Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Hvað var Sturlungaöld?

Skúli Sæland

Sturlungaöldin var í raun einungis 42-44 ára tímabil á miðri 13. öld. Hún er einn ofbeldisfyllsti tími Íslandssögunnar. Sturlungaöldin einkenndist af liðssafnaði valdamikilla höfðingja sem herjuðu hverjir á aðra með vígaferlum og gripdeildum. Sturlungaöldin dregur nafn sitt af Sturlungunum sem voru valdamesta ættin á Íslandi á þessu tímabili. Við lok Sturlungaaldarinnar komst landið undir erlend yfirráð og við það lauk þjóðveldistímanum sem hófst við landnámið.


Almennt er miðað við árið 1220 sem upphafsár Sturlungaaldarinnar því þá fer fyrst að gæta tilrauna Hákonar gamla Noregskonungs til að leggja Ísland undir norsku krúnuna. Honum tókst svo ætlunarverk sitt á árunum 1262-64 og þar með lauk Sturlungaöldinni.




Um 1220 var farið að gæta töluverðrar valdasamþjöppunar og valdagrunnur helstu valdaætta landsins var orðinn nokkuð traustur. Þessar helstu valdaættir voru Haukdælir, sem voru staðsettir í Árnesþingi, Oddaverjar í Rangárþingi, Ásbirningar í Skagafirði, Vatnsfirðingar við Ísafjarðardjúp, Svínfellingar á Austurlandi og svo auðvitað Sturlungar sem eru kenndir við Sturlu Þórðarson í Hvammi í Dölum. Synir hans, Þórður, Sighvatur og Snorri, mynduðu síðan áhrifasvæði á Stað á Ölduhrygg um Snæfellsnes, Grund í Eyjafirði og Borg á Mýrum.


Aukin áhrif og ásælni konungs má rekja til þess að með falli Skúla jarls lauk innanlandsófriði í Noregi. Eftir það gat Hákon einbeitt sér að utanríkispólitík og reynt að auka áhrif sín hér á landi. Hákon valdi sér þá leið að gera íslenska höfðingja að lénsmönnum sínum. Þeir urðu þá að gera það sem hann bauð þeim en í staðinn þágu þeir af honum meðal annars gjafir, fylgdarmenn og virðingu. Því leið ekki á löngu þar til margir helstu höfðingjar Íslendinga voru orðnir handgengnir Noregskonungi.

Konungur naut þess einnig að kirkjan á Íslandi laut yfirstjórn erkibiskupsins á Niðarósi. Eitt helsta baráttumál kirkjunnar á þessum tíma var að tryggja frið og því sóttist hún eftir því að lægja ófriðarbálið hér á Íslandi. Árið 1247 urðu svo þáttaskil þegar Vilhjálmur kardínáli kom til Noregs til að vígja Hákon konung. Kardínálinn taldi mikilvægt að Ísland lyti einum manni og eftir þetta störfuðu kirkjan og norska krúnan saman að því að koma Íslandi undir Hákon. Á þessum tíma var þjóðerniskenndar ekki farið að gæta auk þess sem það þótti ekki bara eðlilegt heldur einnig sjálfsagt að vera undir stjórn konungs.

En hvað olli þessum miklu hamförum á Sturlungaöld sem lauk með því að Noregskonungi tókst að sölsa undir sig landið?

Fljótlega eftir að landnám landsins hófst komu bændur og höfðingjar sér upp valdakerfi sem fólst í persónulegu og gagnvirku sambandi bóndans annars vegar og goðans, höfðingjans, hins vegar. Landinu var skipt upp í landsfjórðunga og innan hvers fjórðungs voru síðan þrjár þingháir sem hver hafði þrjú goðorð eða goða. Að auki voru þrjú auka goðorð í Norðlendingafjórðungi sem var stærstur og fjölmennastur á landinu. Allt í allt voru þá 39 goðar starfandi.

Goðarnir vernduðu bændurna og gengu erinda þeirra á þingi ef brotið var á þeim en í staðinn hétu bændurnir goðanum liðveislu og stuðningi. Þeir studdu hann þá bæði á þingi sem þingmenn hans og utan þess ef hann þurfti þess með, til að mynda vegna herleiðangra.

