Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Hvað er „enska öldin“ og hvað einkenndi hana á Íslandi?

Guðmundur J. Guðmundsson

Þegar talað er um „ensku öldina“ á Íslandi er átt við tímabilið frá því skömmu eftir 1400 til um 1500, þá var Ísland á áhrifasvæði Englendinga og stundum réðu þeir hér lögum og lofum.

Grundvöllur Íslandssiglinga Englendinga voru tækniframfarir í skipasmíðum og siglingatækni. Skip Englendinga voru tví- og jafnvel þrímöstruð með mörgum seglum og gátu siglt beitivind.

Fram til þessa höfðu Norðmenn einokað Íslandsverslunina að mestu og voru íslenskar vörur seldar gegnum verslunarmiðstöðina í Björgvin. Mikil eftirspurn var eftir skreið í Evrópu og varan dýr og því var eðlilegt að Englendingar reyndu að hasla sér völl í Íslandsversluninni.

Englendingar höfðu helst áhuga á skreið enda var skreiðin dýr í Evrópu.

Þau skip sem hingað sigldu voru annars vegar fiskiduggur en sjómennirnir á þeim komu hingað fyrst og fremst til að veiða þótt þeir hefðu gjarnan meðferðis varning sem nota mátti í vöruskiptum við landsmenn en hins vegar stór kaupskip sem komu hingað til að versla. Kaupmennirnir komu sér upp verslunaraðstöðu hér á landi og þangað fluttu Íslendingar þann fisk sem þeir höfðu veitt og seldu Englendingunum. Í staðinn keyptu landsmenn það sem þá vanhagaði um.

Ýmissa grasa kennir í farmskrám enskra skipa sem hingað sigldu. Þar er til dæmis að finna kornvöru, það er bygg og annað mjöl, skeifur og ásmundarjárn en það þótti betra en íslenska járnið, ýmiss konar málmílát, potta, katla og kirnur auk drykkjarvara svo sem bjór og vín. Einnig var flutt til landsins krydd svo sem pipar, salt og sykur, klæðisstrangar og blúndur en einnig tilbúinn fatnaður svo sem skór, yfirhafnir og hattar. Útflutningsvörurnar voru mun fábreyttari, næstum eingöngu skreið. Englendingar höfðu lítinn áhuga á vaðmáli en eitthvað var flutt út af fálkum og brennisteini.

Konungur fann nær samstundis fyrir tekjutapi vegna verslunar Englendinga og strax árið 1413 bannaði Eiríkur konungur af Pommern Íslendingum að versla við aðra en Björgvinjarkaupmenn. Englandskonungur féllst á að banna þegnum sínum Íslandssiglingar tímabundið en lítið varð úr framkvæmdinni. Íslendingar gerðu einnig kröfu um að Englendingum yrði leyft að versla áfram hér á landi því Björgvinjarkaupmenn höfðu ekki alltaf reynst færir um að halda uppi þeirri siglingu og verslun sem landsmenn töldu nauðsynlega.

Konungur fann nær samstundis fyrir tekjutapi vegna verslunar Englendinga og strax árið 1413 bannaði Eiríkur konungur af Pommern Íslendingum að versla við aðra en Björgvinjarkaupmenn.

Á ýmsu gekk í samskiptum Englendinga, Íslendinga og konungsvaldsins næstu áratugina og gekk Danakonungum erfiðlega að hamla gegn Íslandsverslun Englendinga. Svo dæmi sé tekið handtóku enskir kaupmenn í Vestmannaeyjum hirðstjórann Hannes Pálsson árið 1425 og fluttu hann nauðugan til Englands. Árið eftir sendi konungur svo hingað sérstakan erindreka sinn Jón Gerreksson sem hafði verið erkibiskup í Uppsölum og kanslari konungs og var hann skipaður Skálholtsbiskup. Ekki gekk erindrekstur Jóns betur en svo að andstæðingar hans úr hópi íslenskra höfðingja fóru að honum í Skálholti, tróðu honum í poka og drekktu í Brúará. Hvort ódæði þetta var runnið undan rifjum Englendinga er ekki vitað en lítil eftirmál urðu vegna drápsins á Jóni og sést best á því hversu veikum fótum konungsvaldið stóð á Íslandi.

