Sólin Sólin Rís 10:31 • sest 15:59 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:37 • Síðdegis: 20:01 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:22 • Síðdegis: 14:00 í Reykjavík

Getur fólk verið af millikyni?

Sigríður Rut Franzdóttir

Í stuttu máli er svarið já, því bæði er til fólk með útlitseinkenni beggja kynja og tvíkynja einstaklingar með fullþroskaða kynkirtla beggja kynja. Hins vegar er ekki víst að rétt sé að tala um millikyn heldur er frekar hægt að segja að vísindamenn séu að átta sig á því að mörkin sem við höfum hingað til dregið milli kynjanna séu ekki jafn skýr og áður var talið. Jafnvel er rætt um nokkurs konar líffræðilegt „kynjaróf“ milli karl- og kveneinkenna. Það er rétt að taka það fram strax í upphafi að kynáttun og kynhegðun er ekki endilega tengd staðsetningu á þessu kynjarófi og er ekki til umræðu hér, heldur einungis líkamleg kyneinkenni fólks.

Hin hefðbundna sýn er sú að kyn mannsins ráðist af því hvort hann/hún beri Y-litning eða ekki. Tveir X-litningar (eða arfgerð XX) leiða til þroskunar kvenkyns fósturs en einstaklingur með einn X- og einn Y-litning verður að öllu jöfnu karlkyns. Þó eru ekki allir karlmenn með einn X- og einn Y-litning, né allar konur með tvo X-litninga. Til eru heilkenni þar sem fjöldi kynlitninga er afbrigðilegur, til dæmis Turner-heilkenni, þar sem einstaklingur þroskast með kvenkyns einkenni en aðeins einn X-litning (táknað XO), eða Klinefelter-heilkenni þar sem einstaklingur fæðist með tvo X-litninga og einn Y-litning (XXY). XXY-einstaklingar eru karlkyns, en bera ýmis kveneinkenni. Það eru jafnvel til karlmenn með enn fleiri X-litninga og einn Y-litning. Af því má sjá að Y-litningur ræður því hvort karlkyns einkenni þroskast, en það er hins vegar ekki þannig að án Y-litnings þroskist sjálfkrafa kveneinkenni.

Mörkin á milli kynja eru ef til vill ekki eins skýr og lengi vel var talið, jafnvel er talað um líffræðilegt „kynjaróf“.

Auk heilkenna sem stafa af breyttum fjölda kynlitninga fæðast stundum börn með eðlilegan fjölda litninga sem bera þó einkenni beggja kynja, jafnvel fullþroska kynkirtla beggja kynja. Það nefnist á fræðimáli ovotestis en var áður oft kallað millikyn.

Nokkrar ástæður geta verið fyrir því að líkamleg einkenni gagnstæða kynsins komi fram en skýringin á því hvers vegna það getur gerst er sameiginlegur uppruni æxlunarkerfa beggja kynja á fósturskeiði. Í upphafi erum við nefnilega öll eins og ákvörðun um hvora þroskabrautina við förum (kvenfóstur eða karlfóstur) byggir á upplýsingum frá genum á kynlitningum í samspili við gen á öðrum almennum litningum. Líkt og önnur gen geta þau orðið fyrir stökkbreytingum og þær geta leitt til þess að einstaklingur lendi annars staðar á kynjarófinu en litningagerð hans segir til um.

Í dag eru þekktar stökkbreytingar í yfir 25 genum sem valda kynþroskunarheilkennum. Í sumum samfélögum eru svona stökkbreytingar nokkuð algengar, og frægt dæmi eru svokallað „guevedoces“ í bæ einum í Dóminíkanska lýðveldinu. Þessi börn fæðast með öll einkenni stúlkubarna en um 12 ára aldur vex þeim getnaðarlimur og eistun síga niður. Þessu er fagnað og þykir eðlilegur hluti mannlífsins á staðnum. Orsök heilkennisins er stökkbreyting í geni sem stýrir virkjun testósteróns sem karlhormóns í líkamsvefjum (það er niðurbroti testósteróns í díhýdrótestósterón, DHT).

Í dag eru þekktar stökkbreytingar í yfir 25 genum sem valda kynþroskunarheilkennum. Svonefnd „guevedoces“ í bæ einum í Dóminíkanska lýðveldinu fæðast með öll einkenni stúlkubarna en um 12 ára aldur vex þeim getnaðarlimur og eistun síga niður. Myndin sýnir konu og stúlkur frá Dóminíkanska lýðveldinu á vespu.

Auk þessa eru ýmsar ástæður þess að sumir einstaklingar framleiða meira eða minna af kynhormónum en aðrir og geta jafnframt verið misnæmir fyrir hormónum. Konur sem framleiða mikið af karlhormónum fá gjarna aukinn hárvöxt í andliti og á líkama. Þetta getur meðal annars stafað af því að ákveðið ensím (21-hýdroxýlasi) virkar ekki sem skildi og það leiðir til offramleiðslu karlhormóna (andrógen) í nýrnahettum. Í sinni sterkustu mynd veldur heilkennið (Congenital adrenal hyperplasia, CAH), því að kynfæri kvenna eru óvenjuleg og líkjast að hluta kynfærum karla.

