Sólin Sólin Rís 05:08 • sest 21:44 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:47 • Síðdegis: 21:08 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:49 • Síðdegis: 14:50 í Reykjavík

Hvers vegna var list svona mikilvæg hjá Forngrikkjum?

Geir Þ. Þórarinsson

List er að finna í öllum mannlegum samfélögum og alls staðar er listsköpun mikilvæg, ekki síður hjá Forngrikkjum en í nútímanum. En list er flókið hugtak og raunar er ef til vill ekki um eitt hugtak að ræða heldur mörg skyld hugtök. Hugum aðeins að því áður en lengra er haldið.

Hvernig svo sem listin er skilgreind eru á henni ýmsir fletir: annars vegar er ætlun listamannsins og hins vegar áhrifin sem listaverkið hefur á áhorfendur, auk þeirra eiginleika sem segja má að verkið sjálft hafi. Listin tengist fagurfræði, því að fagurfræðilegir eiginleikar eins og fegurð og lýti geta verið mikilvæg í listum auk ýmissa annarra hughrifa sem listaverk vekja eða er ætlað að vekja; hún hefur líka samfélagslega vídd því að listamaðurinn er vitaskuld hluti af samfélagi og listin er oft notuð í ákveðinni orðræðu, svo sem til að bregða nýju ljósi á hlutina, gagnrýna, ögra eða skopast; hér koma til sögunnar ætlun listamannsins, sameiginlegur skilningur viðtakenda og túlkun þeirra. Enn fremur felur listin yfirleitt í sér kunnáttu eða lagni og byggir á einhverjum aðferðum, til dæmis til þess að sýna þrívídd eða margvísleg birtuskilyrði í myndlist; stundum er gerð krafa um frumleika í listum; og að lokum geta listaverk auðvitað verið hagnýt og haft notagildi. Fólk getur greint á um hvað er mikilvægast af þessu. Sumum þykir ef til vill frumleikinn skipta mestu en aðrir leggja alla áherslu á túlkun viðtakenda og þar fram eftir götunum. Þannig getur einstaklinga greint á um listina en ólík samfélög og tímabil sögunnar hafa líka haft ólíkar áherslur og væntingar til listarinnar.

Leirker eftir Exekias. Mikilvægi listar hjá Forngrikkjum var ekki síður mikilvægi handverks og hönnunar en annarrar listar.

Fornmenn höfðu svolítið annað listahugtak en við og aðrar væntingar til listarinnar. Hugtak Forngrikkja er τεχνή (tekhnē) sem er uppruni okkar orðs tækni.[1] Það fól umfram allt í sér kunnáttu og aðferð til þess að gera eitthvað. Fagurfræðin skipti líka máli en minni áhersla var lögð á frumleika, þótt oft skorti hann alls ekki. Af því að kjarninn í listahugtaki Forngrikkja er kunnátta eða aðferð til þess að gera eitthvað, þá leiðir af því að sérhver listgrein á sér afurð, það er það sem verður til þegar maður beitir þessari kunnáttu.

Þessi afurð listarinnar getur verið áþreifanlegur hlutur eins og málverk, höggmynd eða leirker, svo dæmi séu nefnd. Leirker af ýmsu tagi, svo sem drykkjarílát, könnur, skálar og annað slíkt, voru hlutir sem voru notaðir í hversdagslegu samhengi og smíði þeirra ekkert endilega frábrugðin annarri framleiðslu. Þannig verður stundum lítill greinarmunur á listaverki og öðru handverki hjá Forngrikkjum enda felur handverkið líka í sér kunnáttu. Samkvæmt þessu væri til dæmis handprjónuð íslensk lopapeysa listaverk og það að prjóna listgrein, ekkert síður en vefnaður, glerblástur eða málmsmíði, sem Forngrikkir lögðu stund á. Í nútímanum er þó oft gerður greinarmunur — ef til vill óljós en nokkuð hefðbundinn — á listum annars vegar og handverki og hönnun hins vegar. Mikilvægi listar hjá Forngrikkjum er þá ekki síður mikilvægi handverks og hönnunar en annarrar listar.

