Þetta er ágæt spurning en því miður er ekki vitað með fullri vissu hver fann upp spegilinn. Elstu speglar sem vitað er um eru frá því um 6000 f.Kr. Þeir fundust í Anatólíu þar sem nú er Tyrkland. Enn fremur hafa speglast fundist í Mesópótamíu (Mið-Austurlönd) frá því um 4000 f.Kr., í Egyptalandi frá 3000 f.Kr. og í Kína og Mið- og Suður-Ameríku frá um 2000 f.Kr. Rómverjar til forna notuðust einnig við litla handspegla en speglarnir voru í raun og veru fínpússaðar málmplötur. Speglar bárust síðan til Kelta og við lok miðalda voru speglar orðnir algengir um alla Evrópu.
Á 12. og 13. öld hófu speglagerðarmenn að nota gler með málmplötu fyrir aftan, keimlíkt því sem við notum nú. Hins vegar var það ekki fyrr en árið 1835 sem fyrsti nútímaspegillinn leit dagsins ljós. Maður að nafni Justus von Liebig kynnti þá til sögunnar nýja tækni í speglagerð sem virkar þannig að bráðið ál eða silfur er sett aftan á glerplötu.
Gaman er að segja frá því að spegill þarf einungis að vera helmingur af stærð þess sem horfir í hann til að viðkomandi sjái sig allan í speglinum. Spegill virkar þannig að ljósgeisli sem fellur á glerplötuna endurkastast í auga þess sem horfir á spegilinn.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:- Hve stór þarf spegill að vera til að maður sjái sig allan í honum og hvernig yrði geislagangurinn? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Af hverju getur maður séð sjálfan sig í spegli? eftir Ara Ólafsson
- Britannica Online Encyclopedia - Mirror (optics)
- en.wikipedia.org - mirror
- Jay M. Enoch, School of Optometry, University of California at Berkeley. History of Mirrors Dating Back 8000 Years. Optometry & Vision Science. Október 2006. 83. árgangur, 10. tölublað, bls. 775-781.
- Wolfson, Richard og J.M.Pasachoff, Physics, with modern physics, 3. útgáfa, Reading, Massachusetts: Addison-Wesley, 1999. Mynd 36-2, bls. 940.
- en.wikipedia.org - mirror. Grískt leirker frá 470-460 f.Kr. Sótt 8.6.2011.
Þetta svar er eftir nemendur í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2011.