Sólin Sólin Rís 05:15 • sest 21:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:18 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 13:42 í Reykjavík

Hvað voru Púnverjastríðin?

G. Jökull Gíslason

Púnverjastríðin er samheiti yfir þrjú stríð á milli Rómverja og Karþagómanna sem áttu sér stað á tímabilinu 264 til 146 f.Kr. Þegar ófriðurinn hófst voru Karþagó og Róm voldugustu borgríkin við Vestur-Miðjarðarhaf en að síðasta stríðinu loknu, rúmri öld seinna, hafði Róm yfirburðastöðu og traustur grunnur var lagður að hinu mikla veldi þeirra sem stóð fram á fimmtu öld e.Kr. Púnverjastríðanna er þó ekki síður minnst fyrir Hannibal og fílanna en Hannibal Barca var mikill hershöfðingi frá Karþagó sem réðist inn á Ítalíuskagann með her sinn og stríðsfíla í öðru púnverska stríðinu.

Áhrifasvæði Karþagó og Rómar við upphaf Púnverjastríðanna 264 f.Kr.

Nafn stríðanna er dregið af latneska orðinu Punici sem var afbökun af Poenici sem þýddi Fönikíumenn. Fönikíumenn höfðu komið á miklu sjó- og verslunarveldi á fyrsta árþúsundi f.Kr. Sjálfir kölluðu þeir sig Kananíta og stofnuðu borgina Karþagó á níundu öld f.Kr. Púnverji er íslenska orðið fyrir Punici og stríðin eru kölluð púnverjastríð þótt algengara sé að nota orðið Karþagómenn um þá sem áttu hlut að máli.

Fyrsta púnverska stríðið 264 f.Kr. – 241 f.Kr.

Þegar fyrsta púnverska stríðið braust út höfðu Rómverjar náð yfirráðum yfir Ítalíuskaganum og höfðu á að skipa mjög öflugum landher. Karþagómenn voru hins vegar með mun sterkari flota sem þeir notuðu til að verja verslunarumsvif sín á Miðjarðarhafi. Stríðið hófst á Sikiley sem átök á milli Messínumanna og Sýrakúsverja. Inn í þessi átök blönduðust svo Rómverjar og Karþagóar en þeir síðarnefndu réðu yfir stóru svæði á Sikiley á þessum tíma.

Hersveitir Rómverja höfðu mikla yfirburði á landi og eftir að Karþagómenn biðu mikinn ósigur við borgina Agrígentum ákváðu leiðtogar þeirra að forðast orrustur á landi og einbeita sér að sjóhernaði þar sem þeir höfðu yfirburði. Rómverjar brugðust hratt við og byggðu upp sterkan flota. Þá innleiddu Rómverjar nýjung sem kallaðist corvus og var brú á skipum þeirra sem hægt var að fella niður og festa við óvinaskip. Þannig gátu rómverskir hermenn komist á milli skipa og nýtt sér yfirburði sína úr landhernaði og bardögum í návígi.

Corvus-brúin sem Rómverjar settu á skip sín. Hún styrkti mjög stöðu þeirra í sjóorrustum.

Fyrir utan misheppnaða árás í Norður-Afríku og nokkra bardaga þá unnu Rómverjar hvern sigurinn á fætur öðrum og náðu algjörum yfirráðum yfir Sikiley sem varð skattland þeirra. Á endanum stóðu Rómverjar uppi sem sigurvegarar fyrsta púnverska stríðsins. Karþagómenn komu illa út úr þessu stríði, misstu yfirráðasvæði og þurftu að greiða háar skaðabætur. Þeir lentu í miklum fjárhagsörðugleikum sem varð til þess að ekki var hægt að borga málaliðum, sem voru stór hluti af her þeirra. Það hafði þær afleiðingar að málaliðarnir gerðu uppreisn. Á meðan Karþagómenn voru uppteknir við að kveða niður uppreisnina söxuðu Rómverjar enn frekar á yfirráðasvæði þeirra með því að sölsa undir sig eyjarnar Sardiníu og Korsíku.

