Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Líffræðilegt kyn fólks er flóknara en marga grunar og ekki hægt að skilgreina með því að vísa til eins eiginleika eins og typpis eða brjósta. Sem dæmi þá eru til einstaklingar með eistu, leggöng og brjóst, og aðrir með typpi og eggjastokka. Einnig eru kynvitund og kynhneigð breytileg manna á milli, og fylgja ekki þeim tveimur líffræðilegu kynjum sem algengust eru.
Af einhverjum ástæðum þykir sumum mikilvægt að flokka aðra einstaklinga með tilliti til kyns. Þá er fólk yfirleitt að hugsa um líkamlegt atgervi viðkomandi, og hefur borið á fordómum gagnvart þeim sem eru samkynhneigðir, af millikyni eða trans. Trans eru einstaklingar sem bera ytri einkenni eins kyns, en hafa vitund hins (eða annars) kynsins.
Líffræðilegt kyn er oftast skilgreint út frá ytri kyneinkennum. Á síðustu áratugum hafa aðferðir sameindalíffræðinnar einnig verið notaðar til að greina kyn. XX og XY-litningar tengjast sterklega kynjunum tveimur en samband kynlitninga við kyn er samt ófullkomið. Í spendýrum bera flestir Y-litningar eintak af SrY-geninu sem virkjar þroskun eistna og í gegnum flókið ferli þroskun annarra kyneinkenna karldýra. Hægt er að skoða hvort einstaklingur beri SrY-gen með svokallaðri PCR-aðferð. Samband milli kynlitninga og SrY er sterkt, en ófullkomið. Guðmundur Eggertsson orðaði þetta vel í svari sínu við spurningunni Hvað getið þið sagt mér um kynlitninga? þar sem segir:
En sé SRY-genið ekki til staðar, eða sé það óvirkt, þroskast einstaklingurinn sem kona. Til eru konur sem hafa arfgerðina XY en vantar SRY-genið vegna stökkbreytingar (úrfellingar). Eins eru til karlmenn sem hafa arfgerðina XX að SRY-geninu einu viðbættu. Báðar þessar arfgerðir eru mjög sjaldgæfar en þær nýttust vel í leitinni að SRY-geninu á Y-litningnum. Báðar valda þær ófrjósemi.
PCR er aðferðin sem alþjóðlega íþróttasambandið leggur til að notuð sé til að „greina“ kyn fólks með það að markmiði að „jafna“ aðstöðu kvenna í íþróttum. Hún mun ekki virka sem slík af nokkrum meginástæðum.
Einhverjum gæti dottið hug sú lausn að raðgreina bara SrY-gen allra íþróttamanna og greina þannig kynið.
Í fyrsta lagi er samband SrY og kyns ófullkomið. Öll gen, þar með talið SrY, eru til í mörgum afbrigðum (kölluð allel af erfðafræðingum). Afbrigðin eru vel flest jafngild, en þekkt er að sum hafa skerta (genið skemmt) eða aukna virkni, til dæmis ef tjáning gensins er umfram það sem venjulegt er. Þekkt eru þó nokkur afbrigði af SrY-geninu sem skemma virkni þess og PCR nýtist ekki til að greina þessi tilbrigði fyllilega.
Í öðru lagi er ekki öruggt að einstaklingur sé „karl“ þó PCR staðfesti að viðkomandi hafi SrY-genið og að það séu engar stökkbreytingar í geninu sem óvirkja það. Líta má á SrY sem fremsta kubbinn í langri keðju sem leiðir til myndunar eistna og margra annarra kyneinkenna karla, svo sem sáðrásar, typpis, blöðruhálskirtils og taugabrauta tengdar kynvitund og löngun. Nema hvað þessi keðja greinist, því ein atburðarás rekur sig í forvera kynkirtlanna, en önnur í vef sem gefur af sér lim eða sköp. Ef einhverja hlekki vantar í keðjuna eða keðjurnar þá raskast þroskun eins eða fleiri eiginleika.
Þekkt dæmi um þetta er svonefnt testósterón-ónæmi. Viðkomandi eru XY, með virkt SrY og mynda eðlileg eistu. Eistun framleiða testósterón sem er hormón sem hefur áhrif á marga aðra vefi fósturs og fólks. En til að túlka hormónið þarf viðtaka sem AR-genið skráir fyrir. Í einstaklingum með galla í AR-geninu þroskast ytri og innri kyneinkenni konu, en viðkomandi eru flestir með virk eistu. Slíkir einstaklingar skilgreina sig oft sem trans, það er að segja sem karlmann í kvenlíkama. Eins eru til trans einstaklingar sem fæðast í karllíkama, en upplifa sig sem kvenkyns frá unga aldri. Íslenska kvikmyndin Ljósvíkingur fjallar um einmitt þetta á nærgætinn og forvitnilegan hátt.
