Sólin Sólin Rís 09:04 • sest 18:20 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 12:35 • Sest 10:41 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:58 • Síðdegis: 17:25 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:23 • Síðdegis: 23:25 í Reykjavík

Hvernig nákvæmlega voru Skaftáreldarnir? Hvernig var aðdragandinn og hvernig fór þetta allt fram?

Þorvaldur Þórðarson

Hér er einnig að finna svör við spurningunum:
 • Hversu lengi stóð gosið í Lakagígum yfir?
 • Hvert fór askan sem kom upp í Skaftáreldum?


Skaftáreldar hófust 8. júní 1783 og stóðu yfir í átta mánuði eða til 7. febrúar 1784. Þeir eru annað stærsta flæðibasaltgos Íslandssögunnar á eftir Eldgjárgosinu 934-940.[1] Meira er vitað um Skaftárelda en nokkurt annað sambærilegt gos, og þá einkum vegna ítarlegra samtímaheimilda sem lýsa því á margvíslegan hátt,[2] en enginn þó betur en Jón Steingrímsson eldklerkur (1728-1791) sem rekur framvindu gossins og áhrif þess á samfélagið í Vestur-Skaftafellsýslu nánast frá degi til dags.[3] Þetta er, að öðrum sambærilegum lýsingum ólöstuðum, ein merkasta goslýsing mannkynssögunnar. Eftirfarandi lýsing á gosinu er byggð á samantekt Þorvalds Þórðarsonar og Stephens Self[4] og Þorvalds Þórðarsonar og fleiri.[5]

Lakagígar.

Vorið 1783 var tíð góð á Suðurlandi, og íbúar hlökkuðu til sumarsins. En náttúruöflin áttu eftir að grípa í taumana á örlagaríkan hátt. Upp úr miðjum maí varð vart við veika jarðskjálfta í Skaftártungu, en styrkur þeirra og tíðni jókst næstu tvær vikurnar. Þann fyrsta júní varð harður skjálfti sem fannst greinilega vestur í Vík í Mýrdal og austur í Öræfi. Í kjölfarið fylgdi samfelld og stöðugt vaxandi skjálftahrina sem náði hámarki 8. júní, þegar gos hófst og kolsvartur mökkur breiddi úr sér suður eftir Síðumannaafrétti og út yfir láglendið. Skaftáreldagosið, sem markar upphaf móðuharðinda – mestu náttúruhamfara Íslandssögunnar, var hafið.

Sama dag sáust meira en 1000 metra háir kvikustrókar rísa upp af gossprungunni, sem var rétt austan við mynni Úlfarsdals og teygði sig tvo kílómetra í norðaustur frá Hnútu, lágu felli sem stendur við barma Skaftárgljúfurs, ofarlega á Síðumannaafrétti. Gasútstreymið frá gígnum var slíkt að það dró úr útgeislun sólar og ásýnd hennar varð rauð sem blóð. Úr gosmekkinum ýrði súrt regn sem olli sviða í augum og brenndi skinn manna og dýra.

Þann 11. júní hafði svo mikið hraun flætt í Skaftárgljúfur að farvegur Skaftár þornaði upp. Daginn eftir hljóp hraunið svo fram úr gljúfrinu með miklum dynkjum og brestum. Gjóskufall frá gosstöðvunum varð í fjórum hrinum í júní og júlí og jafn oft komu eldhlaup fram úr gljúfrinu. Í lok júlí hægði á hraunrennslinu út úr Skaftárgljúfri, sem þá var orðið barmafullt, en hraunbreiðan teygði sig nú niður í Meðalland og langleiðina austur að Kirkjubæjarklaustri, þakti um 350 ferkílómetra af landi og hafði eytt 17 bæjum.

En Lakagígar voru ekki þagnaðir. Þann 29. júlí sáu byggðarmenn mikinn og dimman mökk leggja frá eldstöðvunum, sem olli miklu gjóskufalli á eystri hluta Síðu. Í kjölfarið neyddust margir í Fljótshverfi til að flýja jarðir sínar. Fimm dögum síðar, þann 3. ágúst, þornaði Hverfisfljót, og skömmu seinna braust hraunrennslið fram úr Hverfisfljótsgljúfri og stefndi vestur með Þverárfjalli, rétt eins og markmiðið væri að afgirða Síðu. Gjóska féll nokkrum sinnum yfir eldsveitirnar fram á haust, og hraun rann fram úr Hverfisfljótsgljúfri til októberloka 1783. Austurtunga Skaftáreldahrauns bætti 250 ferkílómetrum við hraunbreiðuna og eyddi fjórum bæjum. Gosinu lauk sjöunda febrúar 1784.

