Sólin Sólin Rís 03:40 • sest 23:12 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík

Hver var Sun Tzu eða Sunzi og hvers konar rit um hernað skrifaði hann?

Geir Sigurðsson

Sunzi (eða Sun Tzu samkvæmt annarri umritunarhefð sem nú þykir að mestu úrelt), á íslensku Meistari Sun, hét réttu nafni Sun Wu og herma elstu heimildir að hann hafi fæðst árið 535 f.Kr. þar sem nú er héraðið Shandong í Kína. Sagt er að hann hafi ritað stórvirki sitt, Hernaðarlistina eða á frummálinu Sunzi bingfa 孫子兵法, undir lok 6. aldar f.Kr. og afhent það He Lü konungi Wu-ríkis sem í kjölfarið gerði hann að herforingja sínum. Undir hans stjórn mun Wu-ríki síðan hafa unnið frækna sigra á nágrannaríkjum sínum.

Þessi söguskoðun er ekki hafin yfir allan vafa og þykir raunar nokkuð ljóst að Sun Wu hafi ekki verið eiginlegur höfundur ritsins heldur sé það fært í letur nokkru eftir hans daga, þótt líklegt teljist að inntak ritsins eigi uppruna sinn til kenninga hans. Í ritinu hefjast allir kaflarnir á orðunum „Meistari Sun lét svo um mælt“ en Sunzi hefði tæplega vísað til sjálfs sín með þessum hætti, auk þess sem ritið hefur ýmislegt að geyma um hernaðaraðferðir og hernaðartækni sem gefur vísbendingar um að ritið hafi verið skrifað eftir að svonefndur tími hinna stríðandi ríkja hafði gengið í garð um það bil árið 475 f.Kr. en sá tími markaðist af nánast viðvarandi stríðsátökum milli héraða eða ríkja í Kína í meira en tvær og hálfa öld.

Sunzi mun hafa fæðst í Binzhou, Shandong-héraði, þar sem honum er sýnd mikil lotning.

Hernaðarlist Meistara Sun spannar þrettán kafla og er frekar stutt rit, telur um 6000 tákn, sem er eilítið lengra en hið daoíska rit Ferlið og dygðin (eða Bókin um veginn) sem kennt er við Laozi. Lengi var talið að ritið hefði verið mun lengra og að margir kaflar þess hefðu týnst en nýlegir fornleifafundir benda til þess að þessi þrettán kafla gerð sé hin upprunalega. Ritið er eitt fjölmargra kínverskra fornrita um hernað en það hefur ávallt borið höfuð og herðar yfir öll hin. Frá og með tíma Song-keisaraveldisins á 10.-11. öld má segja að það hafi markað hernaðarstefnu kínverska keisaraveldisins allt þar til veldið leið undir lok í upphafi 20. aldar. En langvarandi áhrif ritsins á kínverska menningu um aldanna rás er enn til staðar og kann jafnvel að hafa markað þá furðu samkvæmu stefnu kínverskra stjórnvalda að hliðra sér hjá beinum hernaðarátökum, enda þótt yfirvöld Kínverska alþýðulýðveldisins hafi allt frá stofnun ríkisins árið 1949 átt í ófriðlegum samskiptum við fjölmarga aðila og ósjaldan látið frá sér herskáar yfirlýsingar.

Það sem einkennir ritið sérstaklega er einmitt sú áhersla sem þar er lögð á að vinna sigur á óvininum með sem minnstum tilkostnaði, það er því mannfalli og þeirri eyðileggingu sem óhjákvæmilega fylgja hernaðarátökum. „Þannig er það ekki framúrskarandi árangur að heyja hundrað bardaga og vinna sigur í þeim öllum, heldur að yfirbuga her án þess að heyja bardaga við hann.“ (3. kafli) Mikið er lagt upp úr þeirri kunnáttu að lesa í og nýta sér aðstæðurnar sem eru fyrir hendi í því skyni að klekkja á andstæðingnum með kænskubrögðum og óbeinum leiðum fremur en að beita hefðbundnum hernaðaraðgerðum sem byggjast á styrk, þungum vopnabúnaði og fjölmennu herliði. Þannig er unnt að draga úr eyðileggingu og hörmungum með því að beita „mjúkum leiðum“ að hætti daoískrar heimspeki, til dæmis með því að grafa undan áformum og bandalögum andstæðingsins, sem leiða til þess að hann kjósi sjálfur að draga sig í hlé.

