Góðan dag. Hér á kaffistofunni hafa skapast djúpar rökræður um það hvaða höfuðborg liggi nyrst. Ég (Tómas) vil meina að það sé Reykjavík en hann Þorgeir vinur minn vill meina að það sé Nuuk. Nú þurfum við að fá þetta á hreint. Þegar talað er um höfuðborg.Svarið við spurningunni felst í því hvaða skilning við leggjum í hugtakið höfuðborg. Borgir eru ekki einn punktur á korti heldur hafa þær flatarmál. Þegar staðsetning borga er gefin upp er vaninn hins vegar sá að miða við eina tiltekna staðsetningu. Oft er um að ræða stað í eða við miðbæ viðkomandi borgar. Vissulega er líka hægt að nota annan útgangspunkt, til dæmis landfræðilega miðju. Það getur hins vegar skapað ósamræmi ef borgir breiða úr sér eða stækka, til að mynda við sameiningu sveitarfélaga. Gott dæmi um það er þegar Kjalarnes varð hluti af Reykjavík. Þó að flatarmál Reykjavíkur hafi breyst við sameininguna og landfræðileg miðja færst til, var engin ástæða til að hrófla við uppgefinni staðsetningu Reykjavíkur í heimildum. Við gerð þessa svars er staðarákvörðun borganna tveggja þess vegna miðuð við almennar upplýsingar sem víða er að finna, bæði á netinu og í bókum. Sú staðarákvörðun er nálægt miðbæ borganna. Í þessum efnum er einfaldlega réttast að fylgja þeim hefðum og venjum sem eiga við. Eins og sjá má á kortinu hér fyrir neðan eru bæði Reykjavík og Nuuk norðan við 64. breiddargráðu. Nuuk er á um það bil 64°11 N (um 64.18 ef notaðar eru desimal gráður (DD)[1] en Reykjavík telst vera á um það bil 64°08' N (um 64.15 (DD)). Nuuk er því örlítið norðar en Reykjavík og þar með nyrsta höfuðborg í heimi.

Ekki er mikill munur á norðlægri staðsetningu Reykjavíkur og Nuuk. Báðar liggja rétt norðan við 64. breiddargráðu en Nuuk er þó örlítið norðar.
- ^ DD stendur fyrir desimal gráður en þá er staðsetning gefin upp í tugabrotum í stað þess að nota gráður, mínútur og sekúndur. Mörg kerfi og forrit vinna með þessa framsetningu. Í þessu svari er valið að nota ekki marga aukastafi þar sem þeir skipta ekki máli fyrir svarið í heild.
- Latitude. https://latitude.to
- Geodatos. https://www.geodatos.net/en
- Find you GPS Coordinates. https://www.longitude-latitude-maps.com/
- Norrænt samstarf. Staðreyndir um Grænland. https://www.norden.org/is/information/stadreyndir-um-graenland.
- Nuuk. Wikipedia. https://en.wikipedia.org/wiki/Nuuk
- Nuuk, Vestgronland. (Sótt 29.10.2025).
- Kort: Google Earth. https://earth.google.com