Lega Lakagíga, Skaftáreldahrauns og Grímsvatna innan Austurgosbeltinsins. Einnig er sýnd 0,5 cm jafnþykktarlína og ytri mörk gjóskufallsins frá Skaftáreldum. Hringirnir sýna þá staði þar sem gjóskufall frá Lakagígum var skráð. Rekbeltin, þ.e. Vestur- og Norðurgosbelti (VG og NG), eru einnig sýnd. Sá hluti landsins sem er skyggður dökkgrænn sýnir þau héruð þar sem meira en 60% af búfénaði landsmanna drapst, fyrst og fremst vegna flúoreitrunar. X sýna staði þar sem kvikfénaður drapst úr flúoreitrun innan tveggja vikna frá upphafi goss, og x aðra staði sem af lýsingum má ætla að flúoreitrun hafi banað búfé.

Lakagígar voru ekki einu íslensku gosstöðvarnar sem spúðu eldi þetta árið. Síðla vetrar og fram á vor var eldgos í sjó, um það bil 50 sjómílur suðvestur af Reykjanesi. Þetta gos myndaði Nýey, og hefur Eldeyjarboði verið talinn leifar hennar.[6] Jafnframt var mikil virkni í Grímsvötnum, sem að jafnaði var í takt við sprengivirknina á Lakagígasprungunum, og sendi gjósku af og til yfir eldsveitirnar. Eftir lok Skaftárelda héldu Grímsvötn áfram að gjósa með hléum fram í maí 1785.

Lakagígar eru 27 kílómetra löng sprunguþyrping, gerð úr tíu skástígum gossprungum og greypt í landslagið sem röð af 140 klepra- og gjallkeilum/gígum. Samanlagt spúðu þessar sprungur um 15 rúmkílómetrum af kviku (reiknað sem fast berg). Tíu goshrinur einkenndu virknina fyrstu fimm mánuði gossins, þar sem hver hrina byrjaði með stuttu sprengigosi (1-3 dagar), og eftir fylgdi langvinnara hraunflæði (1-4 vikur). Sprengivirknin myndaði meira en 13 kílómetra háa gosmekki sem dreifðu gjóskunni yfir 750.000 ferkílómetra svæði. Innan 0,5 sentimetra jafnþykktarlínu þakti gjóskan rétt rúmlega 7200 ferkílómetra. Umfang gjóskunnar (reiknað sem hraun) er 0,4 rúmkílómetrar eða nær tvöfalt meira en gjóskumagn frá öllum gosum Heklu á 20. öld.[7] Í lok Skaftárelda þakti hraunbreiðan 600 ferkílómetra lands, og var heildarumfang hraunsins 14,7 rúmkílómetrar.[8]