Samfélagið tekur nú skynsamlegar á málunum en áður fyrr og heilbrigðisstarfsfólk gerir sitt besta til að hlúa að og styðja transfólk. Hægt er að framkvæma kynskiptiaðgerðir til að færa líkama viðkomandi nær kynvitund þeirra.[1][2]
Trans eru einstaklingar sem bera ytri einkenni eins kyns, en hafa vitund hins (eða annars) kynsins.
Í þriðja lagi geta einstaklingar verið með flókna erfðasamsetningu vegna blöndunar fóstra eða stökkbreytinga í líkamsfrumum. Eins og í dæminu að ofan getur verið að PCR á lífsýni staðfesti að SrY sé til staðar í einstaklingi. Gefum okkur að genið sé í lagi, en að það finnst bara í sumum lífsýnum úr líkama viðkomandi en ekki öllum. Líklegast er að viðkomandi hafi orðið til við samruna tveggja fóstra. Saman geta runnið tvö XX fóstur, tvö XY fóstur eða fóstur sitt af hvorri gerðinni. Þeir síðasttöldu verða oft með blöndu af kyneinkennum eftir því hvar frumur með sitthvora samsetningu kynlitninga lenda í fóstrinu (og fullorðna einstaklingnum). Sigríður Rut Franzdóttir fjallaði um þetta í svari við spurningunni Getur fólk verið af millikyni? og segir:
Kona nokkur sem átti von á sínu þriðja barni fór í legvatnsástungu. Fóstrið reyndist heilbrigt en í ljós kom að konan sjálf var blanda tveggja einstaklinga, karlkyns og kvenkyns, sem höfðu runnið saman á fósturstigi. Þetta kom vísindamönnum verulega á óvart þar sem konan sýndi engin áberandi karlkyns einkenni og var augljóslega frjó. Nú telja menn jafnvel að blendingsfóstur séu mun algengari en áður var talið.
Það er ef til vill freistandi að nota verkfæri úr kistu líffræðinga til þess að svara afgerandi spurningunni - af hvaða kyni er einstaklingurinn? Einhverjum gæti dottið hug að raðgreina SrY-gen allra íþróttamanna og greina þannig kynið. Sannarlega væri hægt að raðgreina alla prótínröð gensins og stjórnraðir þess sem mundi afhjúpa margar, en ekki endilega allar, skaðlegar eða óvirkjandi stökkbreytingar í því. Það er töluvert vandasamara að greina hvaða breytingar í geninu mundu auka virkni þess, eða segja til um hvort að genið hafi hoppað á nýjan stað í erfðamenginu sem getur haft ófyrirséðar afleiðingar.
Undirliggjandi þessum hugsunarhætti er tálsýnin um einfaldleika veraldarinnar, um að auðvelt sé að flokka fólk í karla og konur, veika og sterkar, góða og slæmar. Veruleiki lífheimsins og mannkyns er sá að einstaklingar eru ólíkir og einstakir. Fólk reyndara í kynjaumræðunni bendir einnig á að þörfin fyrir að mæla konur til að vernda þær, eins og íþróttakonur með PCR-prófum, sé í raun enn ein birtingarmynd forræðishyggju og valdakerfis karla sem vilja kúga konur.
Tilvísanir:
^ T'Sjoen G. o.fl. (2011). Male gender identity in complete androgen insensitivity syndrome. Arch Sex Behav.m 40(3):635-8. https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/20358272/. (Sótt 13.05.2025).
^ Það að einstaklingar með AR-gena galla skilgreini sig sem karlmenn, bendir til að testósterón sé ekki nauðsynlegt fyrir karlmennsku.
Arnar Pálsson. „Er hægt að sanna eða staðfesta líffræðilegt kyn fólks með litningaprófi?“ Vísindavefurinn, 15. maí 2025, sótt 13. júní 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=87736.
Arnar Pálsson. (2025, 15. maí). Er hægt að sanna eða staðfesta líffræðilegt kyn fólks með litningaprófi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=87736
Arnar Pálsson. „Er hægt að sanna eða staðfesta líffræðilegt kyn fólks með litningaprófi?“ Vísindavefurinn. 15. maí. 2025. Vefsíða. 13. jún. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=87736>.