Leirker Grikkjanna voru yfirleitt myndskreytt og var tilgangur myndskreytinganna umfram allt fagurfræðilegur en hafði einnig ýmiss konar menningarlegar tilvísanir enda myndefnið oftast fengið úr goðsögum eða var erótískt. Er leið á klassískan tíma nutu höggmyndir og málverk æ meiri virðingar, einkum þeirra listamanna sem sköruðu fram úr, svo sem myndlistarmannanna Zevxisar, Pólýgnotosar og Apellesar frá Kos og myndhöggvaranna Feidíasar, Pólýkleitosar, Mýrons og Praxitelesar. Seinna höfðu Rómverjar mikið dálæti á þessum listgreinum Grikkjanna öðrum fremur.

Rómverskar eftirmyndir af Kringlukastaranum eftir Mýron.

En afurð listarinnar gat einnig verið óáþreifanleg. Flestir fornmenn töldu til dæmis mælskulistina vera listgrein; hún felur í sér kunnáttu og aðferðir við að semja og flytja ræður og afurðin er ræðan sjálf eða jafnvel sannfæring áheyrenda. Stundum var deilt um hvort ákveðin listgrein væri í raun listgrein eða þekkingargrein (gr. ἐπιστήμη, epistēmē, lat. scientia) sem lögð var stund á þekkingarinnar vegna en ekki vegna neinnar afurðar.[2]

Í hverju er þá mikilvægi listarinnar fólgið hjá Forngrikkjum? Listmunir eða listaverk gegndu margvíslegum tilgangi hjá Forngrikkjum: listaverk gátu verið nytjahlutir en einnig haft fagurfræðilegt gildi. Sum verk, til dæmis höggmyndir af guðunum, gátu haft trúarlegan tilgang og prýddu hof guðanna eða grafhýsi og líkkistur manna. Listir eins og mælskulist voru síðan afar mikilvægar út af því hvernig samfélaginu var háttað: í bæði stjórnmálum og dómsmálum þurfti hver og einn að geta komið fyrir sig orði. Auk þess voru engir fjölmiðlar til. Því gegndu höggmyndir og málverk stundum ákveðnum áróðurstilgangi þar sem nýta mátti listina til þess að renna stoðum undir ákveðnar hugmyndir, reisa minnisvarða um fólk eða atburði og annað slíkt.

Auk myndlistar og handverks má nefna leiklist, sem var Forngrikkjum afar mikilvæg. Í fornöld voru auðvitað engin kvikmyndahús, sjónvarp eða útvarp eða annað af því tagi. Þess vegna gegndu bókmenntir meðal annars því hlutverki að veita afþreyingu. Hlutverk leikrita var þó margslungið. Í skopleikjum kom oft fram beitt samfélagsádeila, að sumu leyti ekki ósvipuð og við þekkjum í áramótaskaupi okkar. Einnig kom fyrir að samfélagsgagnrýni fyndist í harmleikjum Grikkjanna, meðal annars gagnrýni á stríðsrekstur Aþeninga en dæmi um það væri leikrit Evripídesar Trójudætur sem var sett á svið árið 415 f.o.t. Leikhúsið — þar sem leiklistin var sett á svið — er auðvitað dæmi um byggingalist Grikkja en sem slík voru leikhús helguð guðinum Díonýsosi og leikritasýningar tengdar ýmsum hátíðum honum til heiðurs og þannig hluti af trúarlífi borgarbúa. Margar af merkustu byggingum Grikkja voru einmitt hof helguð guðunum.

Meyjarhofið í Aþenu er dæmi um byggingarlist Grikkja en margar af merkustu byggingum Grikkja voru einmitt hof helguð guðunum.

