Sólin Sólin Rís 08:16 • sest 18:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:07 • Sest 02:31 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:58 • Síðdegis: 22:28 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:16 • sest 18:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:07 • Sest 02:31 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:58 • Síðdegis: 22:28 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað orsakar beinþynningu?

Magnús Jóhannsson

Beinþynning er sjúkdómur sem hrjáir einkum konur (um 80% eru konur). Beinmassi kvenna nær hámarki nálægt 30-35 ára aldri, fer hægt minnkandi eftir það en nálægt tíðahvörfum verður hreinlega hrun á beinum sumra kvenna sem geta tapað 20-30% beinmassans á örfáum árum. Þetta getur haft mjög alvarlegar afleiðingar með beinbrotum og miklum veikindum. Hér er því mikið í húfi og á undanförnum árum hefur talsvert áunnist við að finna aðferðir til lækninga, til að fyrirbyggja sjúkdóminn og ekki síst að finna fyrirfram þær konur sem eru í mestri hættu að fá beinþynningu.

Beinin eru mynduð úr flóknum saltkristöllum af kalsíum (kalsíni, kalki) sem raða sér upp í misþykka þræði og mynda eins konar net. Þetta net er mjög þétt og þannig uppbyggt að það gefi beininu sem mestan styrk. Til þess að það gerist á eðlilegan hátt þarf hæfilega áreynslu. Beinin eru stöðugt að eyðast og myndast; í beinunum eru beineyðandi frumur (osteoklastar) og beinmyndandi frumur (osteoblastar) sem sinna hlutverki sínu alla ævi. Stóran hluta ævinnar er þessi starfsemi, og þar með beinmassinn, í jafnvægi þannig að beineyðing og beinmyndun gerast með sama hraða. Eftir 30-35 ára aldur fara beineyðandi frumurnar að hafa heldur betur og beinmassinn fer hægt minnkandi. Vegna hormónabreytinganna við 45-60 ára aldur eykst hraði beineyðingar verulega hjá sumum einstaklingum.

Það er kallað beinþynning (osteoporosis; stundum nefnt úrkölkun beina) þegar beinin hafa veikst verulega. Þeim sem eru með mikla beinþynningu er hættara við beinbrotum en öðrum og það er þess vegna sem beinþynning er óæskileg og jafnvel hættuleg. Beinþynning eykur einkum hættu á þremur tegundum beinbrota, úlnliðsbrotum, mjaðmarbrotum og samfalli hryggjarliða. Fólk getur þó að sjálfsögðu brotnað á þessum stöðum án þess að um beinþynningu sé að ræða.

Úlnliðsbrot verða einkum þegar fólk dettur og ber fyrir sig hendina, þetta eru í sjálfu sér ekki hættuleg brot en margir verða aldrei jafngóðir. Hjá þeim sem hafa beinþynningu geta hryggjarliðir fallið saman við lítið álag, stundum þarf ekki annað en snögga hreyfingu. Þessi brot eru oft mjög sársaukafull og valda verkjum svo vikum eða mánuðum skiptir. Við samfall hryggjarliða minnkar líkamshæð og ef þetta gerist oft er hætta á að sjúklingurinn verði krepptur eða skakkur í baki og fái jafnvel kryppu. Mjaðmarbrotin verða að teljast alvarlegust. Sumt gamalt fólk kemst aldrei almennilega á fætur eftir slík brot og erlendar rannsóknir sýna að 10-20% sjúklinganna deyja innan eins árs frá brotinu.

Áhættuþættir fyrir beinþynningu eru einkum aldur (hættan vex mikið með aldri), að vera kona, að fá tíðahvörf snemma, að vera af hvíta kynstofninum, lítið kalk í fæðunni, kyrrseta, lítil líkamsþyngd, beinþynning í ættinni, tóbaksreykingar og langvarandi notkun steralyfja eins og prednisóns. Vitneskjan um þessa áhættuþætti býður upp á ýmsar fyrirbyggjandi aðgerðir. Meðferð með östrógenhormónum við tíðahvörf hefur sýnt sig að minnka hættu á beinþynningu. Sjá verður til þess að nægjanlegt kalsíum sé í fæðunni, margir telja æskilegt að konur og karlar fái ekki minna en 1000 mg á dag. Dæmi um fæðutegundir sem innihalda mikið kalk eru mjólk, jógúrt, skyr, ostur, lax, rækjur, sumar tegundir bauna og spergilkál. Í þremur glösum af mjólk eru til dæmis um 1000 mg af kalsíum. Ef þetta dugir ekki til fást alls kyns töflur með kalsíumsöltum og einnig er gott að taka D-vítamín, til að mynda sem lýsi. Hreyfing hefur mikið að segja og ef fólk fær ekki nægjanlega áreynslu í daglegu starfi er gott að bæta við 2-4 klst. á viku með hæfilegri áreynslu.

Þeir sem eru komnir með beinþynningu ættu einnig að beita þessum sömu aðferðum og notaðar eru fyrirbyggjandi en auk þess kemur til greina að nota nýleg lyf. Lyfin sem mest eru notuð og gefa oft góðan árangur eru bífosfónöt og kalsítónín en nokkur lyf af þessum flokkum eru á markaði hér á landi. Öll þessi lyf verka á þann hátt að þau draga úr starfsemi beineyðandi frumna og geta á þann hátt minnkað hraða beinþynningar eða jafnvel snúið henni við.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Höfundur

Magnús Jóhannsson

prófessor emeritus í líflyfjafræði við HÍ

Útgáfudagur

5.9.2000

Spyrjandi

Hrafnhildur Heba Wilde

Tilvísun

Magnús Jóhannsson. „Hvað orsakar beinþynningu?“ Vísindavefurinn, 5. september 2000, sótt 14. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=875.