Eftir stríðið við Rómverja og síðan uppreisn málaliðanna beindu Karþagómenn sjónum sínum að Íberíuskaganum. Þar gátu þeir fengið mannafla og verðmæti til að styrkja stöðu sína á ný. Fremstir í flokki voru tveir af foringjum Karþagómanna, Hamilcar Barca og Hasdrúbal hinn fagri. Þeir stofnuðu borgina Qart Hadasht sem Rómverjar kölluðu Carthago Nova en í dag stendur þar spænska borgin Cartagena. Báðir voru þeir drepnir við það að tryggja yfirráð Karþagó á Spáni og við tók sonur Hamilcar , Hannibal Barca. Sagan segir að Hamilcar hafi látið son sinn Hannibal sverja að hann yrði aldrei „vinur Rómar“.

Annað púnverska stríðið 218 f.Kr. – 201 f.Kr.

Í aðdraganda annars púnverska stríðsins var deilt um borgina Saguntum á Íberíuskaganum sem Hannibal hertók árið 218 f.Kr. án þess að Rómverjar kæmu borginni til hjálpar. Að því loknu hóf Hannibal herleiðangur sinn frá Spáni til Ítalíu yfir Alpana og er annað púnverjastríðið án efa þekktast fyrir þessa ferð þar sem í för voru stríðsfílar. Um þá ferð má lesa í svari Geirs Þórarinssonar við spurningunni Hvernig í ósköpunum kom Hannibal fílum yfir ískalda Alpana?

Hannibal Barca (247 - um 183 f.Kr.).

Hannibal var sigursæll í orrustum gegn Rómverjum og hafði sigur í nokkrum stórum bardögum. Sérstaklega er hann frægur fyrir sigurinn í orrustunni um Cannae 216 f.Kr. en hún er skólabókardæmi um vel heppnaða tangarsókn. Rómverjar misstu tímabundið völd sín yfir Ítalíuskaganum en Hannibal taldi sig ekki hafa nægan styrk til að ráðast beint gegn Róm. Hershöfðinginn Maharbal sem barðist við hlið Hannibal á að hafa sagt við hann: „Þú, Hannibal, veist hvernig á að sigra í orrustu, en ekki hvernig nota á sigurinn.“

Það var síðan rómverski hershöfðinginn Fabius Maximus Verrucosus „Cunctator“ sem sneri gæfunni Róm í vil. Fabius vissi að Hannibal var mjög fær hershöfðingi en að Róm myndi vinna þreytistríð. Hann forðaðist því stórar orrustur og kom þar með í veg fyrir að Hannibal gæti beitt sér á vígvellinum en réðst frekar gegn birgðalínum Karþagómanna og gerði her þeirra stöðugt erfiðara um vik að nálgast aðföng. Viðurnefnið Cunctator þýðir 'sá sem tefur' eða 'drollar' og var fyrst notað sem níð en með tímanum sáu Rómverjar að þetta var snjallræði og þá varð viðurnefnið heiðursnafnbót.

Það féll þó ekki í hlut Fabiusar að sigra Hannibal heldur eins af merkustu herforingjum í sögu Rómarveldis, Publius Cornelius Scipio Africanus. Hann leiddi her gegn veldi Karþagómanna á Spáni og sigraði þá þar. Þar misstu Karþagómenn mikilvægt áhrifasvæði þaðan sem þeir höfðu getað dregið fé og mannskap. Síðar stýrði Scipio her Rómverja gegn Karþagómönnum í Norður-Afríku. Sú innrás neyddi Hannibal til að fara með her sinn frá Ítalíu aftur til Karþagó til varnar en hann var sigraður í orrustunni við Zama.

Leið Hannibals frá Íberíuskaganum, yfir Alpana og niður Ítalíuskagann. Að lokum fór hann með her sinn yfir til Norður-Afríku til þess að verja Karþagó en beið ósigur við Zama.

Scipio sýndi síðan að hann var góður stjórnmálamaður. Hann brenndi ekki Karþagó heldur gerði þeim að greiða miklar stríðsskaðabætur. Það vakti reiði sumra að hann lagði borgina ekki í rúst og frægt er að Kató eldri endaði allar ræður sínar í öldungaráði Rómar með orðunum: „Auk þess legg ég til að Karþagó verði lögð í eyði.“

Í lok annars púnverska stríðsins höfðu umsvif Rómar aukist stórlega og sigrar Scipio höfðu lagt grunninn af því stórveldi sem það varð. Þegar hann tók við stríðinu þá var Róm í nauðvörn á Ítalíuskaga. Þegar hann var búinn að sigra Karþagó þá átti Róm skattlendur á Spáni, Ítalíuskaginn var öruggur og Karþagó þurfti að borga háar stríðsskaðabætur og voru eftir orðanna hljóðan „vinir Rómar“.