Að lokum skal drepið á hugmyndum Forngrikkja sjálfra um gildi listarinnar. Heimspekingarnir Platon og Aristóteles höfðu eitt og annað um hana að segja en höfðu nokkuð ólíkar skoðanir á henni. Platon hafði ímugust á bókmenntum sem hann taldi að æsti upp óæskilegar kenndir og sýndi mönnum ósæmilega hegðun, eins og fram kemur í riti hans Ríkinu.[3] Aristóteles taldi hins vegar að hlutverk leiksýninga, einkum harmleikja, væri að veita einhvers konar hreinsun eða útrás, sem lesa má nánar um í svari undirritaðs um gríska hugtakið kaþarsis. Í samræðunni Gorgías gagnrýnir Platon mælskulistina harðlega og taldi hana raunar ekki vera réttnefnda list; í raun væri hún ákveðin tegund af smjaðri sem virti að vettugi sannsögli.[4] Gagnrýni Platons á mælskulistina er eins og gagnrýni hans á kveðskapinn af siðferðilegum toga. Aftur á móti taldi Aristóteles að möguleg misbeiting mælskulistarinnar breytti því ekki að hún væri gagnleg og út af fyrir sig kunnáttugrein sem mætti rannsaka og gera grein fyrir á kerfisbundinn hátt. Það gerði hann í þremur bókum um Mælskulistina. Báðir álitu þeir myndlist af hvaða tagi sem er vera (eins og aðrar listir líka) í eðli sínu eftirlíkingar (μίμησις, mīmēsis) og var listin gagnrýnd á þeim forsendum en niðurstöður þeirra voru aftur afar ólíkar. Hjá Platoni er myndlistin eftirlíking en fyrirmyndin er líka eftirlíking fullkominnar frummyndar sem ekki verður skynjuð heldur einungis skilin. Gildi listaverksins er því skert af því að verufræðileg staða þess er óræð.[5] Aristóteles er sammála því að listin feli í sér eftirlíkingu og það gildir líka um myndlist og bókmenntir, tónlist og dans sem líkja hver með sínum hætti eftir skapgerð, tilfinningum og athöfnum manna eins og hann segir í riti sínu Um skáldskaparlistina.[6] En mönnum er hins vegar í blóði borið að líkja eftir hlutum og þannig læra börn enda segir hann að „menn eru frábrugðnir öðrum lífverum að því leyti, að þeir hafa mesta hermihvöt og læra fyrst í stað með því að líkja eftir“ og „allir njóta eftirlíkinga. Þetta sannar reynslan: sumt þykir okkur ógeðfellt að horfa á sjálft, þótt við njótum þess hins vegar að horfa á sem nákvæmastar eftirmyndir þess, s.s. myndir auvirðilegustu kvikinda eða hræja.“[7] Eftirmyndin getur líka vakið ánægju þótt maður hafi ekki séð fyrirmyndina, til dæmis vegna litarins eða handbragðsins.[8] Þannig vekur listsköpun sem slík ákveðna ánægju.

Hafi Aristóteles á réttu að standa um ánægjuna sem listsköpun veitir, þá er mikilvægi listarinnar hjá Forngrikkjum eins farið og í öðrum samfélögum: listin er ekki aðeins mikilvæg heldur nauðsynleg og óhjákvæmileg af því að hermihvötin sem er uppspretta hennar er fólki í blóði borin.

Tilvísanir:
  1. ^ Hjá Rómverjum er samsvarandi hugtak ars, í ef. artis.
  2. ^ Það leifir eftir af þessum greinarmuni í heitum námsgráða, það er baccalaureus artium (BA) og baccalaureus scientiarum (BS/BSc).
  3. ^ Þessa gagnrýni er einkum að finna í 2. og 3. bók Ríkisins (365A–E, 376E–398B) en einnig í 10. bók (605E–608B). Ríkið er til í íslenskri þýðingu Eyjólfs Kjalars Emilssonar (Hið íslenzka bókmenntafélag, 1991).
  4. ^ Gorgías er til í íslenskri þýðingu Eyjólfs Kjalars Emilssonar (Hið íslenzka bókmenntafélag, 1977). Í samræðunni Fædrosi (266C–274B) gefur Platon til kynna að svigrúm sé fyrir sannkallaða mælskulist þótt mælskumenn samtímans hafi ekki tök á þeirri list. Fædros er einnig til í íslenskri þýðingu Eyjólfs Kjalars (Hið íslenska bókmenntafélag, 2019).
  5. ^ Um þetta má lesa í 10. bók Ríkisins, 595E–597E.
  6. ^ 1447a27–28. Um skáldskaparlistina er til í íslenskri þýðingu Kristjáns Árnasonar (Hið íslenzka bókmenntafélag, 1976).
  7. ^ Um skáldskaparlistina 1448b6–12, þýð. Kristján Árnason.
  8. ^ Platon neitar því ekki að til séu fagurkerar sem hafa dálæti á fögrum hljóðum og myndum en undir lok 5. bókar Ríkisins (474D–480A) gerir hann greinarmun á slíku fólki og heimspekingum. Þeir fyrrnefndu beina sjónum að skynheiminum og höndla því einungis það sem virðist fagurt en heimspekingar, sem hafa hugann við heim frummyndanna, höndla fegurðina sjálfa.

Myndir:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

26.8.2021

Spyrjandi

Embla Nótt

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvers vegna var list svona mikilvæg hjá Forngrikkjum?“ Vísindavefurinn, 26. ágúst 2021. Sótt 28. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=81344.

