Sólin Sólin Rís 08:13 • sest 18:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:20 • Sest 00:24 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:43 • Síðdegis: 15:15 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 08:57 • Síðdegis: 21:43 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:13 • sest 18:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:20 • Sest 00:24 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:43 • Síðdegis: 15:15 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 08:57 • Síðdegis: 21:43 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Verður maður brúnn af því að sitja við varðeld?

Emelía Eiríksdóttir

Þegar útfjólublátt ljós fellur á húðina örvar það myndun litarefnisins melaníns í litfrumum og við verðum brún. Viðbrögð húðarinnar við útfjólubláum geislum eru háð afli geislanna en óháð uppsprettu þeirra. Húðin verður þess vegna fyrir sömu áhrifum hvort sem útfjólubláu geislarnir koma frá sólinni eða einhverju hér á jörðinni, að því gefnu að magn geislanna sé hið sama. Til þess að verða brúnn af eldi þarf eldurinn því að gefa frá sér útfjólublátt ljós í einhverju magni.

Eldur stafar af því að efni hvarfast við súrefni í andrúmsloftinu. Við þetta ferli rofna efnatengi í efninu og súrefninu og margs konar óstöðug sameindabrot myndast sem síðan breytast í stöðug sameindabrot og rafsegulbylgjur. Rafsegulbylgjurnar í eldinum eru á breiðu bili á rafsegulrófinu (sjá mynd hér fyrir neðan). Langstærsti hluti bylgnanna er innrautt ljós sem við skynjum sem hita. Þótt við greinum ljósið frá eldinum auðveldlega með augunum, þá er einungis afar lítill hluti bylgnanna á sýnilega sviðinu. Ekkert útfjólublátt ljós kemur frá venjulegum eldi.

Við tölum oft um að sólin sé eldur af því að hún er heit og gul á litinn, en það eru dæmigerð einkenni elds í okkar huga. Eldurinn á sólinni er þó ekki sá sami og hinn dæmigerði eldur á jörðinni. Eldurinn á sólinni gengur nefnilega ekki fyrir súrefni heldur kjarnahvörfum. Það er kannski ekki augljóst í fyrstu að sólin og venjulegur eldur gefi frá sér mismunandi rafsegulbylgjur en sólin geislar heilmiklu af útfjólubláum geislum frá sér en ekkert útfjólublátt ljós berst frá venjulegum eldi.

Myndin sýnir geislunarróf fyrir 5227°C og 727°C heita svarthluti. Svarthlutur við 5227°C (álíka heitur og sólin) gefur frá sér nokkuð af útfjólubláum geislum en svarthlutur við 727°C (álíka heitur og venjulegur eldur) gefur ekki frá sér neina útfjólubláa geisla.

Ástæðan fyrir þessum mismunandi útgeislunarrófum hjá sólinni og venjulegum eldi má rekja til mismunandi hitastigs. Yfirborð sólarinnar er um 5600°C heitt en venjulegur eldur er um 500-1100°C. Bæði sólin og eldur gefa frá sér geisla eins og svonefndur svarthlutur (e. black body), það er í samræmi við hitastig. Heitari hlutur geislar rafsegulbylgjum með meiri orku, það er hærri tíðni og styttri bylgjulengd. Þar sem sólin er mun heitari en venjulegur eldur gefur hún frá sér mun meira af bylgjum á útfjólubláa og sýnilega sviðinu en venjulegur eldur sem gefur nánast bara frá sér geisla á innrauða sviðinu.

Tekið skal fram að ósonið í andrúmslofti jarðar gleypir hluta af útfjólubláu geislunum frá sólinni, en þó berst töluvert af þessum geislum alla leið að yfirborði jarðarinnar.

Svarið við spurningunni er því nei, maður verður ekki brúnn af því að sitja við varðeld!

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:

Myndir:

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Ef sólin er eldhnöttur getur maður þá orðið brúnn af eldi?

Höfundur

Emelía Eiríksdóttir

efnafræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

5.1.2011

Spyrjandi

N.N.