Þriðja púnverska stríðið 149 f.Kr. – 146 f.Kr.

Eftir annað púnverska stríðið jukust völd Rómverja enn frekar. Grikkland varð áhrifasvæði þeirra og þeir voru stærsta veldi fyrir Miðjarðarhafi. Árið 151 f.Kr. hafði Karþagó tekist að greiða allar stríðsskaðabæturnar og tók veldi þeirra að rísa á ný. Þeir töldu sig ekki lengur bundna af samningum við Róm. Ófriður braust út milli Karþagó og nágranna þeirra í Númidíu sem lauk þannig að Karþagó tapaði. Þrátt fyrir ósigurinn voru leiðtogar Rómar ósáttir við þessa sjálfstæðistilburði Karþagó og að lokum fékk Kató því ósk sína uppfyllta, reyndar eftir dauða sinn.

Rústir Karþagó.

Það féll í hlut fóstursonar Scipio Africanus, Scipio Aemilianus eða Scipio Africanus Minor að leiða heri Rómar gegn Karþagó sem hann sigraði og lagði í rúst. Seinni tíma saga segir að rómverskir hermenn hafi stráð salti yfir jörðina í Karþagó til að þar yxi ekkert framar en hún á ekki stoð í samtímaheimildum. Með þessu lauk sögu Karþagó sem sjálfstæðs ríkis. Róm, hins vegar, yfirtók öll lönd sem höfðu áður heyrt undir Karþagó og átti veldi þeirra enn eftir að aukast næstu árhundruðin.

Heimildir og myndir:

Höfundur

G. Jökull Gíslason

rithöfundur og stundakennari hjá Endurmenntun HÍ

Útgáfudagur

6.6.2017

Spyrjandi

Jóhann Friðgeirsson

Tilvísun

G. Jökull Gíslason. „Hvað voru Púnverjastríðin?“ Vísindavefurinn, 6. júní 2017. Sótt 26. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=19371.

G. Jökull Gíslason. (2017, 6. júní). Hvað voru Púnverjastríðin? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=19371

G. Jökull Gíslason. „Hvað voru Púnverjastríðin?“ Vísindavefurinn. 6. jún. 2017. Vefsíða. 26. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=19371>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað voru Púnverjastríðin?
Púnverjastríðin er samheiti yfir þrjú stríð á milli Rómverja og Karþagómanna sem áttu sér stað á tímabilinu 264 til 146 f.Kr. Þegar ófriðurinn hófst voru Karþagó og Róm voldugustu borgríkin við Vestur-Miðjarðarhaf en að síðasta stríðinu loknu, rúmri öld seinna, hafði Róm yfirburðastöðu og traustur grunnur var lagður að hinu mikla veldi þeirra sem stóð fram á fimmtu öld e.Kr. Púnverjastríðanna er þó ekki síður minnst fyrir Hannibal og fílanna en Hannibal Barca var mikill hershöfðingi frá Karþagó sem réðist inn á Ítalíuskagann með her sinn og stríðsfíla í öðru púnverska stríðinu.

Áhrifasvæði Karþagó og Rómar við upphaf Púnverjastríðanna 264 f.Kr.

Nafn stríðanna er dregið af latneska orðinu Punici sem var afbökun af Poenici sem þýddi Fönikíumenn. Fönikíumenn höfðu komið á miklu sjó- og verslunarveldi á fyrsta árþúsundi f.Kr. Sjálfir kölluðu þeir sig Kananíta og stofnuðu borgina Karþagó á níundu öld f.Kr. Púnverji er íslenska orðið fyrir Punici og stríðin eru kölluð púnverjastríð þótt algengara sé að nota orðið Karþagómenn um þá sem áttu hlut að máli.

Fyrsta púnverska stríðið 264 f.Kr. – 241 f.Kr.