Geir Þ. Þórarinsson. (2021, 26. ágúst). Hvers vegna var list svona mikilvæg hjá Forngrikkjum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=81344

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvers vegna var list svona mikilvæg hjá Forngrikkjum?“ Vísindavefurinn. 26. ágú. 2021. Vefsíða. 28. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=81344>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna var list svona mikilvæg hjá Forngrikkjum?
List er að finna í öllum mannlegum samfélögum og alls staðar er listsköpun mikilvæg, ekki síður hjá Forngrikkjum en í nútímanum. En list er flókið hugtak og raunar er ef til vill ekki um eitt hugtak að ræða heldur mörg skyld hugtök. Hugum aðeins að því áður en lengra er haldið.

Hvernig svo sem listin er skilgreind eru á henni ýmsir fletir: annars vegar er ætlun listamannsins og hins vegar áhrifin sem listaverkið hefur á áhorfendur, auk þeirra eiginleika sem segja má að verkið sjálft hafi. Listin tengist fagurfræði, því að fagurfræðilegir eiginleikar eins og fegurð og lýti geta verið mikilvæg í listum auk ýmissa annarra hughrifa sem listaverk vekja eða er ætlað að vekja; hún hefur líka samfélagslega vídd því að listamaðurinn er vitaskuld hluti af samfélagi og listin er oft notuð í ákveðinni orðræðu, svo sem til að bregða nýju ljósi á hlutina, gagnrýna, ögra eða skopast; hér koma til sögunnar ætlun listamannsins, sameiginlegur skilningur viðtakenda og túlkun þeirra. Enn fremur felur listin yfirleitt í sér kunnáttu eða lagni og byggir á einhverjum aðferðum, til dæmis til þess að sýna þrívídd eða margvísleg birtuskilyrði í myndlist; stundum er gerð krafa um frumleika í listum; og að lokum geta listaverk auðvitað verið hagnýt og haft notagildi. Fólk getur greint á um hvað er mikilvægast af þessu. Sumum þykir ef til vill frumleikinn skipta mestu en aðrir leggja alla áherslu á túlkun viðtakenda og þar fram eftir götunum. Þannig getur einstaklinga greint á um listina en ólík samfélög og tímabil sögunnar hafa líka haft ólíkar áherslur og væntingar til listarinnar.

Leirker eftir Exekias. Mikilvægi listar hjá Forngrikkjum var ekki síður mikilvægi handverks og hönnunar en annarrar listar.

Fornmenn höfðu svolítið annað listahugtak en við og aðrar væntingar til listarinnar. Hugtak Forngrikkja er τεχνή (tekhnē) sem er uppruni okkar orðs tækni.[1] Það fól umfram allt í sér kunnáttu og aðferð til þess að gera eitthvað. Fagurfræðin skipti líka máli en minni áhersla var lögð á frumleika, þótt oft skorti hann alls ekki. Af því að kjarninn í listahugtaki Forngrikkja er kunnátta eða aðferð til þess að gera eitthvað, þá leiðir af því að sérhver listgrein á sér afurð, það er það sem verður til þegar maður beitir þessari kunnáttu.

Þessi afurð listarinnar getur verið áþreifanlegur hlutur eins og málverk, höggmynd eða leirker, svo dæmi séu nefnd. Leirker af ýmsu tagi, svo sem drykkjarílát, könnur, skálar og annað slíkt, voru hlutir sem voru notaðir í hversdagslegu samhengi og smíði þeirra ekkert endilega frábrugðin annarri framleiðslu. Þannig verður stundum lítill greinarmunur á listaverki og öðru handverki hjá Forngrikkjum enda felur handverkið líka í sér kunnáttu. Samkvæmt þessu væri til dæmis handprjónuð íslensk lopapeysa listaverk og það að prjóna listgrein, ekkert síður en vefnaður, glerblástur eða málmsmíði, sem Forngrikkir lögðu stund á. Í nútímanum er þó oft gerður greinarmunur — ef til vill óljós en nokkuð hefðbundinn — á listum annars vegar og handverki og hönnun hins vegar. Mikilvægi listar hjá Forngrikkjum er þá ekki síður mikilvægi handverks og hönnunar en annarrar listar.

