Fyrsti maðurinn til þess að fara út í geiminn var hinn sovéski Yuri Gagarín (1934-1968) en þann 12. apríl 1961 var honum skotið á loft á braut um jörðu í Vostok 1 geimfarinu. Ferð hans stóð í 108 mínútur og fór hann einn hring umhverfis jörðu á þeim tíma. Þetta var eina ferð Gagaríns út í geiminn. Geimferðir voru langt frá því að vera öruggar og ráðamenn í Sovétríkjunum vildu alls ekki stofna þjóðhetju sinni í hættu með því að leyfa honum að fara aðra ferð. Það kom þó fyrir lítið, sjö árum seinna fórst hann í flugslysi.
Bandaríkjamenn vildu ekki vera eftirbátar Sovétmanna og tæpum mánuði eftir ferð Gagaríns fór þeirra fyrsti maður út í geiminn. Sá hét Alan Shepard (1923-1998) og honum var skotið á loft í Freedom 7 geimfarinu 5. maí 1961. Ólíkt Gagarín sem var á braut um jörðu fór Shepard eingöngu út í geim og aftur til baka á innan við 16 mínútum. Tíu árum síðar fór Shepard í sína seinni geimferð. Þá stýrði hann Appolló 14 farinu til tunglsins og varð þá fimmti maðurinn til að stíga þar fæti.
Þriðji maðurinn til þess að fara út í geiminn var Virgil I. Grissom (1926-1967) sem gjarnan gekk undir nafninu Gus Grissom. Þann 21. júlí 1961 var hann tæpar 16 mínútur í geimnum um borð í geimfarinu Liberty Bell 7. Hann var fyrstur Bandaríkjamanna til þess að fara tvisvar út í geim en þann 23. mars 1965 stýrði hann farinu Gemini 3, sem einnig gekk undir heitinu The Molly Brown. Upphaflega átti Alan Shepard að fara þá ferð en áður en til kom greindist hann með Meniere-sjúkdóm eða völundarsvima sem gerði það að verkum að hann varð að hætta við. Grissom fórst í lok janúar 1967, þegar hann ásamt tveimur öðrum var að æfa fyrir ferð Apolló 1.
Sovétmenn áttu ekki aðeins fyrsta karlkynsgeimfarann heldur voru þeir líka fyrstir til þess að senda konu út í geiminn en það var Valentina Tereshkova. Um hana er fjallað í svari við spurningunni Hvaða kona var fyrst til þess að fara út í geiminn?Sá sem hefur dvalist lengst í geimnum er Rússi að nafni Sergei Krikalev en hann hefur verið rúmlega 803 daga í geimnum í sex ferðum eins og fram kemur í svari við spurningunni Hvað búa margir í geimförum? Það eru hins vegar tveir Bandaríkjamenn, Franklin Chang-Diaz og Jerry L. Ross sem hafa farið oftast út í geiminn eða sjö sinnum.
Elsti geimfarinn er John Glenn frá Bandaríkjunum en árið 1998 fór hann með geimskutlunni Discovery í níu daga ferð þá 77 ára að aldri. Þetta var önnur geimferðin hans en 36 árum fyrr, í febrúar 1962, varð hann fimmti maðurinn til þess að fara út í geiminn og fyrsti Bandaríkjamaðurinn til þess að fara á braut um jörðu. Yngsti geimfarinn er hins vegar hinn sovéski Gherman Titov (1935 –2000) sem var rétt tæplega 26 ára gamall þegar hann varð annar Sovétmaðurinn til þess að fara út í geiminn, 6. ágúst 1961 um borð í Vostok 1.
Fyrir þá sem hafa áhuga á geimförum og tölfræði sem snertir mannaðar geimferðir má benda á síðuna Current Space Demographics hjá CBS-fréttstofunni en þar eru reglulega uppfærðar upplýsingar um fjölda geimfara, geimferða og ýmislegt fleira. Einnig má benda á síðuna List of spaceflight records á Wikpedia.org.
Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:- Hvað hefur mannað geimfar komist langt út í geiminn? eftir TÞ
- Hefur manneskja farið lengri vegalengd í geimskipi en til tunglsins? eftir EDS
- Hefur hundur farið til tunglsins? eftir Einar Örn Þorvaldsson
- Hvað hafa margir menn farið til tunglsins og hvernig líta þeir út? eftir EÖÞ
- Er hægt að senda geimskutlu með nokkrum fjölskyldum til að kanna líf úti í geimnum? eftir Árdísi Elíasdóttur
- Hvað hafa margir geimfarar látist í tilraunum til að fara út í geim? eftir EDS
- Current Space Demographics á CBS News.
- Yury Gagarin: His Life in Pictures á Russian Archives Online.
- Oberg, James. "Astronaut." World Book Online Reference Center. 2005. World Book, Inc.
- Astronaut á Wikipedia.
- List of spaceflight records á Wikipedia.
- Mynd af Gagarín: Yuri Gagarin á Wikipedia. Sótt 8.12.2010.
- Mynd af Glenn: NASA. Sótt 8.12.2010.
- Hvað hétu fyrstu 3 mennirnir sem fóru út í geiminn?
- Var fyrsti ameríski geimfarinn ekki Alan B. Shepard? Hvernig leit hann út og hvað getur þú sagt mér um ferðina hans út geim?
- Hver var fyrstur út í geim?
- Hver er elsti geimfarinn?