
Virkustu eldfjöll á Íslandi eru sennilega Hekla, Grímsvötn og Katla. Sé litið svo á, sem margir gera, að Skaftáreldagosið 1783 tengist í rauninni Grímsvötnum, eru þau það eldfjall sem mest hefur gosið. Lakagígahraunið eitt er talið vera um 15 km3 — mest að rúmmáli þeirra hrauna sem runnið hafa á sögulegum tíma. Að auki eru gos tíð í Grímsvötnum sjálfum, sennilega meira en 30 gos á síðustu 400 árum. Ætla má að samanlagt rúmmál þeirra sé að minnsta kosti 3 km3 en rúmmál gosmyndana eftir ísöld (10.000 ár) sem tengjast Grímsvötnum er sennilega nær 55 km3. Katla hefur gosið 17 sinnum á sögulegum tíma. Eldgjá virðist tengjast Kötlu með sama hætti og Lakagígar tengjast Grímsvötnum, og þar varð mesta gosið tengt Kötlu árið 934. Eldgjárhraunið nálgast Lakagígahraunið að rúmmáli. Sömuleiðis lítur út fyrir að heildarrúmmál gosefna frá Kötlu síðustu 10.000 ár gefi Grímsvötnum lítt eftir. Hekla hefur gosið að minnsta kosti 17 sinnum á sögulegum tíma, fyrst árið 1104, og á 20. öld var hún sérlega virk — gaus fjórum sinnum: 1947-48, 1970, 1980-81 og 1991. Samanlagt rúmmál gosmyndana Heklu á sögulegum tíma er um 7 km3 en eftir ísöld 42 km3. Þennan samanburð yfir virkni á sögulegum tíma (1100 ár) má taka saman í töflu:
Fjöldi gosa |
Rúmmál gosmyndana km3 | |
Grímsvötn |
100 ? |
18 |
Katla |
17 |
12 ? |
Hekla |
17 |
7 |
Mynd: Náttúruhamfarir og mannlíf (sigurvegari í Hugvísi 1996)