Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvað er daoismi?

Geir Sigurðsson

Daoismi (eldri umritun: taoismi) á rætur sínar að rekja til hinna svonefndu „hundrað heimspekiskóla“ sem spruttu upp í Kína á 6.-3. öld f.Kr. sem viðbragð við upplausnarástandi og vaxandi ófriði í landinu. Þessir „hundrað“ skólar voru væntanlega ekki alveg svona margir en talan hundrað er oft notuð í kínversku til að tákna mikinn fjölda. Meðal annarra skóla frá þessum tíma má nefna konfúsíanisma, moisma, löghyggju og rökræðuskólann en af þeim hafa einungis daoismi og konfúsíanismi haldið velli fram á daginn í dag.

Kínverska táknið fyrir dao.

Allflestir hinna hundrað skóla einblíndu sér í lagi á stjórnspeki og siðfræði. Daoismi er þar ekki undanskilinn en hann tileinkaði sér nálgun sem var talsvert frábrugðin hinum. Út frá þeirri nálgun mótuðust nánari útfærslur á lífsspeki, heimsfræði og trúarlegum efnum sem blönduðust saman við aðra kínverska strauma og stefnur með margbrotnum hætti. Tvö rit úr fornöld hafa frá upphafi legið daoisma til grundvallar. Eldra ritið nefnist Daodejing 道德經 og er einna þekktast undir íslenska titlinum Bókin um veginn. Það kom síðan út árið 2010 í þýðingu Ragnars Baldurssonar undir heitinu Ferlið og dygðin. Áður höfðu þrjár íslenskar þýðingar á ritinu komið út en þýðing Ragnars er sú eina sem unnin er beint úr frummálinu. Rit þetta er kennt við heimspekinginn Laozi 老子, „aldna meistarann“, sem samkvæmt hefðinni á að hafa lifað á 6. öld f.Kr. Í dag er almennt talið að „aldni meistarinn“ hafi verið uppspuni og að ritið sé samansafn ýmissa daoískra hugmynda og kenninga sem gengu munnmælum og voru síðar skráð af ónefndum vitringum. Hitt ritið nefnist Zhuangzi 莊子 og er kennt við samnefndan höfund þess frá 4. öld f.Kr. Fræðimenn eru almennt sammála um að Zhuangzi sé sjálfur höfundur fyrstu sjö kafla ritsins en að hinir tuttuguogsex kaflarnir séu seinni viðbætur sem komi úr ýmsum áttum.

Daodejing og Zhuangzi eru harla ólík rit. Hið fyrra er fremur stutt, einungis um 5000 kínversk tákn, og ritað í knöppum og oft óræðum orðskviða- og ljóðmælastíl. Ýmsir hlutar þess ríma sem gefur til kynna að það hafi upphaflega gengið munn frá munni. Orðfár og samanþjappaður stíllinn hefur gefið tilefni til margs konar ólíkra túlkana og þýðinga, enda skipta til dæmis enskar þýðingar á ritinu hundruðum. Zhuangzi er hins vegar langt og mikið rit í frjálslegum frásagnarstíl. Þar ægir öllu saman, heimspekilegum vangaveltum, samræðum, goðsögnum og ævintýralegum frásögnum. Þrátt fyrir þessi ólíku stílbrigði sverja ritin sig í ætt hvor við aðra, enda er í Zhuangzi að finna beinar tilvitnanir í Daodejing og grundvallarhugmyndirnar eru bersýnilega af sama meiði þótt áherslurnar séu ólíkar.

Dao 道

Grundvallarhugtak daoisma er dao 道(eldri umritun tao) sem hefur ýmsar merkingar, svo sem leið, vegur, að ryðja leið, mál, orðræða og stefna. Aðrir kínverskir heimspekiskólar, til dæmis konfúsíanismi, notuðu dao öðru fremur í merkingunni yfirlýst leið eða stefna tiltekins heimspekiskóla. Í daoisma fær dao hins vegar nýja og raunar heimsfræðilega merkingu. Þar merkir það þá leið sem veröldin fylgir, leið hlutanna í rás sinni, taktinn í alheiminum eða það mynstur sem markar allar hinar stöðugu breytingar sem eiga sér stað. Þannig er nærtækast að skilja dao sem „heimsferli“ líkt og Ragnar gerir í þýðingu sinni Ferlið og dygðin. Varast ber að hlutgera dao; það er ekki neitt sem slíkt, heldur táknar sjálft breytingaferli alls sem hrærist í stöðugri verðandi. Það er ekki afl eða kraftur, hvað þá guðleg vera, heldur það ferli sem markar rás alls sem er.