Tilvísanir:
 1. ^ Thordarson, T. og S. Self 1993. The Laki (Skaftár Fires) and Grímsvötn eruptions in 1783-1785. Bulletin of Volcanology, 55, 233-263.
  ^Guðrúnu Larsen, 2000. Holocene eruptions within the Katla volcanic system, south Iceland. Journal of Quaternary Science, 16, 199-132.
  ^Thordarson, T. og fleiri, 2001. New estimates of sulfur degassing and atmospheric massloading by the 934 Eldgjá eruption, Iceland. Journal of Volanology and Geothermal Research, 108(1-4), 33-54.
  ^Thordarson, T. og fleiri, 2003. Sulphur release from flood lava eruption in the Veidivötn, Grímsvötn and Katla volcanic systems, Iceland. Volcanic degassing (C. Oppenheimer, D. M. Pyle og J. Barcly ritstjórar). Geological Society Special Publications, 213. The Geological Society, London, 103-121.
 2. ^ Guðmundur Á Gunnlaugsson og fleiri, 1984. Skaftáreldar 1783-1784. Ritgerðir og heimildir. Mál og menning, Reykjavík. 442 bls.
  ^Thordarson, T. 2003. 1783-85 Laki-Grímsvötn eruptions I: A critical look at the contemporary chronicles. Jökull, 51, 1-10.
 3. ^ Jón Steingrímsson, 1907-1915 (1788). Um Kötlugjá. Safn til sögu Íslands IV (Þorvaldur Thoroddsen ritstjóri). Hið íslenzka bókmenntafélag, Kaupmannahöf og Reykjavík, 216-219.
 4. ^ Thordarson, T. og S. Self 1993. The Laki (Skaftár Fires) and Grímsvötn eruptions in 1783-1785. Bulletin of Volcanology, 55, 233-263.
  ^Thordarson, T. og S. Self, 2003. Atmospheric and environmental effects of the 1783-1784 Laki eruption: a review and reassessment. Journal of Geophysical Research, 108(D1), 4011; doi: 10.1029/2001JD002042.
 5. ^ Thordarson, T. og fleiri, 2003. Sulphur release from flood lava eruption in the Veidivötn, Grímsvötn and Katla volcanic systems, Iceland. Volcanic degassing (C. Oppenheimer, D. M. Pyle og J. Barcly ritstjórar). Geological Society Special Publications, 213. The Geological Society, London, 103-121.
 6. ^ Sigurður Þórarinsson, 1964. Surtsey. Eyjan nýja í Atlantshafi. Almenna bókafélagið. Reykjavík.
  ^Sveinn P. Jakobsson 1974. Eldgos á Eldeyjarboða. Náttúrufræðingurinn, 44, 22-40.
 7. ^ Thordarson, T. og fleiri, 2003b. Sulphur release from flood lava eruption in the Veidivötn, Grímsvötn and Katla volcanic systems, Iceland. Volcanic degassing (C. Oppenheimer, D. M. Pyle og J. Barcly ritstjórar). Geological Society Special Publications, 213. The Geological Society, London, 103-121.
 8. ^ Thordarson, T. og S. Self 1993. The Laki (Skaftár Fires) and Grímsvötn eruptions in 1783-1785. Bulletin of Volcanology, 55, 233-263.

Myndir:


Þetta svar og kortið sem því fylgir er úr bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi.

Höfundur

Þorvaldur Þórðarson

eldfjallafræðingur á Jarðvísindastofnun HÍ

Útgáfudagur

1.7.2014

Spyrjandi

Þórdís Helgadóttir, Snorri Egilsson

Tilvísun

Þorvaldur Þórðarson. „Hvernig nákvæmlega voru Skaftáreldarnir? Hvernig var aðdragandinn og hvernig fór þetta allt fram?“ Vísindavefurinn, 1. júlí 2014. Sótt 21. febrúar 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=22048.

Þorvaldur Þórðarson. (2014, 1. júlí). Hvernig nákvæmlega voru Skaftáreldarnir? Hvernig var aðdragandinn og hvernig fór þetta allt fram? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=22048

Þorvaldur Þórðarson. „Hvernig nákvæmlega voru Skaftáreldarnir? Hvernig var aðdragandinn og hvernig fór þetta allt fram?“ Vísindavefurinn. 1. júl. 2014. Vefsíða. 21. feb. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=22048>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig nákvæmlega voru Skaftáreldarnir? Hvernig var aðdragandinn og hvernig fór þetta allt fram?
Hér er einnig að finna svör við spurningunum:

 • Hversu lengi stóð gosið í Lakagígum yfir?
 • Hvert fór askan sem kom upp í Skaftáreldum?


Skaftáreldar hófust 8. júní 1783 og stóðu yfir í átta mánuði eða til 7. febrúar 1784. Þeir eru annað stærsta flæðibasaltgos Íslandssögunnar á eftir Eldgjárgosinu 934-940.[1] Meira er vitað um Skaftárelda en nokkurt annað sambærilegt gos, og þá einkum vegna ítarlegra samtímaheimilda sem lýsa því á margvíslegan hátt,[2] en enginn þó betur en Jón Steingrímsson eldklerkur (1728-1791) sem rekur framvindu gossins og áhrif þess á samfélagið í Vestur-Skaftafellsýslu nánast frá degi til dags.[3] Þetta er, að öðrum sambærilegum lýsingum ólöstuðum, ein merkasta goslýsing mannkynssögunnar. Eftirfarandi lýsing á gosinu er byggð á samantekt Þorvalds Þórðarsonar og Stephens Self[4] og Þorvalds Þórðarsonar og fleiri.[5]

Lakagígar.