Tilvísun

Emelía Eiríksdóttir. „Verður maður brúnn af því að sitja við varðeld?“ Vísindavefurinn, 5. janúar 2011, sótt 13. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=11527.

Emelía Eiríksdóttir. (2011, 5. janúar). Verður maður brúnn af því að sitja við varðeld? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=11527

Emelía Eiríksdóttir. „Verður maður brúnn af því að sitja við varðeld?“ Vísindavefurinn. 5. jan. 2011. Vefsíða. 13. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=11527>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Verður maður brúnn af því að sitja við varðeld?
Þegar útfjólublátt ljós fellur á húðina örvar það myndun litarefnisins melaníns í litfrumum og við verðum brún. Viðbrögð húðarinnar við útfjólubláum geislum eru háð afli geislanna en óháð uppsprettu þeirra. Húðin verður þess vegna fyrir sömu áhrifum hvort sem útfjólubláu geislarnir koma frá sólinni eða einhverju hér á jörðinni, að því gefnu að magn geislanna sé hið sama. Til þess að verða brúnn af eldi þarf eldurinn því að gefa frá sér útfjólublátt ljós í einhverju magni.

Eldur stafar af því að efni hvarfast við súrefni í andrúmsloftinu. Við þetta ferli rofna efnatengi í efninu og súrefninu og margs konar óstöðug sameindabrot myndast sem síðan breytast í stöðug sameindabrot og rafsegulbylgjur. Rafsegulbylgjurnar í eldinum eru á breiðu bili á rafsegulrófinu (sjá mynd hér fyrir neðan). Langstærsti hluti bylgnanna er innrautt ljós sem við skynjum sem hita. Þótt við greinum ljósið frá eldinum auðveldlega með augunum, þá er einungis afar lítill hluti bylgnanna á sýnilega sviðinu. Ekkert útfjólublátt ljós kemur frá venjulegum eldi.

Við tölum oft um að sólin sé eldur af því að hún er heit og gul á litinn, en það eru dæmigerð einkenni elds í okkar huga. Eldurinn á sólinni er þó ekki sá sami og hinn dæmigerði eldur á jörðinni. Eldurinn á sólinni gengur nefnilega ekki fyrir súrefni heldur kjarnahvörfum. Það er kannski ekki augljóst í fyrstu að sólin og venjulegur eldur gefi frá sér mismunandi rafsegulbylgjur en sólin geislar heilmiklu af útfjólubláum geislum frá sér en ekkert útfjólublátt ljós berst frá venjulegum eldi.

Myndin sýnir geislunarróf fyrir 5227°C og 727°C heita svarthluti. Svarthlutur við 5227°C (álíka heitur og sólin) gefur frá sér nokkuð af útfjólubláum geislum en svarthlutur við 727°C (álíka heitur og venjulegur eldur) gefur ekki frá sér neina útfjólubláa geisla.

Ástæðan fyrir þessum mismunandi útgeislunarrófum hjá sólinni og venjulegum eldi má rekja til mismunandi hitastigs. Yfirborð sólarinnar er um 5600°C heitt en venjulegur eldur er um 500-1100°C. Bæði sólin og eldur gefa frá sér geisla eins og svonefndur svarthlutur (e. black body), það er í samræmi við hitastig. Heitari hlutur geislar rafsegulbylgjum með meiri orku, það er hærri tíðni og styttri bylgjulengd. Þar sem sólin er mun heitari en venjulegur eldur gefur hún frá sér mun meira af bylgjum á útfjólubláa og sýnilega sviðinu en venjulegur eldur sem gefur nánast bara frá sér geisla á innrauða sviðinu.

Tekið skal fram að ósonið í andrúmslofti jarðar gleypir hluta af útfjólubláu geislunum frá sólinni, en þó berst töluvert af þessum geislum alla leið að yfirborði jarðarinnar.

Svarið við spurningunni er því nei, maður verður ekki brúnn af því að sitja við varðeld!

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:

Myndir:

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Ef sólin er eldhnöttur getur maður þá orðið brúnn af eldi?
...