Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þetta er áhugaverð spurning sem ekkert eitt rétt svar er við. Þarna er um að ræða arabískt orð sem er ritað غَزَّة á frummálinu en þar sem hvorki er hefð né forsendur fyrir því að nota arabískt letur innan um latínuletur, auk þess sem við myndum ekki vita hvernig ætti að lesa úr þessum rithætti, verður að umrita arabísk orð yfir á latneskt stafróf. Við slíka umritun milli stafrófa kemur tvennt til. Annars vegar er hægt að umrita tiltekið tákn í frummálinu sem annað tiltekið tákn í málinu sem umritað er í – α í grísku er t.d. ævinlega umritað sem a. Hins vegar er hægt að umrita eftir framburði og skrifa orðin eins og þau væru skrifuð ef þau væru úr málinu sem umritað er í.
Þess vegna skiptir oft máli hvar umritunin er upprunnin. Kyrillíski stafurinn ч er t.d. umritaðurch í ensku vegna þess að sú umritun kemst næst því að samsvara enskum framburði, og þar er því ritað Chekhov. Væri nafnið hins vegar umritað miðað við íslenskan framburð væri umritunin Tsjekhov eðlilegri því að hún gefur framburð sem nálgast rússneska framburðinn. En vegna þess að nöfn úr tungum sem nota önnur stafróf eru sjaldnast komin til okkar beint, heldur oftast gegnum enska (og áður danska) ritmynd sína, er mjög algengt að við notum enska (eða danska) umritun þeirra í stað þess að skrifa þau eins og eðlilegast væri miðað við íslenskan framburð. Umritunin Netanyahu miðast t.d. við enskan framburð – á íslensku væri Netanjahú eðlilegast.
Nafnið sem ritað er غَزَّة á arabísku er borið fram [ɣaza] (reyndar skilst mér að framburðurinn sé svolítið annar, [ɣæzɜ], á palestínskri arabísku en það skiptir ekki máli hér). Táknið ɣ stendur fyrir raddað uppgómmælt önghljóð, sama og g-hljóðið í saga. Þótt það hljóð sé til í íslensku kemur það aldrei fyrir í upphafi orða, hvorki í íslensku né ensku. Þess vegna er nafnið umritað með g í byrjun, sem er eðlileg umritun bæði í ensku og íslensku (enda stendur g oft fyrir þetta hljóð inni í orðum í íslensku, eins og í saga). Táknið z stendur fyrir raddað s-hljóð sem ekki kemur fyrir í íslensku en er hins vegar til í ensku og þess vegna er Gaza eðlileg umritun þar – og algeng í íslenskum miðlum enda kemur flest sem ritað er um svæðið til okkar gegnum ensku.
Nöfn úr málum sem nota annað stafróf en það latneska krefjast umritunar í íslensku. Þá er eðlilegast að miða við íslenskan framburð. Samkvæmt því væri eðlilegt að rita Gasa frekar en Gaza. Síðarnefndi rithátturinn á sér þó langa hefð í málinu og hlýtur einnig að teljast réttur. Myndin er tekin á ströndinni á Gasa árið 2006.
Þegar nöfn eða önnur orð úr málum sem nota latneska stafrófið eru notuð í íslenskum texta finnst mér eðlilegast að rita þau eins og gert er í frummálinu (nema þau eigi sér viðurkennda íslenska mynd eins og Stokkhólmur) – nota þó aðeins grunntáknin en sleppa stafmerkjum eins og broddum og krókum sem ekki er hefð fyrir í íslensku. Þannig er rétt að sleppa broddi yfir n í Poznań og rita Poznan – en halda z þótt hún sé ekki lengur í íslenska stafrófinu. En þegar nöfnin eru úr málum sem nota annað stafróf og krefjast því umritunar finnst mér almennt séð eðlilegast að miða við íslenskan framburð. Samkvæmt því væri eðlilegt að rita Gasa frekar en Gaza. Síðarnefndi rithátturinn á sér þó langa hefð í málinu og hlýtur einnig að teljast réttur.
Myndir:
Eiríkur Rögnvaldsson. „Hvort á að skrifa Gaza eða Gasa á íslensku?“ Vísindavefurinn, 14. október 2025, sótt 14. október 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=88144.
Eiríkur Rögnvaldsson. (2025, 14. október). Hvort á að skrifa Gaza eða Gasa á íslensku? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=88144
Eiríkur Rögnvaldsson. „Hvort á að skrifa Gaza eða Gasa á íslensku?“ Vísindavefurinn. 14. okt. 2025. Vefsíða. 14. okt. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=88144>.