Sólin Sólin Rís 08:13 • sest 18:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:20 • Sest 00:24 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:43 • Síðdegis: 15:15 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 08:57 • Síðdegis: 21:43 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:13 • sest 18:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:20 • Sest 00:24 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:43 • Síðdegis: 15:15 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 08:57 • Síðdegis: 21:43 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Höfðu Skaftáreldar einhver áhrif á veðurfar?

Þorvaldur Þórðarson

Skaftáreldar höfðu víðtæk áhrif á veðurfar, og fyrirliggjandi gögn benda til þess að móðan hafi lækkað meðalárshitann á norðurhveli jarðar um eina gráðu í eitt til þrjú ár. Jafnframt sýna samtímaheimildir að áhrifin voru hvorki einsleit né jafndreifð um norðurhvelið. Sumarið 1783 einkenndist af mjög óvenjulegu veðri. Í Suðvestur-, Vestur- og Norðvestur-Evrópu voru miklir hitar og þurrkar. Í Mið-Evrópu var sumarið gott, eins og met-vínberjauppskera í Ungverjalandi gefur til kynna. En í Austur-Evrópu var veðurfar óstöðugt og kalt, snjór féll um mitt sumar í Póllandi og Rússlandi. Jafnframt gengu óvenjulega áköf þrumuveður yfir meginland Evrópu.1

Miklir þurrkar þrúguðu Norður-Afríku, þannig að sjötti hluti íbúa Egyptalands dó eða fluttist búferlum.2 Svipaðir þurrkar urðu á Indlandi, og fylgdi mikið hallæri í kjölfarið, kennt við Chalisa.3 Jafnframt var mjög þurrt á undirlendinu meðfram Yangtze-ánni í Kína, og í heild var sumarið þar kalt. Þetta þurrviðri má rekja til þeirra breytinga sem Skaftáreldamóðan olli á loftstraumum norðurhvelsins með beinum áhrifum á sumarúrkomuna.4 Hrísgrjónauppskera í Japan brást vegna óvenjulegra sumarkulda og vætu.5 Þessi uppskerubrestur leiddi til mesta hallæris í sögu landsins þegar meira en ein milljón manns svalt til bana. Ástæðan fyrir þessari ótíð var afbrigðileg hegðun loftmassa sumarið 1783, en djúp og kyrrstæð lægð sat norðaustur af Japan allt sumarið. Í Norður-Ameríku virðist sumarið hafa verið í meðallagi, nema í Vestur- og Norður-Alaska. Þar var mjög kalt og mannfall mikið.6

Skaftáreldar höfðu víðtæk áhrif á veðurfar, og fyrirliggjandi gögn benda til þess að móðan hafi lækkað meðalárshitann á norðurhveli jarðar um eina gráðu í eitt til þrjú ár.

Veturinn 1783-1784 var óvenjulega napur og langur víða á norðurhveli og einn sá harðasti í Evrópu og Norður-Ameríku.7 Lagnaðarís hindraði siglingar um sundin milli dönsku eyjanna, og á Jótlandi lá eins metra þykkur snjór um miðjan apríl. Vetrarríki stóð þar langt fram í maí. Í Hamborg voraði ekki fyrr en í lok mars. Í Hollandi ferðaðist fólk í vögnum yfir ísilagðan „Markersjóinn“, og menn fóru á skautum á ís um 25 kílómetra vegalengd milli þorpa meðfram strönd Norðursjávar. Í París var samfellt frost í janúar og febrúar og hitastigið að jafnaði um fjórar gráður undir frostmarki. Af þessum sökum var erfitt um aðföng og mikill skortur á eldiviði. Sömu sögu er að segja frá Vínarborg þar sem Dóná var ísilögð. Vorinu fylgdu mikil flóð í öllum helstu ám og ollu þau tilfinnanlegum skaða allt frá Prag til Sevilla.

Veturinn virðist ekki hafa verið óvenjulegur í Asíu og vestanverðri Norður-Ameríku. En öðru máli gegndi um austurhluta álfunnar. Þar var veturinn langur og harður, og ekki tók að vora fyrr en í apríl-maí. Til dæmis lokuðust hafnir og vatnsvegir við Chesapeake-flóann í langan tíma vegna lagnaðaríss, og krapi sást á Mississippi-fljóti við New Orleans frá 13. til 19. febrúar. Hvort tveggja telst til einstakra atburða í veðurfarssögu Norður-Ameríku.

