Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hver er saga Deildartunguhvers?

Snæbjörn Guðmundsson

Rétt norðan við Kleppjárnsreyki í Borgarfirði, handan Reykjadalsár, er Deildartunguhver. Hann er vatnsmesti hver í Evrópu, og raunar stundum sagður vatnsmesti hver í heimi þótt erfitt geti verið að sannreyna slíkar fullyrðingar. Hverinn er ekki aðeins merkilegur í jarðfræðilegu tilliti heldur tengist hann sögu jarðhitanýtingar á Íslandi á merkan hátt en frá honum liggur ein lengsta jarðhitavatnslögn í heimi um 64 kílómetra leið til Akraness.

Deildartunguhver er vatnsmesti hver í Evrópu, og raunar stundum sagður vatnsmesti hver í heimi þótt erfitt geti verið að sannreyna slíkar fullyrðingar.

Jarðhita á Íslandi er alla jafna skipt í lághitasvæði og háhitasvæði, en sú skipting kom fyrst fram um miðja 20. öld. Skilgreiningin fer eftir hitastigi í borholum á 1000 metra dýpi, en svæði sem sýna yfir 200°C hita á því dýpi eru skilgreind sem háhitasvæði en lághitasvæði eru kaldari. Þegar skipting jarðhita í há- og lághitasvæði er skoðuð á landakorti sést að háhitasvæðin raðast öll eftir gosbeltum landsins, frá Reykjanesi austur og norður eftir vesturgosbeltinu að Hveravöllum og Kerlingarfjöllum, og frá Mýrdals- og Torfajökulssvæðunum norður eftir eystra gosbeltinu að Þeistareykjum.

Þetta er skiljanlegt í ljósi þess að öflugustu jarðhitasvæðin fá orku sína frá megineldstöðvum landsins, sem dreifast eftir gosbeltunum. Lághitasvæðin liggja hins vegar utan gosbeltanna eða í jaðri þeirra. Öflugustu lághitasvæði landsins liggja sitt hvorum megin við gosbeltið á Suðvesturlandi, í Borgarfirði og á Suðurlandsundirlendinu. Þessi svæði eru sérstaklega öflug því þau liggja á virkum og opnum sprungukerfum þar sem jarðhitavatn streymir auðveldlega úr iðrum jarðar upp að yfirborði. Eftir Suðurlandi endilöngu liggur Suðurlandsskjálftabeltið, þar sem hinir öflugu Suðurlandsskjálftar verða reglulega, og raðast allflest jarðhitakerfi Suðurlands á sprungur tengdar brotabeltinu.

Saga jarðhitasvæðisins í sunnanverðum Borgarfirði er hins vegar margbrotnari. Nú er af mörgum talið að um sunnanvert svæðið hafi fyrir milljónum ára legið þverbrotabelti svipað Suðurlandsskjálftabeltinu, en það hefur þá tengt saman hið forna Snæfellsnesgosbelti og núverandi vesturgosbelti. Sprungukerfi þessa Borgarfjarðarbrotabeltis er enn að einhverju leyti virkt þótt það þjóni ekki sama hlutverki og áður. Sést það til að mynda á jarðskjálftavirkni sem er nokkur í Borgarfirði, en síðast varð á þessu svæði stór jarðskjálftahrina árið 1974, þá nálægt Húsafelli.

Inn í þessa mynd flækjast þó önnur margslungin atriði í jarðfræði svæðisins, svo sem mishröð gliðnun vesturgosbeltisins og samfarandi spenna í jarðskorpunni á milli núverandi rekbelta og Snæfellsnesgosbeltisins, en ekki verður farið frekar út í þá sálma hér. Ljóst er hins vegar að jarðhitavatnið, sem kemur upp í sunnanverðum Borgarfirðinum, rennur upphaflega ofan af Arnarvatnsheiði til suðvesturs þar sem það hitnar og stígur upp um hinar virku misgengissprungur.

Frá Deildartunguhver liggur ein lengsta jarðhitavatnslögn í heimi um 64 kílómetra leið til Akraness.

