Sólin Sólin Rís 10:34 • sest 15:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:03 • Sest 23:36 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:55 • Síðdegis: 23:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:25 • Síðdegis: 17:25 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:34 • sest 15:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:03 • Sest 23:36 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:55 • Síðdegis: 23:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:25 • Síðdegis: 17:25 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju varð bankahrunið 2008?

Gylfi Magnússon

Um þetta hefur margt verið ritað, meðal annars níu binda skýrsla sem rannsóknarnefnd skipuð af Alþingi tók saman og birt var árið 2010 og fjölmargar aðrar skýrslur, bækur og greinar. Það liggur því nokkuð vel fyrir hvað skýrði bankahrunið.

Haustið 2008 fóru þrír stærstu bankar Íslands, Kaupþing, Landsbankinn og Glitnir, í þrot í sömu vikunni þegar ljóst var að þeir gætu ekki staðið við skuldbindingar sínar í erlendri mynt og engin von var til þess að Seðlabanki Íslands eða aðrir aðilar hefðu getu og vilja til að koma þeim til bjargar. Smærri íslenskar fjármálastofnanir fóru líka í þrot þennan vetur og risastór eignarhaldsfélög sem höfðu tengst bönkunum. Hlutabréfamarkaðurinn nánast hvarf, þegar flest skráð félög urðu gjaldþrota, og fjöldi smærri fyrirtækja var einnig í verulegum fjárhagskröggum. Þá lentu mörg heimili í miklum vanda, meðal annars þau sem keypt höfðu fasteignir þegar verð þeirra var í hæstu hæðum.

Rannsóknarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að meginorsökin fyrir falli bankanna hefði verið vöxtur þeirra og stærð þegar þeir féllu. Stóru bankarnir þrír höfðu 20 faldast að stærð, mælt með heildareignum, á sjö árum. Þeir höfðu sótt hratt inn á nýja markaði og ekki gætt nógu vel að gæðum útlána. Til að fjármagna þennan mikla vöxt höfðu þeir sótt mikið fé á erlenda markaði, mest árið 2005, og mest af því til tiltölulega skamms tíma. Því þurftu þeir sífellt á nýrri erlendri fjármögnun að halda. Eftir 2005 lentu þeir í vaxandi vanda við að sækja slíka fjármögnun. Ekki gekk lengur greiðlega að selja skuldabréf og í þess stað fóru þeir að safna innlánum í stórum stíl.

Rannsóknarnefndin tiltók einnig að eignarhaldsfélögin sem voru eigendur bankanna hafi fengið óeðlilega greiðan aðgang að lánsfé hjá bönkunum og voru afar skuldsett. Í stað þess að eigendurnir væru bakhjarlar bankanna og gætu stutt við þá í vanda þá juku vandræði eigendanna á vanda bankanna.

Rannsóknarnefndin benti einnig á að ýmsar stofnanir hins opinbera sem gegndu lykilhlutverki á fjármálamarkaðinum hafi verið of veikburða til að standa að baki stórum alþjóðlegum bönkum. Þannig hafi Fjármálaeftirlitið verið undirmannað og sérstaklega skort reynt starfsfólk. Seðlabankinn átti engan veginn nógu stóran gjaldeyrisforða til að geta mætt áhlaupi í bankana og Innstæðutryggingarsjóður, sem átti að tryggja innlán, var einnig með lítið fjármagn í hlutfalli við mögulegar skuldbindingar, sérstaklega eftir að bankarnir fóru að safna innlánum í stórum stíl erlendis.

Rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að meginorsökin fyrir falli þriggja stærstu banka Íslands haustið 2008 hefði verið vöxtur þeirra og stærð þegar þeir féllu. Stóru bankarnir þrír höfðu 20 faldast að stærð, mælt með heildareignum, á sjö árum.

Rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að meginorsökin fyrir falli þriggja stærstu banka Íslands haustið 2008 hefði verið vöxtur þeirra og stærð þegar þeir féllu. Stóru bankarnir þrír höfðu 20 faldast að stærð, mælt með heildareignum, á sjö árum.

Annað sem má nefna er að bankarnir höfðu, beint eða óbeint, lánað háar upphæðir með veðum í eigin bréfum. Þetta þýddi að í raun var eigið fé þeirra verulega ofmetið. Þá fann rannsóknarnefndin ýmislegt að hagstjórn á Íslandi síðustu árin fyrir hrun, sem hafi ýkt efnahagslegt ójafnvægi. Þetta taldi nefndin að hefði bæði átt við stjórn ríkisfjármála og peningastefnu Seðlabankans.

Rétt er að hafa í huga að þótt hvergi annars staðar hafi bankakerfið hrunið nær algjörlega, líkt og gerðist á Íslandi, þá var staðan slæm í öðrum fjármálakerfum beggja megin Atlantshafsins. Fjöldi banka þurfti á aðstoð hins opinbera að halda, ýmist seðlabanka, sem útvegaði þeim lánsfé, eða ríkisins, sem lagði til eigið fé. Margir bankar fóru einnig í þrot í öðrum löndum.

Þá lentu nokkrir ríkissjóðir í verulegum vanda, sérstaklega á evrusvæðinu, það er voru reknir með miklum halla og áttu erfitt með að selja skuldabréf eða sækja aðra fjármögnun. Á endanum tókst þó að bjarga þeirri stöðu og skipti þar mestu að evrópski seðlabankinn, ECB, gat róað markaðina fyrir ríkisskuldabréf á evrusvæðinu.

Almennt skipti miklu í nágrannalöndunum að hið opinbera, bæði seðlabankar og ríkissjóðir, höfðu næga burði til að koma fjármálastofnunum til bjargar. Á Íslandi var bankakerfið hins vegar orðið allt of stórt í hlutfalli við hagkerfið og hið opinbera hafði því enga burði eða vilja til að koma böndum á það fyrir hrun eða bjarga því frá hruni þegar það lenti í vanda.

Skipti þar miklu að bankakerfið sýslaði að miklu leyti með erlenda gjaldmiðla en vantaði tilfinnanlega svokallaðan lánveitanda til þrautavara í öðrum myntum en íslenskri krónu. Slíkir lánveitendur eiga að bregðast við vanda banka við að sækja fjármögnun með því að veita þeim lán á háum vöxtum en gegn góðum veðum. Seðlabankar gegna almennt þessu hlutverki og geta lánað nánast ótakmarkað sé þess þörf í þeirri mynt sem þeir gefa sjálfir út. Þeir hafa hins vegar takmarkaða getu til að lána í öðrum gjaldmiðlum líkt og í ljós kom á Íslandi.

Í ljósi þess hve mikið af útlánum íslensku bankanna tapaðist hefði þrautavaralán þó ekki dugað þeim. Það hefði hugsanlega frestað hruni þeirra en þeir hefðu einnig þurft verulegt aukið eigið fé og vandséð er hvaðan það hefði getað komið haustið 2008.

Í umræðu um hættu í bankakerfi er oft rætt um að sumir bankar séu of stórir til að falla (e. Too Big To Fail) og átt við að afleiðingar af falli þeirra séu svo slæmar að hið opinbera geti ekki horft upp á það, heldur hljóti að bjarga þeim með einum eða öðrum hætti. Þetta átti vissulega við stóru íslensku bankana þrjá haustið 2008 en þeir voru einfaldlega of stórir til að hið opinbera gæti bjargað þeim. Með öðrum orðum bankarnir voru of stórir til að bjarga (e. Too Big To Save).