Vorið 1783 var tíð góð á Suðurlandi, og íbúar hlökkuðu til sumarsins. En náttúruöflin áttu eftir að grípa í taumana á örlagaríkan hátt. Upp úr miðjum maí varð vart við veika jarðskjálfta í Skaftártungu, en styrkur þeirra og tíðni jókst næstu tvær vikurnar. Þann fyrsta júní varð harður skjálfti sem fannst greinilega vestur í Vík í Mýrdal og austur í Öræfi. Í kjölfarið fylgdi samfelld og stöðugt vaxandi skjálftahrina sem náði hámarki 8. júní, þegar gos hófst og kolsvartur mökkur breiddi úr sér suður eftir Síðumannaafrétti og út yfir láglendið. Skaftáreldagosið, sem markar upphaf móðuharðinda – mestu náttúruhamfara Íslandssögunnar, var hafið.

Sama dag sáust meira en 1000 metra háir kvikustrókar rísa upp af gossprungunni, sem var rétt austan við mynni Úlfarsdals og teygði sig tvo kílómetra í norðaustur frá Hnútu, lágu felli sem stendur við barma Skaftárgljúfurs, ofarlega á Síðumannaafrétti. Gasútstreymið frá gígnum var slíkt að það dró úr útgeislun sólar og ásýnd hennar varð rauð sem blóð. Úr gosmekkinum ýrði súrt regn sem olli sviða í augum og brenndi skinn manna og dýra.

Þann 11. júní hafði svo mikið hraun flætt í Skaftárgljúfur að farvegur Skaftár þornaði upp. Daginn eftir hljóp hraunið svo fram úr gljúfrinu með miklum dynkjum og brestum. Gjóskufall frá gosstöðvunum varð í fjórum hrinum í júní og júlí og jafn oft komu eldhlaup fram úr gljúfrinu. Í lok júlí hægði á hraunrennslinu út úr Skaftárgljúfri, sem þá var orðið barmafullt, en hraunbreiðan teygði sig nú niður í Meðalland og langleiðina austur að Kirkjubæjarklaustri, þakti um 350 ferkílómetra af landi og hafði eytt 17 bæjum.

En Lakagígar voru ekki þagnaðir. Þann 29. júlí sáu byggðarmenn mikinn og dimman mökk leggja frá eldstöðvunum, sem olli miklu gjóskufalli á eystri hluta Síðu. Í kjölfarið neyddust margir í Fljótshverfi til að flýja jarðir sínar. Fimm dögum síðar, þann 3. ágúst, þornaði Hverfisfljót, og skömmu seinna braust hraunrennslið fram úr Hverfisfljótsgljúfri og stefndi vestur með Þverárfjalli, rétt eins og markmiðið væri að afgirða Síðu. Gjóska féll nokkrum sinnum yfir eldsveitirnar fram á haust, og hraun rann fram úr Hverfisfljótsgljúfri til októberloka 1783. Austurtunga Skaftáreldahrauns bætti 250 ferkílómetrum við hraunbreiðuna og eyddi fjórum bæjum. Gosinu lauk sjöunda febrúar 1784.

Lega Lakagíga, Skaftáreldahrauns og Grímsvatna innan Austurgosbeltinsins. Einnig er sýnd 0,5 cm jafnþykktarlína og ytri mörk gjóskufallsins frá Skaftáreldum. Hringirnir sýna þá staði þar sem gjóskufall frá Lakagígum var skráð. Rekbeltin, þ.e. Vestur- og Norðurgosbelti (VG og NG), eru einnig sýnd. Sá hluti landsins sem er skyggður dökkgrænn sýnir þau héruð þar sem meira en 60% af búfénaði landsmanna drapst, fyrst og fremst vegna flúoreitrunar. X sýna staði þar sem kvikfénaður drapst úr flúoreitrun innan tveggja vikna frá upphafi goss, og x aðra staði sem af lýsingum má ætla að flúoreitrun hafi banað búfé.

Lakagígar voru ekki einu íslensku gosstöðvarnar sem spúðu eldi þetta árið. Síðla vetrar og fram á vor var eldgos í sjó, um það bil 50 sjómílur suðvestur af Reykjanesi. Þetta gos myndaði Nýey, og hefur Eldeyjarboði verið talinn leifar hennar.[6] Jafnframt var mikil virkni í Grímsvötnum, sem að jafnaði var í takt við sprengivirknina á Lakagígasprungunum, og sendi gjósku af og til yfir eldsveitirnar. Eftir lok Skaftárelda héldu Grímsvötn áfram að gjósa með hléum fram í maí 1785.

