Sólin Sólin Rís 10:59 • sest 15:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:50 • Sest 21:32 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:33 • Síðdegis: 22:04 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:10 • Síðdegis: 16:02 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:59 • sest 15:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:50 • Sest 21:32 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:33 • Síðdegis: 22:04 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:10 • Síðdegis: 16:02 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvers vegna má ekki setja málmhluti í örbylgjuofn?

Ari Ólafsson

Málmar og örbylgjur geta farið ágætlega saman. Þannig eru bylgjurnar í örbylgjuofninum leiddar frá bylgjugjafanum í málmstokki sem kallaður er bylgjuleiðari og sjálft bylgjuhólfið sem maturinn er hitaður í er málmkassi. Bylgjurnar speglast af málmfletinum og fara aðra umferð um hólfið. Speglunin gerist á þann hátt að örbylgjurnar sveifla rafeindunum í ysta lagi málmsins og þær geisla aftur út örbylgjum. Til þess að lítið afl fari til spillis við hitun á málminum þarf hann að leiða rafstraum vel.

Áhrif af því að stinga málmhlut inn í örbylgjuofn eru fyrst og fremst þau að hann endurkastar örbylgjunum svo að orkudreifingin í ofninum breytist. Hún var ójöfn fyrir og myndar toppa á 6 cm millibili. Orkuþéttleikinn er lítill í 15 mm lagi meðfram öllum veggjum ofnsins.

Ef geisladiskur er settur í örbylgjuofn kemur skrautsýning með blossum og jafnvel eldglæringum. Geisladiskurinn er hins vegar ónýtur á eftir.

Ef málmhluturinn er svo þunnur að hann nær ekki að leiða þann rafstraum sem þarf til að endurkasta bylgjunum án þess að hitna getur komið til skrautsýningar með eldglæringum. Sama getur gerst ef málmhluturinn hefur skarpar brúnir. Rafsviðið (sem er hluti af eiginleikum örbylgjunnar) við brúnirnar getur losað rafeindir frá málminum sem aftur jóna loftið og gera það leiðandi svo að neistar hlaupa á milli.

Þannig er einnig hægt að kveikja á ljósaperu með slitinn glóðarþráð í örbylgjuofni. Slík tilraun má þó ekki vara nema í nokkrar sekúndur, því að annars er hætt við að örbylgjugjafinn skemmist. Slík hætta er alltaf fyrir hendi ef kveikt er á ofninum án þess að í honum sé eitthvað sem getur dregið til sín það afl sem gjafinn skilar.

Ljósaganginn má einnig framkalla með gullbrydduðum diskum og þunnum álfilmuræmum. Engan veginn er þó víst að gullbryddingarnar verði samar eftir og óvarlegt er að blanda tilraunum með ljósagang saman við hitun á matvælum.

Ávalir málmhlutir á við skeið í súpubolla eru almennt meinlausir í örbylgjuofni og breyta hitunartíma sára lítið. Álfilma yfir matardiski, sem er innan við 6 cm á dýpt, endurkastar bylgjunum á hinn bóginn frá og verður til þess að orkuþéttleikinn er lítill á því svæði sem maturinn liggur og lengir þannig hitunartímann. Við þetta endar umframaflið aftur í bylgjugjafanum og gæti skemmt hann. Málmfleti sem loka matinn af á einhvern hátt ber því að varast.

Höfundur

Ari Ólafsson

dósent emeritus í eðlisfræði við HÍ

Útgáfudagur

27.9.2000

Spyrjandi

Ómar Gústafsson

Tilvísun

Ari Ólafsson. „Hvers vegna má ekki setja málmhluti í örbylgjuofn?“ Vísindavefurinn, 27. september 2000, sótt 6. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=939.

Ari Ólafsson. (2000, 27. september). Hvers vegna má ekki setja málmhluti í örbylgjuofn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=939

Ari Ólafsson. „Hvers vegna má ekki setja málmhluti í örbylgjuofn?“ Vísindavefurinn. 27. sep. 2000. Vefsíða. 6. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=939>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna má ekki setja málmhluti í örbylgjuofn?
Málmar og örbylgjur geta farið ágætlega saman. Þannig eru bylgjurnar í örbylgjuofninum leiddar frá bylgjugjafanum í málmstokki sem kallaður er bylgjuleiðari og sjálft bylgjuhólfið sem maturinn er hitaður í er málmkassi. Bylgjurnar speglast af málmfletinum og fara aðra umferð um hólfið. Speglunin gerist á þann hátt að örbylgjurnar sveifla rafeindunum í ysta lagi málmsins og þær geisla aftur út örbylgjum. Til þess að lítið afl fari til spillis við hitun á málminum þarf hann að leiða rafstraum vel.

Áhrif af því að stinga málmhlut inn í örbylgjuofn eru fyrst og fremst þau að hann endurkastar örbylgjunum svo að orkudreifingin í ofninum breytist. Hún var ójöfn fyrir og myndar toppa á 6 cm millibili. Orkuþéttleikinn er lítill í 15 mm lagi meðfram öllum veggjum ofnsins.

Ef geisladiskur er settur í örbylgjuofn kemur skrautsýning með blossum og jafnvel eldglæringum. Geisladiskurinn er hins vegar ónýtur á eftir.

Ef málmhluturinn er svo þunnur að hann nær ekki að leiða þann rafstraum sem þarf til að endurkasta bylgjunum án þess að hitna getur komið til skrautsýningar með eldglæringum. Sama getur gerst ef málmhluturinn hefur skarpar brúnir. Rafsviðið (sem er hluti af eiginleikum örbylgjunnar) við brúnirnar getur losað rafeindir frá málminum sem aftur jóna loftið og gera það leiðandi svo að neistar hlaupa á milli.

Þannig er einnig hægt að kveikja á ljósaperu með slitinn glóðarþráð í örbylgjuofni. Slík tilraun má þó ekki vara nema í nokkrar sekúndur, því að annars er hætt við að örbylgjugjafinn skemmist. Slík hætta er alltaf fyrir hendi ef kveikt er á ofninum án þess að í honum sé eitthvað sem getur dregið til sín það afl sem gjafinn skilar.

Ljósaganginn má einnig framkalla með gullbrydduðum diskum og þunnum álfilmuræmum. Engan veginn er þó víst að gullbryddingarnar verði samar eftir og óvarlegt er að blanda tilraunum með ljósagang saman við hitun á matvælum.

Ávalir málmhlutir á við skeið í súpubolla eru almennt meinlausir í örbylgjuofni og breyta hitunartíma sára lítið. Álfilma yfir matardiski, sem er innan við 6 cm á dýpt, endurkastar bylgjunum á hinn bóginn frá og verður til þess að orkuþéttleikinn er lítill á því svæði sem maturinn liggur og lengir þannig hitunartímann. Við þetta endar umframaflið aftur í bylgjugjafanum og gæti skemmt hann. Málmfleti sem loka matinn af á einhvern hátt ber því að varast....