Sólin Sólin Rís 04:51 • sest 22:00 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 05:07 • Sest 14:10 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:00 • Síðdegis: 14:42 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 08:33 • Síðdegis: 20:56 í Reykjavík
COVID-19 borði í flokk

Hvenær er sjúkdómur faraldur og hvenær verður hann heimsfaraldur?

Magnús Gottfreðsson

Faraldur (e. epidemic): Alþjóða heilbrigðismálastofnunin WHO hefur skilgreint faraldur sem tilvist sjúkdóms, ákveðins heilsutengds atferlis eða annarra atburða sem varða heilsu fólks innan ákveðins samfélags eða landsvæðis, í tíðni sem er umfram það sem vænta má undir eðlilegum kringumstæðum. Hægt er að skilgreina hvaða hóp, samfélag og tímabil er um að ræða. Nákvæmur fjöldi tilfella í faraldri er mjög breytilegur eftir 1) sjúkdómsvaldi, 2) stærð þýðis sem útsett er, 3) fyrri sögu fólks innan viðkomandi þýðis um sama/sambærilegan sjúkdóm, eða hvort þýðið hafi jafnvel aldrei komist í snertingu við sjúkdómsvaldinn, 4) tímasetningu og 5) staðsetningu.[1]

Stundum eru hópsýkingar (e. clusters) og faraldrar lagðir að jöfnu í almennu talmáli, en strangt til tekið er um stigsmun á þessu tvennu að ræða. Hópsýkingar eru afmarkaðri en faraldrar eins og orðið gefur til kynna. Næsta stig við hópsýkingu getur verið nokkrar hópsýkingar (e. multiple clusters) og fara þá skilin að verða óljósari við faraldur og jafnvel heimsfaraldur, ef um er að ræða margar hópsýkingar/faraldra í mismunandi heimsálfum, en það er skilgreining sem WHO hefur notað í tengslum við yfirstandandi COVID-19 (heims)-faraldur.

Spænska veikin sem geisaði víðs vegar um heim 1918-1919 er dæmi um heimsfaraldur. Hún er skæðasta farsótt sem sögur fara af og kostaði margar milljónir mannslífa. Frá Camp Funston í Kansas í Bandaríkjunum.

Heimsfaraldur (e. pandemic): Með heimsfaraldri er átt við útbreiðslu nýs sjúkdóms um heim allan[2], en flestar skilgreiningar gera jafnframt kröfu um að sjálfstæð útbreiðsla sjúkdómsins eigi sér stað á hverjum stað fyrir sig og jafnvel án augljósra tengsla við upprunastaðinn. Þannig er ekki hægt að tala um heimsfaraldur ef sjúklingar greinast með nýjan sjúkdóm á mörgum stöðum á svipuðum tíma, nema þeir nái að smita út frá sér. Heimsfaraldrar með nýjum stofni inflúensuveira eru besta dæmið um heimsfaraldur, en þeir breiðast jafnan hraðar út en hefðbundin flensa (árstíðabundin inflúensa) því að verndandi mótefni (ónæmi) er ekki til staðar meðal fólks. Undir venjulegum kringumstæðum hægja verndandi mótefni á útbreiðslu smitsjúkdóma og er þá talað um hjarðónæmi innan þýðis eða lands. Árstíðabundin inflúensa telst því ekki heimsfaraldur enda þótt hún geti valdið umtalsverðum og útbreiddum veikindum, enda er ekki um alveg nýja veiru að ræða á hverju ári heldur afbrigði af fyrri veirustofnum sem margir eru með ónæmi gegn.

Eldri skilgreiningar Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar skiptu þróun faraldra í sex skeið þar sem sjötta skeið var heimsfaraldur[3], en það kerfi hefur verið aflagt. Nú er miðað við fjögur skeið (sjá mynd hér fyrir neðan). Þessi skeið endurspegla áhættumat (e. risk assessment) WHO á inflúensuveirum sem geta valdið heimsfaraldri og sýkja menn. Áhættumatið byggir á upplýsingum sem fást við rannsóknir á veirunni, faraldsfræði sýkingarinnar og klínískum einkennum. Skipting í ólík skeið kemur víða að gagni, þar á meðal við gerð viðbragðsáætlana á skeiði milli heimsfaraldra, undirbúningi aðgerða á viðvörunarskeiði og viðbrögðum á skeiði heimsfaraldurs[4].

