Sólin Sólin Rís 06:49 • sest 19:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:38 • Sest 24:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:07 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:22 • Síðdegis: 22:14 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:49 • sest 19:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:38 • Sest 24:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:07 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:22 • Síðdegis: 22:14 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaða áhrif höfðu Skaftáreldar á Ísland og íslenskt samfélag?

Gunnar Karlsson (1939-2019)

Eldgosið sem við köllum Skaftárelda hófst 8. júní 1783 í óbyggðum norður af Síðu í Vestur-Skaftafellssýslu. Þar gaus í langri röð gíga sem eru kallaðir Lakagígar og liggja í suðvestur frá vesturjaðri Vatnajökuls í gegnum fellið Laka. Nokkrum dögum síðar helltist hraunstraumurinn niður í byggðina eftir farvegi Skaftár og tók að leggjast yfir tún og engjar á bæjum. Hraunflóðið hélt áfram niður í Meðalland og átti skammt eftir til sjávar þegar það stöðvaðist. Annað hraunflóð minna kom niður í byggð austar, í Fljótshverfi. Auk hraunsins varð mikið öskufall, og kom í ljós að askan var eitruð, líklega af flúor. Í október fór að draga úr hraunrennslinu, og í febrúar sást síðast til elda í Lakagígum. Undir hraun fóru 13 bæir en 29 aðrar jarðir og hjáleigur fóru í eyði um lengri eða skemmri tíma vegna hraunstraums, gjóskufalls, sandfoks og vatnagangs. Langflest áttu þessi býli eftir að byggjast aftur. Jarðir sem eyddust af hraunrennsli en byggðust aftur voru um tíu ár í eyði að meðaltali, aðrar skemur.

Lakagígar.

Varanleg bein áhrif gossins á búskap landsmanna voru því ekki mikil. Hins vegar varð óskaplegt tjón af því að gosið dreifði fíngerðri gjósku upp í lofthjúpinn yfir öllu landinu – og miklu víðar raunar. Hún olli því að móða lagðist yfir og hindraði sólarljósið í að ná niður til jarðar. Afleiðingin var gífurlegir kuldar, kenndir við móðuna og kallaðir móðuharðindi. Svo vildi til að undanfarandi vetur höfðu verið kaldir og snjóþungir norðanlands og heyfyrningar því óvíða nokkrar. Veturinn 1783–84 varð svo afburðaharður vegna móðunnar. Hey voru lítil eftir sumarið og sums staðar eitruð af gosösku. Fénaður tók að falla af heyleysi, fólk flosnaði upp af jörðum, fór á flakk og féll líka. Hafís lá við allt Norðurland svo að ekki var hægt að sækja næringu í sjóinn. Strax í desember var fólk farið að deyja úr hungri í Þingeyjarsýslu og Eyjafirði. Fólk streymdi til verstöðva vestan- og suðvestanlands. Margir komust ekki alla leið, og þeir sem gerðu það voru margir orðnir svo máttfarnir af næringarskorti að þeir þoldu ekki að komast í nýjan fisk og dóu því unnvörpum.

Sumarið 1784 heyjaðist aftur lítið, enda fólk víða máttfarið eftir hungrið um veturinn. Við það bættust jarðskjálftar sunnanlands í ágúst sem felldu um 400 bæi. Til að koma upp húsaskjóli fyrir veturinn varð að eyða tíma sem annars hefði nýst til heyskapar. Mannfellir varð því enn af hungri veturinn 1784–85. Sumarið 1785 var hins vegar gott, og telst móðuharðindum þar með lokið.

Erfitt er að meta manntjón í móðuharðindum. Í kirkjubókum eru fleiri skráðir dánir úr landfarsótt en hungri. En þar kemur engin farsótt til greina sem hefði getað verið svo skæð að hún dræpi fjölda fólks ef það hefði verið bærilega á sig komið. Bólusótt gekk um landið og eru heimildir um að hún hafi fellt um 1.500 manns. Í heild fækkaði Íslendingum um 10.000 manns, úr tæpum 50 þúsundum í tæp 40 þúsund frá árslokum 1783 til ársloka 1786. Við góðar aðstæður hefði mátt ætla að því fjölgaði um nálægt því eitt þúsund, svo að það hefði næstum mætt því sem bólan felldi. Verður því að ætla að móðuharðindin hafi fækkað þjóðinni um 10.000 eða um 20%.