Lakagígar eru 27 kílómetra löng sprunguþyrping, gerð úr tíu skástígum gossprungum og greypt í landslagið sem röð af 140 klepra- og gjallkeilum/gígum. Samanlagt spúðu þessar sprungur um 15 rúmkílómetrum af kviku (reiknað sem fast berg). Tíu goshrinur einkenndu virknina fyrstu fimm mánuði gossins, þar sem hver hrina byrjaði með stuttu sprengigosi (1-3 dagar), og eftir fylgdi langvinnara hraunflæði (1-4 vikur). Sprengivirknin myndaði meira en 13 kílómetra háa gosmekki sem dreifðu gjóskunni yfir 750.000 ferkílómetra svæði. Innan 0,5 sentimetra jafnþykktarlínu þakti gjóskan rétt rúmlega 7200 ferkílómetra. Umfang gjóskunnar (reiknað sem hraun) er 0,4 rúmkílómetrar eða nær tvöfalt meira en gjóskumagn frá öllum gosum Heklu á 20. öld.[7] Í lok Skaftárelda þakti hraunbreiðan 600 ferkílómetra lands, og var heildarumfang hraunsins 14,7 rúmkílómetrar.[8]

Tilvísanir:
 1. ^ Thordarson, T. og S. Self 1993. The Laki (Skaftár Fires) and Grímsvötn eruptions in 1783-1785. Bulletin of Volcanology, 55, 233-263.
  ^Guðrúnu Larsen, 2000. Holocene eruptions within the Katla volcanic system, south Iceland. Journal of Quaternary Science, 16, 199-132.
  ^Thordarson, T. og fleiri, 2001. New estimates of sulfur degassing and atmospheric massloading by the 934 Eldgjá eruption, Iceland. Journal of Volanology and Geothermal Research, 108(1-4), 33-54.
  ^Thordarson, T. og fleiri, 2003. Sulphur release from flood lava eruption in the Veidivötn, Grímsvötn and Katla volcanic systems, Iceland. Volcanic degassing (C. Oppenheimer, D. M. Pyle og J. Barcly ritstjórar). Geological Society Special Publications, 213. The Geological Society, London, 103-121.
 2. ^ Guðmundur Á Gunnlaugsson og fleiri, 1984. Skaftáreldar 1783-1784. Ritgerðir og heimildir. Mál og menning, Reykjavík. 442 bls.
  ^Thordarson, T. 2003. 1783-85 Laki-Grímsvötn eruptions I: A critical look at the contemporary chronicles. Jökull, 51, 1-10.
 3. ^ Jón Steingrímsson, 1907-1915 (1788). Um Kötlugjá. Safn til sögu Íslands IV (Þorvaldur Thoroddsen ritstjóri). Hið íslenzka bókmenntafélag, Kaupmannahöf og Reykjavík, 216-219.
 4. ^ Thordarson, T. og S. Self 1993. The Laki (Skaftár Fires) and Grímsvötn eruptions in 1783-1785. Bulletin of Volcanology, 55, 233-263.
  ^Thordarson, T. og S. Self, 2003. Atmospheric and environmental effects of the 1783-1784 Laki eruption: a review and reassessment. Journal of Geophysical Research, 108(D1), 4011; doi: 10.1029/2001JD002042.
 5. ^ Thordarson, T. og fleiri, 2003. Sulphur release from flood lava eruption in the Veidivötn, Grímsvötn and Katla volcanic systems, Iceland. Volcanic degassing (C. Oppenheimer, D. M. Pyle og J. Barcly ritstjórar). Geological Society Special Publications, 213. The Geological Society, London, 103-121.
 6. ^ Sigurður Þórarinsson, 1964. Surtsey. Eyjan nýja í Atlantshafi. Almenna bókafélagið. Reykjavík.
  ^Sveinn P. Jakobsson 1974. Eldgos á Eldeyjarboða. Náttúrufræðingurinn, 44, 22-40.
 7. ^ Thordarson, T. og fleiri, 2003b. Sulphur release from flood lava eruption in the Veidivötn, Grímsvötn and Katla volcanic systems, Iceland. Volcanic degassing (C. Oppenheimer, D. M. Pyle og J. Barcly ritstjórar). Geological Society Special Publications, 213. The Geological Society, London, 103-121.
 8. ^ Thordarson, T. og S. Self 1993. The Laki (Skaftár Fires) and Grímsvötn eruptions in 1783-1785. Bulletin of Volcanology, 55, 233-263.

Myndir:


Þetta svar og kortið sem því fylgir er úr bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi....