Hvaðan kemur orðatiltækið að láta í minni pokann fyrir einhverjum - og hvaða minni poka er átt við?Orðatiltækið að láta í minni pokann (fyrir einhverjum) merkir að ‘bíða ósigur (fyrir einhverjum), gefa eftir, tapa’ og þekkist frá síðari hluta 19. aldar. Halldór Halldórsson (1969:72) og Jón G. Friðjónsson (2006:662), sem báðir hafa fjallað mikið um íslensk orðatiltæki, telja líkinguna óljósa en Jón getur sér þess til að átt sé við ójafna skiptingu. Ég tel það sennilega skýringu, einhver fær útdeilt minni poka í ójöfnum skiptingum. Heimildir og mynd:
- Halldór Halldórsson. 1969. Íslenzkt orðtakasafn. II: L–Ö. Almenna bókafélagið, Reykjavík.
- Jón G. Friðjónsson. 2006. Mergur málsins. Íslensk orðatiltæki. 2. Útgáfa, aukin og endurbætt. Mál og menning, Reykjavík.
- Yfirlitsmynd: Rawpixel. https://www.pexels.com/photo/a-man-holding-a-globe-in-the-plastic-8542558/. (Sótt 5.09.2025).
Einnig var spurt:
Hvers vegna segist fólk ætla að „láta í minni pokann“ ef það er að hugsa um að gefast upp á einhverju?