Bambus-eintak af Hernaðarlistinni.

Inntak ritsins fjallar því að miklu leyti um hina víðari merkingu herkænsku sem „strategíu“ en því hefur eiginlegt umfjöllunarefni Hernaðarlistarinnar, sem er auðvitað hernaður, verið yfirfært á fjölmörg önnur svið þar sem einhvers konar átök eða samkeppni eiga sér stað. Þannig hefur ritið oftsinnis verið túlkað með sérstöku tilliti til stjórnmála, fyrirtækjastjórnunar, viðskipta og markaðsmála en einnig má finna sérhæfðar túlkanir fyrir til dæmis rithöfunda, konur í atvinnulífinu og þá sem fýsir almennt að ná árangri í lífinu.

Heimildir:

  • Ames, Roger T. (þýð./skýr). Sun-tzu. The Art of Warfare. New York: Ballantine Books, 1993.
  • Jullien, François. Traité de lʾefficacité. París: Grasset, 1996.
  • Sunzi. Hernaðarlist Meistara Sun. Þýðing úr frummáli eftir Geir Sigurðsson sem einnig ritar inngang og skýringar. Reykjavík: Háskólaútgáfan og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.
  • Von Senger, Harro (þýð./skýr). Meister Suns Kriegskanon. Stuttgart: Philipp Reclam jun., 2011.

Myndir:

Höfundur

Geir Sigurðsson

heimspekingur og prófessor í kínverskum fræðum

Útgáfudagur

2.3.2020

Spyrjandi

Viktor Traustason

Tilvísun

Geir Sigurðsson. „Hver var Sun Tzu eða Sunzi og hvers konar rit um hernað skrifaði hann?“ Vísindavefurinn, 2. mars 2020. Sótt 25. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=9391.

Geir Sigurðsson. (2020, 2. mars). Hver var Sun Tzu eða Sunzi og hvers konar rit um hernað skrifaði hann? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=9391

Geir Sigurðsson. „Hver var Sun Tzu eða Sunzi og hvers konar rit um hernað skrifaði hann?“ Vísindavefurinn. 2. mar. 2020. Vefsíða. 25. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=9391>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Sun Tzu eða Sunzi og hvers konar rit um hernað skrifaði hann?
Sunzi (eða Sun Tzu samkvæmt annarri umritunarhefð sem nú þykir að mestu úrelt), á íslensku Meistari Sun, hét réttu nafni Sun Wu og herma elstu heimildir að hann hafi fæðst árið 535 f.Kr. þar sem nú er héraðið Shandong í Kína. Sagt er að hann hafi ritað stórvirki sitt, Hernaðarlistina eða á frummálinu Sunzi bingfa 孫子兵法, undir lok 6. aldar f.Kr. og afhent það He Lü konungi Wu-ríkis sem í kjölfarið gerði hann að herforingja sínum. Undir hans stjórn mun Wu-ríki síðan hafa unnið frækna sigra á nágrannaríkjum sínum.

Þessi söguskoðun er ekki hafin yfir allan vafa og þykir raunar nokkuð ljóst að Sun Wu hafi ekki verið eiginlegur höfundur ritsins heldur sé það fært í letur nokkru eftir hans daga, þótt líklegt teljist að inntak ritsins eigi uppruna sinn til kenninga hans. Í ritinu hefjast allir kaflarnir á orðunum „Meistari Sun lét svo um mælt“ en Sunzi hefði tæplega vísað til sjálfs sín með þessum hætti, auk þess sem ritið hefur ýmislegt að geyma um hernaðaraðferðir og hernaðartækni sem gefur vísbendingar um að ritið hafi verið skrifað eftir að svonefndur tími hinna stríðandi ríkja hafði gengið í garð um það bil árið 475 f.Kr. en sá tími markaðist af nánast viðvarandi stríðsátökum milli héraða eða ríkja í Kína í meira en tvær og hálfa öld.