Hitagögn frá Evrópu og Norður-Ameríku benda til þess að kólnunin í kjölfar Skaftárelda hafi varað í eitt til þrjú ár. Er það í samræmi við niðurstöður reiknilíkana sem líkja eftir áhrifum Skaftárelda á veðurfar og loftstrauma.8

Tilvísanir:

1 Thordarson, T. og S. Self, 2003. Atmospheric and environmental effects of the 1783-1784 Laki eruption: a review and reassessment. Journal of Geophysical Research, 108(D1), 4011; doi: 10.1029/2001JD002042.

2 Oman og fleiri, 2006. High-latitude eruptions cast shadow over the African monsoon and the flow of the Nile. Geophysical Research Letters, 33, L18711; doi: 10.1029/2006GL027665.

3 Orðið Chalisa táknar fertugur á hindúamáli. Samkvæmt tímatali Indverja var fjórði áratugur nítjándu aldar, það er 1840, rétt hafinn 1783.

4 Oman og fleiri, 2006. High-latitude eruptions cast shadow over the African monsoon and the flow of the Nile. Geophysical Research Letters, 33, L18711; doi: 10.1029/2006GL027665.

5 Thordarson, T. og S. Self, 2003. Atmospheric and environmental effects of the 1783-1784 Laki eruption: a review and reassessment. Journal of Geophysical Research, 108(D1), 4011; doi: 10.1029/2001JD002042.

6 Jacoby og fleiri, 1999. Laki eruption of 1783, tree rings, and disaster for northwest Alaska Inuit. Quaternary Science Reviews, 18, 1365-1371.

7 Thordarson, T. og S. Self, 2003. Atmospheric and environmental effects of the 1783-1784 Laki eruption: a review and reassessment. Journal of Geophysical Research, 108(D1), 4011; doi: 10.1029/2001JD002042.

8 Oman og fleiri, 2006. Modeling the Distribution of the Volcanic Aerosol Cloud from the 1783-1784 Laki Eruption. Journal of Geophysical Research, 111(D12), 1-15; doi: 10.1029/2005JD006899.

Mynd:


Þetta svar er hluti af lengri umfjöllun um Skaftárelda í bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi.

Höfundur

Þorvaldur Þórðarson

eldfjallafræðingur á Jarðvísindastofnun HÍ

Útgáfudagur

10.6.2013

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Þorvaldur Þórðarson. „Höfðu Skaftáreldar einhver áhrif á veðurfar?“ Vísindavefurinn, 10. júní 2013, sótt 13. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=65369.

Þorvaldur Þórðarson. (2013, 10. júní). Höfðu Skaftáreldar einhver áhrif á veðurfar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=65369

Þorvaldur Þórðarson. „Höfðu Skaftáreldar einhver áhrif á veðurfar?“ Vísindavefurinn. 10. jún. 2013. Vefsíða. 13. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=65369>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Höfðu Skaftáreldar einhver áhrif á veðurfar?
Skaftáreldar höfðu víðtæk áhrif á veðurfar, og fyrirliggjandi gögn benda til þess að móðan hafi lækkað meðalárshitann á norðurhveli jarðar um eina gráðu í eitt til þrjú ár. Jafnframt sýna samtímaheimildir að áhrifin voru hvorki einsleit né jafndreifð um norðurhvelið. Sumarið 1783 einkenndist af mjög óvenjulegu veðri. Í Suðvestur-, Vestur- og Norðvestur-Evrópu voru miklir hitar og þurrkar. Í Mið-Evrópu var sumarið gott, eins og met-vínberjauppskera í Ungverjalandi gefur til kynna. En í Austur-Evrópu var veðurfar óstöðugt og kalt, snjór féll um mitt sumar í Póllandi og Rússlandi. Jafnframt gengu óvenjulega áköf þrumuveður yfir meginland Evrópu.1

Miklir þurrkar þrúguðu Norður-Afríku, þannig að sjötti hluti íbúa Egyptalands dó eða fluttist búferlum.2 Svipaðir þurrkar urðu á Indlandi, og fylgdi mikið hallæri í kjölfarið, kennt við Chalisa.3 Jafnframt var mjög þurrt á undirlendinu meðfram Yangtze-ánni í Kína, og í heild var sumarið þar kalt. Þetta þurrviðri má rekja til þeirra breytinga sem Skaftáreldamóðan olli á loftstraumum norðurhvelsins með beinum áhrifum á sumarúrkomuna.4 Hrísgrjónauppskera í Japan brást vegna óvenjulegra sumarkulda og vætu.5 Þessi uppskerubrestur leiddi til mesta hallæris í sögu landsins þegar meira en ein milljón manns svalt til bana. Ástæðan fyrir þessari ótíð var afbrigðileg hegðun loftmassa sumarið 1783, en djúp og kyrrstæð lægð sat norðaustur af Japan allt sumarið. Í Norður-Ameríku virðist sumarið hafa verið í meðallagi, nema í Vestur- og Norður-Alaska. Þar var mjög kalt og mannfall mikið.6

