Ég er að velta fyrir mér steintegundinni karneól (carnelian). Finnst karneól á Íslandi? Hér finnst appelsínugult kvars sem minnir á karneól en er í flestum tilfellum aðeins þunn húð utan á glæru agati/kalsedóni. Hvaða skilyrði þarf steinn að uppfylla til að geta kallast karneól?Karneól (carneol, carnelian, cornelian) er rautt litarafbrigði kalsedóns, en kalsedón er örkristallað afbrigði af kvarsi (SiO2). Örkristallað merkir að kristallar eru svo smáir að þeir eru ekki greinanlegir með berum augum. Kvars er meðal algengustu steinda í jarðskorpunni og myndast við fjölbreyttar aðstæður í alls kyns jarðfræðilegu umhverfi. Fjölmörg afbrigði finnast af kvarsi. Grófkristölluð afbrigði eru til dæmis bergkristall, ametyst og reykkvars. Örkristölluð afbrigði eru til dæmis kalsedón, jaspis og tinna. Nafnið karneól er ættað úr latínu corneolus sem er dregið af latneska orðinu cornum. Það stendur fyrir tiltekna kirsuberjategund með ávöxt sem er rauður og hálfgegnsær og kallast á ensku ‘cornel cherry’. Corneol breyttist síðar í cornelian (14. öld) og svo í carnelian, carneol eða karneol (16. öld, eftir málsvæðum). Litur karneóls stafar af örlitlu magni af járnoxíðum. Samkvæmt Encyclopedia of Minerals er karneól afbrigði kalsedóns sem er blóðrautt, holdrautt til rauðbrúnt og litað í gegn. Aðrar heimildir lýsa því sem rauðu, appelsínugulu, rauðbrúnu eða kjötrauðu.

Karneól er rautt litarafbrigði kalsedóns, en kalsedón er örkristallað afbrigði af kvarsi. Ekki er til staðfest eintak af íslensku karneóli.
- Roberts, W.L., Campbell, T.J. & Rapp, G.R. 1990. Encyclopedia of Minerals, 2. útgáfa. Van Nostrand Reinhold, New York.
- Thorvaldur Thoroddsen 1904. Landfræðisaga Íslands. Hugmyndir manna um Ísland, náttúruskoðun og rannsóknir, fyrr og síðar. IV. Hið íslenska bókmenntafélag, Kaupmannahöfn, 410 bls.
- Thorvaldur Thoroddsen. 1911. Lýsing Íslands. 2. bindi. Hið íslenska bókmenntafélag, Kaupmannahöfn, 673 bls.
- Gagnagrunnur steinasafns Náttúrufræðistofnunar.
- Carnelian. Mindat.org. https://www.mindat.org/min-9333.html
- Yfirlitsmynd: Bruce Cairncross . (2016). Quartz (Var: Carnelian). Mindat.org. https://www.mindat.org/photo-754909.html
- Carneool (xndr).jpg. Wikimedia Commons. Birt undir CC BY-SA 3.0leyfi. https://commons.wikimedia.org/wiki/File:Carneool_%28xndr%29.jpg