Myndir:

Höfundur

Gylfi Magnússon

prófessor í hagfræði við HÍ

Útgáfudagur

27.11.2025

Spyrjandi

Karólína Arelakis, Stella Þóra Jóhannesdóttir, Viktoría Sól Óladóttir

Tilvísun

Gylfi Magnússon. „Af hverju varð bankahrunið 2008?“ Vísindavefurinn, 27. nóvember 2025, sótt 27. nóvember 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=88245.

Gylfi Magnússon. (2025, 27. nóvember). Af hverju varð bankahrunið 2008? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=88245

Gylfi Magnússon. „Af hverju varð bankahrunið 2008?“ Vísindavefurinn. 27. nóv. 2025. Vefsíða. 27. nóv. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=88245>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju varð bankahrunið 2008?
Um þetta hefur margt verið ritað, meðal annars níu binda skýrsla sem rannsóknarnefnd skipuð af Alþingi tók saman og birt var árið 2010 og fjölmargar aðrar skýrslur, bækur og greinar. Það liggur því nokkuð vel fyrir hvað skýrði bankahrunið.

Haustið 2008 fóru þrír stærstu bankar Íslands, Kaupþing, Landsbankinn og Glitnir, í þrot í sömu vikunni þegar ljóst var að þeir gætu ekki staðið við skuldbindingar sínar í erlendri mynt og engin von var til þess að Seðlabanki Íslands eða aðrir aðilar hefðu getu og vilja til að koma þeim til bjargar. Smærri íslenskar fjármálastofnanir fóru líka í þrot þennan vetur og risastór eignarhaldsfélög sem höfðu tengst bönkunum. Hlutabréfamarkaðurinn nánast hvarf, þegar flest skráð félög urðu gjaldþrota, og fjöldi smærri fyrirtækja var einnig í verulegum fjárhagskröggum. Þá lentu mörg heimili í miklum vanda, meðal annars þau sem keypt höfðu fasteignir þegar verð þeirra var í hæstu hæðum.

Rannsóknarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að meginorsökin fyrir falli bankanna hefði verið vöxtur þeirra og stærð þegar þeir féllu. Stóru bankarnir þrír höfðu 20 faldast að stærð, mælt með heildareignum, á sjö árum. Þeir höfðu sótt hratt inn á nýja markaði og ekki gætt nógu vel að gæðum útlána. Til að fjármagna þennan mikla vöxt höfðu þeir sótt mikið fé á erlenda markaði, mest árið 2005, og mest af því til tiltölulega skamms tíma. Því þurftu þeir sífellt á nýrri erlendri fjármögnun að halda. Eftir 2005 lentu þeir í vaxandi vanda við að sækja slíka fjármögnun. Ekki gekk lengur greiðlega að selja skuldabréf og í þess stað fóru þeir að safna innlánum í stórum stíl.

Rannsóknarnefndin tiltók einnig að eignarhaldsfélögin sem voru eigendur bankanna hafi fengið óeðlilega greiðan aðgang að lánsfé hjá bönkunum og voru afar skuldsett. Í stað þess að eigendurnir væru bakhjarlar bankanna og gætu stutt við þá í vanda þá juku vandræði eigendanna á vanda bankanna.

Rannsóknarnefndin benti einnig á að ýmsar stofnanir hins opinbera sem gegndu lykilhlutverki á fjármálamarkaðinum hafi verið of veikburða til að standa að baki stórum alþjóðlegum bönkum. Þannig hafi Fjármálaeftirlitið verið undirmannað og sérstaklega skort reynt starfsfólk. Seðlabankinn átti engan veginn nógu stóran gjaldeyrisforða til að geta mætt áhlaupi í bankana og Innstæðutryggingarsjóður, sem átti að tryggja innlán, var einnig með lítið fjármagn í hlutfalli við mögulegar skuldbindingar, sérstaklega eftir að bankarnir fóru að safna innlánum í stórum stíl erlendis.

Rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að meginorsökin fyrir falli þriggja stærstu banka Íslands haustið 2008 hefði verið vöxtur þeirra og stærð þegar þeir féllu. Stóru bankarnir þrír höfðu 20 faldast að stærð, mælt með heildareignum, á sjö árum.

Rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að meginorsökin fyrir falli þriggja stærstu banka Íslands haustið 2008 hefði verið vöxtur þeirra og stærð þegar þeir féllu. Stóru bankarnir þrír höfðu 20 faldast að stærð, mælt með heildareignum, á sjö árum.

Annað sem má nefna er að bankarnir höfðu, beint eða óbeint, lánað háar upphæðir með veðum í eigin bréfum. Þetta þýddi að í raun var eigið fé þeirra verulega ofmetið. Þá fann rannsóknarnefndin ýmislegt að hagstjórn á Íslandi síðustu árin fyrir hrun, sem hafi ýkt efnahagslegt ójafnvægi. Þetta taldi nefndin að hefði bæði átt við stjórn ríkisfjármála og peningastefnu Seðlabankans.

Rétt er að hafa í huga að þótt hvergi annars staðar hafi bankakerfið hrunið nær algjörlega, líkt og gerðist á Íslandi, þá var staðan slæm í öðrum fjármálakerfum beggja megin Atlantshafsins. Fjöldi banka þurfti á aðstoð hins opinbera að halda, ýmist seðlabanka, sem útvegaði þeim lánsfé, eða ríkisins, sem lagði til eigið fé. Margir bankar fóru einnig í þrot í öðrum löndum.

Þá lentu nokkrir ríkissjóðir í verulegum vanda, sérstaklega á evrusvæðinu, það er voru reknir með miklum halla og áttu erfitt með að selja skuldabréf eða sækja aðra fjármögnun. Á endanum tókst þó að bjarga þeirri stöðu og skipti þar mestu að evrópski seðlabankinn, ECB, gat róað markaðina fyrir ríkisskuldabréf á evrusvæðinu.

Almennt skipti miklu í nágrannalöndunum að hið opinbera, bæði seðlabankar og ríkissjóðir, höfðu næga burði til að koma fjármálastofnunum til bjargar. Á Íslandi var bankakerfið hins vegar orðið allt of stórt í hlutfalli við hagkerfið og hið opinbera hafði því enga burði eða vilja til að koma böndum á það fyrir hrun eða bjarga því frá hruni þegar það lenti í vanda.

Skipti þar miklu að bankakerfið sýslaði að miklu leyti með erlenda gjaldmiðla en vantaði tilfinnanlega svokallaðan lánveitanda til þrautavara í öðrum myntum en íslenskri krónu. Slíkir lánveitendur eiga að bregðast við vanda banka við að sækja fjármögnun með því að veita þeim lán á háum vöxtum en gegn góðum veðum. Seðlabankar gegna almennt þessu hlutverki og geta lánað nánast ótakmarkað sé þess þörf í þeirri mynt sem þeir gefa sjálfir út. Þeir hafa hins vegar takmarkaða getu til að lána í öðrum gjaldmiðlum líkt og í ljós kom á Íslandi.

Í ljósi þess hve mikið af útlánum íslensku bankanna tapaðist hefði þrautavaralán þó ekki dugað þeim. Það hefði hugsanlega frestað hruni þeirra en þeir hefðu einnig þurft verulegt aukið eigið fé og vandséð er hvaðan það hefði getað komið haustið 2008.

Í umræðu um hættu í bankakerfi er oft rætt um að sumir bankar séu of stórir til að falla (e. Too Big To Fail) og átt við að afleiðingar af falli þeirra séu svo slæmar að hið opinbera geti ekki horft upp á það, heldur hljóti að bjarga þeim með einum eða öðrum hætti. Þetta átti vissulega við stóru íslensku bankana þrjá haustið 2008 en þeir voru einfaldlega of stórir til að hið opinbera gæti bjargað þeim. Með öðrum orðum bankarnir voru of stórir til að bjarga (e. Too Big To Save).

Myndir:

...