Þegar fyrsta púnverska stríðið braust út höfðu Rómverjar náð yfirráðum yfir Ítalíuskaganum og höfðu á að skipa mjög öflugum landher. Karþagómenn voru hins vegar með mun sterkari flota sem þeir notuðu til að verja verslunarumsvif sín á Miðjarðarhafi. Stríðið hófst á Sikiley sem átök á milli Messínumanna og Sýrakúsverja. Inn í þessi átök blönduðust svo Rómverjar og Karþagóar en þeir síðarnefndu réðu yfir stóru svæði á Sikiley á þessum tíma.

Hersveitir Rómverja höfðu mikla yfirburði á landi og eftir að Karþagómenn biðu mikinn ósigur við borgina Agrígentum ákváðu leiðtogar þeirra að forðast orrustur á landi og einbeita sér að sjóhernaði þar sem þeir höfðu yfirburði. Rómverjar brugðust hratt við og byggðu upp sterkan flota. Þá innleiddu Rómverjar nýjung sem kallaðist corvus og var brú á skipum þeirra sem hægt var að fella niður og festa við óvinaskip. Þannig gátu rómverskir hermenn komist á milli skipa og nýtt sér yfirburði sína úr landhernaði og bardögum í návígi.

Corvus-brúin sem Rómverjar settu á skip sín. Hún styrkti mjög stöðu þeirra í sjóorrustum.

Fyrir utan misheppnaða árás í Norður-Afríku og nokkra bardaga þá unnu Rómverjar hvern sigurinn á fætur öðrum og náðu algjörum yfirráðum yfir Sikiley sem varð skattland þeirra. Á endanum stóðu Rómverjar uppi sem sigurvegarar fyrsta púnverska stríðsins. Karþagómenn komu illa út úr þessu stríði, misstu yfirráðasvæði og þurftu að greiða háar skaðabætur. Þeir lentu í miklum fjárhagsörðugleikum sem varð til þess að ekki var hægt að borga málaliðum, sem voru stór hluti af her þeirra. Það hafði þær afleiðingar að málaliðarnir gerðu uppreisn. Á meðan Karþagómenn voru uppteknir við að kveða niður uppreisnina söxuðu Rómverjar enn frekar á yfirráðasvæði þeirra með því að sölsa undir sig eyjarnar Sardiníu og Korsíku.

Eftir stríðið við Rómverja og síðan uppreisn málaliðanna beindu Karþagómenn sjónum sínum að Íberíuskaganum. Þar gátu þeir fengið mannafla og verðmæti til að styrkja stöðu sína á ný. Fremstir í flokki voru tveir af foringjum Karþagómanna, Hamilcar Barca og Hasdrúbal hinn fagri. Þeir stofnuðu borgina Qart Hadasht sem Rómverjar kölluðu Carthago Nova en í dag stendur þar spænska borgin Cartagena. Báðir voru þeir drepnir við það að tryggja yfirráð Karþagó á Spáni og við tók sonur Hamilcar , Hannibal Barca. Sagan segir að Hamilcar hafi látið son sinn Hannibal sverja að hann yrði aldrei „vinur Rómar“.

Annað púnverska stríðið 218 f.Kr. – 201 f.Kr.

Í aðdraganda annars púnverska stríðsins var deilt um borgina Saguntum á Íberíuskaganum sem Hannibal hertók árið 218 f.Kr. án þess að Rómverjar kæmu borginni til hjálpar. Að því loknu hóf Hannibal herleiðangur sinn frá Spáni til Ítalíu yfir Alpana og er annað púnverjastríðið án efa þekktast fyrir þessa ferð þar sem í för voru stríðsfílar. Um þá ferð má lesa í svari Geirs Þórarinssonar við spurningunni Hvernig í ósköpunum kom Hannibal fílum yfir ískalda Alpana?

Hannibal Barca (247 - um 183 f.Kr.).