Annað dæmi er þegar karlkyns einstaklingar eru ónæmir fyrir áhrifum andrógena. Þekkt er stökkbreyting á X-litningi sem veldur slíku heilkenni (Androgen insensitivity syndrome, AIS) sem veldur því að XY-einstaklingar bregðast ekki við karlhormónum en eru enn næmir fyrir kvenhormónum og fyrir vikið fær einstaklingurinn kveneinkenni, meðal annars ytri kynfæri kvenna og brjóst.

En það eru líka annars konar dæmi: Kona nokkur sem átti von á sínu þriðja barni fór í legvatnsástungu. Fóstrið reyndist heilbrigt en í ljós kom að konan sjálf var blanda tveggja einstaklinga, karlkyns og kvenkyns, sem höfðu runnið saman á fósturstigi. Þetta kom vísindamönnum verulega á óvart þar sem konan sýndi engin áberandi karlkyns einkenni og var augljóslega frjó. Nú telja menn jafnvel að blendingsfóstur séu mun algengari en áður var talið og að við innihöldum næstum öll frumur af fleiri en einni arfgerð.

Samfélag okkar gerir ennþá ráð fyrir að einstaklingur tilheyri annað hvort karlkyni eða kvenkyni og það getur sett aðstandendur barna með sterk kynþroskunarheilkenni í þó nokkurn vanda. Samfélagið þarf að taka á þessum málum eins og öðrum sem varða kyn og kynáttun, með þarfir og réttindi einstaklingsins að leiðarljósi – því það er ljóst að kyn er ekki jafn niðurnjörvað fyrirbæri og hin hefðbundna sýn manna hefur gefið til kynna.

Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér dæmi um kynþroskunarheilkenni má benda á nýlega umfjöllun í Nature (sjá heimildir hér fyrir neðan), umfjöllun BBC um „guevedoces“ og skáldsöguna Middlesex eftir Michael Mosley.

Heimildir:

Myndir:

Höfundur

Sigríður Rut Franzdóttir

lektor við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ

Útgáfudagur

11.5.2016

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Sigríður Rut Franzdóttir. „Getur fólk verið af millikyni?“ Vísindavefurinn, 11. maí 2016. Sótt 26. nóvember 2022. http://visindavefur.is/svar.php?id=72172.

Sigríður Rut Franzdóttir. (2016, 11. maí). Getur fólk verið af millikyni? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=72172

Sigríður Rut Franzdóttir. „Getur fólk verið af millikyni?“ Vísindavefurinn. 11. maí. 2016. Vefsíða. 26. nóv. 2022. <http://visindavefur.is/svar.php?id=72172>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Getur fólk verið af millikyni?
Í stuttu máli er svarið já, því bæði er til fólk með útlitseinkenni beggja kynja og tvíkynja einstaklingar með fullþroskaða kynkirtla beggja kynja. Hins vegar er ekki víst að rétt sé að tala um millikyn heldur er frekar hægt að segja að vísindamenn séu að átta sig á því að mörkin sem við höfum hingað til dregið milli kynjanna séu ekki jafn skýr og áður var talið. Jafnvel er rætt um nokkurs konar líffræðilegt „kynjaróf“ milli karl- og kveneinkenna. Það er rétt að taka það fram strax í upphafi að kynáttun og kynhegðun er ekki endilega tengd staðsetningu á þessu kynjarófi og er ekki til umræðu hér, heldur einungis líkamleg kyneinkenni fólks.

Hin hefðbundna sýn er sú að kyn mannsins ráðist af því hvort hann/hún beri Y-litning eða ekki. Tveir X-litningar (eða arfgerð XX) leiða til þroskunar kvenkyns fósturs en einstaklingur með einn X- og einn Y-litning verður að öllu jöfnu karlkyns. Þó eru ekki allir karlmenn með einn X- og einn Y-litning, né allar konur með tvo X-litninga. Til eru heilkenni þar sem fjöldi kynlitninga er afbrigðilegur, til dæmis Turner-heilkenni, þar sem einstaklingur þroskast með kvenkyns einkenni en aðeins einn X-litning (táknað XO), eða Klinefelter-heilkenni þar sem einstaklingur fæðist með tvo X-litninga og einn Y-litning (XXY). XXY-einstaklingar eru karlkyns, en bera ýmis kveneinkenni. Það eru jafnvel til karlmenn með enn fleiri X-litninga og einn Y-litning. Af því má sjá að Y-litningur ræður því hvort karlkyns einkenni þroskast, en það er hins vegar ekki þannig að án Y-litnings þroskist sjálfkrafa kveneinkenni.