Skaftáreldar höfðu víðtæk áhrif á veðurfar, og fyrirliggjandi gögn benda til þess að móðan hafi lækkað meðalárshitann á norðurhveli jarðar um eina gráðu í eitt til þrjú ár.

Veturinn 1783-1784 var óvenjulega napur og langur víða á norðurhveli og einn sá harðasti í Evrópu og Norður-Ameríku.7 Lagnaðarís hindraði siglingar um sundin milli dönsku eyjanna, og á Jótlandi lá eins metra þykkur snjór um miðjan apríl. Vetrarríki stóð þar langt fram í maí. Í Hamborg voraði ekki fyrr en í lok mars. Í Hollandi ferðaðist fólk í vögnum yfir ísilagðan „Markersjóinn“, og menn fóru á skautum á ís um 25 kílómetra vegalengd milli þorpa meðfram strönd Norðursjávar. Í París var samfellt frost í janúar og febrúar og hitastigið að jafnaði um fjórar gráður undir frostmarki. Af þessum sökum var erfitt um aðföng og mikill skortur á eldiviði. Sömu sögu er að segja frá Vínarborg þar sem Dóná var ísilögð. Vorinu fylgdu mikil flóð í öllum helstu ám og ollu þau tilfinnanlegum skaða allt frá Prag til Sevilla.

Veturinn virðist ekki hafa verið óvenjulegur í Asíu og vestanverðri Norður-Ameríku. En öðru máli gegndi um austurhluta álfunnar. Þar var veturinn langur og harður, og ekki tók að vora fyrr en í apríl-maí. Til dæmis lokuðust hafnir og vatnsvegir við Chesapeake-flóann í langan tíma vegna lagnaðaríss, og krapi sást á Mississippi-fljóti við New Orleans frá 13. til 19. febrúar. Hvort tveggja telst til einstakra atburða í veðurfarssögu Norður-Ameríku.

Hitagögn frá Evrópu og Norður-Ameríku benda til þess að kólnunin í kjölfar Skaftárelda hafi varað í eitt til þrjú ár. Er það í samræmi við niðurstöður reiknilíkana sem líkja eftir áhrifum Skaftárelda á veðurfar og loftstrauma.8

Tilvísanir:

1 Thordarson, T. og S. Self, 2003. Atmospheric and environmental effects of the 1783-1784 Laki eruption: a review and reassessment. Journal of Geophysical Research, 108(D1), 4011; doi: 10.1029/2001JD002042.

2 Oman og fleiri, 2006. High-latitude eruptions cast shadow over the African monsoon and the flow of the Nile. Geophysical Research Letters, 33, L18711; doi: 10.1029/2006GL027665.

3 Orðið Chalisa táknar fertugur á hindúamáli. Samkvæmt tímatali Indverja var fjórði áratugur nítjándu aldar, það er 1840, rétt hafinn 1783.

4 Oman og fleiri, 2006. High-latitude eruptions cast shadow over the African monsoon and the flow of the Nile. Geophysical Research Letters, 33, L18711; doi: 10.1029/2006GL027665.

5 Thordarson, T. og S. Self, 2003. Atmospheric and environmental effects of the 1783-1784 Laki eruption: a review and reassessment. Journal of Geophysical Research, 108(D1), 4011; doi: 10.1029/2001JD002042.

6 Jacoby og fleiri, 1999. Laki eruption of 1783, tree rings, and disaster for northwest Alaska Inuit. Quaternary Science Reviews, 18, 1365-1371.

7 Thordarson, T. og S. Self, 2003. Atmospheric and environmental effects of the 1783-1784 Laki eruption: a review and reassessment. Journal of Geophysical Research, 108(D1), 4011; doi: 10.1029/2001JD002042.

8 Oman og fleiri, 2006. Modeling the Distribution of the Volcanic Aerosol Cloud from the 1783-1784 Laki Eruption. Journal of Geophysical Research, 111(D12), 1-15; doi: 10.1029/2005JD006899.

Mynd:


Þetta svar er hluti af lengri umfjöllun um Skaftárelda í bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi....