Ég hef verið að velta fyrir mér orðinu molla, eins og í lognmolla. Hvaðan kemur það og hvað þýðir það?Nafnorðið molla í merkingunni ‘hlýtt, stillt dumbungsveður, hitasvækja’ þekkist í málinu að minnsta kosti frá því um 1700. Lýsingarorðið mollulegur merkir ‘drungalegur, kæfandi’ og lognmolla ‘lygnt og heitt veður’ en einnig ‘snjór sem fellur í logni’. Hannes Hafstein skáld nefndi lognmollu í einu kvæða sinna (sjá Ritmálssafn Orðabókar Háskólans):
þú [ᴐ: stormur] loftilla, / dátlausa lognmollu hrekur.Í Íslensk-latnesk-danskri orðabók Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal (1724–1794), sem hann vann að árum saman en kom þó ekki út fyrr en 1814 með dönskum skýringum Rasmusar Kristjáns Rasks 1814, er gefin merkingin ‘Varme i luften’, það er hlýja í lofti. Í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal (1929–1924) er gefin fyrrgreind merking en síðan merkingin ‘Slöjhed’ (lasleiki), það er einhver m. í mjer’ (1920–1924:556). Einnig er til sögnin að molla sem merkir ‘malla, sjóða hægt; vinna með hangandi hendi’ (Íslensk orðabók 2002:1012). Í Íslenskri orðsifjabók Ásgeirs Blöndal Magnússonar (1989:631) er molla talið skylt nafnorðinu mulla ‘logndrífa, lausamjöll’ og sögninni að malla ‘sjóða hægt’. Heimildir og mynd:
- Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.
- Björn Halldórsson. 1814. Lexicon Islandico-Latino Danicum Vol. II. Havniæ.
- Íslensk orðabók. M-Ö. Þriðja útgáfa 2002. Þriðja útgáfa, aukin og endurbætt. Ritstjóri Mörður Árnason. Edda, Reykjavík.
- Ritmálssafn Orðabókar Háskólans. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. (Sótt 24. maí 2025).
- Sigfús Blöndal. 1920–1924. Íslensk-dönsk orðabók. Reykjavík.
- Yfirlitsmynd: Jackie. (2008, 7. júní). Hazy, Hot and Humid. Flickr. Birt undir CC BY-NC-ND 2.0 leyfi. https://www.flickr.com/photos/sis