Hannibal var sigursæll í orrustum gegn Rómverjum og hafði sigur í nokkrum stórum bardögum. Sérstaklega er hann frægur fyrir sigurinn í orrustunni um Cannae 216 f.Kr. en hún er skólabókardæmi um vel heppnaða tangarsókn. Rómverjar misstu tímabundið völd sín yfir Ítalíuskaganum en Hannibal taldi sig ekki hafa nægan styrk til að ráðast beint gegn Róm. Hershöfðinginn Maharbal sem barðist við hlið Hannibal á að hafa sagt við hann: „Þú, Hannibal, veist hvernig á að sigra í orrustu, en ekki hvernig nota á sigurinn.“

Það var síðan rómverski hershöfðinginn Fabius Maximus Verrucosus „Cunctator“ sem sneri gæfunni Róm í vil. Fabius vissi að Hannibal var mjög fær hershöfðingi en að Róm myndi vinna þreytistríð. Hann forðaðist því stórar orrustur og kom þar með í veg fyrir að Hannibal gæti beitt sér á vígvellinum en réðst frekar gegn birgðalínum Karþagómanna og gerði her þeirra stöðugt erfiðara um vik að nálgast aðföng. Viðurnefnið Cunctator þýðir 'sá sem tefur' eða 'drollar' og var fyrst notað sem níð en með tímanum sáu Rómverjar að þetta var snjallræði og þá varð viðurnefnið heiðursnafnbót.

Það féll þó ekki í hlut Fabiusar að sigra Hannibal heldur eins af merkustu herforingjum í sögu Rómarveldis, Publius Cornelius Scipio Africanus. Hann leiddi her gegn veldi Karþagómanna á Spáni og sigraði þá þar. Þar misstu Karþagómenn mikilvægt áhrifasvæði þaðan sem þeir höfðu getað dregið fé og mannskap. Síðar stýrði Scipio her Rómverja gegn Karþagómönnum í Norður-Afríku. Sú innrás neyddi Hannibal til að fara með her sinn frá Ítalíu aftur til Karþagó til varnar en hann var sigraður í orrustunni við Zama.

Leið Hannibals frá Íberíuskaganum, yfir Alpana og niður Ítalíuskagann. Að lokum fór hann með her sinn yfir til Norður-Afríku til þess að verja Karþagó en beið ósigur við Zama.

Scipio sýndi síðan að hann var góður stjórnmálamaður. Hann brenndi ekki Karþagó heldur gerði þeim að greiða miklar stríðsskaðabætur. Það vakti reiði sumra að hann lagði borgina ekki í rúst og frægt er að Kató eldri endaði allar ræður sínar í öldungaráði Rómar með orðunum: „Auk þess legg ég til að Karþagó verði lögð í eyði.“

Í lok annars púnverska stríðsins höfðu umsvif Rómar aukist stórlega og sigrar Scipio höfðu lagt grunninn af því stórveldi sem það varð. Þegar hann tók við stríðinu þá var Róm í nauðvörn á Ítalíuskaga. Þegar hann var búinn að sigra Karþagó þá átti Róm skattlendur á Spáni, Ítalíuskaginn var öruggur og Karþagó þurfti að borga háar stríðsskaðabætur og voru eftir orðanna hljóðan „vinir Rómar“.

Þriðja púnverska stríðið 149 f.Kr. – 146 f.Kr.

Eftir annað púnverska stríðið jukust völd Rómverja enn frekar. Grikkland varð áhrifasvæði þeirra og þeir voru stærsta veldi fyrir Miðjarðarhafi. Árið 151 f.Kr. hafði Karþagó tekist að greiða allar stríðsskaðabæturnar og tók veldi þeirra að rísa á ný. Þeir töldu sig ekki lengur bundna af samningum við Róm. Ófriður braust út milli Karþagó og nágranna þeirra í Númidíu sem lauk þannig að Karþagó tapaði. Þrátt fyrir ósigurinn voru leiðtogar Rómar ósáttir við þessa sjálfstæðistilburði Karþagó og að lokum fékk Kató því ósk sína uppfyllta, reyndar eftir dauða sinn.

Rústir Karþagó.

Það féll í hlut fóstursonar Scipio Africanus, Scipio Aemilianus eða Scipio Africanus Minor að leiða heri Rómar gegn Karþagó sem hann sigraði og lagði í rúst. Seinni tíma saga segir að rómverskir hermenn hafi stráð salti yfir jörðina í Karþagó til að þar yxi ekkert framar en hún á ekki stoð í samtímaheimildum. Með þessu lauk sögu Karþagó sem sjálfstæðs ríkis. Róm, hins vegar, yfirtók öll lönd sem höfðu áður heyrt undir Karþagó og átti veldi þeirra enn eftir að aukast næstu árhundruðin.

Heimildir og myndir:

...