Völd goðans voru hins vegar ekki varanleg. Í samfélaginu myndaðist flókið samspil virðingar, heiðurs, valda og efnahags. Goðarnir urðu stöðugt að sýna fram á hæfni sína, hugrekki og fágun. Þeir urðu sömuleiðis að halda helstu stuðningsmönnum sínum glæsilegar veislur og gefa þeim góðar gjafir til að tryggja sambandið þeirra í millum. Með því að þiggja gjöf varð þiggjandinn nefnilega skuldbundinn gefandanum og varð að koma honum til aðstoðar æskti hann þess.

Svo virðist sem goðarnir hafi sóst eftir því að búa í alfaraleið til að eiga frekar möguleika á að sýna glæsikynni sín og geta sýnt gestrisni sína. Veislur, gjafir, utanferðir (bæði til konungs og suður til Rómar), hjónabönd og frillur. Allt þjónaði þetta þeim tilgangi að auka virðingu höfðingjans og tryggja tengslin við stórbændur og aðra höfðingja. Stæði goðinn sig hins vegar ekki átti hann það á hættu að þingmenn hans yfirgæfu hann og sneru sér til annars öflugri goða eða jafnvel stórbónda sem ásældist pólitísk áhrif og var oft auðugri en goðinn ólánsami. Til dæmis virðist Hvamm-Sturla, ættfaðir Sturlunga, upphaflega hafa verið bóndi sem reis til vegs og virðingar og varð að lokum einn áhrifamesti goði síns tíma.

Auðsöfnun var áberandi á meðal helstu höfðingja 12. og 13. aldar og náði sennilega hámarki með Snorra Sturlusyni. Lengi vel töldu fræðimenn að þessi auðsöfnun hefði verið undirrót þeirra ragnaraka sem skóku samfélagið á Sturlungaöld. Nú hallast menn þó flestir að því að um flókna samfélagslega þróun hafi verið að ræða sem finna má samsvörun í öðrum samfélögum erlendis sem skorti miðstýrt vald eins og íslenska þjóðveldið. Hafa menn borið goðana saman við höfðingja sem kallaðir hafa verðið stórmenni (big-men) og stórgoðana sem síðar komu fram á sjónarsviðið við foringja (chiefs). Helsti munur á eðli þessara höfðingjatigna var sá að stórmenni byggðu völd sín á persónulegu gagnkvæmu sambandi við fylgismenn sína sem fengu auð hans jafnan til baka í formi gjafa. Foringjar réðu hins vegar yfir landfræðilega afmörkuðu landsvæði, voru töluvert auðugri og gátu lagt á tolla og skatta. Þeir höfðu oft á að skipa einkaher og völd foringjans voru alla jafna arfgeng.

Valdasamþjöppun er talin hefjast hér á 11. öld þegar goðaættir Haukdæla og Oddaverja sjá sér leik á borði og byrja að sölsa undir sig önnur goðorð innan sömu þingháar. Þessar ættir og aðrar í kjölfar þeirra mynduðu nú smáríki eða héraðsríki sem höfðu afmörkuð landamæri og urðu allir bændur innan þeirra að lúta vilja stórgoðans. Við þetta hefst umbreyting á hlutverki goðans yfir í stórgoða.

Þessi valdasamþjöppun virðist hafa byrjað á Suðurlandi en endað á Vestfjörðum. Stóru höfðingjaættirnar, sem höfðu þá þegar myndað sér héraðsríki, bitust harkalega um völdin á svæðunum þar sem valdasamþjöppunin gerðist síðast. Átök og hernaðarbandalög milli ættanna samfara aukinni stigmögnun fylgdu því óhjákvæmilega í kjölfarið.



Lítum að lokum sem snöggvast yfir atburðarás Sturlungaaldarinnar:

Sturlungaöldin hófst árið 1220 þegar Snorri Sturluson gerðist lénsmaður Noregskonungs. Konungur fór þess á leit við Snorra að hann kæmi Íslandi undir norsku krúnuna. Snorri gerði hins vegar lítið til þess þótt hann yrði skjótt einn valdamesti höfðingi landsins.

Árið 1235 gerðist einnig Sturla Sighvatsson, bróðursonur Snorra, lénsmaður Hákonar gamla Noregskonungs. Sturla var mun harðskeyttari en Snorri og rak hann fljótlega út til Noregs til fundar við konung og hóf síðan hernað á hendur öðrum höfðingjum til að brjóta landið undir sig og konung. Sturla og Sighvatur faðir hans biðu hins vegar frægan ósigur fyrir Gissuri Þorvaldssyni, höfðingja Haukdæla, og Kolbeini unga, höfðingja Ásbirninga, við Örlygsstaði í Skagafirði 1238. Þeir Gissur og Kolbeinn ungi urðu í kjölfarið valdamestu höfðingjar landsins.

