Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Fiðlan er strengjahljóðfæri sem hefur fjóra strengi, g, d', a' og e'', með fimmundartónbilum á milli, en það þýðir að tíðnihlutfallið milli samliggjandi strengja er 3:2. Á fiðluboganum eru hrosshár og þegar boganum er strokið yfir strengina titra þeir og mynda tóna. Fiðlan hefur hæsta tónsviðið meðal strengjahljóðfæra en önnur eru víóla eða lágfiðla, selló eða hnéfiðla, og kontrabassi.
Fiðlan, eins og við þekkjum hana í dag, leit fyrst dagsins ljós á Ítalíu snemma á sextándu öld og virðist hafa þróast úr tveimur miðaldahljóðfærum, annars vegar fiedel og hins vegar rebec. Einnig er lýran, sem á rætur að rekja til endurreisnartímabilsins og hét þá lira da braccio, talin til forvera fiðlunnar.
Fyrstu fiðlusmiðirnir sem létu að sér kveða voru þeir Gasparo de Saló (1540-1609) og Giovanni Maggini (1579- um það bil 1630), báðir frá Norður-Ítalíu, og Andrea Amati (um það bil 1511-1580). Fiðlusmíði náði hápunkti á 18. og 19. öld í smiðjum Giuseppe Guarneri (1699-1744) og Antonio Stradivarius (u.þ.b. 1644-1737) sem voru báðir frá Feneyjum, en sá síðarnefndi er talinn einn mesti fiðlusmiður fyrr og síðar.
Fiðla frá barrokktímanum, smíðuð af Jacob Steiner (1619-1683). Hann var einn þekktasti fiðlusmiður í Evrópu fyrir tíð Stradivariusar.
Fiðlan tók ýmsum minniháttar breytingum á 18. og 19. öld þar til hún komst í núverandi form. Til dæmis var hálsinn smám saman mjókkaður og lengdur og lögun bogans var breytt.
Til að byrja með var fiðlan ekki vinsæl og þótti ekki fínt hljóðfæri meðal yfirstéttarinnar. Hún var helst notuð til að leika fyrir dansi. Þetta tók að breytast í byrjun 17. aldar þegar Claudio Monteverdi (1567-1643) notaði fiðlur í óperu sinni Orfeus og Lúðvík fjórtándi Frakkakonungur setti á stofn strengjasveit. Vinsældir fiðlunnar héldu áfram að vaxa á barrokktímanum (um það bil 1600-1750) og hún gegndi mikilvægu hlutverki í tónsmíðum ýmissa frægra tónskálda. Til dæmis má nefna þá Antonio Vivaldi (1678-1741) frá Feneyjum og Johann Sebastian Bach (1685-1750) frá Þýskalandi.
Fiðlan tók að gegna æ stærra hlutverki, bæði sem einleikshljóðfæri og í samleik. Sinfóníurnar sem samdar voru á klassíska tímabilinu útheimtu stærri hljómsveitir og því hækkaði hlutfall strengjahljóðfæra mjög, og eru þau í dag meira en helmingur hljómsveitar.
Á síðustu öld voru uppi margir færir fiðluleikarar sem þróuðu og bættu við ýmiss konar tækni, en meðal þeirra voru þeir Yehudi Menuhin (1916-1999) og Fritz Kreisler (1875-1962). Á 19. öld höfðu fiðlusnillingar á borð við Nicolò Paganini (1782-1840) lagt sitt af mörkum fiðlunni til vegsauka. Mjög mörg einleiksverk hafa verið skrifuð fyrir fiðlu af mörgum frægustu tónskáldum tónlistarsögunnar, en þetta hljóðfæri nýtur enn vinsælda nú þegar hátt í 500 ár eru frá því að það varð til.
Heimild og mynd:
Hrafnhildur L. Runólfsdóttir og Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hver fann upp fiðluna?“ Vísindavefurinn, 31. maí 2001, sótt 5. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1664.
Hrafnhildur L. Runólfsdóttir og Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2001, 31. maí). Hver fann upp fiðluna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1664
Hrafnhildur L. Runólfsdóttir og Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hver fann upp fiðluna?“ Vísindavefurinn. 31. maí. 2001. Vefsíða. 5. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1664>.