Einnig kom til átaka milli Íslendinga og Englendinga. Enskir fiskimenn rændu stundum búfénaði til að verða sér úti um nýmeti og kom stundum til átaka út af því, jafnvel manndrápa. Einnig gerðu þeir strandhögg á nokkrum stöðum, svo sem á Bessastöðum, og rændu kirkjur. Bændur ömuðust einnig við því að enskir kaupmenn kæmu sér upp bækistöðvum hér á landi því að þeir óttuðust samkeppni við þá um vinnuafl ef þeir færu að veiða og verka hér fisk árið um kring.

Þótt Englendingar og íslenskir stuðningsmenn þeirra ættu alls kostar við útsendara konungs norður á Íslandi hafði konungur á heimaslóðum vopn sem dugði gegn Englendingum. Árið 1447 lét hann hertaka ensk skip sem sigldu um Eyrarsund, því Englendingar stunduðu kaupskap víða við Eystrasalt. Við þessu áttu Englendingar fá svör. Árið eftir veitti konungur þó Englendingum verslunarleyfi á Íslandi gegn greiðslu tolls sem nefndist sekkjagjald. Nokkuð var um að Englendingar brytu gegn þessu samkomulagi og fór svo árið 1466 að konungur afturkallaði öll verslunarleyfi Englendinga á Íslandi og fól hirðstjóra sínum, Birni Þorleifssyni hinum ríka á Skarði á Skarðsströnd, að framfylgja þessu banni. Björn gerði sem fyrir hann var lagt en svo fór að Englendingar drápu hann og nokkra af hans mönnum á Rifi 1467. Víg Björns varð til þess að styrjöld braust út milli Englendinga og Danakonungs sem nú hafði í fullu tré við Englendinga því hann naut atfylgis Hansakaupmanna. Lauk stríðinu þannig að Englendingar urðu að lofa að versla ekki á Íslandi án leyfis.

Upp úr 1490 kom upp samkeppni milli Englendinga og Hansakaupmanna um verslun á Íslandi. Myndin sýnir safn um Hansakaupmenn í Björgvin í Noregi. Áður en Englendingar hófu verslun á Íslandi, voru flestar vörur seldar gegnum verslunarmiðstöðina í Björgvin.

Árið 1490 komst betri skipan á samskipti Englendinga og Dana en þá samþykkti Hans I. Danakonungur að Englendingar mættu versla á Íslandi gegn gjaldi og fengju verslunarleyfi til sjö ára í senn. Þessu til staðfestingar var svonefndur Piningsdómur, kenndur við hirðstjórann Diðrik Pining. Samkvæmt honum máttu þeir kaupmenn sem höfðu gild leyfi versla á Íslandi en veturseta kaupmanna og útgerð þeirra hér á landi var bönnuð. Þeim var og bannað að hafa Íslendinga í þjónustu sinni.

En nú voru Englendingar ekki lengur einir um hituna. Hansakaupmenn voru farnir að sigla til Íslands og kom upp mikil samkeppni milli þeirra og Englendinga. Íslendingum líkaði um margt betur við Hansakaupmenn en Englendinga því að þeir keyptu ekki einungis fisk heldur einnig vaðmál.

Hvað eftir annað kom til vopnaðra átaka milli Englendinga og Þjóðverja. Má segja að þeim átökum hafi lokið með ósigri Englendinga í svokölluðu Grindavíkurstríði árið 1532.

Árið 1558 voru Englendingar síðan hraktir frá Vestmannaeyjum og þar með lauk verslun þeirra og útgerð frá Íslandi en þeir héldu áfram að sigla hingað til fiskveiða fram á 19. öld og svo aftur á þeirri 20.

Samfara stórauknum fiskveiðum og –verkun hér á landi á 14. öld urðu umtalsverðar breytingar á samfélaginu. Gömlu höfðingjaættirnar sem hér höfðu verið ráðandi hurfu úr sögunni og nýjar hösluðu sér völl. Þær höfðu aðsetur á höfðubólum sem lágu vel við sjósókn og verslun svo sem Innra-Hólmi á Akranesi, Skarði á Skarðströnd, Reykhólum á Barðaströnd og Strönd í Selvogi.