Magnús Jóhannsson. (2000, 5. september). Hvað orsakar beinþynningu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=875

Magnús Jóhannsson. „Hvað orsakar beinþynningu?“ Vísindavefurinn. 5. sep. 2000. Vefsíða. 14. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=875>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað orsakar beinþynningu?
Beinþynning er sjúkdómur sem hrjáir einkum konur (um 80% eru konur). Beinmassi kvenna nær hámarki nálægt 30-35 ára aldri, fer hægt minnkandi eftir það en nálægt tíðahvörfum verður hreinlega hrun á beinum sumra kvenna sem geta tapað 20-30% beinmassans á örfáum árum. Þetta getur haft mjög alvarlegar afleiðingar með beinbrotum og miklum veikindum. Hér er því mikið í húfi og á undanförnum árum hefur talsvert áunnist við að finna aðferðir til lækninga, til að fyrirbyggja sjúkdóminn og ekki síst að finna fyrirfram þær konur sem eru í mestri hættu að fá beinþynningu.

Beinin eru mynduð úr flóknum saltkristöllum af kalsíum (kalsíni, kalki) sem raða sér upp í misþykka þræði og mynda eins konar net. Þetta net er mjög þétt og þannig uppbyggt að það gefi beininu sem mestan styrk. Til þess að það gerist á eðlilegan hátt þarf hæfilega áreynslu. Beinin eru stöðugt að eyðast og myndast; í beinunum eru beineyðandi frumur (osteoklastar) og beinmyndandi frumur (osteoblastar) sem sinna hlutverki sínu alla ævi. Stóran hluta ævinnar er þessi starfsemi, og þar með beinmassinn, í jafnvægi þannig að beineyðing og beinmyndun gerast með sama hraða. Eftir 30-35 ára aldur fara beineyðandi frumurnar að hafa heldur betur og beinmassinn fer hægt minnkandi. Vegna hormónabreytinganna við 45-60 ára aldur eykst hraði beineyðingar verulega hjá sumum einstaklingum.

Það er kallað beinþynning (osteoporosis; stundum nefnt úrkölkun beina) þegar beinin hafa veikst verulega. Þeim sem eru með mikla beinþynningu er hættara við beinbrotum en öðrum og það er þess vegna sem beinþynning er óæskileg og jafnvel hættuleg. Beinþynning eykur einkum hættu á þremur tegundum beinbrota, úlnliðsbrotum, mjaðmarbrotum og samfalli hryggjarliða. Fólk getur þó að sjálfsögðu brotnað á þessum stöðum án þess að um beinþynningu sé að ræða.

Úlnliðsbrot verða einkum þegar fólk dettur og ber fyrir sig hendina, þetta eru í sjálfu sér ekki hættuleg brot en margir verða aldrei jafngóðir. Hjá þeim sem hafa beinþynningu geta hryggjarliðir fallið saman við lítið álag, stundum þarf ekki annað en snögga hreyfingu. Þessi brot eru oft mjög sársaukafull og valda verkjum svo vikum eða mánuðum skiptir. Við samfall hryggjarliða minnkar líkamshæð og ef þetta gerist oft er hætta á að sjúklingurinn verði krepptur eða skakkur í baki og fái jafnvel kryppu. Mjaðmarbrotin verða að teljast alvarlegust. Sumt gamalt fólk kemst aldrei almennilega á fætur eftir slík brot og erlendar rannsóknir sýna að 10-20% sjúklinganna deyja innan eins árs frá brotinu.

Áhættuþættir fyrir beinþynningu eru einkum aldur (hættan vex mikið með aldri), að vera kona, að fá tíðahvörf snemma, að vera af hvíta kynstofninum, lítið kalk í fæðunni, kyrrseta, lítil líkamsþyngd, beinþynning í ættinni, tóbaksreykingar og langvarandi notkun steralyfja eins og prednisóns. Vitneskjan um þessa áhættuþætti býður upp á ýmsar fyrirbyggjandi aðgerðir. Meðferð með östrógenhormónum við tíðahvörf hefur sýnt sig að minnka hættu á beinþynningu. Sjá verður til þess að nægjanlegt kalsíum sé í fæðunni, margir telja æskilegt að konur og karlar fái ekki minna en 1000 mg á dag. Dæmi um fæðutegundir sem innihalda mikið kalk eru mjólk, jógúrt, skyr, ostur, lax, rækjur, sumar tegundir bauna og spergilkál. Í þremur glösum af mjólk eru til dæmis um 1000 mg af kalsíum. Ef þetta dugir ekki til fást alls kyns töflur með kalsíumsöltum og einnig er gott að taka D-vítamín, til að mynda sem lýsi. Hreyfing hefur mikið að segja og ef fólk fær ekki nægjanlega áreynslu í daglegu starfi er gott að bæta við 2-4 klst. á viku með hæfilegri áreynslu.

Þeir sem eru komnir með beinþynningu ættu einnig að beita þessum sömu aðferðum og notaðar eru fyrirbyggjandi en auk þess kemur til greina að nota nýleg lyf. Lyfin sem mest eru notuð og gefa oft góðan árangur eru bífosfónöt og kalsítónín en nokkur lyf af þessum flokkum eru á markaði hér á landi. Öll þessi lyf verka á þann hátt að þau draga úr starfsemi beineyðandi frumna og geta á þann hátt minnkað hraða beinþynningar eða jafnvel snúið henni við.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:...