Snorri sneri skjótt heim til Íslands í óþökk konungs enda varð hann uppvís að því að hafa stutt Skúla jarl gegn Hákoni gamla í misheppnaðri uppreisnartilraun hans í Noregi. Gissur Þorvaldsson var lénsmaður konungs, eins og svo margir íslenskir höfðingjar. Hákon konungur krafðist þess að Snorri yrði drepinn og fór Gissur þá að kröfu hans og drap Snorra árið 1241.

Ári síðar kemur til landsins Þórður kakali Sighvatsson. Hann átti harma að hefna eftir að bræður hans og faðir voru vegnir við Örlygsstaði og sýndi skjótt að hann var mikilhæfur herforingi og leiðtogi. Fjórum árum síðar var veldi Ásbirninga hrunið eftir stöðugar skærur við Þórð. Má hér nefna Flóabardaga árið 1244, einu sjóorrustu Íslandssögunnar, og mannskæðasta bardagann, Haugsnesbardaga árið 1246, þar sem nær hundrað manns féllu.

Þeir Þórður kakali og Gissur Þorvaldsson lögðu þó ekki í hernað hvorir gegn öðrum heldur skutu máli sínu til konungs þar sem báðir voru þeir lénsmenn hans. Að ráði Vilhjálms kardínála úrskurðaði Hákon Þórði í vil og árin 1247-50 var Þórður nær einráður hérlendis. Konungur kallaði hann þá á sinn fund og setti Þórður menn sér handgengna yfir veldi sitt áður en hann fór utan. Þórði kakala auðnaðist aldrei að koma aftur til ríkis síns því hann lést í Noregi sex árum síðar eftir að hafa loks fengið brottfararleyfi frá Hákoni.

Árið 1252 sendi konungur Gissur til landsins í stað Þórðar. Menn Þórðar voru ekki sáttir og fóru að honum við Flugumýri í Skagafirði og reyndu að brenna hann inni. Þrátt fyrir að vera valdamesti höfðingi landsins reyndist Gissuri ekki unnt að ná foringjum brennumannanna og árið 1254 var honum stefnt til Noregs því konungi þótti hann ekki standa sig í því að koma landinu undir norsku krúnuna.

Vígaferlin héldu áfram og brátt var Gissur sæmdur nafnbótinni jarl og sendur aftur til landsins. Konungi tókst hins vegar ekki að fá landsmenn til að játast sér fyrr en hann hafði sent hingað Hallvarð gullskó sérlegan fulltrúa sinn til að ganga erinda sinna.

Nánar má lesa um þá atburðarás sem leiddi til yfirtöku Noregskonungs á Íslandi í svari Vignis Más Lýðssonar við spurningunni Hver skrifaði Gamla sáttmála og hvað fólst í honum?

Heimildir:

  • Björn Þorsteinsson: Íslensk miðaldasaga, 2. útg., Sögufélagið, Rvk. 1980.
  • Byock, Jesse L.: Medieval Iceland. Society, Sagas, and Power, University of California Press, BNA 1990.
  • Gunnar Karlsson: “Frá þjóðveldi til konungsríkis”, Saga Íslands II, ritstj. Sigurður Líndal, Hið íslenzka bókmenntafélag, Sögufélagið, Rvk 1975.
  • ”Goðar og bændur”, s. 5-57, Saga X, Sögufélagið, Rvk 1972.
  • ”Völd og auður á 13. öld”, s. 5-30, Saga XVIII, Sögufélagið, Rvk 1980.
  • Helgi Þorláksson: “Fé og virðing”, Sæmdarmenn. Um heiður á þjóðveldisöld, Hugvísindastofnun Háskóla Íslands, Rvk. 2001.
  • Gamlar götur og goðavald. Um fornar leiðir og völd Oddverja í Rangárþingi, Ritstjóri Jón Guðnason, Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, Rvk 1989.
  • ”Hruni”, s. 9-72, Árnesingur V, Sögufélag Árnesinga, Selfossi 1998.
  • ”Hvað er blóðhefnd?”, s. 389-414, Sagnaþing helgað Jónasi Kristjánssyni sjötugum 10. apríl 1994, 1. bindi, Hið íslenska bókmenntafélag, Rvk 1994.
  • ”Stéttir, auður og völd á 12. og 13. öld”, s. 63-113, Saga XX,Sögufélagið, Rvk 1982.
  • ”Stórbændur gegn goðum. Hugleiðingar um goðavald, konungsvald og sjálfræðishug bænda um miðbik 13. aldar”, s. 227-250, Söguslóðir. Afmælisrit helgað Ólafi Hanssyni sjötugum 18. September 1979, Sögufélag, Rvk 1979.
  • ”Sturla Þórðarson, minni og vald”, s. 319-41, 2. íslenska söguþingið 2002, Ráðstefnurit II, Rvk 2002.
  • Jón Viðar Sigurðsson: Frá goðorðum til ríkja. Þróun goðavalds á 12. og 13. öld, Sagnfræðirannsóknir – Studia Historica 10. bindi, ritstj. Bergsteinn Jónsson Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, Rvk 1989.
  • “Sæmd, stéttir og steinkast á þjóðveldisöld”, s. 151-164, Saga XLI:1, Sögufélagið, Rvk 2003.
  • Magnús Stefánsson: “Kirkjuvald eflist”, s. 57-144, Saga Íslands II, ritstj. Sigurður Líndal, Hið íslenzka bókmenntafélag, Sögufélagið, Rvk 1975.
  • Sverrir Jakobsson: “Friðarviðleitni kirkjunnar á 13. öld”, s. 7-46, Saga XXXVI, Sögufélagið, Rvk 1998.
  • Viðar Pálsson: “Var engi höfðingi slíkr sem Snorri”. Auður og virðing í valdabaráttu Snorra Sturlusonar, s. 55-96, Saga XLI:1, Sögufélagið, Rvk 2003.

Myndir:
  • Þær eru teknar af síðu Varmahlíðarskóla þar sem nemendur í 8. og 9. bekk unnu verkefni undir yfirskriftinni Bardagar í Skagafirði. Sótt 28.7.2004.

Höfundur

Skúli Sæland

sagnfræðingur

Útgáfudagur

28.7.2004

Spyrjandi

Ragnhildur Ólafsdóttir

Tilvísun

Skúli Sæland. „Hvað var Sturlungaöld?“ Vísindavefurinn, 28. júlí 2004. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=4429.

Skúli Sæland. (2004, 28. júlí). Hvað var Sturlungaöld? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=4429

Skúli Sæland. „Hvað var Sturlungaöld?“ Vísindavefurinn. 28. júl. 2004. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=4429>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað var Sturlungaöld?
Sturlungaöldin var í raun einungis 42-44 ára tímabil á miðri 13. öld. Hún er einn ofbeldisfyllsti tími Íslandssögunnar. Sturlungaöldin einkenndist af liðssafnaði valdamikilla höfðingja sem herjuðu hverjir á aðra með vígaferlum og gripdeildum. Sturlungaöldin dregur nafn sitt af Sturlungunum sem voru valdamesta ættin á Íslandi á þessu tímabili. Við lok Sturlungaaldarinnar komst landið undir erlend yfirráð og við það lauk þjóðveldistímanum sem hófst við landnámið.


Almennt er miðað við árið 1220 sem upphafsár Sturlungaaldarinnar því þá fer fyrst að gæta tilrauna Hákonar gamla Noregskonungs til að leggja Ísland undir norsku krúnuna. Honum tókst svo ætlunarverk sitt á árunum 1262-64 og þar með lauk Sturlungaöldinni.




Um 1220 var farið að gæta töluverðrar valdasamþjöppunar og valdagrunnur helstu valdaætta landsins var orðinn nokkuð traustur. Þessar helstu valdaættir voru Haukdælir, sem voru staðsettir í Árnesþingi, Oddaverjar í Rangárþingi, Ásbirningar í Skagafirði, Vatnsfirðingar við Ísafjarðardjúp, Svínfellingar á Austurlandi og svo auðvitað Sturlungar sem eru kenndir við Sturlu Þórðarson í Hvammi í Dölum. Synir hans, Þórður, Sighvatur og Snorri, mynduðu síðan áhrifasvæði á Stað á Ölduhrygg um Snæfellsnes, Grund í Eyjafirði og Borg á Mýrum.


Aukin áhrif og ásælni konungs má rekja til þess að með falli Skúla jarls lauk innanlandsófriði í Noregi. Eftir það gat Hákon einbeitt sér að utanríkispólitík og reynt að auka áhrif sín hér á landi. Hákon valdi sér þá leið að gera íslenska höfðingja að lénsmönnum sínum. Þeir urðu þá að gera það sem hann bauð þeim en í staðinn þágu þeir af honum meðal annars gjafir, fylgdarmenn og virðingu. Því leið ekki á löngu þar til margir helstu höfðingjar Íslendinga voru orðnir handgengnir Noregskonungi.

Konungur naut þess einnig að kirkjan á Íslandi laut yfirstjórn erkibiskupsins á Niðarósi. Eitt helsta baráttumál kirkjunnar á þessum tíma var að tryggja frið og því sóttist hún eftir því að lægja ófriðarbálið hér á Íslandi. Árið 1247 urðu svo þáttaskil þegar Vilhjálmur kardínáli kom til Noregs til að vígja Hákon konung. Kardínálinn taldi mikilvægt að Ísland lyti einum manni og eftir þetta störfuðu kirkjan og norska krúnan saman að því að koma Íslandi undir Hákon. Á þessum tíma var þjóðerniskenndar ekki farið að gæta auk þess sem það þótti ekki bara eðlilegt heldur einnig sjálfsagt að vera undir stjórn konungs.

En hvað olli þessum miklu hamförum á Sturlungaöld sem lauk með því að Noregskonungi tókst að sölsa undir sig landið?

Fljótlega eftir að landnám landsins hófst komu bændur og höfðingjar sér upp valdakerfi sem fólst í persónulegu og gagnvirku sambandi bóndans annars vegar og goðans, höfðingjans, hins vegar. Landinu var skipt upp í landsfjórðunga og innan hvers fjórðungs voru síðan þrjár þingháir sem hver hafði þrjú goðorð eða goða. Að auki voru þrjú auka goðorð í Norðlendingafjórðungi sem var stærstur og fjölmennastur á landinu. Allt í allt voru þá 39 goðar starfandi.

Goðarnir vernduðu bændurna og gengu erinda þeirra á þingi ef brotið var á þeim en í staðinn hétu bændurnir goðanum liðveislu og stuðningi. Þeir studdu hann þá bæði á þingi sem þingmenn hans og utan þess ef hann þurfti þess með, til að mynda vegna herleiðangra.

Völd goðans voru hins vegar ekki varanleg. Í samfélaginu myndaðist flókið samspil virðingar, heiðurs, valda og efnahags. Goðarnir urðu stöðugt að sýna fram á hæfni sína, hugrekki og fágun. Þeir urðu sömuleiðis að halda helstu stuðningsmönnum sínum glæsilegar veislur og gefa þeim góðar gjafir til að tryggja sambandið þeirra í millum. Með því að þiggja gjöf varð þiggjandinn nefnilega skuldbundinn gefandanum og varð að koma honum til aðstoðar æskti hann þess.

Svo virðist sem goðarnir hafi sóst eftir því að búa í alfaraleið til að eiga frekar möguleika á að sýna glæsikynni sín og geta sýnt gestrisni sína. Veislur, gjafir, utanferðir (bæði til konungs og suður til Rómar), hjónabönd og frillur. Allt þjónaði þetta þeim tilgangi að auka virðingu höfðingjans og tryggja tengslin við stórbændur og aðra höfðingja. Stæði goðinn sig hins vegar ekki átti hann það á hættu að þingmenn hans yfirgæfu hann og sneru sér til annars öflugri goða eða jafnvel stórbónda sem ásældist pólitísk áhrif og var oft auðugri en goðinn ólánsami. Til dæmis virðist Hvamm-Sturla, ættfaðir Sturlunga, upphaflega hafa verið bóndi sem reis til vegs og virðingar og varð að lokum einn áhrifamesti goði síns tíma.

Auðsöfnun var áberandi á meðal helstu höfðingja 12. og 13. aldar og náði sennilega hámarki með Snorra Sturlusyni. Lengi vel töldu fræðimenn að þessi auðsöfnun hefði verið undirrót þeirra ragnaraka sem skóku samfélagið á Sturlungaöld. Nú hallast menn þó flestir að því að um flókna samfélagslega þróun hafi verið að ræða sem finna má samsvörun í öðrum samfélögum erlendis sem skorti miðstýrt vald eins og íslenska þjóðveldið. Hafa menn borið goðana saman við höfðingja sem kallaðir hafa verðið stórmenni (big-men) og stórgoðana sem síðar komu fram á sjónarsviðið við foringja (chiefs). Helsti munur á eðli þessara höfðingjatigna var sá að stórmenni byggðu völd sín á persónulegu gagnkvæmu sambandi við fylgismenn sína sem fengu auð hans jafnan til baka í formi gjafa. Foringjar réðu hins vegar yfir landfræðilega afmörkuðu landsvæði, voru töluvert auðugri og gátu lagt á tolla og skatta. Þeir höfðu oft á að skipa einkaher og völd foringjans voru alla jafna arfgeng.