Þessar nýju höfðingjaættir voru líka mun auðugri en gömlu ættirnar og má sem dæmi nefna Guðmund ríka Arason á Reykhólum en góðar upplýsingar er að finna um auðævi hans því hann lenti í ónáð konungs og voru eigur hans gerðar upptækar.

En það voru ekki bara höfðingjarnir sem áttu samskipti við Englendinga. Talsvert var um að alþýðufólk tæki sig upp og flytti búferlum til Englands því þar í landi finnast heimildir um vel á annað hundrað Íslendinga sem flestir settust að í Hull og Bristol en þaðan var mikil Íslandssigling. Flestir voru í leit að betra lífi en einnig eru til heimildir um að fólki hafi verið rænt og það flutt nauðugt til Englands.

Heimildir:
  • Björn Þorsteinsson, Enska öldin í sögu Íslendinga, Reykjavík 1970.
  • Björn Þorsteinsson, Enskar heimildir um sögu Íslendinga á 15. og 16. öld, Reykjavík 1969.
  • Björn Þorsteinsson og Guðrún Ása Grímsdóttir með viðaukum eftir Sigurð Líndal, „Enska öldin,“ Saga Íslands V, bls. 3–216, Reykjavík 1990.
  • Guðmundur J. Guðmundsson, „Að hleypa heimdraganum. Íslenskir innflytjendur í Englandi 1440–1536,“ Saga vor 2016, bls. 103–118.
  • Helgi Þorláksson, „Fiskur og höfðingjar á Vestfjörðum fyrir 1500,“ Leiðarminni, bls. 372–387, Reykjavík 2015.
  • Helgi Þorláksson, „Útflutningur íslenskra barna til Englands á miðöldum,“ Leiðarminni bls. 405–416, Reykjavík 2015.

Myndir:

Höfundur

Útgáfudagur

16.12.2016

Spyrjandi

Brynjar Birgisson

Tilvísun

Guðmundur J. Guðmundsson. „Hvað er „enska öldin“ og hvað einkenndi hana á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 16. desember 2016. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=19107.

Guðmundur J. Guðmundsson. (2016, 16. desember). Hvað er „enska öldin“ og hvað einkenndi hana á Íslandi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=19107

Guðmundur J. Guðmundsson. „Hvað er „enska öldin“ og hvað einkenndi hana á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 16. des. 2016. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=19107>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er „enska öldin“ og hvað einkenndi hana á Íslandi?
Þegar talað er um „ensku öldina“ á Íslandi er átt við tímabilið frá því skömmu eftir 1400 til um 1500, þá var Ísland á áhrifasvæði Englendinga og stundum réðu þeir hér lögum og lofum.

Grundvöllur Íslandssiglinga Englendinga voru tækniframfarir í skipasmíðum og siglingatækni. Skip Englendinga voru tví- og jafnvel þrímöstruð með mörgum seglum og gátu siglt beitivind.

Fram til þessa höfðu Norðmenn einokað Íslandsverslunina að mestu og voru íslenskar vörur seldar gegnum verslunarmiðstöðina í Björgvin. Mikil eftirspurn var eftir skreið í Evrópu og varan dýr og því var eðlilegt að Englendingar reyndu að hasla sér völl í Íslandsversluninni.

Englendingar höfðu helst áhuga á skreið enda var skreiðin dýr í Evrópu.

Þau skip sem hingað sigldu voru annars vegar fiskiduggur en sjómennirnir á þeim komu hingað fyrst og fremst til að veiða þótt þeir hefðu gjarnan meðferðis varning sem nota mátti í vöruskiptum við landsmenn en hins vegar stór kaupskip sem komu hingað til að versla. Kaupmennirnir komu sér upp verslunaraðstöðu hér á landi og þangað fluttu Íslendingar þann fisk sem þeir höfðu veitt og seldu Englendingunum. Í staðinn keyptu landsmenn það sem þá vanhagaði um.

Ýmissa grasa kennir í farmskrám enskra skipa sem hingað sigldu. Þar er til dæmis að finna kornvöru, það er bygg og annað mjöl, skeifur og ásmundarjárn en það þótti betra en íslenska járnið, ýmiss konar málmílát, potta, katla og kirnur auk drykkjarvara svo sem bjór og vín. Einnig var flutt til landsins krydd svo sem pipar, salt og sykur, klæðisstrangar og blúndur en einnig tilbúinn fatnaður svo sem skór, yfirhafnir og hattar. Útflutningsvörurnar voru mun fábreyttari, næstum eingöngu skreið. Englendingar höfðu lítinn áhuga á vaðmáli en eitthvað var flutt út af fálkum og brennisteini.

Konungur fann nær samstundis fyrir tekjutapi vegna verslunar Englendinga og strax árið 1413 bannaði Eiríkur konungur af Pommern Íslendingum að versla við aðra en Björgvinjarkaupmenn. Englandskonungur féllst á að banna þegnum sínum Íslandssiglingar tímabundið en lítið varð úr framkvæmdinni. Íslendingar gerðu einnig kröfu um að Englendingum yrði leyft að versla áfram hér á landi því Björgvinjarkaupmenn höfðu ekki alltaf reynst færir um að halda uppi þeirri siglingu og verslun sem landsmenn töldu nauðsynlega.

Konungur fann nær samstundis fyrir tekjutapi vegna verslunar Englendinga og strax árið 1413 bannaði Eiríkur konungur af Pommern Íslendingum að versla við aðra en Björgvinjarkaupmenn.

Á ýmsu gekk í samskiptum Englendinga, Íslendinga og konungsvaldsins næstu áratugina og gekk Danakonungum erfiðlega að hamla gegn Íslandsverslun Englendinga. Svo dæmi sé tekið handtóku enskir kaupmenn í Vestmannaeyjum hirðstjórann Hannes Pálsson árið 1425 og fluttu hann nauðugan til Englands. Árið eftir sendi konungur svo hingað sérstakan erindreka sinn Jón Gerreksson sem hafði verið erkibiskup í Uppsölum og kanslari konungs og var hann skipaður Skálholtsbiskup. Ekki gekk erindrekstur Jóns betur en svo að andstæðingar hans úr hópi íslenskra höfðingja fóru að honum í Skálholti, tróðu honum í poka og drekktu í Brúará. Hvort ódæði þetta var runnið undan rifjum Englendinga er ekki vitað en lítil eftirmál urðu vegna drápsins á Jóni og sést best á því hversu veikum fótum konungsvaldið stóð á Íslandi.

Einnig kom til átaka milli Íslendinga og Englendinga. Enskir fiskimenn rændu stundum búfénaði til að verða sér úti um nýmeti og kom stundum til átaka út af því, jafnvel manndrápa. Einnig gerðu þeir strandhögg á nokkrum stöðum, svo sem á Bessastöðum, og rændu kirkjur. Bændur ömuðust einnig við því að enskir kaupmenn kæmu sér upp bækistöðvum hér á landi því að þeir óttuðust samkeppni við þá um vinnuafl ef þeir færu að veiða og verka hér fisk árið um kring.

Þótt Englendingar og íslenskir stuðningsmenn þeirra ættu alls kostar við útsendara konungs norður á Íslandi hafði konungur á heimaslóðum vopn sem dugði gegn Englendingum. Árið 1447 lét hann hertaka ensk skip sem sigldu um Eyrarsund, því Englendingar stunduðu kaupskap víða við Eystrasalt. Við þessu áttu Englendingar fá svör. Árið eftir veitti konungur þó Englendingum verslunarleyfi á Íslandi gegn greiðslu tolls sem nefndist sekkjagjald. Nokkuð var um að Englendingar brytu gegn þessu samkomulagi og fór svo árið 1466 að konungur afturkallaði öll verslunarleyfi Englendinga á Íslandi og fól hirðstjóra sínum, Birni Þorleifssyni hinum ríka á Skarði á Skarðsströnd, að framfylgja þessu banni. Björn gerði sem fyrir hann var lagt en svo fór að Englendingar drápu hann og nokkra af hans mönnum á Rifi 1467. Víg Björns varð til þess að styrjöld braust út milli Englendinga og Danakonungs sem nú hafði í fullu tré við Englendinga því hann naut atfylgis Hansakaupmanna. Lauk stríðinu þannig að Englendingar urðu að lofa að versla ekki á Íslandi án leyfis.