Eins og segir í Ferlinu og dygðinni (kafla 40) felst hreyfing dao í „andhverfu“, það er að segja þegar tiltekið ferli hefur náð vissum öfgum tekur það að snúast til baka í andstæðu sína. Þessi andhverfa er táknuð með yin og yang 陰陽, hugtakapari andstæðna sem gera meðal annars kleift að staðsetja hlutinn í ferlinu með því að marka ramma eða útmörk þess. Sem dæmi má nefna myrkur (yin) og birtu (yang). Um bæði gildir að um leið og þau ná hámarki sínu taka þau að víkja fyrir hinu. Myrkrið er aldrei svartara en rétt fyrir sólarupprás. Mynstur náttúruferlanna eins og hér er tekið dæmi um er grundvallarviðmið daoisma, enda er markmið hans að finna jafnvægi og samhljóm með náttúrunni og reglubundnu flæði þess.

Yin og yang er hugtakapar andstæðna sem gera meðal annars kleift að staðsetja hlutinn í ferlinu með því að marka ramma eða útmörk þess.

Daoistar líta á manneskjuna sem fullkomlega náttúrulega veru. Hún er sjálft ferli, eitt af hinum ótal ferlum sem hrærist um stund í náttúrunni, og því leitast daoistar við að þjálfa með sér lífsmáta sem fylgir heildarferlinu, vinnur ekki gegn öðrum verum og markast af óþvinguðum athöfnum (wuwei 無爲) sem mætti að nokkru leyti skilja sem sjálfbærni. Þessi ríka áhersla á samhljóm manns og náttúru hefur gefið umhverfishugsuðum tilefni til að leita innblásturs í heims- og lífssýn daoisma.

Kostir hins smáa og mjúka

Eins og segir að ofan var nálgun daoista nokkuð frábrugðin öðrum skólum. Á tíma blóðugra átaka, stríða og hetjudýrkunar mæltu daoistar fyrir róttækri umturnun gilda í þágu lífsins. Í stað þess að hampa hinu stóra, sterka, harða og karlmannlega (yang) töldu þeir upp kosti hins smáa, veika, mjúka og kvenlega (yin).

  • Sveigjanleiki og máttleysi sigrast á stífni og hörku. (36)
  • Lifandi eru menn mjúkir og veikburða en stífir og stæltir við dauða. (76)
  • Í heiminum er ekkert jafn mjúkt og veikburða og vatn. Ekkert er samt sigurstranglegra gegn hörku og styrk, enda fær því ekkert haggað. Hið veikburða sigrar hið sterka; mýktin sigrar hörkuna. (78)
  • Kvenleikinn ber einatt sigur af karlmennsku. Í rósemd lýtur hann lágt. (61)

Í friðarboðskapi konfúsíanisma mátti vissulega einnig finna áherslu á „mjúk gildi“ en daoistar gengu mun lengra og drógu fram kosti ýmissa þátta í veruleika okkar sem við hneigjumst til að virða að vettugi en eru þó lífinu með öllu nauðsynlegir.

  • Tóm og tilvistarleysi öxulgatsins gerir hjólinu kleift að snúast og tilvistarleysi rýmisins í húsi gerir það að nothæfi híbýli (11).

Tómið táknar dao sem hvergi sést en ekkert getur verið til án þess. Með sambærilegum hætti er lítillæti, sveigjanleiki, rósemd og nægjusemi meðal þeirra eiginleika fólks sem gera lífinu kleift að dafna á meðan harka, græðgi og æsingur elur á átökum sem grafa undan lífinu. Til einföldunar mætti segja að Daodejing lýsi virkni dao og hvernig megi nýta sér það í daglegu lífi en Zhuangzi leitist við að sýna hvernig við manneskjurnar getum tekið virkan og skapandi þátt í stöðugum umbreytingum veraldarinnar og gert sem allra mest úr því tækifæri sem felst í tímabundinni mannlegri tilvist okkar án þess að takmarka möguleika annarra lífvera.