Sunzi mun hafa fæðst í Binzhou, Shandong-héraði, þar sem honum er sýnd mikil lotning.

Hernaðarlist Meistara Sun spannar þrettán kafla og er frekar stutt rit, telur um 6000 tákn, sem er eilítið lengra en hið daoíska rit Ferlið og dygðin (eða Bókin um veginn) sem kennt er við Laozi. Lengi var talið að ritið hefði verið mun lengra og að margir kaflar þess hefðu týnst en nýlegir fornleifafundir benda til þess að þessi þrettán kafla gerð sé hin upprunalega. Ritið er eitt fjölmargra kínverskra fornrita um hernað en það hefur ávallt borið höfuð og herðar yfir öll hin. Frá og með tíma Song-keisaraveldisins á 10.-11. öld má segja að það hafi markað hernaðarstefnu kínverska keisaraveldisins allt þar til veldið leið undir lok í upphafi 20. aldar. En langvarandi áhrif ritsins á kínverska menningu um aldanna rás er enn til staðar og kann jafnvel að hafa markað þá furðu samkvæmu stefnu kínverskra stjórnvalda að hliðra sér hjá beinum hernaðarátökum, enda þótt yfirvöld Kínverska alþýðulýðveldisins hafi allt frá stofnun ríkisins árið 1949 átt í ófriðlegum samskiptum við fjölmarga aðila og ósjaldan látið frá sér herskáar yfirlýsingar.

Það sem einkennir ritið sérstaklega er einmitt sú áhersla sem þar er lögð á að vinna sigur á óvininum með sem minnstum tilkostnaði, það er því mannfalli og þeirri eyðileggingu sem óhjákvæmilega fylgja hernaðarátökum. „Þannig er það ekki framúrskarandi árangur að heyja hundrað bardaga og vinna sigur í þeim öllum, heldur að yfirbuga her án þess að heyja bardaga við hann.“ (3. kafli) Mikið er lagt upp úr þeirri kunnáttu að lesa í og nýta sér aðstæðurnar sem eru fyrir hendi í því skyni að klekkja á andstæðingnum með kænskubrögðum og óbeinum leiðum fremur en að beita hefðbundnum hernaðaraðgerðum sem byggjast á styrk, þungum vopnabúnaði og fjölmennu herliði. Þannig er unnt að draga úr eyðileggingu og hörmungum með því að beita „mjúkum leiðum“ að hætti daoískrar heimspeki, til dæmis með því að grafa undan áformum og bandalögum andstæðingsins, sem leiða til þess að hann kjósi sjálfur að draga sig í hlé.

Bambus-eintak af Hernaðarlistinni.

Inntak ritsins fjallar því að miklu leyti um hina víðari merkingu herkænsku sem „strategíu“ en því hefur eiginlegt umfjöllunarefni Hernaðarlistarinnar, sem er auðvitað hernaður, verið yfirfært á fjölmörg önnur svið þar sem einhvers konar átök eða samkeppni eiga sér stað. Þannig hefur ritið oftsinnis verið túlkað með sérstöku tilliti til stjórnmála, fyrirtækjastjórnunar, viðskipta og markaðsmála en einnig má finna sérhæfðar túlkanir fyrir til dæmis rithöfunda, konur í atvinnulífinu og þá sem fýsir almennt að ná árangri í lífinu.

Heimildir:

  • Ames, Roger T. (þýð./skýr). Sun-tzu. The Art of Warfare. New York: Ballantine Books, 1993.
  • Jullien, François. Traité de lʾefficacité. París: Grasset, 1996.
  • Sunzi. Hernaðarlist Meistara Sun. Þýðing úr frummáli eftir Geir Sigurðsson sem einnig ritar inngang og skýringar. Reykjavík: Háskólaútgáfan og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.
  • Von Senger, Harro (þýð./skýr). Meister Suns Kriegskanon. Stuttgart: Philipp Reclam jun., 2011.

Myndir:...