Leirker Grikkjanna voru yfirleitt myndskreytt og var tilgangur myndskreytinganna umfram allt fagurfræðilegur en hafði einnig ýmiss konar menningarlegar tilvísanir enda myndefnið oftast fengið úr goðsögum eða var erótískt. Er leið á klassískan tíma nutu höggmyndir og málverk æ meiri virðingar, einkum þeirra listamanna sem sköruðu fram úr, svo sem myndlistarmannanna Zevxisar, Pólýgnotosar og Apellesar frá Kos og myndhöggvaranna Feidíasar, Pólýkleitosar, Mýrons og Praxitelesar. Seinna höfðu Rómverjar mikið dálæti á þessum listgreinum Grikkjanna öðrum fremur.

Rómverskar eftirmyndir af Kringlukastaranum eftir Mýron.

En afurð listarinnar gat einnig verið óáþreifanleg. Flestir fornmenn töldu til dæmis mælskulistina vera listgrein; hún felur í sér kunnáttu og aðferðir við að semja og flytja ræður og afurðin er ræðan sjálf eða jafnvel sannfæring áheyrenda. Stundum var deilt um hvort ákveðin listgrein væri í raun listgrein eða þekkingargrein (gr. ἐπιστήμη, epistēmē, lat. scientia) sem lögð var stund á þekkingarinnar vegna en ekki vegna neinnar afurðar.[2]

Í hverju er þá mikilvægi listarinnar fólgið hjá Forngrikkjum? Listmunir eða listaverk gegndu margvíslegum tilgangi hjá Forngrikkjum: listaverk gátu verið nytjahlutir en einnig haft fagurfræðilegt gildi. Sum verk, til dæmis höggmyndir af guðunum, gátu haft trúarlegan tilgang og prýddu hof guðanna eða grafhýsi og líkkistur manna. Listir eins og mælskulist voru síðan afar mikilvægar út af því hvernig samfélaginu var háttað: í bæði stjórnmálum og dómsmálum þurfti hver og einn að geta komið fyrir sig orði. Auk þess voru engir fjölmiðlar til. Því gegndu höggmyndir og málverk stundum ákveðnum áróðurstilgangi þar sem nýta mátti listina til þess að renna stoðum undir ákveðnar hugmyndir, reisa minnisvarða um fólk eða atburði og annað slíkt.

Auk myndlistar og handverks má nefna leiklist, sem var Forngrikkjum afar mikilvæg. Í fornöld voru auðvitað engin kvikmyndahús, sjónvarp eða útvarp eða annað af því tagi. Þess vegna gegndu bókmenntir meðal annars því hlutverki að veita afþreyingu. Hlutverk leikrita var þó margslungið. Í skopleikjum kom oft fram beitt samfélagsádeila, að sumu leyti ekki ósvipuð og við þekkjum í áramótaskaupi okkar. Einnig kom fyrir að samfélagsgagnrýni fyndist í harmleikjum Grikkjanna, meðal annars gagnrýni á stríðsrekstur Aþeninga en dæmi um það væri leikrit Evripídesar Trójudætur sem var sett á svið árið 415 f.o.t. Leikhúsið — þar sem leiklistin var sett á svið — er auðvitað dæmi um byggingalist Grikkja en sem slík voru leikhús helguð guðinum Díonýsosi og leikritasýningar tengdar ýmsum hátíðum honum til heiðurs og þannig hluti af trúarlífi borgarbúa. Margar af merkustu byggingum Grikkja voru einmitt hof helguð guðunum.

Meyjarhofið í Aþenu er dæmi um byggingarlist Grikkja en margar af merkustu byggingum Grikkja voru einmitt hof helguð guðunum.