Valdasamþjöppun er talin hefjast hér á 11. öld þegar goðaættir Haukdæla og Oddaverja sjá sér leik á borði og byrja að sölsa undir sig önnur goðorð innan sömu þingháar. Þessar ættir og aðrar í kjölfar þeirra mynduðu nú smáríki eða héraðsríki sem höfðu afmörkuð landamæri og urðu allir bændur innan þeirra að lúta vilja stórgoðans. Við þetta hefst umbreyting á hlutverki goðans yfir í stórgoða.

Þessi valdasamþjöppun virðist hafa byrjað á Suðurlandi en endað á Vestfjörðum. Stóru höfðingjaættirnar, sem höfðu þá þegar myndað sér héraðsríki, bitust harkalega um völdin á svæðunum þar sem valdasamþjöppunin gerðist síðast. Átök og hernaðarbandalög milli ættanna samfara aukinni stigmögnun fylgdu því óhjákvæmilega í kjölfarið.



Lítum að lokum sem snöggvast yfir atburðarás Sturlungaaldarinnar:

Sturlungaöldin hófst árið 1220 þegar Snorri Sturluson gerðist lénsmaður Noregskonungs. Konungur fór þess á leit við Snorra að hann kæmi Íslandi undir norsku krúnuna. Snorri gerði hins vegar lítið til þess þótt hann yrði skjótt einn valdamesti höfðingi landsins.

Árið 1235 gerðist einnig Sturla Sighvatsson, bróðursonur Snorra, lénsmaður Hákonar gamla Noregskonungs. Sturla var mun harðskeyttari en Snorri og rak hann fljótlega út til Noregs til fundar við konung og hóf síðan hernað á hendur öðrum höfðingjum til að brjóta landið undir sig og konung. Sturla og Sighvatur faðir hans biðu hins vegar frægan ósigur fyrir Gissuri Þorvaldssyni, höfðingja Haukdæla, og Kolbeini unga, höfðingja Ásbirninga, við Örlygsstaði í Skagafirði 1238. Þeir Gissur og Kolbeinn ungi urðu í kjölfarið valdamestu höfðingjar landsins.

Snorri sneri skjótt heim til Íslands í óþökk konungs enda varð hann uppvís að því að hafa stutt Skúla jarl gegn Hákoni gamla í misheppnaðri uppreisnartilraun hans í Noregi. Gissur Þorvaldsson var lénsmaður konungs, eins og svo margir íslenskir höfðingjar. Hákon konungur krafðist þess að Snorri yrði drepinn og fór Gissur þá að kröfu hans og drap Snorra árið 1241.

Ári síðar kemur til landsins Þórður kakali Sighvatsson. Hann átti harma að hefna eftir að bræður hans og faðir voru vegnir við Örlygsstaði og sýndi skjótt að hann var mikilhæfur herforingi og leiðtogi. Fjórum árum síðar var veldi Ásbirninga hrunið eftir stöðugar skærur við Þórð. Má hér nefna Flóabardaga árið 1244, einu sjóorrustu Íslandssögunnar, og mannskæðasta bardagann, Haugsnesbardaga árið 1246, þar sem nær hundrað manns féllu.

Þeir Þórður kakali og Gissur Þorvaldsson lögðu þó ekki í hernað hvorir gegn öðrum heldur skutu máli sínu til konungs þar sem báðir voru þeir lénsmenn hans. Að ráði Vilhjálms kardínála úrskurðaði Hákon Þórði í vil og árin 1247-50 var Þórður nær einráður hérlendis. Konungur kallaði hann þá á sinn fund og setti Þórður menn sér handgengna yfir veldi sitt áður en hann fór utan. Þórði kakala auðnaðist aldrei að koma aftur til ríkis síns því hann lést í Noregi sex árum síðar eftir að hafa loks fengið brottfararleyfi frá Hákoni.