Deildartunguhver er hluti af langstærsta jarðhitakerfi Borgarfjarðar sem kennt er við Reykholtsdal. Ef litið er til náttúrulegs yfirborðsjarðhita er Reykholtsdalskerfið raunar það öflugasta á Íslandi, með um 400 lítra rennsli á sekúndu af sjóðandi hveravatni. Deildartunguhver stendur fyrir nálægt helmingi þess rennslis, um 180 lítrum á sekúndu, og sést á því hve afkastamikill hann er. Nýting Deildartunguhvers var lengi lítil miðað við afköstin en á áttunda áratugnum komu upp hugmyndir um virkjun hversins til upphitunar húsa í Borgarfirði og á Akranesi.

Áður hafði farið fram könnun á jarðhita nær Akranesi, svo sem í Leirársveit, en lítið kom út úr því. Í fyrstu þótti virkjunin ekki fýsileg vegna kostnaðar en olía til húshitunar hækkaði mjög í verði í olíukreppunni á þessum árum og var því ákveðið að ráðast í framkvæmdina. Hitaveita var stofnuð 1979 og í kjölfarið voru hitavatnsleiðslur lagðar frá Deildartungu að bæði Borgarnesi og Akranesi. Heitt vatn komst á bæina árið 1981 og voru veitumannvirkin vígð snemma árs 1982.

Af rennslinu í Deildartunguhver eru um 130-140 sekúndulítrar að jafnaði nýttir, eða um 75% af heildarrennsli hversins. Nýtingin er mest yfir vetrarmánuðina, þegar hún fer upp í um 160 lítra á sekúndu, en dettur nokkuð niður yfir sumarið þegar heitavatnsþörf minnkar. Tvær litlar borholur sem nýttar eru yfir veturinn eru einnig tengdar inn á kerfið og annar kerfið í heild sinni hitaveituþörf Akraness, Borgarness, Hvanneyrar og sveitanna í grennd við heitavatnslögnina.

Vatnið rennur um 34 kílómetra leið til Borgarness en lengd hitaveituleiðslunnar til Akraness er um 64 kílómetrar og tekur það vatnið tvo til þrjá sólarhringa að renna þá leið með aðstoð dælustöðva á leiðinni. Hitaveituleiðslan er ekki aðeins sú lengsta á Íslandi heldur að öllum líkindum lengsta jarðhitavatnsleiðsla á jörðinni. Til samanburðar er heitavatnslögnin frá Nesjavöllum til Reykjavíkur um 23 kílómetra löng. Vatnið er alla jafna um 96-97°C við Deildartungu en kólnar um 8-9°C á leiðinni til Borgarness en um tæpar 20°C á hinni löngu leið til Akraness og er þar um 80°C heitt þegar það skilar sér til notenda.

Af rennslinu í Deildartunguhver eru um 130-140 sekúndulítrar að jafnaði nýttir, eða um 75% af heildarrennsli hversins. Nýtingin er mest yfir vetrarmánuðina, þegar hún fer upp í um 160 lítra á sekúndu, en dettur nokkuð niður yfir sumarið þegar heitavatnsþörf minnkar.

Fróðlegt er að heimsækja Deildartunguhver og jarðhitasvæðið í Reykholtsdalnum. Við virkjun hversins árið 1981 var reynt að hafa jarðrask sem minnst og haga frágangi þannig að náttúrulegt rennsli héldi sér. Þannig eru engar borholur við Deildartunguhver heldur er hveravatnið látið flæða upp og frá hvernum þar sem því er svo safnað í þró. Þótt hverinn hafi ekki fengið að halda sínu náttúrulega umhverfi skiptir þetta þó höfuðmáli svo hægt sé að njóta hans.

Heimildir:
  • Arnaldur Indriðason. 1981, 26. júlí. Virkjun stærsta hvers Evrópu og 66 km hitaveitulögn frá Deildartungu um Borgarfjörð. Morgunblaðið, bls. 22-23.
  • Egill Ólafsson. 2007, 12. mars. Gömul rekbelti valda skjálftum í Borgarfirði. Morgunblaðið, bls. 10-11.
  • Einar Gunnlaugsson. 1980. Borgarfjörður. Efnafræði jarðhitavatns. Orkustofnun, Reykjavík.
  • Haukur Jóhannesson. 1980. Jarðlagaskipan og þróun rekbelta á Vesturlandi. Náttúrufræðingurinn 50 (1), 13-31.
  • Helgi Torfason. 2003. Jarðhitakort af Íslandi og gagnasafn um jarðhita. Orkustofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík.
  • Lúðvík S. Georgsson, Haukur Jóhannesson, Einar Gunnlaugsson og Guðmundur Ingi Haraldsson. 1984. Geothermal Exploration of the Reykholt Thermal System in Borgarfjördur, West Iceland. Jökull 34, 105-116.
  • Maryam Khodayar. 1999. On the pattern of faults and dykes in Borgarfjörður, W–Iceland. Jökull 47, 21-44.
  • Páll Einarsson, Klein, F. W. og Sveinn Björnsson. 1977. The Borgarfjörður earthquakes in West Iceland 1974. Bulletin of the Seismological Society of America 67, 187-208.
  • Selma Olsen. 2014. Vatnsvinnsla Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar (HAB) 2013. Orkuveita Reykjavíkur, Reykjavík.
  • Stefán Arnórsson, Guðni Axelsson og Kristján Sæmundsson. 2008. Geothermal systems in Iceland. Jökull 58, 269-302.

Myndir:


Þetta svar er úr bókinni Vegvísir um jarðfræði Íslands og er lítillega aðlagað Vísindavefnum. Höfundur bókarinnar er Snæbjörn Guðmundsson en það er Forlagið sem gefur bókina út. Textinn er birtur með góðfúslegu leyfi höfundar og útgefanda.

Höfundur

Snæbjörn Guðmundsson

jarðfræðingur við Náttúruminjasafn Íslands

Útgáfudagur

19.10.2016

Spyrjandi

Helgi Tómasson

Tilvísun

Snæbjörn Guðmundsson. „Hver er saga Deildartunguhvers?“ Vísindavefurinn, 19. október 2016. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=11117.

Snæbjörn Guðmundsson. (2016, 19. október). Hver er saga Deildartunguhvers? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=11117

Snæbjörn Guðmundsson. „Hver er saga Deildartunguhvers?“ Vísindavefurinn. 19. okt. 2016. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=11117>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er saga Deildartunguhvers?
Rétt norðan við Kleppjárnsreyki í Borgarfirði, handan Reykjadalsár, er Deildartunguhver. Hann er vatnsmesti hver í Evrópu, og raunar stundum sagður vatnsmesti hver í heimi þótt erfitt geti verið að sannreyna slíkar fullyrðingar. Hverinn er ekki aðeins merkilegur í jarðfræðilegu tilliti heldur tengist hann sögu jarðhitanýtingar á Íslandi á merkan hátt en frá honum liggur ein lengsta jarðhitavatnslögn í heimi um 64 kílómetra leið til Akraness.

Deildartunguhver er vatnsmesti hver í Evrópu, og raunar stundum sagður vatnsmesti hver í heimi þótt erfitt geti verið að sannreyna slíkar fullyrðingar.

Jarðhita á Íslandi er alla jafna skipt í lághitasvæði og háhitasvæði, en sú skipting kom fyrst fram um miðja 20. öld. Skilgreiningin fer eftir hitastigi í borholum á 1000 metra dýpi, en svæði sem sýna yfir 200°C hita á því dýpi eru skilgreind sem háhitasvæði en lághitasvæði eru kaldari. Þegar skipting jarðhita í há- og lághitasvæði er skoðuð á landakorti sést að háhitasvæðin raðast öll eftir gosbeltum landsins, frá Reykjanesi austur og norður eftir vesturgosbeltinu að Hveravöllum og Kerlingarfjöllum, og frá Mýrdals- og Torfajökulssvæðunum norður eftir eystra gosbeltinu að Þeistareykjum.

Þetta er skiljanlegt í ljósi þess að öflugustu jarðhitasvæðin fá orku sína frá megineldstöðvum landsins, sem dreifast eftir gosbeltunum. Lághitasvæðin liggja hins vegar utan gosbeltanna eða í jaðri þeirra. Öflugustu lághitasvæði landsins liggja sitt hvorum megin við gosbeltið á Suðvesturlandi, í Borgarfirði og á Suðurlandsundirlendinu. Þessi svæði eru sérstaklega öflug því þau liggja á virkum og opnum sprungukerfum þar sem jarðhitavatn streymir auðveldlega úr iðrum jarðar upp að yfirborði. Eftir Suðurlandi endilöngu liggur Suðurlandsskjálftabeltið, þar sem hinir öflugu Suðurlandsskjálftar verða reglulega, og raðast allflest jarðhitakerfi Suðurlands á sprungur tengdar brotabeltinu.

Saga jarðhitasvæðisins í sunnanverðum Borgarfirði er hins vegar margbrotnari. Nú er af mörgum talið að um sunnanvert svæðið hafi fyrir milljónum ára legið þverbrotabelti svipað Suðurlandsskjálftabeltinu, en það hefur þá tengt saman hið forna Snæfellsnesgosbelti og núverandi vesturgosbelti. Sprungukerfi þessa Borgarfjarðarbrotabeltis er enn að einhverju leyti virkt þótt það þjóni ekki sama hlutverki og áður. Sést það til að mynda á jarðskjálftavirkni sem er nokkur í Borgarfirði, en síðast varð á þessu svæði stór jarðskjálftahrina árið 1974, þá nálægt Húsafelli.

Inn í þessa mynd flækjast þó önnur margslungin atriði í jarðfræði svæðisins, svo sem mishröð gliðnun vesturgosbeltisins og samfarandi spenna í jarðskorpunni á milli núverandi rekbelta og Snæfellsnesgosbeltisins, en ekki verður farið frekar út í þá sálma hér. Ljóst er hins vegar að jarðhitavatnið, sem kemur upp í sunnanverðum Borgarfirðinum, rennur upphaflega ofan af Arnarvatnsheiði til suðvesturs þar sem það hitnar og stígur upp um hinar virku misgengissprungur.

Frá Deildartunguhver liggur ein lengsta jarðhitavatnslögn í heimi um 64 kílómetra leið til Akraness.

Deildartunguhver er hluti af langstærsta jarðhitakerfi Borgarfjarðar sem kennt er við Reykholtsdal. Ef litið er til náttúrulegs yfirborðsjarðhita er Reykholtsdalskerfið raunar það öflugasta á Íslandi, með um 400 lítra rennsli á sekúndu af sjóðandi hveravatni. Deildartunguhver stendur fyrir nálægt helmingi þess rennslis, um 180 lítrum á sekúndu, og sést á því hve afkastamikill hann er. Nýting Deildartunguhvers var lengi lítil miðað við afköstin en á áttunda áratugnum komu upp hugmyndir um virkjun hversins til upphitunar húsa í Borgarfirði og á Akranesi.

Áður hafði farið fram könnun á jarðhita nær Akranesi, svo sem í Leirársveit, en lítið kom út úr því. Í fyrstu þótti virkjunin ekki fýsileg vegna kostnaðar en olía til húshitunar hækkaði mjög í verði í olíukreppunni á þessum árum og var því ákveðið að ráðast í framkvæmdina. Hitaveita var stofnuð 1979 og í kjölfarið voru hitavatnsleiðslur lagðar frá Deildartungu að bæði Borgarnesi og Akranesi. Heitt vatn komst á bæina árið 1981 og voru veitumannvirkin vígð snemma árs 1982.

Af rennslinu í Deildartunguhver eru um 130-140 sekúndulítrar að jafnaði nýttir, eða um 75% af heildarrennsli hversins. Nýtingin er mest yfir vetrarmánuðina, þegar hún fer upp í um 160 lítra á sekúndu, en dettur nokkuð niður yfir sumarið þegar heitavatnsþörf minnkar. Tvær litlar borholur sem nýttar eru yfir veturinn eru einnig tengdar inn á kerfið og annar kerfið í heild sinni hitaveituþörf Akraness, Borgarness, Hvanneyrar og sveitanna í grennd við heitavatnslögnina.