Skaftáreldar í túlkun Ásgríms Jónssonar (1876-1958).

Venjulega veldur fólksfækkun því að meira og betra lífsviðurværi verður eftir handa þeim sem lifa af, og má sjá glögg merki þess eftir móðuharðindi. Um aldir hafði verið skortur á jarðnæði til búskapar á Íslandi. Hann olli því að fólk fékk seint tækifæri til að hefja búskap og þar með að ganga í hjónaband því óvíða var rúm fyrir hjónafólk í vinnumennsku, síst ef það eignaðist börn. Margar konur giftust ekki fyrr en þær voru komnar af frjósamasta skeiði og eignuðust því færri börn en ella hefði verið. Eftir móðuharðindi varð auðveldara að fá jarðnæði, fólk gifti sig yngra en áður og eignaðist mikið af börnum. Á áratugunum fyrir móðuharðindi, 1860–80, hafði landsmönnum fjölgað um 0,65% á ári að meðaltali í nokkurn veginn bærilegu árferði. Á árunum 1787 og 1788 var fjölgunin álíka mikil, um 0,64%. En þá tók hún við sér, var 1,46% að meðaltali á árunum 1789–1800 og komst yfir 2% í bestu árum. Um aldamótin vantaði aðeins 2.000 upp á að fólksfjöldinn væri búinn að ná því sem hann hafði verið fyrir móðuharðindi.

Þessar tölur bera vitni um góð lífsskilyrði. Aftur á móti held ég að Íslendingar hafi orðið fyrir miklu áfalli í móðuharðindunum. Hugmyndin um framfarir var farin að breiðast út á Íslandi og bjó meðal annars að baki nýjungatilraunum Innréttinganna í Reykjavík. Ég kannaði einu sinni einn þátt þessara nýjunga, nefnilega kornyrkjutilraunir. Hafði verið farið af stað með þær aftur og aftur allt síðan rétt fyrir miðja öldina, en við móðuharðindin hættu þær gersamlega. Annað dæmi nefni ég stundum þótt ekki styðjist það við mikil rök og því síður rannsóknir. Íslendingar hættu nokkurn veginn alveg að dansa á 18. öld og byrjuðu ekki á því að neinu marki fyrr en um öld eftir móðuharðindi. Lengi hefur verið talið að þetta stafi af því að heittrúaðir Danakonungar hafi bannað landsmönnum að dansa, og hafa menn þá velt því fyrir sér hvers vegna Færeyingar hafi ekki týnt sínum dansi því að þeir höfðu alveg sömu kóngana. Skoðun mín er sú að Íslendingar hafi hreinlega ekki verið í skapi til að dansa á árunum eftir móðuharðindi, og þannig hafi danslistin tapast.

Heimildir og myndir:

  • Gunnar Karlsson og fleiri: Fornir tímar. Spor mannsins frá Laetoli til Reykjavíkur, 4.000.000 f. Kr. til 1800 e. Kr. Reykjavík, Mál og menning, 2003.
  • Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland. Icelandic Historical Statistics. Ritstjórar Guðmundur Jónsson, Magnús S. Magnússon. Reykjavík, Hagstofa Íslands, 1997.
  • Lýður Björnsson: „18. öldin.“ Saga Íslands VIII (Reykjavík, Bókmenntafélag, 2006), 1–289.
  • Skaftáreldar 1783–1784. Ritgerðir og heimildir. Reykjavík, Mál og menning, 1984.
  • Mynd af Lakagígum: Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund. (Sótt 31. 1. 2013).
  • Mynd eftir Ásgrím Jónsson: Ásgrímur og Eldgosin - vulkan.blog.is. (Sótt 31. 1. 2013).


Hér er einnig svarað spurningunni:
  • Hvað fórust margir í móðuharðindunum?

Höfundur

Gunnar Karlsson (1939-2019)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

7.2.2013

Síðast uppfært

18.1.2024

Spyrjandi

Ólafur Ingi Sigurðarson, Ragnar Elisson

Tilvísun

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvaða áhrif höfðu Skaftáreldar á Ísland og íslenskt samfélag?“ Vísindavefurinn, 7. febrúar 2013, sótt 14. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=63643.