Dao sem trúarhreyfing

Trúarlegar hliðar daoisma virðast fyrst hafa mótast meðal hópa fólks sem flúðu átökin í fornöld og tileinkaði sér annars konar og uppbyggilegri lífshætti í faðmi náttúrunnar. Það er þó ekki fyrr en á 2. öld e.Kr. sem fyrsta daoíska trúarhreyfingin, „leið himnameistaranna“ (tianshi dao 天師道) verður til. Skilin á milli trúarlegs og heimspekilegs daoisma eru ekki skýr en til einföldunar mætti segja að heimspekilegur daoismi (oftast kenndur við daojia 道家) snúist um ritrýni fornritanna og vangaveltur um hugmyndir þeirra meðan trúarlegur daoismi (oftast kenndur við daojiao 道教) leggur sérstaka áherslu á ástundun ýmissa leiða til að bæta og lengja lífið.

Þar er einkum um tvær leiðir að ræða, svokallaða „innri alkemíu“ (neidan 内丹) og „ytri alkemíu“ (waidan 外丹). Hin fyrri felst í ýmsum líkamlegum og andlegum æfingum á borð við qigong og taijiquan en hin síðari í inntöku efna og elixíra en markmiðið er í báðum tilvikum hið sama: að koma á jafnvægi og innra samræmi sem stuðlar að lengra og betra lífi. Talið er að ástundun „ytri alkemíu“ hafi í gegnum aldirnar falist í víðtækri tilraunastarfsemi sem leiddi til uppgötvana á ýmsum náttúrulyfjum og jafnvel byssupúðri.

Trúarlegur daoismi blandast með ýmsum margbrotnum hætti saman við kínverska alþýðutrú og jafnvel búddisma. Trúarlegur daoismi átti mjög undir högg að sækja á tíma maoismans í Kína en sækir nú mjög í sig veðrið. Tvær meginstefnur eru starfandi í Kína í dag, klausturreglan Quanzhen („alger fullkomnun“) og Zhengyi („leið hinnar réttu einingar“) reglan sem er afkomandi himnameistaranna, en jafnframt er daoismi útbreiddur í Tævan, Hong Kong og að einhverju leyti í Suðaustur-Asíu, auk þess sem hann hefur blandast saman við aðra strauma í Japan og Kóreu í gegnum tíðina.

Frekara lesefni:
  • Geir Sigurðsson. „Á meðal hinna tíu þúsund hluta. Tang Junyi og sérkenni kínverskrar heimsfræði.“ Hugur. Tímarit um heimspeki (15/2003), s. 52-65.
  • Geir Sigurðsson. „Jafngildir heimar. Um náttúrusýn í daoisma.“ Ritið 10. árgangur (3/2010), s. 117-129.
  • Geir Sigurðsson. „Skapandi sjálfsgleymi: Um daoisma og tómhyggju.“ Hugur. Tímarit um heimspeki (25/2013), s. 39-55.
  • Laozi. Ferlið og dygðin. Þýð. Ragnar Baldursson. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2010.
  • Komjathy, Louis. The Daoist Tradition. An Introduction. London: Bloomsbury, 2013.
  • Moeller, Hans-Georg. Daoism Explained. From the Dream of the Butterfly to the Fishnet Allegory. Chicago og La Salle: Open Court, 2004.
  • Kohn, Livia (ritstj.). Daoist Handbook. Leiden, Boston og Köln: Brill, 2000.
  • Zhuangzi. The Essential Writings. Þýð. Brook Ziporyn. Indianapolis og Cambridge: Hackett, 2009.

Myndir:

Hér er einnig svarað spurningunum: Hvert má rekja upphaf trúarinnar taoisma? Út á hvað gengur taoismi í meginatriðum og hvernig er hægt að taka upp taoisma?

Höfundur

Geir Sigurðsson

heimspekingur og prófessor í kínverskum fræðum

Útgáfudagur

4.6.2014

Spyrjandi

Davíð Michelsen, Herdís Ólöf Kjartansdóttir, Rútur Sigurjónsson

Tilvísun

Geir Sigurðsson. „Hvað er daoismi? “ Vísindavefurinn, 4. júní 2014. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=10145.

Geir Sigurðsson. (2014, 4. júní). Hvað er daoismi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=10145

Geir Sigurðsson. „Hvað er daoismi? “ Vísindavefurinn. 4. jún. 2014. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=10145>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er daoismi?
Daoismi (eldri umritun: taoismi) á rætur sínar að rekja til hinna svonefndu „hundrað heimspekiskóla“ sem spruttu upp í Kína á 6.-3. öld f.Kr. sem viðbragð við upplausnarástandi og vaxandi ófriði í landinu. Þessir „hundrað“ skólar voru væntanlega ekki alveg svona margir en talan hundrað er oft notuð í kínversku til að tákna mikinn fjölda. Meðal annarra skóla frá þessum tíma má nefna konfúsíanisma, moisma, löghyggju og rökræðuskólann en af þeim hafa einungis daoismi og konfúsíanismi haldið velli fram á daginn í dag.

Kínverska táknið fyrir dao.

Allflestir hinna hundrað skóla einblíndu sér í lagi á stjórnspeki og siðfræði. Daoismi er þar ekki undanskilinn en hann tileinkaði sér nálgun sem var talsvert frábrugðin hinum. Út frá þeirri nálgun mótuðust nánari útfærslur á lífsspeki, heimsfræði og trúarlegum efnum sem blönduðust saman við aðra kínverska strauma og stefnur með margbrotnum hætti. Tvö rit úr fornöld hafa frá upphafi legið daoisma til grundvallar. Eldra ritið nefnist Daodejing 道德經 og er einna þekktast undir íslenska titlinum Bókin um veginn. Það kom síðan út árið 2010 í þýðingu Ragnars Baldurssonar undir heitinu Ferlið og dygðin. Áður höfðu þrjár íslenskar þýðingar á ritinu komið út en þýðing Ragnars er sú eina sem unnin er beint úr frummálinu. Rit þetta er kennt við heimspekinginn Laozi 老子, „aldna meistarann“, sem samkvæmt hefðinni á að hafa lifað á 6. öld f.Kr. Í dag er almennt talið að „aldni meistarinn“ hafi verið uppspuni og að ritið sé samansafn ýmissa daoískra hugmynda og kenninga sem gengu munnmælum og voru síðar skráð af ónefndum vitringum. Hitt ritið nefnist Zhuangzi 莊子 og er kennt við samnefndan höfund þess frá 4. öld f.Kr. Fræðimenn eru almennt sammála um að Zhuangzi sé sjálfur höfundur fyrstu sjö kafla ritsins en að hinir tuttuguogsex kaflarnir séu seinni viðbætur sem komi úr ýmsum áttum.

Daodejing og Zhuangzi eru harla ólík rit. Hið fyrra er fremur stutt, einungis um 5000 kínversk tákn, og ritað í knöppum og oft óræðum orðskviða- og ljóðmælastíl. Ýmsir hlutar þess ríma sem gefur til kynna að það hafi upphaflega gengið munn frá munni. Orðfár og samanþjappaður stíllinn hefur gefið tilefni til margs konar ólíkra túlkana og þýðinga, enda skipta til dæmis enskar þýðingar á ritinu hundruðum. Zhuangzi er hins vegar langt og mikið rit í frjálslegum frásagnarstíl. Þar ægir öllu saman, heimspekilegum vangaveltum, samræðum, goðsögnum og ævintýralegum frásögnum. Þrátt fyrir þessi ólíku stílbrigði sverja ritin sig í ætt hvor við aðra, enda er í Zhuangzi að finna beinar tilvitnanir í Daodejing og grundvallarhugmyndirnar eru bersýnilega af sama meiði þótt áherslurnar séu ólíkar.

Dao 道

Grundvallarhugtak daoisma er dao 道(eldri umritun tao) sem hefur ýmsar merkingar, svo sem leið, vegur, að ryðja leið, mál, orðræða og stefna. Aðrir kínverskir heimspekiskólar, til dæmis konfúsíanismi, notuðu dao öðru fremur í merkingunni yfirlýst leið eða stefna tiltekins heimspekiskóla. Í daoisma fær dao hins vegar nýja og raunar heimsfræðilega merkingu. Þar merkir það þá leið sem veröldin fylgir, leið hlutanna í rás sinni, taktinn í alheiminum eða það mynstur sem markar allar hinar stöðugu breytingar sem eiga sér stað. Þannig er nærtækast að skilja dao sem „heimsferli“ líkt og Ragnar gerir í þýðingu sinni Ferlið og dygðin. Varast ber að hlutgera dao; það er ekki neitt sem slíkt, heldur táknar sjálft breytingaferli alls sem hrærist í stöðugri verðandi. Það er ekki afl eða kraftur, hvað þá guðleg vera, heldur það ferli sem markar rás alls sem er.

Eins og segir í Ferlinu og dygðinni (kafla 40) felst hreyfing dao í „andhverfu“, það er að segja þegar tiltekið ferli hefur náð vissum öfgum tekur það að snúast til baka í andstæðu sína. Þessi andhverfa er táknuð með yin og yang 陰陽, hugtakapari andstæðna sem gera meðal annars kleift að staðsetja hlutinn í ferlinu með því að marka ramma eða útmörk þess. Sem dæmi má nefna myrkur (yin) og birtu (yang). Um bæði gildir að um leið og þau ná hámarki sínu taka þau að víkja fyrir hinu. Myrkrið er aldrei svartara en rétt fyrir sólarupprás. Mynstur náttúruferlanna eins og hér er tekið dæmi um er grundvallarviðmið daoisma, enda er markmið hans að finna jafnvægi og samhljóm með náttúrunni og reglubundnu flæði þess.

Yin og yang er hugtakapar andstæðna sem gera meðal annars kleift að staðsetja hlutinn í ferlinu með því að marka ramma eða útmörk þess.

Daoistar líta á manneskjuna sem fullkomlega náttúrulega veru. Hún er sjálft ferli, eitt af hinum ótal ferlum sem hrærist um stund í náttúrunni, og því leitast daoistar við að þjálfa með sér lífsmáta sem fylgir heildarferlinu, vinnur ekki gegn öðrum verum og markast af óþvinguðum athöfnum (wuwei 無爲) sem mætti að nokkru leyti skilja sem sjálfbærni. Þessi ríka áhersla á samhljóm manns og náttúru hefur gefið umhverfishugsuðum tilefni til að leita innblásturs í heims- og lífssýn daoisma.

Kostir hins smáa og mjúka

Eins og segir að ofan var nálgun daoista nokkuð frábrugðin öðrum skólum. Á tíma blóðugra átaka, stríða og hetjudýrkunar mæltu daoistar fyrir róttækri umturnun gilda í þágu lífsins. Í stað þess að hampa hinu stóra, sterka, harða og karlmannlega (yang) töldu þeir upp kosti hins smáa, veika, mjúka og kvenlega (yin).

  • Sveigjanleiki og máttleysi sigrast á stífni og hörku. (36)
  • Lifandi eru menn mjúkir og veikburða en stífir og stæltir við dauða. (76)
  • Í heiminum er ekkert jafn mjúkt og veikburða og vatn. Ekkert er samt sigurstranglegra gegn hörku og styrk, enda fær því ekkert haggað. Hið veikburða sigrar hið sterka; mýktin sigrar hörkuna. (78)
  • Kvenleikinn ber einatt sigur af karlmennsku. Í rósemd lýtur hann lágt. (61)

Í friðarboðskapi konfúsíanisma mátti vissulega einnig finna áherslu á „mjúk gildi“ en daoistar gengu mun lengra og drógu fram kosti ýmissa þátta í veruleika okkar sem við hneigjumst til að virða að vettugi en eru þó lífinu með öllu nauðsynlegir.

  • Tóm og tilvistarleysi öxulgatsins gerir hjólinu kleift að snúast og tilvistarleysi rýmisins í húsi gerir það að nothæfi híbýli (11).

Tómið táknar dao sem hvergi sést en ekkert getur verið til án þess. Með sambærilegum hætti er lítillæti, sveigjanleiki, rósemd og nægjusemi meðal þeirra eiginleika fólks sem gera lífinu kleift að dafna á meðan harka, græðgi og æsingur elur á átökum sem grafa undan lífinu. Til einföldunar mætti segja að Daodejing lýsi virkni dao og hvernig megi nýta sér það í daglegu lífi en Zhuangzi leitist við að sýna hvernig við manneskjurnar getum tekið virkan og skapandi þátt í stöðugum umbreytingum veraldarinnar og gert sem allra mest úr því tækifæri sem felst í tímabundinni mannlegri tilvist okkar án þess að takmarka möguleika annarra lífvera.

Dao sem trúarhreyfing

Trúarlegar hliðar daoisma virðast fyrst hafa mótast meðal hópa fólks sem flúðu átökin í fornöld og tileinkaði sér annars konar og uppbyggilegri lífshætti í faðmi náttúrunnar. Það er þó ekki fyrr en á 2. öld e.Kr. sem fyrsta daoíska trúarhreyfingin, „leið himnameistaranna“ (tianshi dao 天師道) verður til. Skilin á milli trúarlegs og heimspekilegs daoisma eru ekki skýr en til einföldunar mætti segja að heimspekilegur daoismi (oftast kenndur við daojia 道家) snúist um ritrýni fornritanna og vangaveltur um hugmyndir þeirra meðan trúarlegur daoismi (oftast kenndur við daojiao 道教) leggur sérstaka áherslu á ástundun ýmissa leiða til að bæta og lengja lífið.

Þar er einkum um tvær leiðir að ræða, svokallaða „innri alkemíu“ (neidan 内丹) og „ytri alkemíu“ (waidan 外丹). Hin fyrri felst í ýmsum líkamlegum og andlegum æfingum á borð við qigong og taijiquan en hin síðari í inntöku efna og elixíra en markmiðið er í báðum tilvikum hið sama: að koma á jafnvægi og innra samræmi sem stuðlar að lengra og betra lífi. Talið er að ástundun „ytri alkemíu“ hafi í gegnum aldirnar falist í víðtækri tilraunastarfsemi sem leiddi til uppgötvana á ýmsum náttúrulyfjum og jafnvel byssupúðri.

Trúarlegur daoismi blandast með ýmsum margbrotnum hætti saman við kínverska alþýðutrú og jafnvel búddisma. Trúarlegur daoismi átti mjög undir högg að sækja á tíma maoismans í Kína en sækir nú mjög í sig veðrið. Tvær meginstefnur eru starfandi í Kína í dag, klausturreglan Quanzhen („alger fullkomnun“) og Zhengyi („leið hinnar réttu einingar“) reglan sem er afkomandi himnameistaranna, en jafnframt er daoismi útbreiddur í Tævan, Hong Kong og að einhverju leyti í Suðaustur-Asíu, auk þess sem hann hefur blandast saman við aðra strauma í Japan og Kóreu í gegnum tíðina.

Frekara lesefni:
  • Geir Sigurðsson. „Á meðal hinna tíu þúsund hluta. Tang Junyi og sérkenni kínverskrar heimsfræði.“ Hugur. Tímarit um heimspeki (15/2003), s. 52-65.
  • Geir Sigurðsson. „Jafngildir heimar. Um náttúrusýn í daoisma.“ Ritið 10. árgangur (3/2010), s. 117-129.
  • Geir Sigurðsson. „Skapandi sjálfsgleymi: Um daoisma og tómhyggju.“ Hugur. Tímarit um heimspeki (25/2013), s. 39-55.
  • Laozi. Ferlið og dygðin. Þýð. Ragnar Baldursson. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2010.
  • Komjathy, Louis. The Daoist Tradition. An Introduction. London: Bloomsbury, 2013.
  • Moeller, Hans-Georg. Daoism Explained. From the Dream of the Butterfly to the Fishnet Allegory. Chicago og La Salle: Open Court, 2004.
  • Kohn, Livia (ritstj.). Daoist Handbook. Leiden, Boston og Köln: Brill, 2000.
  • Zhuangzi. The Essential Writings. Þýð. Brook Ziporyn. Indianapolis og Cambridge: Hackett, 2009.

Myndir:

Hér er einnig svarað spurningunum: Hvert má rekja upphaf trúarinnar taoisma? Út á hvað gengur taoismi í meginatriðum og hvernig er hægt að taka upp taoisma?

...