Hver er munurinn á raungengi og nafngengi? Hvað er átt við þegar hagfræðingar tala um það að „raungengi“ krónunnar sé sérstaklega hátt (eða lágt)? Hvað merkir þetta hugtak „raungengi“? Væri þá til gengi á krónunni sem ekki væri raunverulegt - sem sagt „fals-gengi“?Með raungengi gjaldmiðils er oftast átt við kaupmátt hans í því landi, sem gefur hann út, og sérstaklega hvort kaupmátturinn er meiri eða minni en nafngengi gjaldmiðilsins gefur til kynna að væri eðlilegt. Þetta er best skýrt með dæmi. Gefum okkur að gengi evrunnar sé 100 krónur íslenskar en verðlag á Íslandi sé að jafnaði 110 sinnum hærra en í þeim löndum, sem nota evruna. Þá er nafngengi krónunnar 0,01€ (og evrunnar 100 ISK) og raungengi krónunnar „hátt“ (en evrunnar „lágt“). Við segjum að raungengi krónunnar sé hátt vegna þess að verðlag á Íslandi er hærra en nafngengi krónunnar gefur til kynna að væri eðlilegt. Ef verðlag á Íslandi hækkar meira en í samanburðarlöndum, en nafngengi krónunnar breytist ekki, þá hækkar raungengi krónunnar. Ef nafngengi krónunnar lækkar (nafngengið fellur), en verðlag breytist ekki, þá lækkar raungengi krónunnar. Hátt raungengi kemur útflutningsatvinnuvegum illa en lágt vel. Einnig þekkist að reikna raungengi út frá launum í stað verðlags. Það er í grundvallaratriðum gert með sama hætti nema að í stað þess að miða við verð á vörum og þjónustu er miðað við tímakaup. Seðlabanki Íslands birtir einu sinni í mánuði mat sitt á raungengi krónunnar, sjá https://sedlabanki.is/gagnatorg/raungengi/. Yfirlitsmynd:
- File:Eimskip container terminal at Port of Reykjavík.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 2.05.2025). Myndina tók Quintin Soloviev og hún er birt undir leyfinu Deed - Attribution 4.0 International - Creative Commons.