Gunnar Karlsson (1939-2019). (2013, 7. febrúar). Hvaða áhrif höfðu Skaftáreldar á Ísland og íslenskt samfélag? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=63643

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvaða áhrif höfðu Skaftáreldar á Ísland og íslenskt samfélag?“ Vísindavefurinn. 7. feb. 2013. Vefsíða. 14. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=63643>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaða áhrif höfðu Skaftáreldar á Ísland og íslenskt samfélag?
Eldgosið sem við köllum Skaftárelda hófst 8. júní 1783 í óbyggðum norður af Síðu í Vestur-Skaftafellssýslu. Þar gaus í langri röð gíga sem eru kallaðir Lakagígar og liggja í suðvestur frá vesturjaðri Vatnajökuls í gegnum fellið Laka. Nokkrum dögum síðar helltist hraunstraumurinn niður í byggðina eftir farvegi Skaftár og tók að leggjast yfir tún og engjar á bæjum. Hraunflóðið hélt áfram niður í Meðalland og átti skammt eftir til sjávar þegar það stöðvaðist. Annað hraunflóð minna kom niður í byggð austar, í Fljótshverfi. Auk hraunsins varð mikið öskufall, og kom í ljós að askan var eitruð, líklega af flúor. Í október fór að draga úr hraunrennslinu, og í febrúar sást síðast til elda í Lakagígum. Undir hraun fóru 13 bæir en 29 aðrar jarðir og hjáleigur fóru í eyði um lengri eða skemmri tíma vegna hraunstraums, gjóskufalls, sandfoks og vatnagangs. Langflest áttu þessi býli eftir að byggjast aftur. Jarðir sem eyddust af hraunrennsli en byggðust aftur voru um tíu ár í eyði að meðaltali, aðrar skemur.

Lakagígar.

Varanleg bein áhrif gossins á búskap landsmanna voru því ekki mikil. Hins vegar varð óskaplegt tjón af því að gosið dreifði fíngerðri gjósku upp í lofthjúpinn yfir öllu landinu – og miklu víðar raunar. Hún olli því að móða lagðist yfir og hindraði sólarljósið í að ná niður til jarðar. Afleiðingin var gífurlegir kuldar, kenndir við móðuna og kallaðir móðuharðindi. Svo vildi til að undanfarandi vetur höfðu verið kaldir og snjóþungir norðanlands og heyfyrningar því óvíða nokkrar. Veturinn 1783–84 varð svo afburðaharður vegna móðunnar. Hey voru lítil eftir sumarið og sums staðar eitruð af gosösku. Fénaður tók að falla af heyleysi, fólk flosnaði upp af jörðum, fór á flakk og féll líka. Hafís lá við allt Norðurland svo að ekki var hægt að sækja næringu í sjóinn. Strax í desember var fólk farið að deyja úr hungri í Þingeyjarsýslu og Eyjafirði. Fólk streymdi til verstöðva vestan- og suðvestanlands. Margir komust ekki alla leið, og þeir sem gerðu það voru margir orðnir svo máttfarnir af næringarskorti að þeir þoldu ekki að komast í nýjan fisk og dóu því unnvörpum.

Sumarið 1784 heyjaðist aftur lítið, enda fólk víða máttfarið eftir hungrið um veturinn. Við það bættust jarðskjálftar sunnanlands í ágúst sem felldu um 400 bæi. Til að koma upp húsaskjóli fyrir veturinn varð að eyða tíma sem annars hefði nýst til heyskapar. Mannfellir varð því enn af hungri veturinn 1784–85. Sumarið 1785 var hins vegar gott, og telst móðuharðindum þar með lokið.