Vatnið rennur um 34 kílómetra leið til Borgarness en lengd hitaveituleiðslunnar til Akraness er um 64 kílómetrar og tekur það vatnið tvo til þrjá sólarhringa að renna þá leið með aðstoð dælustöðva á leiðinni. Hitaveituleiðslan er ekki aðeins sú lengsta á Íslandi heldur að öllum líkindum lengsta jarðhitavatnsleiðsla á jörðinni. Til samanburðar er heitavatnslögnin frá Nesjavöllum til Reykjavíkur um 23 kílómetra löng. Vatnið er alla jafna um 96-97°C við Deildartungu en kólnar um 8-9°C á leiðinni til Borgarness en um tæpar 20°C á hinni löngu leið til Akraness og er þar um 80°C heitt þegar það skilar sér til notenda.

Af rennslinu í Deildartunguhver eru um 130-140 sekúndulítrar að jafnaði nýttir, eða um 75% af heildarrennsli hversins. Nýtingin er mest yfir vetrarmánuðina, þegar hún fer upp í um 160 lítra á sekúndu, en dettur nokkuð niður yfir sumarið þegar heitavatnsþörf minnkar.

Fróðlegt er að heimsækja Deildartunguhver og jarðhitasvæðið í Reykholtsdalnum. Við virkjun hversins árið 1981 var reynt að hafa jarðrask sem minnst og haga frágangi þannig að náttúrulegt rennsli héldi sér. Þannig eru engar borholur við Deildartunguhver heldur er hveravatnið látið flæða upp og frá hvernum þar sem því er svo safnað í þró. Þótt hverinn hafi ekki fengið að halda sínu náttúrulega umhverfi skiptir þetta þó höfuðmáli svo hægt sé að njóta hans.

Heimildir:
  • Arnaldur Indriðason. 1981, 26. júlí. Virkjun stærsta hvers Evrópu og 66 km hitaveitulögn frá Deildartungu um Borgarfjörð. Morgunblaðið, bls. 22-23.
  • Egill Ólafsson. 2007, 12. mars. Gömul rekbelti valda skjálftum í Borgarfirði. Morgunblaðið, bls. 10-11.
  • Einar Gunnlaugsson. 1980. Borgarfjörður. Efnafræði jarðhitavatns. Orkustofnun, Reykjavík.
  • Haukur Jóhannesson. 1980. Jarðlagaskipan og þróun rekbelta á Vesturlandi. Náttúrufræðingurinn 50 (1), 13-31.
  • Helgi Torfason. 2003. Jarðhitakort af Íslandi og gagnasafn um jarðhita. Orkustofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík.
  • Lúðvík S. Georgsson, Haukur Jóhannesson, Einar Gunnlaugsson og Guðmundur Ingi Haraldsson. 1984. Geothermal Exploration of the Reykholt Thermal System in Borgarfjördur, West Iceland. Jökull 34, 105-116.
  • Maryam Khodayar. 1999. On the pattern of faults and dykes in Borgarfjörður, W–Iceland. Jökull 47, 21-44.
  • Páll Einarsson, Klein, F. W. og Sveinn Björnsson. 1977. The Borgarfjörður earthquakes in West Iceland 1974. Bulletin of the Seismological Society of America 67, 187-208.
  • Selma Olsen. 2014. Vatnsvinnsla Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar (HAB) 2013. Orkuveita Reykjavíkur, Reykjavík.
  • Stefán Arnórsson, Guðni Axelsson og Kristján Sæmundsson. 2008. Geothermal systems in Iceland. Jökull 58, 269-302.

Myndir:


Þetta svar er úr bókinni Vegvísir um jarðfræði Íslands og er lítillega aðlagað Vísindavefnum. Höfundur bókarinnar er Snæbjörn Guðmundsson en það er Forlagið sem gefur bókina út. Textinn er birtur með góðfúslegu leyfi höfundar og útgefanda....