Árið 1252 sendi konungur Gissur til landsins í stað Þórðar. Menn Þórðar voru ekki sáttir og fóru að honum við Flugumýri í Skagafirði og reyndu að brenna hann inni. Þrátt fyrir að vera valdamesti höfðingi landsins reyndist Gissuri ekki unnt að ná foringjum brennumannanna og árið 1254 var honum stefnt til Noregs því konungi þótti hann ekki standa sig í því að koma landinu undir norsku krúnuna.

Vígaferlin héldu áfram og brátt var Gissur sæmdur nafnbótinni jarl og sendur aftur til landsins. Konungi tókst hins vegar ekki að fá landsmenn til að játast sér fyrr en hann hafði sent hingað Hallvarð gullskó sérlegan fulltrúa sinn til að ganga erinda sinna.

Nánar má lesa um þá atburðarás sem leiddi til yfirtöku Noregskonungs á Íslandi í svari Vignis Más Lýðssonar við spurningunni Hver skrifaði Gamla sáttmála og hvað fólst í honum?

Heimildir:

  • Björn Þorsteinsson: Íslensk miðaldasaga, 2. útg., Sögufélagið, Rvk. 1980.
  • Byock, Jesse L.: Medieval Iceland. Society, Sagas, and Power, University of California Press, BNA 1990.
  • Gunnar Karlsson: “Frá þjóðveldi til konungsríkis”, Saga Íslands II, ritstj. Sigurður Líndal, Hið íslenzka bókmenntafélag, Sögufélagið, Rvk 1975.
  • ”Goðar og bændur”, s. 5-57, Saga X, Sögufélagið, Rvk 1972.
  • ”Völd og auður á 13. öld”, s. 5-30, Saga XVIII, Sögufélagið, Rvk 1980.
  • Helgi Þorláksson: “Fé og virðing”, Sæmdarmenn. Um heiður á þjóðveldisöld, Hugvísindastofnun Háskóla Íslands, Rvk. 2001.
  • Gamlar götur og goðavald. Um fornar leiðir og völd Oddverja í Rangárþingi, Ritstjóri Jón Guðnason, Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, Rvk 1989.
  • ”Hruni”, s. 9-72, Árnesingur V, Sögufélag Árnesinga, Selfossi 1998.
  • ”Hvað er blóðhefnd?”, s. 389-414, Sagnaþing helgað Jónasi Kristjánssyni sjötugum 10. apríl 1994, 1. bindi, Hið íslenska bókmenntafélag, Rvk 1994.
  • ”Stéttir, auður og völd á 12. og 13. öld”, s. 63-113, Saga XX,Sögufélagið, Rvk 1982.
  • ”Stórbændur gegn goðum. Hugleiðingar um goðavald, konungsvald og sjálfræðishug bænda um miðbik 13. aldar”, s. 227-250, Söguslóðir. Afmælisrit helgað Ólafi Hanssyni sjötugum 18. September 1979, Sögufélag, Rvk 1979.
  • ”Sturla Þórðarson, minni og vald”, s. 319-41, 2. íslenska söguþingið 2002, Ráðstefnurit II, Rvk 2002.
  • Jón Viðar Sigurðsson: Frá goðorðum til ríkja. Þróun goðavalds á 12. og 13. öld, Sagnfræðirannsóknir – Studia Historica 10. bindi, ritstj. Bergsteinn Jónsson Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, Rvk 1989.
  • “Sæmd, stéttir og steinkast á þjóðveldisöld”, s. 151-164, Saga XLI:1, Sögufélagið, Rvk 2003.
  • Magnús Stefánsson: “Kirkjuvald eflist”, s. 57-144, Saga Íslands II, ritstj. Sigurður Líndal, Hið íslenzka bókmenntafélag, Sögufélagið, Rvk 1975.
  • Sverrir Jakobsson: “Friðarviðleitni kirkjunnar á 13. öld”, s. 7-46, Saga XXXVI, Sögufélagið, Rvk 1998.
  • Viðar Pálsson: “Var engi höfðingi slíkr sem Snorri”. Auður og virðing í valdabaráttu Snorra Sturlusonar, s. 55-96, Saga XLI:1, Sögufélagið, Rvk 2003.

Myndir:
  • Þær eru teknar af síðu Varmahlíðarskóla þar sem nemendur í 8. og 9. bekk unnu verkefni undir yfirskriftinni Bardagar í Skagafirði. Sótt 28.7.2004.
...