Erfitt er að meta manntjón í móðuharðindum. Í kirkjubókum eru fleiri skráðir dánir úr landfarsótt en hungri. En þar kemur engin farsótt til greina sem hefði getað verið svo skæð að hún dræpi fjölda fólks ef það hefði verið bærilega á sig komið. Bólusótt gekk um landið og eru heimildir um að hún hafi fellt um 1.500 manns. Í heild fækkaði Íslendingum um 10.000 manns, úr tæpum 50 þúsundum í tæp 40 þúsund frá árslokum 1783 til ársloka 1786. Við góðar aðstæður hefði mátt ætla að því fjölgaði um nálægt því eitt þúsund, svo að það hefði næstum mætt því sem bólan felldi. Verður því að ætla að móðuharðindin hafi fækkað þjóðinni um 10.000 eða um 20%.

Skaftáreldar í túlkun Ásgríms Jónssonar (1876-1958).

Venjulega veldur fólksfækkun því að meira og betra lífsviðurværi verður eftir handa þeim sem lifa af, og má sjá glögg merki þess eftir móðuharðindi. Um aldir hafði verið skortur á jarðnæði til búskapar á Íslandi. Hann olli því að fólk fékk seint tækifæri til að hefja búskap og þar með að ganga í hjónaband því óvíða var rúm fyrir hjónafólk í vinnumennsku, síst ef það eignaðist börn. Margar konur giftust ekki fyrr en þær voru komnar af frjósamasta skeiði og eignuðust því færri börn en ella hefði verið. Eftir móðuharðindi varð auðveldara að fá jarðnæði, fólk gifti sig yngra en áður og eignaðist mikið af börnum. Á áratugunum fyrir móðuharðindi, 1860–80, hafði landsmönnum fjölgað um 0,65% á ári að meðaltali í nokkurn veginn bærilegu árferði. Á árunum 1787 og 1788 var fjölgunin álíka mikil, um 0,64%. En þá tók hún við sér, var 1,46% að meðaltali á árunum 1789–1800 og komst yfir 2% í bestu árum. Um aldamótin vantaði aðeins 2.000 upp á að fólksfjöldinn væri búinn að ná því sem hann hafði verið fyrir móðuharðindi.

Þessar tölur bera vitni um góð lífsskilyrði. Aftur á móti held ég að Íslendingar hafi orðið fyrir miklu áfalli í móðuharðindunum. Hugmyndin um framfarir var farin að breiðast út á Íslandi og bjó meðal annars að baki nýjungatilraunum Innréttinganna í Reykjavík. Ég kannaði einu sinni einn þátt þessara nýjunga, nefnilega kornyrkjutilraunir. Hafði verið farið af stað með þær aftur og aftur allt síðan rétt fyrir miðja öldina, en við móðuharðindin hættu þær gersamlega. Annað dæmi nefni ég stundum þótt ekki styðjist það við mikil rök og því síður rannsóknir. Íslendingar hættu nokkurn veginn alveg að dansa á 18. öld og byrjuðu ekki á því að neinu marki fyrr en um öld eftir móðuharðindi. Lengi hefur verið talið að þetta stafi af því að heittrúaðir Danakonungar hafi bannað landsmönnum að dansa, og hafa menn þá velt því fyrir sér hvers vegna Færeyingar hafi ekki týnt sínum dansi því að þeir höfðu alveg sömu kóngana. Skoðun mín er sú að Íslendingar hafi hreinlega ekki verið í skapi til að dansa á árunum eftir móðuharðindi, og þannig hafi danslistin tapast.

Heimildir og myndir:

  • Gunnar Karlsson og fleiri: Fornir tímar. Spor mannsins frá Laetoli til Reykjavíkur, 4.000.000 f. Kr. til 1800 e. Kr. Reykjavík, Mál og menning, 2003.
  • Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland. Icelandic Historical Statistics. Ritstjórar Guðmundur Jónsson, Magnús S. Magnússon. Reykjavík, Hagstofa Íslands, 1997.
  • Lýður Björnsson: „18. öldin.“ Saga Íslands VIII (Reykjavík, Bókmenntafélag, 2006), 1–289.
  • Skaftáreldar 1783–1784. Ritgerðir og heimildir. Reykjavík, Mál og menning, 1984.
  • Mynd af Lakagígum: Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund. (Sótt 31. 1. 2013).
  • Mynd eftir Ásgrím Jónsson: Ásgrímur og Eldgosin - vulkan.blog.is. (Sótt 31. 1. 2013).


Hér er einnig svarað spurningunni:
  • Hvað fórust margir í móðuharðindunum?
...