Sólin Sólin Rís 05:05 • sest 21:47 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:35 • Síðdegis: 22:03 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:36 • Síðdegis: 15:35 í Reykjavík

Í hvers konar gosum myndast hraungúlar?

Þorvaldur Þórðarson

Hraungúlar (e. lava dome) myndast í gosum þar sem uppstreymi kvikunnar er mjög hægt. Reyndar svo hægt að auðveldast er að mæla það með ljósmyndum sem teknar eru frá sama stað og sjónarhorni á viku til mánaðar fresti (sjá mynd 1). Að sama skapi er framleiðnin í þessum gosum í minna lagi, eða á bilinu 1-100 rúmmetrar á sekúndu.[1]

Mynd 1: Teikning Masao Mimatsu póstmeistara af vexti Showa Shinzan-hraungúlsins á Usu-eldfjallinu í Japan. Showa Shinzan má þýða sem „Nýja þakfellið“.

Hraungúlar vaxa innan frá á svipaðan hátt og helluhraun. Fersk og heitari kvika þrýstist inn í kjarna hraunsins sem er umlukinn þykkri, mjög stífri og að hluta til storknaðri skorpu, eins og sýnt er á mynd 2. Nýja kvikan ýtir skorpunni allar áttir, og við það strekkist á deigum hluta hennar. En stökki hlutinn, sem að jafnaði er næst yfirborði, brotnar í kantaða mola og hnullunga er mynda yfirborðsbreksíu hraunsins. Í gosum þar sem kvikuuppstreymið er samfellt, eru hraungúlarnir einstakir hraunsepar, en úr nokkrum sepum þar sem gengur á með hrinum. Slíkir hraunsepar auðkennast jafnan af sammiðja flæðimynstri, líkt og sést í þverskurði lauka, sem bendir til þess að uppstreymið hafi ekki verið stöðugt, heldur rykkjótt.

Mynd 2: Skýringarmynd af uppbyggingu hraungúls.

Myndun hraungúla (og stokkahrauna) er venjulega tengd sprengivirkni á einn eða annan hátt. Þessi hraun myndast oft í lokahrinu þeytigosa, þegar afgösuð kvika sem varð eftir í gosrásinni þrýstist upp líkt og hálfþornað tannkrem úr túbu. Oft eru þessi hraun svo stinn að aðstreymi kviku efst í gosrásinni er meira en útflæðið frá gígnum. Við þetta verður mismunaþrýstingur efst í gosrásinni sem oft leiðir til þess að eldstöðin sprengir hraunið af sér í öflugu þeytigosi.

Ósjaldan eru slík gos afleiðing hruns á bröttum og óstöðugum jöðrum hraunsins. Við það minnkar þrýstingur í hraunflæðinu við gosop og kvikan á greiðari leið upp. Þá geta myndast 15-20 kílómetra háir gosmekkir með tilheyrandi gjóskufalli og gjóskuflóðum. Flóð af þessu tagi æða niður hallandi land með ofsahraða og geta náð meira en 5-10 kílómetra frá upptökum.

Tilvísun:
  1. ^ Fink, J. H. og S. W. Anderson, 2000. Lava domes and coulees.Encyclopedia of Volcanoes (H. Sigurdsson, B. F. Houghton, S. R. McNutt, H. Rymer og J. Stix ritstjórar). Academic Press, San Diego, 307-319.


Þetta svar er úr bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (2013) og birt með góðfúslegu leyfi. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum. Myndirnar koma úr sama riti.

Höfundur

Þorvaldur Þórðarson

eldfjallafræðingur á Jarðvísindastofnun HÍ

Útgáfudagur

3.4.2024

Spyrjandi

Anna Aradóttir

Tilvísun

Þorvaldur Þórðarson. „Í hvers konar gosum myndast hraungúlar?“ Vísindavefurinn, 3. apríl 2024. Sótt 29. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=85765.

Þorvaldur Þórðarson. (2024, 3. apríl). Í hvers konar gosum myndast hraungúlar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=85765

Þorvaldur Þórðarson. „Í hvers konar gosum myndast hraungúlar?“ Vísindavefurinn. 3. apr. 2024. Vefsíða. 29. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=85765>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Í hvers konar gosum myndast hraungúlar?
Hraungúlar (e. lava dome) myndast í gosum þar sem uppstreymi kvikunnar er mjög hægt. Reyndar svo hægt að auðveldast er að mæla það með ljósmyndum sem teknar eru frá sama stað og sjónarhorni á viku til mánaðar fresti (sjá mynd 1). Að sama skapi er framleiðnin í þessum gosum í minna lagi, eða á bilinu 1-100 rúmmetrar á sekúndu.[1]

Mynd 1: Teikning Masao Mimatsu póstmeistara af vexti Showa Shinzan-hraungúlsins á Usu-eldfjallinu í Japan. Showa Shinzan má þýða sem „Nýja þakfellið“.

Hraungúlar vaxa innan frá á svipaðan hátt og helluhraun. Fersk og heitari kvika þrýstist inn í kjarna hraunsins sem er umlukinn þykkri, mjög stífri og að hluta til storknaðri skorpu, eins og sýnt er á mynd 2. Nýja kvikan ýtir skorpunni allar áttir, og við það strekkist á deigum hluta hennar. En stökki hlutinn, sem að jafnaði er næst yfirborði, brotnar í kantaða mola og hnullunga er mynda yfirborðsbreksíu hraunsins. Í gosum þar sem kvikuuppstreymið er samfellt, eru hraungúlarnir einstakir hraunsepar, en úr nokkrum sepum þar sem gengur á með hrinum. Slíkir hraunsepar auðkennast jafnan af sammiðja flæðimynstri, líkt og sést í þverskurði lauka, sem bendir til þess að uppstreymið hafi ekki verið stöðugt, heldur rykkjótt.

Mynd 2: Skýringarmynd af uppbyggingu hraungúls.

Myndun hraungúla (og stokkahrauna) er venjulega tengd sprengivirkni á einn eða annan hátt. Þessi hraun myndast oft í lokahrinu þeytigosa, þegar afgösuð kvika sem varð eftir í gosrásinni þrýstist upp líkt og hálfþornað tannkrem úr túbu. Oft eru þessi hraun svo stinn að aðstreymi kviku efst í gosrásinni er meira en útflæðið frá gígnum. Við þetta verður mismunaþrýstingur efst í gosrásinni sem oft leiðir til þess að eldstöðin sprengir hraunið af sér í öflugu þeytigosi.

Ósjaldan eru slík gos afleiðing hruns á bröttum og óstöðugum jöðrum hraunsins. Við það minnkar þrýstingur í hraunflæðinu við gosop og kvikan á greiðari leið upp. Þá geta myndast 15-20 kílómetra háir gosmekkir með tilheyrandi gjóskufalli og gjóskuflóðum. Flóð af þessu tagi æða niður hallandi land með ofsahraða og geta náð meira en 5-10 kílómetra frá upptökum.

Tilvísun:
  1. ^ Fink, J. H. og S. W. Anderson, 2000. Lava domes and coulees.Encyclopedia of Volcanoes (H. Sigurdsson, B. F. Houghton, S. R. McNutt, H. Rymer og J. Stix ritstjórar). Academic Press, San Diego, 307-319.


Þetta svar er úr bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (2013) og birt með góðfúslegu leyfi. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum. Myndirnar koma úr sama riti....