidences for the link between the North Iceland rift zone and the Mid-Atlantic ridge. Tectonophysics, 447(1-4)., 117-126.
  2. ^ Öldin okkar, 1931-1950, bls. 47.


Þetta svar er úr bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (2013) og birt með góðfúslegu leyfi. Það er lítillega aðlagað Vísindavefnum. Myndefni kemur úr sama riti.

Þóra og Edda Briem spurðu: Á hvaða sprungubelti var Dalvíkurskjálftinn árið 1934 og hvað orsakaði hann?

Höfundar

Páll Halldórsson

jarðeðlisfræðingur

Bryndís Brandsdóttir

jarðeðlisfræðingur við Raunvísindastofnun

Júlíus Sólnes

prófessor emeritus

Ragnar Stefánsson

jarðskjálftafræðingur

Útgáfudagur

3.2.2023

Spyrjandi

Freydís Guðmundsdóttir, Þóra og Edda Briem

Tilvísun

Páll Halldórsson, Bryndís Brandsdóttir, Júlíus Sólnes og Ragnar Stefánsson. „Hvað getið þið sagt mér um Dalvíkurskjálftann 1934?“ Vísindavefurinn, 3. febrúar 2023. Sótt 4. mars 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=84603.

Páll Halldórsson, Bryndís Brandsdóttir, Júlíus Sólnes og Ragnar Stefánsson. (2023, 3. febrúar). Hvað getið þið sagt mér um Dalvíkurskjálftann 1934? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=84603

Páll Halldórsson, Bryndís Brandsdóttir, Júlíus Sólnes og Ragnar Stefánsson. „Hvað getið þið sagt mér um Dalvíkurskjálftann 1934?“ Vísindavefurinn. 3. feb. 2023. Vefsíða. 4. mar. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=84603>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um Dalvíkurskjálftann 1934?
Laugardaginn 2. júní 1934 fannst mikill jarðskjálfti á Norðurlandi um klukkan 12:43 að íslenskum tíma, sem mældist 6,2 að stærð (MS).[1] Hans varð vart allt frá Búðardal í vestri að Vopnafirði í austri, en snarpastur var hann á Dalvík þar sem miklar skemmdir urðu. Mikið tjón varð einnig í öðrum byggðum næst skjálftamiðjunni.

Illa sprungið íbúðarhús eftir Dalvíkurskjálftann 1934.

Upptök skjálftans voru á Dalvíkurmisgenginu, hinni syðstu af þremur misgengislínum í stefnu suðaustur til norðvestur, um það bil einn kílómetra austur af Dalvík. Fyrsti kippurinn var langharðastur og lengstur. „Þessi kippur mun hafa staðið hálfa aðra mínútu.“[2] Honum fylgdi svo mikill hávaði að fólk sagðist hafa haldið hann stafa af sprengingu. Sjómenn á skipum á Eyjafirði urðu víða varir við eins konar högg sem bátar þeirra urðu fyrir. Nálægt mynni fjarðarins töldu sjómenn sig hafa séð hafsbylgju sem greinilega var allt annað en venjulegur öldugangur, og virðist hún hafa verið það sem kalla mætti minni háttar skjálftaflóðbylgju. Hún hafi risið og borið við fjöll séð frá skipinu.

Þetta hvort tveggja ýtir undir þá tilgátu að upptök skjálftans hafi að hluta til verið undir hafsbotni, og lóðréttur misgengisþáttur hafi verið í honum. Miklar jarðsprungur mynduðust, og bentu stefnur þeirra til þess að jarðskjálftinn hefði átt upptök sín í Böggvisstaðafjalli. Eftir fyrsta kippinn voru nánast stöðugir skjálftar næstu klukkutíma.

Smjáskjálftar, tilgreindir með rauðum punktum sýna útlínur Tjörnesbrotabeltisins. Kassar og örvar í bláum lit tjá niðurstöður rannsóknar til að finna staðsetningu upptaka, brotalínu og stefnu sniðgengishreyfingar í jarðskjálftum af stærð 6-7 á svæðinu. Staðsetning upptaka er í miðjum kassa og ártal sýnir hvenær þau urðu.

Samkvæmt smáskjálftamælingum (sjá mynd) eru líklegustu upptök Dalvíkurskjálftans mitt á milli Hríseyjar og Dalvíkur, sprungustefnan lítið eitt austan við norður og nær til lands tveimur til þremur kílómetrum austur af Dalvík. Þetta er því misgengissprunga niðri á fimm til tíu kílómetra dýpi, en þar eru upptök flestra smáskjálfta.

Tilvísanir:
  1. ^ Ragnar Stefánsson, Gunnar B. Guðmundsson og Páll Halldórsson. Tjörnes fracture zone. New and old seismic evidences for the link between the North Iceland rift zone and the Mid-Atlantic ridge. Tectonophysics, 447(1-4)., 117-126.
  2. ^ Öldin okkar, 1931-1950, bls. 47.


Þetta svar er úr bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (2013) og birt með góðfúslegu leyfi. Það er lítillega aðlagað Vísindavefnum. Myndefni kemur úr sama riti.

Þóra og Edda Briem spurðu: Á hvaða sprungubelti var Dalvíkurskjálftinn árið 1934 og hvað orsakaði hann?...