Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Hvaða „Enta“ er í Entujökli?

Svavar Sigmundsson

Enta er jökuldalur eða gjá norðvestan í Mýrdalsjökli, í kverk við Botnjökul, milli Sléttjökuls og Entujökuls en Entugjá er annað nafn hennar (Íslandsatlas, kort 71). Við Entu er kenndur Entujökull, Entukollur og Entuskarð.

Elsta prentaða heimild um nafnið Enta er að því er best verður séð í grein Jóns Eyþórssonar í Náttúrufræðingnum 1945, „Um Kötlugjá og Mýrdalsjökul“. Hann segir þar: „Guðmundur frá Miðdal hefur grafið upp nafnið á dal þessum eða gjá hjá Þorsteini í Háholti, langminnugum manni og margfróðum.“ (154-155). (Þorsteinn í Háholti Bjarnason (1865-1951) skráði örnefni á ýmsum afréttum sunnanlands.) Ári síðar gaf Guðmundur út bók sína, Fjallamenn (Reykjavík 1946), þar sem segir meðal annars „önnur gjá sýnu meiri, er Enta heitir“ (178). Í bókinni er líka birt mynd af málverki Guðmundar, sem ber nafnið Entugjá, Mýrdalsjökull (Myndir af málverkum, nr. 44). Jón Eyþórsson segir (156) að Guðmundur kalli gjána Entugjá og virðist það nafn ekki hafa verið notað áður. Nafnið Entukollur er frá Jóni Eyþórssyni komið (154).

Elst prentaða heimildin um nafnið Enta er frá 1945. Þar segir: „Guðmundur frá Miðdal hefur grafið upp nafnið á dal þessum eða gjá hjá Þorsteini í Háholti, langminnugum manni og margfróðum.“

Sveinn Pálsson læknir og náttúruvísindamaður virðist ekki hafa þekkt nafnið Enta, því að á korti sem hann gerði og birti í Jöklariti sínu 1795 nefndi hann norðvesturhluta Mýrdalsjökuls Botnjökul og nyrst í honum Emstrujökul, þar sem nú er Entujökull og fleiri jöklar (Helgi Björnsson 2009, 144, kort á bls. 136). Samkvæmt þessu virðist Þorsteinn í Háholti hafa komist að nafninu hjá kunnugum heimildarmönnum en það hefur ekki verið á almanna vitorði fyrr en Guðmundur frá Miðdal og Jón Eyþórsson komu því á framfæri.

Stefán Einarsson prófessor taldi í grein sinni „Old English ent: Icelandic Enta“ frá 1952 að nafnið gæti verið skylt orðinu ent í fornensku í merkingunni 'risi' (Modern Language Notes 67:554-555). Hann vísar einnig til orðsins enz í sömu merkingu í þýskri mállýsku. Stefán telur lítinn vafa leika á því að í íslenskri þjóðtrú hafi Enta hafi verið tröllskessa í líkingu við Kötlu og að menn hafi einnig litið á Heklu og Kröflu sem orkumiklar tröllkonur. Stefán nefnir einnig að nafnið hafi verið einangrað og óskiljanlegt í málinu og það hafi orðið til þess að nafnið Etna var sett á kort danska herforingjaráðsins, að minnsta kosti Aðalkort bl. 6 Miðsuðurland (1:250 000), og kortagerðarmenn þá haft hið fræga eldfjall á Sikiley í huga. Nafnið Etna var enn á korti sem prentað var 1959. Nafnið Enta er hinsvegar á korti sem Steinþór Sigurðsson teiknaði af Mýrdalsjökli eftir leiðangur þeirra Jóns Eyþórssonar og fleiri á jökulinn, og birtist í fyrrnefndri grein í Náttúrufræðingnum á bls. 157.

Í grein Velvakanda í Morgunblaðinu 11. nóvember 1961 er gengið út frá skilningi Stefáns á örnefninu: „Enta sem þýðir tröllkona.“ (6).

Ásgeir Blöndal Magnússon taldi örnefnin Enta og Entugjá tæpast í ætt við fornensku ent ’risi’ með tilvísun til Stefáns Einarssonar og nefnir í því sambandi Antafjall í A-Skaftafellsýslu sem ef til vil sé dregið af stuttnefninu Anti af Arnþór (Íslensk orðsifjabók, 21). Ekki er þó vitað til að Enta geti verið stuttnefni af einhverju kvenmannsnafni.

Þess má einnig geta að sögnin enta var til í fornu máli og merkti ’hirða um, sinna’, skylt ansa og önn, en ekki verður séð samhengi þess orðs við nafnið Enta.

Heimildir og mynd:

  • Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók. Reykjavík 1989.
  • Guðmundur Einarsson frá Miðdal, Fjallamenn. Reykjavík 1946.
  • Helgi Björnsson, Jöklar á Íslandi. Reykjavík 2009.
  • Íslandsatlas. Reykjavík 2015.
  • Jón Eyþórsson, Um Kötlugjá og Mýrdalsjökul. Náttúrufræðingurinn 1945, 15. árg., 4. hefti.
  • Stefán Einarsson, „Old English ent: Icelandic Enta“. Modern Language Notes 1952.
  • Uppdráttur Íslands. Aðalkort bl. 6. Miðsuðurland. 1:250.000. Copenhagen 1959.
  • Velvakandi, Morgunblaðinu 11. nóv. 1961.
  • Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund. (Sótt 19. 10. 2016).

Höfundur

Svavar Sigmundsson

fyrrv. forstöðumaður Örnefnastofnunar

Útgáfudagur

21.10.2016

Spyrjandi

Sigríður Ásta Guðjónsdóttir

Tilvísun

Svavar Sigmundsson. „Hvaða „Enta“ er í Entujökli?“ Vísindavefurinn, 21. október 2016. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=72498.

Svavar Sigmundsson. (2016, 21. október). Hvaða „Enta“ er í Entujökli? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=72498

Svavar Sigmundsson. „Hvaða „Enta“ er í Entujökli?“ Vísindavefurinn. 21. okt. 2016. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=72498>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaða „Enta“ er í Entujökli?
Enta er jökuldalur eða gjá norðvestan í Mýrdalsjökli, í kverk við Botnjökul, milli Sléttjökuls og Entujökuls en Entugjá er annað nafn hennar (Íslandsatlas, kort 71). Við Entu er kenndur Entujökull, Entukollur og Entuskarð.

Elsta prentaða heimild um nafnið Enta er að því er best verður séð í grein Jóns Eyþórssonar í Náttúrufræðingnum 1945, „Um Kötlugjá og Mýrdalsjökul“. Hann segir þar: „Guðmundur frá Miðdal hefur grafið upp nafnið á dal þessum eða gjá hjá Þorsteini í Háholti, langminnugum manni og margfróðum.“ (154-155). (Þorsteinn í Háholti Bjarnason (1865-1951) skráði örnefni á ýmsum afréttum sunnanlands.) Ári síðar gaf Guðmundur út bók sína, Fjallamenn (Reykjavík 1946), þar sem segir meðal annars „önnur gjá sýnu meiri, er Enta heitir“ (178). Í bókinni er líka birt mynd af málverki Guðmundar, sem ber nafnið Entugjá, Mýrdalsjökull (Myndir af málverkum, nr. 44). Jón Eyþórsson segir (156) að Guðmundur kalli gjána Entugjá og virðist það nafn ekki hafa verið notað áður. Nafnið Entukollur er frá Jóni Eyþórssyni komið (154).

Elst prentaða heimildin um nafnið Enta er frá 1945. Þar segir: „Guðmundur frá Miðdal hefur grafið upp nafnið á dal þessum eða gjá hjá Þorsteini í Háholti, langminnugum manni og margfróðum.“

Sveinn Pálsson læknir og náttúruvísindamaður virðist ekki hafa þekkt nafnið Enta, því að á korti sem hann gerði og birti í Jöklariti sínu 1795 nefndi hann norðvesturhluta Mýrdalsjökuls Botnjökul og nyrst í honum Emstrujökul, þar sem nú er Entujökull og fleiri jöklar (Helgi Björnsson 2009, 144, kort á bls. 136). Samkvæmt þessu virðist Þorsteinn í Háholti hafa komist að nafninu hjá kunnugum heimildarmönnum en það hefur ekki verið á almanna vitorði fyrr en Guðmundur frá Miðdal og Jón Eyþórsson komu því á framfæri.

Stefán Einarsson prófessor taldi í grein sinni „Old English ent: Icelandic Enta“ frá 1952 að nafnið gæti verið skylt orðinu ent í fornensku í merkingunni 'risi' (Modern Language Notes 67:554-555). Hann vísar einnig til orðsins enz í sömu merkingu í þýskri mállýsku. Stefán telur lítinn vafa leika á því að í íslenskri þjóðtrú hafi Enta hafi verið tröllskessa í líkingu við Kötlu og að menn hafi einnig litið á Heklu og Kröflu sem orkumiklar tröllkonur. Stefán nefnir einnig að nafnið hafi verið einangrað og óskiljanlegt í málinu og það hafi orðið til þess að nafnið Etna var sett á kort danska herforingjaráðsins, að minnsta kosti Aðalkort bl. 6 Miðsuðurland (1:250 000), og kortagerðarmenn þá haft hið fræga eldfjall á Sikiley í huga. Nafnið Etna var enn á korti sem prentað var 1959. Nafnið Enta er hinsvegar á korti sem Steinþór Sigurðsson teiknaði af Mýrdalsjökli eftir leiðangur þeirra Jóns Eyþórssonar og fleiri á jökulinn, og birtist í fyrrnefndri grein í Náttúrufræðingnum á bls. 157.

Í grein Velvakanda í Morgunblaðinu 11. nóvember 1961 er gengið út frá skilningi Stefáns á örnefninu: „Enta sem þýðir tröllkona.“ (6).

Ásgeir Blöndal Magnússon taldi örnefnin Enta og Entugjá tæpast í ætt við fornensku ent ’risi’ með tilvísun til Stefáns Einarssonar og nefnir í því sambandi Antafjall í A-Skaftafellsýslu sem ef til vil sé dregið af stuttnefninu Anti af Arnþór (Íslensk orðsifjabók, 21). Ekki er þó vitað til að Enta geti verið stuttnefni af einhverju kvenmannsnafni.

Þess má einnig geta að sögnin enta var til í fornu máli og merkti ’hirða um, sinna’, skylt ansa og önn, en ekki verður séð samhengi þess orðs við nafnið Enta.

Heimildir og mynd:

  • Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók. Reykjavík 1989.
  • Guðmundur Einarsson frá Miðdal, Fjallamenn. Reykjavík 1946.
  • Helgi Björnsson, Jöklar á Íslandi. Reykjavík 2009.
  • Íslandsatlas. Reykjavík 2015.
  • Jón Eyþórsson, Um Kötlugjá og Mýrdalsjökul. Náttúrufræðingurinn 1945, 15. árg., 4. hefti.
  • Stefán Einarsson, „Old English ent: Icelandic Enta“. Modern Language Notes 1952.
  • Uppdráttur Íslands. Aðalkort bl. 6. Miðsuðurland. 1:250.000. Copenhagen 1959.
  • Velvakandi, Morgunblaðinu 11. nóv. 1961.
  • Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund. (Sótt 19. 10. 2016).

...