Upp úr 1490 kom upp samkeppni milli Englendinga og Hansakaupmanna um verslun á Íslandi. Myndin sýnir safn um Hansakaupmenn í Björgvin í Noregi. Áður en Englendingar hófu verslun á Íslandi, voru flestar vörur seldar gegnum verslunarmiðstöðina í Björgvin.

Árið 1490 komst betri skipan á samskipti Englendinga og Dana en þá samþykkti Hans I. Danakonungur að Englendingar mættu versla á Íslandi gegn gjaldi og fengju verslunarleyfi til sjö ára í senn. Þessu til staðfestingar var svonefndur Piningsdómur, kenndur við hirðstjórann Diðrik Pining. Samkvæmt honum máttu þeir kaupmenn sem höfðu gild leyfi versla á Íslandi en veturseta kaupmanna og útgerð þeirra hér á landi var bönnuð. Þeim var og bannað að hafa Íslendinga í þjónustu sinni.

En nú voru Englendingar ekki lengur einir um hituna. Hansakaupmenn voru farnir að sigla til Íslands og kom upp mikil samkeppni milli þeirra og Englendinga. Íslendingum líkaði um margt betur við Hansakaupmenn en Englendinga því að þeir keyptu ekki einungis fisk heldur einnig vaðmál.

Hvað eftir annað kom til vopnaðra átaka milli Englendinga og Þjóðverja. Má segja að þeim átökum hafi lokið með ósigri Englendinga í svokölluðu Grindavíkurstríði árið 1532.

Árið 1558 voru Englendingar síðan hraktir frá Vestmannaeyjum og þar með lauk verslun þeirra og útgerð frá Íslandi en þeir héldu áfram að sigla hingað til fiskveiða fram á 19. öld og svo aftur á þeirri 20.

Samfara stórauknum fiskveiðum og –verkun hér á landi á 14. öld urðu umtalsverðar breytingar á samfélaginu. Gömlu höfðingjaættirnar sem hér höfðu verið ráðandi hurfu úr sögunni og nýjar hösluðu sér völl. Þær höfðu aðsetur á höfðubólum sem lágu vel við sjósókn og verslun svo sem Innra-Hólmi á Akranesi, Skarði á Skarðströnd, Reykhólum á Barðaströnd og Strönd í Selvogi.

Þessar nýju höfðingjaættir voru líka mun auðugri en gömlu ættirnar og má sem dæmi nefna Guðmund ríka Arason á Reykhólum en góðar upplýsingar er að finna um auðævi hans því hann lenti í ónáð konungs og voru eigur hans gerðar upptækar.

En það voru ekki bara höfðingjarnir sem áttu samskipti við Englendinga. Talsvert var um að alþýðufólk tæki sig upp og flytti búferlum til Englands því þar í landi finnast heimildir um vel á annað hundrað Íslendinga sem flestir settust að í Hull og Bristol en þaðan var mikil Íslandssigling. Flestir voru í leit að betra lífi en einnig eru til heimildir um að fólki hafi verið rænt og það flutt nauðugt til Englands.

Heimildir:
  • Björn Þorsteinsson, Enska öldin í sögu Íslendinga, Reykjavík 1970.
  • Björn Þorsteinsson, Enskar heimildir um sögu Íslendinga á 15. og 16. öld, Reykjavík 1969.
  • Björn Þorsteinsson og Guðrún Ása Grímsdóttir með viðaukum eftir Sigurð Líndal, „Enska öldin,“ Saga Íslands V, bls. 3–216, Reykjavík 1990.
  • Guðmundur J. Guðmundsson, „Að hleypa heimdraganum. Íslenskir innflytjendur í Englandi 1440–1536,“ Saga vor 2016, bls. 103–118.
  • Helgi Þorláksson, „Fiskur og höfðingjar á Vestfjörðum fyrir 1500,“ Leiðarminni, bls. 372–387, Reykjavík 2015.
  • Helgi Þorláksson, „Útflutningur íslenskra barna til Englands á miðöldum,“ Leiðarminni bls. 405–416, Reykjavík 2015.

Myndir:

...