Skeið heimsfaraldra inflúensu samkvæmt WHO. Endurtekið áhættumat byggir á rannsóknum á veirunni, faraldsfræði og klíniskum einkennum.

Alþjóðabankinn (World Bank) hefur einnig gefið út skilgreiningu á heimsfaraldri sem notuð var við skuldabréfaútgáfu vegna trygginga til að bregðast við hamförum. Samkvæmt bankanum er miðað við að heimsfaraldur þurfi að hafa staðið yfir í að lágmarki 12 vikur, hafa valdið að minnsta kosti 250 dauðsföllum í upprunalandi sínu og að lágmarki 20 dauðsföllum í öðru landi[5].

Tilvísanir:
  1. ^ WHO - Definitions: emergencies (Sótt 28.02.2020).
  2. ^ WHO - What is a pandemic? (Sótt 28.02.2020).
  3. ^ WHO - Current WHO phase of pandemic alert for Pandemic (H1N1) 2009. (Sótt 28.02.2020).
  4. ^ Heimsfaraldur, Landsáætlun. Viðbragðsáætlun Almannavarna. útgáfa 3.0. Dags. 25.02.2020. Aðgengilegt á slóðinni: https://www.landlaeknir.is/utgefid-efni/skjal/item29596/. (Sótt 28.02.2020).
  5. ^ PEF-Final-Prospectus-PEF.pdf. (Sótt 28.02.2020).

Myndir:


Upprunalega var spurt:
Hvað er faraldur?

Höfundur

Magnús Gottfreðsson

prófessor í læknisfræði við HÍ, sérfræðingur í smitsjúkdómum

Útgáfudagur

28.2.2020

Spyrjandi

Hildur Ingólfsdóttir, Friðbjörn Bragi Hlynsson

Tilvísun

Magnús Gottfreðsson. „Hvenær er sjúkdómur faraldur og hvenær verður hann heimsfaraldur?“ Vísindavefurinn, 28. febrúar 2020. Sótt 3. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=78806.

Magnús Gottfreðsson. (2020, 28. febrúar). Hvenær er sjúkdómur faraldur og hvenær verður hann heimsfaraldur? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=78806

Magnús Gottfreðsson. „Hvenær er sjúkdómur faraldur og hvenær verður hann heimsfaraldur?“ Vísindavefurinn. 28. feb. 2020. Vefsíða. 3. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=78806>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvenær er sjúkdómur faraldur og hvenær verður hann heimsfaraldur?
Faraldur (e. epidemic): Alþjóða heilbrigðismálastofnunin WHO hefur skilgreint faraldur sem tilvist sjúkdóms, ákveðins heilsutengds atferlis eða annarra atburða sem varða heilsu fólks innan ákveðins samfélags eða landsvæðis, í tíðni sem er umfram það sem vænta má undir eðlilegum kringumstæðum. Hægt er að skilgreina hvaða hóp, samfélag og tímabil er um að ræða. Nákvæmur fjöldi tilfella í faraldri er mjög breytilegur eftir 1) sjúkdómsvaldi, 2) stærð þýðis sem útsett er, 3) fyrri sögu fólks innan viðkomandi þýðis um sama/sambærilegan sjúkdóm, eða hvort þýðið hafi jafnvel aldrei komist í snertingu við sjúkdómsvaldinn, 4) tímasetningu og 5) staðsetningu.[1]

Stundum eru hópsýkingar (e. clusters) og faraldrar lagðir að jöfnu í almennu talmáli, en strangt til tekið er um stigsmun á þessu tvennu að ræða. Hópsýkingar eru afmarkaðri en faraldrar eins og orðið gefur til kynna. Næsta stig við hópsýkingu getur verið nokkrar hópsýkingar (e. multiple clusters) og fara þá skilin að verða óljósari við faraldur og jafnvel heimsfaraldur, ef um er að ræða margar hópsýkingar/faraldra í mismunandi heimsálfum, en það er skilgreining sem WHO hefur notað í tengslum við yfirstandandi COVID-19 (heims)-faraldur.

Spænska veikin sem geisaði víðs vegar um heim 1918-1919 er dæmi um heimsfaraldur. Hún er skæðasta farsótt sem sögur fara af og kostaði margar milljónir mannslífa. Frá Camp Funston í Kansas í Bandaríkjunum.

Heimsfaraldur (e. pandemic): Með heimsfaraldri er átt við útbreiðslu nýs sjúkdóms um heim allan[2], en flestar skilgreiningar gera jafnframt kröfu um að sjálfstæð útbreiðsla sjúkdómsins eigi sér stað á hverjum stað fyrir sig og jafnvel án augljósra tengsla við upprunastaðinn. Þannig er ekki hægt að tala um heimsfaraldur ef sjúklingar greinast með nýjan sjúkdóm á mörgum stöðum á svipuðum tíma, nema þeir nái að smita út frá sér. Heimsfaraldrar með nýjum stofni inflúensuveira eru besta dæmið um heimsfaraldur, en þeir breiðast jafnan hraðar út en hefðbundin flensa (árstíðabundin inflúensa) því að verndandi mótefni (ónæmi) er ekki til staðar meðal fólks. Undir venjulegum kringumstæðum hægja verndandi mótefni á útbreiðslu smitsjúkdóma og er þá talað um hjarðónæmi innan þýðis eða lands. Árstíðabundin inflúensa telst því ekki heimsfaraldur enda þótt hún geti valdið umtalsverðum og útbreiddum veikindum, enda er ekki um alveg nýja veiru að ræða á hverju ári heldur afbrigði af fyrri veirustofnum sem margir eru með ónæmi gegn.

Eldri skilgreiningar Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar skiptu þróun faraldra í sex skeið þar sem sjötta skeið var heimsfaraldur[3], en það kerfi hefur verið aflagt. Nú er miðað við fjögur skeið (sjá mynd hér fyrir neðan). Þessi skeið endurspegla áhættumat (e. risk assessment) WHO á inflúensuveirum sem geta valdið heimsfaraldri og sýkja menn. Áhættumatið byggir á upplýsingum sem fást við rannsóknir á veirunni, faraldsfræði sýkingarinnar og klínískum einkennum. Skipting í ólík skeið kemur víða að gagni, þar á meðal við gerð viðbragðsáætlana á skeiði milli heimsfaraldra, undirbúningi aðgerða á viðvörunarskeiði og viðbrögðum á skeiði heimsfaraldurs[4].

Skeið heimsfaraldra inflúensu samkvæmt WHO. Endurtekið áhættumat byggir á rannsóknum á veirunni, faraldsfræði og klíniskum einkennum.

Alþjóðabankinn (World Bank) hefur einnig gefið út skilgreiningu á heimsfaraldri sem notuð var við skuldabréfaútgáfu vegna trygginga til að bregðast við hamförum. Samkvæmt bankanum er miðað við að heimsfaraldur þurfi að hafa staðið yfir í að lágmarki 12 vikur, hafa valdið að minnsta kosti 250 dauðsföllum í upprunalandi sínu og að lágmarki 20 dauðsföllum í öðru landi[5].

Tilvísanir:
  1. ^ WHO - Definitions: emergencies (Sótt 28.02.2020).
  2. ^ WHO - What is a pandemic? (Sótt 28.02.2020).
  3. ^ WHO - Current WHO phase of pandemic alert for Pandemic (H1N1) 2009. (Sótt 28.02.2020).
  4. ^ Heimsfaraldur, Landsáætlun. Viðbragðsáætlun Almannavarna. útgáfa 3.0. Dags. 25.02.2020. Aðgengilegt á slóðinni: https://www.landlaeknir.is/utgefid-efni/skjal/item29596/. (Sótt 28.02.2020).
  5. ^ PEF-Final-Prospectus-PEF.pdf. (Sótt 28.02.2020).

Myndir:


Upprunalega var spurt:
Hvað er faraldur?
...