Að lokum skal drepið á hugmyndum Forngrikkja sjálfra um gildi listarinnar. Heimspekingarnir Platon og Aristóteles höfðu eitt og annað um hana að segja en höfðu nokkuð ólíkar skoðanir á henni. Platon hafði ímugust á bókmenntum sem hann taldi að æsti upp óæskilegar kenndir og sýndi mönnum ósæmilega hegðun, eins og fram kemur í riti hans Ríkinu.[3] Aristóteles taldi hins vegar að hlutverk leiksýninga, einkum harmleikja, væri að veita einhvers konar hreinsun eða útrás, sem lesa má nánar um í svari undirritaðs um gríska hugtakið kaþarsis. Í samræðunni Gorgías gagnrýnir Platon mælskulistina harðlega og taldi hana raunar ekki vera réttnefnda list; í raun væri hún ákveðin tegund af smjaðri sem virti að vettugi sannsögli.[4] Gagnrýni Platons á mælskulistina er eins og gagnrýni hans á kveðskapinn af siðferðilegum toga. Aftur á móti taldi Aristóteles að möguleg misbeiting mælskulistarinnar breytti því ekki að hún væri gagnleg og út af fyrir sig kunnáttugrein sem mætti rannsaka og gera grein fyrir á kerfisbundinn hátt. Það gerði hann í þremur bókum um Mælskulistina. Báðir álitu þeir myndlist af hvaða tagi sem er vera (eins og aðrar listir líka) í eðli sínu eftirlíkingar (μίμησις, mīmēsis) og var listin gagnrýnd á þeim forsendum en niðurstöður þeirra voru aftur afar ólíkar. Hjá Platoni er myndlistin eftirlíking en fyrirmyndin er líka eftirlíking fullkominnar frummyndar sem ekki verður skynjuð heldur einungis skilin. Gildi listaverksins er því skert af því að verufræðileg staða þess er óræð.[5] Aristóteles er sammála því að listin feli í sér eftirlíkingu og það gildir líka um myndlist og bókmenntir, tónlist og dans sem líkja hver með sínum hætti eftir skapgerð, tilfinningum og athöfnum manna eins og hann segir í riti sínu Um skáldskaparlistina.[6] En mönnum er hins vegar í blóði borið að líkja eftir hlutum og þannig læra börn enda segir hann að „menn eru frábrugðnir öðrum lífverum að því leyti, að þeir hafa mesta hermihvöt og læra fyrst í stað með því að líkja eftir“ og „allir njóta eftirlíkinga. Þetta sannar reynslan: sumt þykir okkur ógeðfellt að horfa á sjálft, þótt við njótum þess hins vegar að horfa á sem nákvæmastar eftirmyndir þess, s.s. myndir auvirðilegustu kvikinda eða hræja.“[7] Eftirmyndin getur líka vakið ánægju þótt maður hafi ekki séð fyrirmyndina, til dæmis vegna litarins eða handbragðsins.[8] Þannig vekur listsköpun sem slík ákveðna ánægju.

Hafi Aristóteles á réttu að standa um ánægjuna sem listsköpun veitir, þá er mikilvægi listarinnar hjá Forngrikkjum eins farið og í öðrum samfélögum: listin er ekki aðeins mikilvæg heldur nauðsynleg og óhjákvæmileg af því að hermihvötin sem er uppspretta hennar er fólki í blóði borin.

Tilvísanir:
  1. ^ Hjá Rómverjum er samsvarandi hugtak ars, í ef. artis.
  2. ^ Það leifir eftir af þessum greinarmuni í heitum námsgráða, það er baccalaureus artium (BA) og baccalaureus scientiarum (BS/BSc).
  3. ^ Þessa gagnrýni er einkum að finna í 2. og 3. bók Ríkisins (365A–E, 376E–398B) en einnig í 10. bók (605E–608B). Ríkið er til í íslenskri þýðingu Eyjólfs Kjalars Emilssonar (Hið íslenzka bókmenntafélag, 1991).
  4. ^ Gorgías er til í íslenskri þýðingu Eyjólfs Kjalars Emilssonar (Hið íslenzka bókmenntafélag, 1977). Í samræðunni Fædrosi (266C–274B) gefur Platon til kynna að svigrúm sé fyrir sannkallaða mælskulist þótt mælskumenn samtímans hafi ekki tök á þeirri list. Fædros er einnig til í íslenskri þýðingu Eyjólfs Kjalars (Hið íslenska bókmenntafélag, 2019).
  5. ^ Um þetta má lesa í 10. bók Ríkisins, 595E–597E.
  6. ^ 1447a27–28. Um skáldskaparlistina er til í íslenskri þýðingu Kristjáns Árnasonar (Hið íslenzka bókmenntafélag, 1976).
  7. ^ Um skáldskaparlistina 1448b6–12, þýð. Kristján Árnason.
  8. ^ Platon neitar því ekki að til séu fagurkerar sem hafa dálæti á fögrum hljóðum og myndum en undir lok 5. bókar Ríkisins (474D–480A) gerir hann greinarmun á slíku fólki og heimspekingum. Þeir fyrrnefndu beina sjónum að skynheiminum og höndla því einungis það sem virðist fagurt en heimspekingar, sem hafa hugann við heim frummyndanna, höndla fegurðina sjálfa.

Myndir:

...