Mörkin á milli kynja eru ef til vill ekki eins skýr og lengi vel var talið, jafnvel er talað um líffræðilegt „kynjaróf“.

Auk heilkenna sem stafa af breyttum fjölda kynlitninga fæðast stundum börn með eðlilegan fjölda litninga sem bera þó einkenni beggja kynja, jafnvel fullþroska kynkirtla beggja kynja. Það nefnist á fræðimáli ovotestis en var áður oft kallað millikyn.

Nokkrar ástæður geta verið fyrir því að líkamleg einkenni gagnstæða kynsins komi fram en skýringin á því hvers vegna það getur gerst er sameiginlegur uppruni æxlunarkerfa beggja kynja á fósturskeiði. Í upphafi erum við nefnilega öll eins og ákvörðun um hvora þroskabrautina við förum (kvenfóstur eða karlfóstur) byggir á upplýsingum frá genum á kynlitningum í samspili við gen á öðrum almennum litningum. Líkt og önnur gen geta þau orðið fyrir stökkbreytingum og þær geta leitt til þess að einstaklingur lendi annars staðar á kynjarófinu en litningagerð hans segir til um.

Í dag eru þekktar stökkbreytingar í yfir 25 genum sem valda kynþroskunarheilkennum. Í sumum samfélögum eru svona stökkbreytingar nokkuð algengar, og frægt dæmi eru svokallað „guevedoces“ í bæ einum í Dóminíkanska lýðveldinu. Þessi börn fæðast með öll einkenni stúlkubarna en um 12 ára aldur vex þeim getnaðarlimur og eistun síga niður. Þessu er fagnað og þykir eðlilegur hluti mannlífsins á staðnum. Orsök heilkennisins er stökkbreyting í geni sem stýrir virkjun testósteróns sem karlhormóns í líkamsvefjum (það er niðurbroti testósteróns í díhýdrótestósterón, DHT).

Í dag eru þekktar stökkbreytingar í yfir 25 genum sem valda kynþroskunarheilkennum. Svonefnd „guevedoces“ í bæ einum í Dóminíkanska lýðveldinu fæðast með öll einkenni stúlkubarna en um 12 ára aldur vex þeim getnaðarlimur og eistun síga niður. Myndin sýnir konu og stúlkur frá Dóminíkanska lýðveldinu á vespu.

Auk þessa eru ýmsar ástæður þess að sumir einstaklingar framleiða meira eða minna af kynhormónum en aðrir og geta jafnframt verið misnæmir fyrir hormónum. Konur sem framleiða mikið af karlhormónum fá gjarna aukinn hárvöxt í andliti og á líkama. Þetta getur meðal annars stafað af því að ákveðið ensím (21-hýdroxýlasi) virkar ekki sem skildi og það leiðir til offramleiðslu karlhormóna (andrógen) í nýrnahettum. Í sinni sterkustu mynd veldur heilkennið (Congenital adrenal hyperplasia, CAH), því að kynfæri kvenna eru óvenjuleg og líkjast að hluta kynfærum karla.

Annað dæmi er þegar karlkyns einstaklingar eru ónæmir fyrir áhrifum andrógena. Þekkt er stökkbreyting á X-litningi sem veldur slíku heilkenni (Androgen insensitivity syndrome, AIS) sem veldur því að XY-einstaklingar bregðast ekki við karlhormónum en eru enn næmir fyrir kvenhormónum og fyrir vikið fær einstaklingurinn kveneinkenni, meðal annars ytri kynfæri kvenna og brjóst.

En það eru líka annars konar dæmi: Kona nokkur sem átti von á sínu þriðja barni fór í legvatnsástungu. Fóstrið reyndist heilbrigt en í ljós kom að konan sjálf var blanda tveggja einstaklinga, karlkyns og kvenkyns, sem höfðu runnið saman á fósturstigi. Þetta kom vísindamönnum verulega á óvart þar sem konan sýndi engin áberandi karlkyns einkenni og var augljóslega frjó. Nú telja menn jafnvel að blendingsfóstur séu mun algengari en áður var talið og að við innihöldum næstum öll frumur af fleiri en einni arfgerð.

Samfélag okkar gerir ennþá ráð fyrir að einstaklingur tilheyri annað hvort karlkyni eða kvenkyni og það getur sett aðstandendur barna með sterk kynþroskunarheilkenni í þó nokkurn vanda. Samfélagið þarf að taka á þessum málum eins og öðrum sem varða kyn og kynáttun, með þarfir og réttindi einstaklingsins að leiðarljósi – því það er ljóst að kyn er ekki jafn niðurnjörvað fyrirbæri og hin hefðbundna sýn manna hefur gefið til kynna.

Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér dæmi um kynþroskunarheilkenni má benda á nýlega umfjöllun í Nature (sjá heimildir hér fyrir neðan), umfjöllun BBC um „guevedoces“ og skáldsöguna Middlesex eftir Michael Mosley.

Heimildir:

Myndir:

...